Ábyrgð stjórnar OR

Það eru nokkur atriði sem stjórn Orkuveitu Reykjavíkur verður að hafa í huga.

  1. Stjórn OR ber fyrst og fremst skylda til að gæta hagsmuna fyrirtækisins fyrir hönd eigenda þess, þ.e íbúa Reykjavíkur, Borgarness og Akraness.
  2. Stjórn OR fer ekki með náttúruvernd á svæðinu, það gerir sveitarstjórn Ölfuss.
  3. Iðnaðarráðherra er fullheimilt að veita öðrum aðilum nýtingarheimild á svæðinu. Ég býst við að HS eða LV séu bæði viljug að taka við keflinu, þannig að ef það er ásetningur stjórnar OR að leika náttúruverndaryfirvald á svæðinu og fremja þannig valdarán gagnvart Ölfusi, er það einfaldlega ekki hægt.
  4. Undirbúningur Bitruvirkjunar hefur örugglega kostað vel yfir milljarð, líklegast nær tveimur. Hefur stjórn OR heimild til að henda þeim fjármunum út um gluggan án samþykkis eigenda vegna þessarar tilraunar til valdaráns? Ég hélt að slíkt samþykki þyrfti að veita á eigendafundi.
  5. Getur stjórn OR nú lágmarkað tjón sitt með því að selja rannsóknarniðurstöðurnar til HS eða LV, eða eru rannsóknarniðurstöðurnar almannaeign?
  6. Hvernig samræmist þessi ákvarðanataka niðurstöðum og lærdómi REI skýrslunnar?
  7. Ef stjórn OR hefur svona miklar efasemdir um verkefnið, af hverju var það þá ekki stöðvað löngu fyrr?

Nei, þessi virkjun er allt, allt annað en Nesjavallavirkjun eða sérstaklega Hellisheiðarvirkjun, sem er algert slys í útliti og frágangi og þau atriði sem Skipulagsstofnun leggur til grundvallar sínu áliti eru í besta falli skrítin. Auðvitað þarf hús, en ef húsin teljast ljót en þau eru óhönnuð, hefði verið hægt að setja skilyrði um að takmarka sýnileika þeirra, annaðhvort með görðum, niðurgreftri eða öðrum lausnum. Þarna er Skipulagsstofnun í rauninni að ráðast að skipulagsvaldi sveitarfélagsins. Hávaðastig hefði verið hægt að setja skilyrði um í stað þess að ákveða að þau væru of mikil.

Það liggur fyrir að útivistarnýting svæðisins mun breytast, Skipulagsstofnun tekur ekki inn í matið hvort sama ferðaþjónusta geti færst, t.d. á þau svæði sem ekki er raskað. Svæðið hefur minnkað til mikilla muna í ferlinu, sem er einmitt tilgangur umhverfismatsferlisins og ber að fagna, að framkvæmdaraðilar hugsa á allt annan hátt um umhverfisáhrif en áður. Bætt veglagning og þar með aðgengi að þeim svæðum sem eru utan áhrifasvæðis virkjunarinnar eru henni ekki virt. Við skulum hafa í huga að svæðið er þegar raskað með háspennulínum.

Allt í einu er hugsanleg aukin hveravirkni orðið neikvæð!!!

Þetta eru spurningar sem allt þarf að leita svara við. Stjórn OR er ekki aðilinn sem á að svara þeim einn og allra síst á örstuttum fundi án undangengins eigendafundar og umræðu í sveitarstjórnum eigenda sinna. Stjórn OR á að gæta hagsmuna þess fyrirtæki sem henni er treyst fyrir. Skipulags- og náttúruverndaryfirvald og framkvæmdaleyfisgjafi svæðisins, Ölfus, hlýtur að vera sá aðili sem á að veita endanlega svarið við því hvað sé ásættanleg og hvað ekki.


mbl.is Óskar Bergsson vill að ákvörðun um Bitruvirkjun verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Förum yfir þessi atriði sem stjórn Orkuveitu Reykjavíkur verður að hafa í huga, Gestur:

1.  Heldurðu að OR hafi haft hagsmuni eigenda fyrirtækisins í huga þegar þeir gerðu vafasaman samning við Sveitarfélagið Ölfus í apríl 2006 sem metinn er á 500 milljónir króna - hálfan milljarð - þar sem þeir kaupa velvilja Ölfuss og lofa t.a.m. að leggja ljósleiðara um sveitarfélagið?  Samningur þessi gerir bæði OR og Ölfus vanhæfa aðila til að fjalla frekar um málið, enda er hann ekkert annað en argasta spilling og sóun á skattpeningum Reykvíkinga. Samning þennan má sjá í heild sinni hér. Og hverjir eru þessir hagsmunir sem þú ert að vísa í? Þér láðist að geta þess.

