Möguleikar íhaldsins í borginni

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag heldur spuni velvildarmanna íhaldsins í borginni áfram um meintar viðræður íhaldsins og Framsóknar. Er þetta tilraun þeirra til að hjálpa íhaldinu við að tjónka við Ólaf F, en er um leið opinberun á algeru skipbroti borgarstjórnarflokksins. Sjónvarpið tekur einnig þátt, sló málinu upp sem fyrstu frétt í gærkvöldi en það vakti athygli mína að fréttastofa útvarpsins tók málið ekki upp og birtist það heldur ekki á textavarpinu. Heimildirnar hafa líklegast ekki verið taldar nægjanlega traustar á þeim bænum. Morgunblaðið virðist halda sig við að lýsa ástandi og þeirri staðreynd að auðvitað vilja sjálfstæðismenn breytingar. Það sér hver maður að þetta gengur ekki svona.

Tjarnarkvartettinn verður ekki endurreistur nema Ólafur F segi af sér setu í borgarstjórn, þannig að svo lengi sem hann segir ekki af sér er meirihluti án þátttöku Sjálfstæðisflokksins ómögulegur, sem gefur flokknum eftirfarandi möguleika:

  1. Hanna Birna taki við í mars. Sjálfstæðismenn verða að vona það besta og þurfa að gefa eftir i hinum og þessum málum eftir duttlungum Ólafs F, sem hefur meiri tíma til að sinna sínum hugðarefnum, ótruflaður af daglegum reksti borgarinnar, en reyndar án sinna aðstoðarmanna. Þetta er þó háð samþykki Ólafs F, sem hefur jú krafist að fá að sitja sem borgarstjóri áfram.
  2. Óbreytt staða, gefa eftir gagnvart Ólafi F og leyfa honum vera borgarstjóra áfram og þurfa að vinna með sífellt fleiri sérlegum ráðgjöfum borgarstjóra í hinum og þessum málum, sem fá að vera í ráðhúsinu meðan þeim er treyst, en það traust er jú hverfult. Flugeldasýning síðasta árs kjörtímabilsins myndi þurfa að deilast milli Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F og trufla það ímyndarplan íhaldsins sem núverandi samningur byggir á og eykur líkur á því að Ólafur F nái að kroppa fylgi af íhaldinu.
  3. Bjóða Ólafi F í Sjálfstæðisflokkinn og framlengja með því pólitískt líf hans, með loforði um öruggt sæti í næstu kosningum, en um leið minni áhrif, sérstaklega aðstoðarmanna hans. Þannig yrði prófkjör slegið út af borðinu. Það þarf þó að hljóta náð fyrir augum Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, en háværar raddir um breytingar í borgarstjórnarliði flokksins er í leiðinni krafa um prófkjör. Þeir sem gengið hafa í Sjálfstæðisflokkinn undanfarið og farið í prófkjör í kjölfarið hafa ekki riðið feitum hesti frá því, svo uppstilling er forsenda fyrir því að Ólafur F geti samþykkt að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Þessi möguleiki innifelur reyndar einnig að Ólafur gæti verið borgarstjóri áfram, en þá án sérlegu aðstoðarmannanna, en í staðin yrðu Valhellingar settir í ráðgjafahlutverkin til öryggis.
  4. Slíta meirihlutasamstarfinu og leita hófanna við aðra flokka. Þeir flokkar hafa reyndar bundist fastmælum um að ganga ekki til samstarfs við íhaldið og mér vitanlega er það samkomulag enn í gildi. Ef svo er ekki, er staðan samt sem áður erfið fyrir íhaldið.
    1. Samfylkingin er á miklu flugi í skoðanakönnunum og sér fram á hreinan meirihluta á næsta kjörtímabili og vill ekki gera neitt til að breyta þeirri stöðu og vilja alls ekki fá neina bláa slikju á sig. Nóg reynir örugglega á í ríkisstjórnarsamstarfinu. VG og B gerðu Dag B Eggertsson að stórstjörnu. Hann varð borgastjóri og andlit 100 daga meirihlutans og er í krafti þess að njóta meira og minna alls þess óánægju- og mótmælafylgis sem hefur farið af Sjálfstæðisflokknum. Dagur fær að njóta mikils friðar í allri umfjöllun og þarf afar lítið að svara fyrir sín mál og gjörðir sem borgarstjóra, sem sýnir kannski og sannar í hvers konar ofurtjóni núverandi meirihluti og íhaldið er í. Nema að íhaldið sé að geyma sér árásir á hann til síðasta árs kjörtímabilsins og ætli að taka hann með trukki þá.
    2. Framsókn. Vegna innri átaka í Sjálfstæðisflokknum var borgarstjórnarflokkur hans óstarfhæfur og í REI málinu sprakk fyrsti meirihlutinn. Mörg briglsyrði féllu í garð Framsóknar í þeirri ótrúlegu geðshræringu og ójafvægi sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru í eftir fyrstu meirihlutaslitin. Orð sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að kyngja áður en endurnýjað samstarf kemur yfir höfuð til greina og ljóst að samningsstaða íhaldsins er því síður er svo sterk, fáist Framsókn yfirhöfuð að samningaborðinu. Reyndar er búið að skipta um fólk í brúnni á báðum stöðum, en eftir sem áður situr framganga Sjálfstæðisflokksins í mörgum framsóknarmanninum.
    3. Vinstri Græn og Sjálfstæðisflokkurinn, draumastjórn fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, er tölfræðilegur kostur. Það er meira vafamál hvort hann sé málefnalegur kostur. Í landsmálunum eru þessir flokkar íhaldsflokkar og eiga mun meira sameiginlegt, en í vali á rekstrarlausnum, eins og sveitarstjórnarmálin snúast meira og minna um, standa VG og D andspænis hver öðrum og er erfitt að sjá þá ná málamiðlunum sem grasrót VG samþykkir til lengdar. Það er jú ekki á vísan að róa með VG grasrótina. Hún er hverful og skiptir hiklaust um skoðun, eins og hún gerði með Þórólf Árnason, þegar hún samþykkti hann inn í upphafi, vitandi af olíusamráðsmálinu, en dró það svo til baka þegar málið komst í hámæli, og rak þar með einn stærsta naglann í kistu R-listans.

Íhaldinu er svo sannarlega vandi á höndum og dýið sem það kom sér sjálft í virðist óendanlega djúpt og möguleikarnir ekki auðveldir. Hvaða leið það velur er óvíst og maður óttast að hagur borgarbúa sé ekki í forgangi í því vali.


mbl.is Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Þetta er áhugaverður pistill Gestur, mín von er nú samt að tjarnarkvartettinn taki við. Sérstaklega í ljósi síðustu skoðanakönnunar, man ekki betur en að þar hafi orðið gerbreyting á fylgi ALLRA flokka nema helst Framsóknar. Sem skýrist af getuleysi og valdasýki Guðna Ágústssonar, pólitík hefur sett niður því enginn lætur sína hugsjón ráða ferð. Menn fara eingöngu í stjórnmál vegna eigihagsmunapots.

Eiríkur Harðarson, 13.8.2008 kl. 14:15

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta var mikill uppskurður hjá þér Gestur. Ennþá er þó ekki í sjónmáli að neinum takist að ná fyrir meinið sem gæti nefnilega vera búið að dreifa sér. Mér sýnist nú að þessi borgarstjórnarþjáning sé einfaldlega birtingarmynd þess pólitíska ábyrgðarleysis og pólitíska sóðaskapar sem ´þróast hefur í flestum stjórnmálaflokkum um afar langt skeið. Það hefur náð að þróast hratt í borgarstjórninni og áhrifin sýnilegri en víða annarsstaðar vegna stærðar þess vandamáls sem þar er um að ræða. Ég vænti þess að þessi þróun sé komin á leiðarenda og að pólitíkusar læri af þessari skelfingu allri.

Það er nefnilega ekkert gamanmál að horfa upp stjórn stærstu samfélagseiningar þjóðarinnar lamaða vegna innri átaka og pólitískrar heimsku heilt kjörtímabil. Ég er að tala um fjögur ár!

Það segir mikla sögu að leiðtogafni D listans í borgarstjórn Gísli Marteinn, er búinn að gefast upp á ástandi sem hann sjálfur átti ómældan þátt við að skapa. 

Ég yrði undrandi ef það kæmi í ljós að Óskar Bergsson tæki þá ákvörðun að verða varadekk undir þessum skjögrandi vagni. Ég hef nefnilega það gott álit á honum að ég sé þá ákvörðun hans ekki fyrir mér.

Árni Gunnarsson, 13.8.2008 kl. 16:40

3 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Það er alltaf spurning hversu mikið pólitísk refskák á að bitna á málefnum Reykjavíkurborgar. Það er a sumu leyti ábyrgðarhluti fyrir minnihluta-flokkana að horfa upp á sjónarspilið í kringum ólaf f. Það er ljóst að púkinn fitnar vel á fjósbitanum í þetta skiptið.
Það virðist hins vegar enginn kostur fyrir neinn flokkanna, xS, xV eða xB að fara í meirihlutasamstarf með xD en aftur á móti mundu þessir flokkar sýna ákveðna ábyrgð með því að heita Hönnu Birnu að verja stjórn hennar vantrausti út kjörtímabilið svo hún geti losað borgina við ólaf f. Minnihlutastjórn xD er væntanlega betri en sirkusinn sem nú er í gangi.
Staða xB er ekki góð og alls ekki vízt að hún batni þó hestamaðurinn Óskar gangi undir hönd íhaldsins en hjá xB er vízt litlu að tapa, nema þá helzt heiðrinum

Þorsteinn Egilson, 13.8.2008 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband