Best að Geir H Haarde sofni bara aftur

Ég trúi því ekki upp á heiðursmanninn Geir H Haarde að hann hafi ætlað sér að fara með ósannindi um meinta samtryggingu norrænu seðlabankanna, eins og Bloomberg hefur nú sýnt fram á að eigi sér ekki stoð, eins vel og hún hljómaði nú í mín eyru í gær.

Þetta minnir mig á það þegar ég nennti ekki að lesa eina bókina fyrir íslenskupróf í fjölbraut og svaraði á prófi út frá teiknimyndasögu sem ég las einhvertíma og var um sömu söguhetju. Þar var mér til mikillar gremju ekki farið rétt með og fékk ég athugasemdina "Góð saga, en ekki af Sigurði Fáfnisbana" frá kennaranum. Einkunnin var eftir því, en sem betur fer var þetta ekki eina spurningin á því prófi.

Sem sagt: Góð saga Geir, en ekki af íslenskum raunveruleika.

Geir hefur einfaldlega verið í dýpri svefni, bæði sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra, en mann hefði nokkurn tíma grunað og nú sitjum við uppi með forsætisráðherra sem hefur opinberað að hafa ekkert fylgst með, vaknað af værum blundi og lítur út fyrir að hafa ætlað að reyna að blöffa sig í gegnum stöðu efnahagsmála hér á landi og möguleika Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar til að grípa inn í.

Ætli erlendir fjölmiðlar trúi honum næst þegar hann tjáir sig?

Þessi dæmalausa uppákoma sýnir einnig að hann er orðinn góðu vanur varðandi fjölmiðla, sem eru meira og minna allir hliðhollir honum.  Hann er óvanur því að eiga við fréttamenn sem sinna vinnunni sinni og kanna trúverðugleika þess sem hann heldur fram, þannig að hann virðist hafa haldið að hægt væri að fara með hluti samkvæmt minni. Minni sem brást honum illilega.

Manni liggur við að halda að það sé bara best að hann sofni bara aftur og láti Seðlabankanum eftir að bera tíðindi af stöðu, möguleikum og aðgerðum seðlabankans sem og einnig ríkisstjórnarinnar, eins og hann er reyndar þegar byrjaður að gera í tilfelli ríkisskuldabréfaútgáfunnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Vonandi að það verði ekki algjör þyrnirósasvefn!

Annas er svefn Geirs búinn að standa ansi lengi!

Ótrúlega lengi!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 3.4.2008 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband