Andsamfélagslegur áróður VG

Enn á ný sýna þingmenn VG að þeir hafa fullan hug á að grafa undan þeirri samfélagsgerð sem íslenska samfélagið byggist á. Nýjasti vitnisburðurinn er fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur um kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla.

Spyr hún um hvað átt sé við með því þegar starfshættir grunnskólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi og hvort ráðherra telji kristið siðgæði að  eitthvað frábrugðið almennu siðgæði, eins og því sem trúlausir, hindúar, múslimar, ásatrúarmenn og fólk annarra trúarbragða aðhyllist og spyr í framhaldinu hver sé ástæða þess að ein trúarbrögð skuli tiltekin og einn siður.

Í spurningunni felst það viðhorf þingmannsins að kristin trú eigi ekki að vera ríkistrú Íslendinga og siður Íslendinga eigi ekki að byggjast á kristnum gildum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því sem kristinn einstaklingur að ég er vanhæfur til að taka hlutlausa afstöðu, en það eru í rauninni allir þannig séð. En meðan 90-95% þjóðarinnar aðhyllist kristna trú, þarf að hafa afar skrýtna sýn á lýðræðið til að geta séð út úr því að sá yfirgnæfandi meirihluti eigi engu að fá ráðið um siðinn í landinu, heldur eigi kallandinn í eyðimörkinni að fá að stjórna. Kristin trú boðar umburðarlyndi, þám gagnvart hinum "vantrúuðu", en það felur ekki þar með í sér að gefa eigi allt eftir gagnvart öðrum trúarbrögðum og siði.

Þetta er sama viðhorf og kommúnistar Sovétríkjanna höfðu og virðist enn lifa góðu lífi hjá VG. Hvernig gekk með siðinn þar, manngæskuna, umburðarlyndið og virðinguna fyrir mannslífum, þar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ef 90-95% Íslendinga aðhyllast kristna trú, hvarsu mikill munur er þá á kristnu siðgæði og almennu siðgæði í landinu?

Ef svo er í einhverjum tilfellum að kristið siðgæði og almenn siðgæði fer ekki saman, hvort telur þú þá eðlilegt að hafi forgang?

Sigurður M Grétarsson, 28.11.2007 kl. 13:33

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ragnar Örn gróflega góður!

En ég vil sérstaklega taka undir með þessum vel hugsaða pistli þínum, Gestur. Menn staldra kannski við orðið "ríkistrú", en það er augljóst frá 1874 og enn í stjórnarskránni, eins og hún var síðast efnislega endurskoðuð um 1995, að það er samfelldur vilji löggjafarþings og þjóðar í ekki minna en 133 ár, að hér skuli kristið siðgæði njóta forgangs og hylli umfram annars konar siðgæði (dæmi um slíkt siðferði sem okkur er annarlegt: fjölkvæni, fjölveri, útburður barna, einvígi = hólmgöngur og 'heiðursmorð'). Þetta er raunar sama stefnan og tekin var árið 1000 og enn árið 1253 (minnir mig, þegar ákveðið var á þingi, að þar sem Guðs lög og manna fari ekki saman, skuli Guðs lög ráða). Ekkert minna en þetta getur verið fólgið í því, að Alþingi og þjóðin (sem staðfesti stjórnarskrána 1944) hefur enn hina evangelísk-lúthersku kirkju sem sína Þjóðkirkju. Alþingi og ríkið eru því ekki hugmyndalega hlutlaus -- eins og vitaskuld kemur líka fram í alls kyns löggjöf okkar í mannréttindamálum, um félagsleg réttindi, sjúkratryggingar o.s.frv. -- og aðhyllast ekki afstæðishyggju í siðferðismálum. Það er nauðsynlegt og tímabært, að menn geri sér grein fyrir þessu.

Ég tek ofan fyrir þér, Gestur.

Jón Valur Jensson, 28.11.2007 kl. 16:01

3 identicon

Ansi skýrt hjá JVJ. Það stendur líka að...    Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun... það mætti skrifa langan pistil um hvað sé átt við með orðinu -lýðræðisþjóðfélag- . Hér á landi er framkvæmdavaldið orðið sterkara en löggjafarvaldið....að mín mati.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 16:48

4 Smámynd: Ísleifur Egill Hjaltason

Þú segir að kristin trú boði umburðarlyndi jamm. Ég ætla nú ekki að fara að vitna í elstu fjöldamorð allra tíma sem að finnast í biblíunni (

„Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna. Sál bauð þá út liði og kannaði það í Telam: tvö hundruð þúsundir fótgönguliðs og tíu þúsundir Júdamanna. (…) Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum.” (Fyrri Samúelsbók, 15: 3-8))

 Vúps það gerðist samt!

 Og ég ætla auðvitað ekki að tala um sadískar og fáránlegar skoðanir "guðs" í Biblíunni.

http://www.vantru.is/2007/11/27/08.00/

Æææ, þetta var nú klaufalegt af mér.

Kristilegt siðgæði byggist oftar en ekki uppá almennri skynsemi og einstaka öfgatrú sem þar læðist inn. Hvað með að taka bara öfgatrúna út og treysta á okkur sjálf? Þurfum við virkilega einhvern skeggjaðan kall uppí skýjunum til að við hegðum okkur vel? Eða erum við bara svona hrædd við að deyja? 

 Við búum í fjölmenningarlegu samfélagi, trú mótar líf okkar álíka og gargið í mávunum í sundahöfninni. Það að upphefja eina trú er ekki hlutverk ríkisins. Kristilegt siðgæði er ekkert annað en tálsýn.

Ísleifur Egill Hjaltason, 28.11.2007 kl. 18:36

5 Smámynd: Egill Óskarsson

Nenniði að útskýra fyrir mér hvaða gríðarlegu andsamfélagslegu viðhorf felast í því að vilja kenna almennt siðferði frekar en kristilegt siðferði. Og í leiðinni segja mér af hverju mitt siðferði er andsamfélagslegt?

Egill Óskarsson, 28.11.2007 kl. 20:57

6 Smámynd: Ásgeir R. Birgisson

Hjartanlega sammála ÍEH. Kristinfræði/kistin siðgæði eiga ekki heima í grunnskólum. Ef fólk vill kenna börnum sín kristnu siðgæði gera þau það heima hjá sér. Það er nóg að lesa yfir blogg hérna hjá blog.is til að sjá kristinn maður og kristinn maður eru ekki með sömu siðgæði þó svo þeir segjast lesa sömu bókina. Samfélagsgerð Íslendinga er ekki sniðin úr biblíunni heldur frekar samansafn úr því besta sem heimurinn hefur að búa yfir. Umburðarlyndi, vitneskja, kunnátta og það að sjá lengra, mun lengra en hið ritaða orð segir.

Ásgeir R. Birgisson, 28.11.2007 kl. 21:05

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sæl. Þar sem lang stærsti hluti þjóðarinnar aðhyllist kristna siðfræði er hún og hin "almenna" siðfræði að lang mestu leyti hin sama. Með því að halda kristinni siðfræði sérstaklega fram er ekki þar með verið að leggja fæð á allt sem önnur siðfræði segir, enda oftast að stofni til samhljóma, en þar sem munur er þarf að velja og árið 1000 var valinn kristinn siður á Íslandi. Mér vitanlega hefur það val ekki breyst og sá litli minnihluti þjóðarinnar sem ekki aðhyllist kristna siðfræði verður að sætta sig við að við búum í lýðræðisþjóðfélagi og þar ræður meirihlutinn, um leið og rík krafa er til þess að sýna minnihlutanum umburðarlyndi.

Það að sætta sig ekki við þetta er andsamfélagslegt og ólýðræðislegt og það viðhorf sem felst í þessum málflutningi VG þingmannsins þar með einnig. Það að aðhyllast ekki kristinn sið, heldur einhvern annan eða engan (sem er siður í sjálfu sér) má hver eiga við sig, en viðkomandi verður að sætta sig við að hinn almenni siður er annar og að samfélagið grundvallast á honum en ekki þeirra eigin, alveg eins og að kristnir menn verða að sætta sig við slíkt hið sama í þeim samfélögum sem hafa tekið aðrar ákvarðanir.

Gestur Guðjónsson, 29.11.2007 kl. 00:07

8 Smámynd: Kjartan Jónsson

Fyrir allmörgum árum síðan var gerð könnun á trúarviðhorfum Íslendinga þar sem kom í ljós að samkvæmt nokkrum meginforsendum þess sem menn þurfa að uppfylla til þess að geta talist kristnir var um 5% þjóðarinnar kristinn og fæstir þeirra innan þjóðkirkjunnar, flestir í minni trúarflokkum þar sem menn stúdera kristni í einhverri alvöru. Trú langflestra var trú á einhvers konar óskilgreindan anda þar sem Jesú Kristur spilaði lítið hlutverk. Þar að auki blandaðist inn í trú fólks alls konar heiðni, endurholdgunarkenningar og álfatrú.

Hvað varðar kristna siðfræði, þá hefur mér ekki sýnst hún vera eitthvað fyrirbæri sem er óbreytanlegt og sama á öllum stöðum. Víðast hvar í heiminum er t.d. samkynhneigð ekki siðferðilega ásættanleg hjá kristilegum stofnunum og tiltölulega stutt síðan hún fékk það samþykki sem hún hefur nú hjá mörgum innan þjóðkirkjunnar.

Margir telja gullnu regluna einn helsta hornstein kristilegs siðferðis. Hana má finna í ritum hindúa frá því fyrir krist og Konfúsíus setti fram svipaða reglu á sínum tíma. Það er því ákveðinn sértrúarblær á þeirri kröfu kristinna manna sem telja kristilegt siðferði eitthvað einstakt og sérstakt. Ekki að það sé ekki margt mjög gott þar - kristnir menn eiga bara ekki einkarétt á þeim. 

Kjartan Jónsson, 29.11.2007 kl. 09:15

9 identicon

Hvernig er það eiginlega, kunna kristnir ekki reikning.. allaf koma þeir með 90-95% tölur sem er alger fjarstæða
Enda skiptir þetta ekki máli, trúarbrögð eiga ekki heima í skólum, ef kristið siðferði kemur ekki auga á þessa staðreynd þá er eins gott að henda kristni á sorphauga biskups

DoctorE (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 10:13

10 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gestur, þú talar mikið um lýðræði. Hvort ætli sé lýðræðislegra að notast við almennt siðgæði, sem er myndað af siðgæðisvitund allra landsmanna, sem eru komnir til vits og ára í dag, eða siðgæði, sem tekið er upp úr tvö til þrjú þúsund ára gamalli bók, sem var þar að auki skrifuð í annarri heimsálfu?

Einnig má velta fyrir sér réttlætið í því að taka fram yfir almenn siðgæði í landinu einhvern trúartexta úr trúarbrjögðum, sem hluti þjóðarinnar aðhyllist ekki, í skólum, sam öll börn eru þvinguð til að vera í með lagaboði?

Ég tek undir orð Ásgeirs að þeri foreldrar, sem vilja að börnum þeirra sé kennt kristið siðgæði þurfi einfaldlega að kenna þeim það sjálfir en eigi enga heimtingu á að ríkisreknir grunnskólar geri það. Einnig eiga foreldrar, sem ekki vilja að börnum þeirra sé kennt kristið siðgæði kröfu á því að ekki sé verið að troða því upp á börn þeirr í ríkisreknum skólum.

Sigurður M Grétarsson, 29.11.2007 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband