Forsætisráðherra á hálum ís

Í umræðum á Alþingi í vikunni fullyrti Geir H Haarde, forsætisráðherra að forsendur fjárlaga væru ekki brostnar. Mér finnst afar bratt af forsætisráðherra að halda þessu fram án nokkurra fyrirvara, því fullyrðingin byggir á meira en þriggja mánaða gömlum tölum og margt hefur breyst á þeim tíma.

Málið er að spáin byggir á rúmlega þriggja mánaða gömlum tölum, þeas með hliðsjón af nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2007. Það er alveg ljóst að fjármagnstekjur munu verða minni en áætlað var, en fjármálaráðuneytið orðar þetta mildilega:

"Áhrif lækkunar hlutabréfaverðs eru talin hafa tak­mörkuð áhrif til lækkunar tekjuskatts lögaðila og fjármagnstekjuskatts í ár. Tekjur af þessum liðum miðast að stærstum hluta við hagnað fyrirtækja og fjármálagjörninga fyrra árs. Þó er viðbúið að þróun á síðasta ársfjórðungi ársins 2007 hafi einhver áhrif til lækkunar þessara liða. Á móti má búast við meiri tekjum af tekjuskatti einstaklinga og veltusköttum á árinu með samanburði við fyrri þjóðhagsspá."

Engir útreikningar eru gerðir til að styðja þessar fullyrðingar, í það minnsta eru engar niðurstöður birtar. Þess vegna er fullyrðing forsætisráðherra um að forsendur fjárlaga standi byggð á afar veikum grunni. Frekar á óskhyggju en staðreyndum. Það getur verið að forsendurnar haldi, en það er síður en svo víst, enda setur fjármálaráðuneytið afar alvarlegan varnagla í sína spá, sem forsætisráðherra virðist ekki taka undir:

"Ef aðstæður í fjármála- og atvinnulífi á yfirstandandi ári þróast á verri veg en nú er gert ráð fyrir mun það hafa áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Jafnframt yrði slík þróun líkleg til að auka útgjöld ríkissjóðs, meðal annars vegna aukinna útgjalda til atvinnuleysisbóta."

Nei. Forsætisráðherra vonast til þess að allt fari vel. Vonandi gerir það það, en ef ríkisstjórnin tekur ekki virkan þátt í efnahagsstjórninni eru líkurnar á því minni og enn minni líkur á að undarleg "sönnun" hennar á því að hún sé að beita aðhaldi, afgangurinn af fjárlögum, hverfi. Hvernig ætlar ríkisstjórnin þá að geta haldið því fram að hún hafi ástundað ábyrga efnahagsstjórn, fyrst hún mælir ekki aðhaldsstigið í þróun útgjalda eins og eðlilegt væri?

Mér finnst reyndar með ólíkindum að það sé ekki hægt að vinna með nýrri tölur en 3ja mánaða tölur við jafn mikilvægan hlut og gerð þjóðhagsspár. Svona á tölvuöld. Þær tölur sem svo vantar, fyrir síðasta mánuðinn eða svo, hlýtur að vera hægt að áætla út frá breytum sem mældar eru stöðugt, eins og kortaveltu, bílasölu, fjölda gerða kaupsamninga o.s.frv, þannig að umræðan þurfi ekki að byggjast á ágiskunum, ágiskunum aðila sem hafa beinna hagsmuna að gæta, fjármálaráðuneytisins og bankanna.

Það leiðir náttúrulega hugan að því hvort ekki væri eðlilegt að slíkar spár væru unnar af óháðum aðila, t.d. sjálfstæðrar hagdeildar sem væri fjárlaganefnd Alþingis til stuðnings í sínum mikilvægu störfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband