Lífrænn landbúnaður á Íslandi

Meðan ég var í námi í Danmörku fyrir rúmum áratug voru lífrænar afurðir að ryðja sér til rúms af krafti. Er talsvert stór hluti framleiðslunnar í dag lífrænn og mikil og góð eftirspurn eftir vörunum. Slíku er ekki til að dreifa hér á landi. Af hverju ætli það sé?

Í Evrópu er jarðnæði þaulnýtt, mikil áburðar- og eiturefnanotkun. Það hefur haft það í för með sér að umhverfisáhrif landbúnaðar á ár, vötn, strandsvæði og sjó eru merkjanleg og oft á tíðum mikil. Það sem þó hefur haft mest áhrif á umræðuna um landbúnaðinn víðast hvar er mengun drykkjarvatns af hans völdum, enda drykkjarvatn sótt í grunnvatnið undir túnum og ökrum bænda.

Engum af þessum vandamálum hefur verið til að dreifa hér á landi.

Við verðum að átta okkur á því að lífræn ræktun í Evrópu er að mestu leiti drifin áfram af nauðsyn umhverfisins og er því styrkt sérstaklega af samfélaginu vegna þess, en er ekki drifin áfram af óskum markaðarins eða lýðheilsuástæðum.

Umræða um að lífrænt ræktaðar vörur séu heilnæmari en aðrar hefur ekki farið eins hátt erlendis og umræðan um umhverfisáhrif ræktunarinnar. Reyndar hef ég heyrt að ósannað sé að þær séu heilnæmari, en mér finnst lífrænt ræktað grænmeti yfirleitt bragðmeira og lystugra og ætla að leyfa mér að trúa því að það sé hollara en afurð úr þauleldi. En sú trú mín getur ekki réttlætt samfélagsútgjöld til að ýta undir lífræna ræktun, en mér er að sjálfsögðu frjálst að borga meira fyrir lífræna vöru vegna þessarar afstöðu minnar. Samfélagsútgjöld verða að byggja á staðreyndum.

Á Íslandi er lífræn ræktun eingöngu drifin áfram af óskum markaðarins og því gengur innleiðing lífrænnar ræktunar hægt. Hefðbundnar íslenskar landbúnaðarvörur eru líka framleiddar á hátt sem er afar nálægt þeim lífræna og ég hef oft spurt mig hvort gera eigi sömu kröfur til vottunar á lífrænni ræktun um allan heim? Hvort hefðbundinn íslenskur landbúnaður byggi ekki í raun á lífrænni ræktun, þegar tekið er tillit til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að notkun tilbúins áburðar hér hafi valdið umhverfinu skaða, lyfjanotkun er í algeru lágmarki og eiturefnanotkun hverfandi?

Verða kröfurnar ekki að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað?


mbl.is Vantar peninga til að ýta undir lífrænan búskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Benediktsdóttir

Hvergi í heiminum er landbúnaðarvörur jafn óspilltar og hér en krafa fólks um lífrænt er að aukast og auðvitað eigum við að leggja gríðarlega áherslu á íslenskan landbúnað. Vandamálin vegna offitu og óhöllustu eru augljós um allan heim og kosnaðurinn vegna lífsstílssjúkdóma skelfilegur og hann er að aukast hér líka.

Áfram lífrænt og bændur eiga að fá hjálp við að byrja á lífrænni ræktun.

Takk fyrir góða grein en hér breytist umhverfið hratt í matvælaframleiðslu.

Jónína Benediktsdóttir, 11.3.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Vandamálið við þennan lífræna búskap eru alslags reglur og  skráningar sem þjóna engum tilgangi nema að safna ryki hjá einhverjum vottunaraðilum

Manni sýnust þetta snúast meira um þá sem starfa  Vottunina

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 11.3.2008 kl. 14:53

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Góður pistill. Lífræn ræktun mun aukast hér sem í öðrum löndum sem landbúnað stunda. Og hér eru skilyrði áreiðanlega mun betri en í þéttbýlum iðnararlöndum. En þessi ræktunarmáti krefst meiri natni og nándar við hina vinnandi hönd og verður undir í samkeppni við tæknivædda framleiðslu. Hagnaðar-og framlegðarkröfur standast ekki í þeim samanburði nema neytendur séu tilbúnir að greiða fyrir mun hærra verð.

Þetta gerist ekki með neinu átaki.

Og því miður er ábending Gunnars Ásgeirs hörmulega rétt.

Árni Gunnarsson, 11.3.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband