Af mönnum og músum
31.3.2008 | 19:33
Geir H Haarde meldaði stórt pass í umræðum um efnahagsmál á Alþingi í dag. Engar tillögur til úrbóta, gerði bara tilraun til greiningar á fortíðinni. Maður hlytur að gera meiri kröfur til ráðherra efnahagsmála þjóðarinnar en svo. Hans hlutverk er að leiða þetta starf, ekki sitja og horfa á og koma með eftiráskýringar. Því miður virðist hann ekki lifa upp í hlutverk sitt, þrátt fyrir miklar vætingar, þám mínar. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í samstarfi við Framsókn hélt ég að flokkarnir væru nokkuð jafnvígir á efnahagsmálin, með Davíð Oddsson, Geir H Haarde og Árna Mathiesen í broddi þeirra fylkingar. Nú er að koma á daginn að það var misskilningur í mér. Því miður. Davíð Oddsson og samstarfsmenn hans í Seðlabankanum hafa verið einir í baráttunni fyrir stöðugleika, meðan ríkisstjórnin hefur hingað til unnið á móti honum með útgjaldagleði sinni.
Ingibjörg Sólrún talað.i um helgina bara um að skoða beri að taka lán til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Gott og vel. Hún fer með völdin í landinu. Hún á að kynna að búið sé að ákveða að gera hitt og þetta. Ómarkvissar vangaveltur eru bara tli að auka á óvissuna og það er það síðasta sem við þurfum þessa dagana. Annars kom hún bara með almennar vangaveltur um að í framtíðinni beri að gera hitt og þetta og stefna beri að hinu og þessu og mikilvægi hins og þessa.
Að öðru leiti engar aðrar tillögur en að menn eigi að fara að hittast og spjalla saman um landsins gagn og nauðsynjar. Það er góð tillaga að stofna vísmannaráð, en til þess hefur ríkisstjórnin haft tæpt ár. Það getur nú ekki verið svo erfitt að fá menn til að hittast og skrafa. Nú er tími athafnanna löngu kominn, þá er fyrst farið að setjast niður og bollaleggja.
Þetta hljómar eins og hjáróm tíst í músum, ekki ábyrg viðbrögð við aðsteðjandi verkefnum sem fyrir löngu er búið að benda á.
Þá er meiri mannsbragur af tillögum Framsóknar, sem strax í sumar varaði við þeim blikum sem voru á lofti og allir þeir sem vildu sjá, sáu. En á það var ekki hlustað, því miður.
Gjaldeyrisvaraforðann verður að auka. Bankarnir eru einfaldlega orðnir það stórir að það verður að gerast. Eðlilegt er að bankarnir greiði fyrir það skjól sem það veitir þeim, sem nemur vaxtagreiðslum af þeim lánum sem taka þarf til þess. Tillögur um að Íbúðalánasjóður létti af bönkunum og verði í raun heildsölubanki fyrir hluta íbúðalána bankanna er eitthvað sem hefur verið í umræðunni í einhvern tíma. Hvort ég fari í afgreiðslu Íbúðalánasjóðs eða viðskiptabanka míns til að ná í þessa öruggu fjármögnun má einu gilda, svo lengi sem Íbúðalánasjóður sé þarna á bakvið. Það er spurning hvort bankarnir eigi skilið að vera skornir svona niður úr snörunni, vegna óábyrgrar innkomu sinnar á íbúðalánamarkaðinn á sínum tíma og verða með því valdir að mjög stórum hluta þeirrar skuldsettu þenslu sem við súpum nú seyðið af. En tillögurnar koma viðskiptavinum þeirra, íslenskum almenningi, til góða og til þess ber að horfa.
Verðbólguna verður að takast á við. Hún má ekki fara af stað umfram það sem þegar er orðið. Hækkanir eru í pípunum og því verður að fara í varanlegar og tímabundnar aðgerðir til að stemma stigu við henni. Þar er helst hægt að ráðast á matinn og eldsneytið, auka samkeppni á bankamarkaði auka verðlagseftirlit og bæta neytendavitund. Fyrr er ekki hægt að lækka vexti, en þeir eru að sliga minni fyrirtækin og heimilin í landinu.
Vonandi tekur ríkisstjórnin þessar tillögur til sín. Þótt fyrr hefði verið. Tími athafna er kominn.
Vilja fella niður neysluskatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.