2.  Náttúruvernd á Íslandi hlýtur að vera á ábyrgð okkar allra - og náttúruvernd má aldrei verða pólitísk - og alls ekki flokkspólitísk. Það er hagur allrar þjóðarinnar og afkomenda okkar að vernda það sem hægt er. OR ber að sjálfsögðu líka ábyrgð á náttúruvernd, svo og Landsvirkjun, Landsnet og aðrir aðilar sem beinlínis hagnast á náttúrunni og auðlindum hennar - þó það nú væri! Sveitarstjórnir á Íslandi eiga alls ekki að hafa sjálfsvald um það hvað er verndað og hvað ekki. Engu að síður er ekki ýkja langt síðan Ölkelduháls og umhverfi hans var sett á náttúruminjaskrá - en um leið og OR lét hringla í buddunni kom annað hljóð í strokkinn hjá sveitarstjóra Ölfuss, hann venti sínu kvæði í kross og vill nú allt í einu selja náttúruperluna fyrir nokkur hundruð milljónir. Þetta er argasta siðleysi.

3. Það kom skýrt og greinilega fram í áliti Skipulagsstofnunar hvers konar hryðjuverk það væri að reisa virkjun á Bitru/Ölkelduhálssvæðinu. Vissulega er það rétt hjá þeim sem benda á að álit Skipulagsstofnunar hafi ekkert lagalegt gildi - "aðeins" siðferðilegt. Engu að síður væri mjög óvarlegt af bæði iðnaðarráðherra og sveitarstjóra Ölfuss að leyfa öðrum aðilum að fara þarna inn og virkja eftir svo afdráttarlausa niðurstöðu Skipulagsstofnunar og spurning hvort menn vilja taka slíka pólitíska áhættu. Landsvirkjun hefur enda ekki hingað til staðið í jarðvarmavirkjunum og Hitaveita Suðurnesja er í nógu slæmum málum suður með sjó til að geta bætt um betur og rústað gjörsamlega ímynd sinni.

Í þessu sambandi er einnig vert að benda á, að land það sem áætlað var undir Bitruvirkjun er að mestu leyti í eigu ríkisins (okkar allra) og að litlu leyti í eigu OR (Reykvíkinga) þótt Ölfus fari með skipulagsvaldið.

4. Undirbúningur Bitruvirkjunar kostaði peninga, já. Hve mikla virðist ekki vera á hreinu. Nefnd hefur verið upphæðin einn milljarður og þá spyr ég: Var hálfi milljarðurinn sem skenktur var Sveitarfélaginu Ölfusi inni í þeirri upphæð? Það hefur hvergi komið fram. Hluti af kostnaði OR hefur síðan örugglega falist í ýmsum rannsóknum sem gagnast munu annars staðar - við aðrar virkjanir - þannig að sá hluti kostnaðarins kemur að góðum notum við önnur verkefni. Og hvaða valdarán ertu að tala um? Samþykkt stjórnar OR um að hætta við Bitruvirkjun var samhljóða, var það ekki? Hver var þá að ræna völdum af hverjum?

5. Þar sem OR er í almannaeigu hljóta rannsóknarniðurstöður hvers konar að vera í almannaeigu líka, ekki satt?

6. Þessari spurningu get ég ekki svarað þar sem líkast til er einstaklingsbundið hvaða lærdóm fólk dró af REI málinu öllu. Persónulega fannst mér vera megn skítalykt af því máli öllu og græðgi spilaði þar stóra rullu. Ég vil ekki að orkufyrirtæki okkar Reykvíkinga verði eitt spillingarbæli.

7.  Sem betur fer lærir fólk af reynslunni og hlustar á rök - að minnsta kosti sumir. Getur verið að einstaklingar innan stjórnar OR hafi einfaldlega séð firruna í þessari virkjun og skipt um skoðun? Það skyldi þó aldrei vera?

Og ef þú heldur að fyrirhuguð Bitruvirkjun sé vistvæn legg ég til að þú lesir vandlega eftirfarandi pistla:

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/516190/
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/521002/
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/539488/

Hlustaðu svo á Spegildviðtölin við Stefán Arnórsson, Þorstein Jóhannsson og Sigurð Þór Sigurðarson sem eru í tónlistarspilaranum á bloggsíðunni minni. Mér hefur virst þú vera ágætlega vel gefinn og því treysti ég þér til að læra heilmikið á þessum lestri og þessari hlustun.

