Stóra pókermálið - máttur framsetningarinnar

Það er furðulegt að fylgjast með stóra pókermálinu. Andri Ólafsson blaðamaður fer langa leið í upphafsumfjöllun sinni um málið til að láta líta út fyrir að Birkir Jón hafi óhreint mjöl í pokahorninu.

Segir hann frá því að þingmaðurinn hafi spilað póker um helgina en fer gegn betri vitund rangt með þessum ummælum

"Heimildir Vísis herma að Birkir Jón hafi grætt um 50 þúsund krónur þetta kvöld. Birkir Jón neitar því hins vegar sjálfur og vill ekki tjá sig um hversu mikla peninga hann spilaði fyrir."

Því næst fer blaðamaðurinn í umræðu um að:

"...samkvæmt almennum hegningarlögum skar hver sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Þá segir einnig í almennum hegningarlögum að hver sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári."

Málið er sem sagt sett þannig fram að lesendur eiga að álykta að Birkir Jón hafi framið lögbrot, þótt það sé aldrei sagt berum orðum í fréttinni að Birkir hafi brotið nein lög.

Birkir hefur staðfest við mig að hann hafi sagt blaðamanninum allt af létta með upphæðina, 18 þúsund, svo brotavilji blaðamannsins til að meiða þingmanninn er mikill, fyrst hann segir að Birkir hafi neitað að segja honum upphæðina. Ekkert hefur komið fram í máli Birkis um að nein lög hafi verið brotin. Bara dylgjur í gegnum framsetningu, sem margir hafa greinilega fallið fyrir.

Sló Andra þessum Ólafssyni upp á Google og það tók ekki langan tíma að komast að því að hann var fyrsti formaður ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, svo kannski er rétt að horfa á blaðamennsku hans í því ljósi. Hann er greinilega á því að tilgangur hans sem flokkshests og blaðamanns sé að meiða þá sem fylgja honum ekki í pólitík sem mest. Sannleikurinn og sanngirnin mega sín lítils gegn því.

Svo er allt önnur umræða, sem ætti sem minnst að vera tengd þessari, hvort ekki sé þörf á að setja almenn lög um fjárhættuspil á Íslandi. Held að það væri gustuk að setja skýran ramma um hvað sé löglegt og hvað ólöglegt í þessu, því eins og hegningarlögin eru nú, virðist það vera túlkunaratriði lögreglu hverju hún eigi að sinna og hverju ekki. Ég fæ ekki séð annað en að þegar bridds, póker, golf eða hvað eina er spilað upp á verðlaun sé um fjárhættuspil að ræða. Það er löglegt svo lengi sem enginn hefur atvinnu af því eða græðir á að standa fyrir því. Ég minnist þess sem krakki að hafa margoft tekið þátt í félagsvist hefur lengi verið notuð sem fjáröflun hjá hinum ýmsu félagasamtökum, til dæmis ungmennafélaginu heima. Þar er um skýrt brot að ræða m.v. hegningarlögin, þar sem félagasamtökin eru að halda keppnina með því yfirlýsta markmiði að afla fjár.

Vill fólk hafa það þannig?


mbl.is Tvískinnungur að aðrar reglur gildi um póker
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Nú spyr ég eins og fávís kona Gestur minn:

1. Er löglegt að spila póker á Íslandi, upp á peninga?

2. Er löglegt að hafa af því tekjur að spila póker, hvort heldur það eru 18 þúsund krónur eða 18 milljónir?

3. Ef Birkir Jón framdi lögbrot munuð þið framsóknarmenn þá álykta að lögin séu asnaleg?

Kveðja úr sveitinni  

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 14:17

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

1. já, það er löglegt að spila, en ekki að hafa af því atvinnu.

2. já, það er löglegt að vinna vinninga, svo fremi sem menn hafa ekki af því atvinnu.

3. Nei.

183. gr. Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru.

184. gr. Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.

bið að heilsa í sveitina.

Gestur Guðjónsson, 21.2.2008 kl. 14:26

3 Smámynd: Jón Magnús

Ég bíð eiginlega spenntur eftir hvort saksóknari kæri í pókermálinu frá því í haust þar sem stórt pókermót var stöðvað.  Hef grun um þeir viti upp á sig skömmina varðandi það þar sem ekkert er að gerast í því máli.

Minn spádómur er að þeir munu skíttapa því máli þar sem 3-aðili var ekki að hagnast á því og þess vegna alveg skv. lögum.  Því ef það myndi síðan vera dæmt ólöglegt þá þyrfti nú að fara taka bingó/bridge/golf-spilarana og henda þeim í steininn.

Allavega óx Birkir Jón pinkulítið í áliti hjá mér eftir þetta - hélt að hann væri alveg geldur ;)  En það er nauðsynlegt fyrir löggjafann að skýra þessi lög út svo t.d. félagasamtök geti haldið pókermót til að afla sér tekna.

Jón Magnús, 21.2.2008 kl. 16:22

4 Smámynd: Steinn Hafliðason

Ég sé ekki muninn á því að spila upp á peningaverðlaun í póker eða bridge.

Hitt er svo annað mál hvort fjárhættuspil eigi að vera lögleg eða ekki og eru þá helst sjónarmið um spilafíkn og frelsi einstaklingsins sem takast á.

Steinn Hafliðason, 21.2.2008 kl. 16:55

5 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Tek undir það með Jóni Magnúsi að það kemur á óvart að Birkir Jón skuli stundi iðju sem eitthvað fútt er í . Er líka feginn að hann braut ekki lög því þá komumst við hjá því að enn einn stjórnmálamaðurinn hér á landi segi af sér vegna glappaskota (!). Því það hefði hann náttúrlega skilyrðislaust gert hefði hann gert eitthvað af sér - eins og framsóknarmanna er siður 

Kannski er póker bara sama framtíðarmúsikin í eyrum Birkis og Byrgið á sínum tíma? Svo vitnað sé í manninn sjálfan

Heimir Eyvindarson, 21.2.2008 kl. 17:58

6 Smámynd: Steinn Hafliðason

Heimir, spyrja fávísar konur öðruvísi en fávísir karlar?

Steinn Hafliðason, 22.2.2008 kl. 11:08

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þakka góða færslu Spamsi, hver sem þú ert. Einhversstaðar sá ég að 10% þjóðarinnar væri í áhættu fyrir áfengissýki, sem er sama hlutfall og þeirra sem ekki geta hugsað sér að drekka. (sama hlutfall hefur sýnt sig hjá skógarbjörnum í Kanada sem hafa aðgengi að göróttum berjum síðsumars).

En eins og ég sagði í færslunni, þá er kominn tími til að ramma þetta inn, þannig að þetta verði gert löglegt. Það þarf að vanda þá löggjöf svo komið verði í veg fyrir hluti eins og peningaþvætti og annað. Við hljótum að geta tekið fyrirmyndir annarsstaðar frá í því sambandi.

Gestur Guðjónsson, 22.2.2008 kl. 11:10

8 Smámynd: Óskar Arnórsson

..er ekki hlutabréfabrask líka risapóker með öðruvísi pappír en eru í spilastokk? Og allt löglegt...ég sé engan mun á þessu nema upphæðirnar í hlutabréfum eru stjarnfræðilegar en í póker og bridge bara smápeningar..

Óskar Arnórsson, 22.2.2008 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband