Mörg skattþrep
30.11.2007 | 10:26
Starfsgreinasambandið hefur kynnt kröfugerð sína fyrir kjarasamninga. Ein þeirra er krafa til Alþingis um að taka upp sérstakt 18% skattþrep til þeirra sem hafa undir 200 þúsund á mánuði. Ég hélt reyndar að verkalýðsfélög semdu við vinnuveitendur, en Alþingi væri kjörið af þjóðinni til að setja lög, þám um skattheimtu og væri ekki aðili þessa máls.
Þessar tillögur kunna að hljóma vel, en ég vill gjalda verulegum varhug við þessum tillögum.
Það er hægt að skilja þær á tvennan hátt.
Annars vegar að allir greiði 18% af fyrstu 200.000, en ef fólk hefur tekjur yfir því séu greidd 35% af því sem er greitt er umfram 200.000. Ef það er það sem lagt er til er alveg eins hægt að leggja til 34 þúsund króna hækkun á persónuafslættinum. Það kemur á sama stað niður og engin þörf á að flækja skattkerfið þess vegna.
Hinsvegar ef þeir sem hafi laun undir 200.000 hafi 18% skattprósentu af öllum tekjum og hinir greiði 35% af sínum tekjum, munu þeir sem hafa milli 200.000 og 252 þúsund fá minna útborgað en þeir sem hafa lægri tekjur! Ef einhver sem er með tæp 200 þúsund í laun lendir í því að fá yfirvinnugreiðslur sem færði launin yfir þröskuldinn, þyrfti viðkomandi að endurgreiða mismuninn eftir á og launþeginn stæði fátækari á eftir, búinn að eyða því sem hann fékk og í sömu stöðu og þeir sem misreikna sig gagnvart Ttryggingastofnun. Ekki hefur það verið talið til fyrirmyndar. Þetta er svo arfavitlaust að það tekur ekki nokkru tali og felur í raun í sér afnám staðgreiðslukerfisins.
Þess vegna er þessi kröfugerð með öllu óframkvæmanleg og vonandi verður ekki hlustað á hana.
Aftur á móti væri hækkun persónuafsláttar allt annað mál og jákvæðara, ef efnahagsástandið þolir það. Þætti mér eðlilegt að miðað væri við að ekki sé greiddur skattur af lágmarksframfærslu hvers og eins en svo sé greitt til samfélagsins af því sem umfram það er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Bull hátekjumanns.
Sigurgeir Jónsson, 13.12.2007 kl. 22:28
Ég teldi viturlegra að hækka lægstu launin og/eða hækka persónuafsláttinn en að taka hvatann úr skatt- og launakerfinu.
Gestur Guðjónsson, 13.12.2007 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.