Svo skaltu lesa fleiri pistla á blogginu mínu og íhuga hvers konar spilling og vitleysa er á bak við þessa óþörfu virkjun. Enginn hefur verið að fetta fingur út í Hverahlíðarvirkjun, stækkun Hellisheiðarvirkjunar og síðan eru tvær á teikniborðinu í Þrengslunum. Ef þetta nægir ekki þá veit ég ekki hvað er á seyði í íslensku þjóðfélagi þegar sumir aðilar eru tilbúnir til að fórna hverju sem er fyrir aura í eigin vasa.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.5.2008 kl. 20:08

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

1. OR hefur greinilega metið væntanlega virkjun það hagkvæma að það réttlæti þessi útgjöld, hver sem upphæðin er. Hagsmunir fyrirtækisins hljóta enda að felast í þátttöku í hagkvæmum verkefnum á starfssviði þess, þe veitu og orkuframkvæmdum. Þessi samningur sem þú vísar í er reyndar svolítið sérstakur, ég get alveg tekið undir það, en hann er síður en svo einsdæmi. Áttum okkur á því að hann fríar samt sem áður Ölfus ekkert undan sinni stjórnsýslulegu ábyrgð.

2. Náttúruvernd er á ábyrgð okkar allra, en í þessu tilfelli eru þeir sem sitja í stjórn OR bundnir af því að gæta hagsmuna þess. Ölfus á að gæta náttúruverndarinnar og setja þær línur sem ekki má fara yfir og stjórn OR á að sjá til þess að fara ekki yfir línurnar og haga framkvæmdum með sem hagkvæmustum hætti. Ég bendi á að Björgólfur Thorsteinsson tók að mínu mati hárrétta ákvörðun þegar hann ákvað að taka ekki sæti í stjórn LV, einmitt af þessum ástæðum. Þannig getur hann einmitt haldið sínu góða starfi áfram, án þess að vera bundin af skyldum gagnvart LV.

3. Nýir aðilar geta komið inn með "nýja" framkvæmd og nýtt umhverfismat, sem Skipulagsstofnun þarf að taka afstöðu til. LV rekur Kröfluvirkjun og er að undirbúa jarðvarmavirkjun fyrir norðan, svo þeir eru engir amatörar í þessu og HS vantar að útvega orku. Hið pólitíska spil er svo annað mál.

4. Valdarán segi ég vegna þess að ég tel alveg ljóst að stjórn verður að leita umboðs til eigenda sinna. Akurnesingar voru ekki spurðir, eins og fram hefur komið né Borgnesingar. Málið hafði heldur ekki verið rætt í borgarstjórn, svo umboðið er í mínum huga afar vafasamt. Vísa og í REI skýrsluna í því sambandi.

5. OR er ekki í almannaeigu. Það er í eigu Reykvíkinga, Akurnesinga og Borgnesinga. Því eru gögnin og undirbúningurinn eign þeirra, ekki t.d. Geysis Green og Reyknesinga.

6. REI ferlið var sorglegt og lýsti skýrslan því ágætlega. Því verður að draga lærdóm af því og hætta að endurtaka mistökin.

7. Ég tel að stjórnarmenn hafi ekki getað tekið þessa ákvörðun svona.

Ég hef áður lýst því að mér þætti helst ætti að setja spurningamerki við Bitruvirkjun og svo Gjástykki, eða réttara sagt Ölkelduhálsinn. Framkvæmdasvæðið er mikið mun minna en þá var talað um og er komið inn á hraunin á Hellisheiði og án þess að gersemarnar í dölunum fyrir ofan Hveragerði séu hreyfðar.

Rök Skipulagsstofnunnar þykja mér því miður ekki nægjanlega traust og hefði álitið frekar átt að snúa að því að gera framkvæmdaraðila að draga úr áhrifunum þannig að þau séu ásættanleg og skilgreina það. Ef kostnaðurinn við að ná þeim er of mikill, þá er virkjunin fallin um sjálfa sig.

Einu rökin sem eitthvað hald er í, eru um landslagsheildina, en þær aðgerðir sem lagðar voru til í að fela lagnir og ganga frá borstæðum áttu að sprona við þeim. Þá er húsið og reykurinn eftir, sem mér hefði þótt eðlilegra að setja ströng skilyrði fyrir í stað þess að dæma það fyrirfram óframkvæmanlegt verkefni.

En ákvörðun um hvort hætta eigi við eða halda áfram á að taka með réttum hætti, ekki í geðshræringu án þess að eigendur séu spurðir. Þetta eru einfaldlega of miklir hagsmunir til að hægt sé að ganga fram með þessum hætti.

Gestur Guðjónsson, 30.5.2008 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband