Mistök við mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar?
9.9.2008 | 00:37
Ef rétt reynist að bruni mosans í kringum Hellisheiðarvirkjun sé af völdum virkjunarinnar, kemur það Orkuveitu Reykjavíkur og ráðgjöfum hennar á óvart og hlýtur maður að álykta að matið á umhverfisáhrifum hafi þar með ekki verið nægjanlega vandað. Á sama hátt hlýtur maður að horfa til hlutar Skipulagsstofnunnar í ferlinu, sem samþykkti jú matið.
Í umhverfismatinu er því lýst að brennisteinsvetnið oxist og falli út nálægt virkjuninni og því séu litlar líkur á að lykt berist í bæinn. Gott og vel, en í framhaldinu hlýtur að vera eðlilegt að menn hefðu skoðað afdrif brennisteinsins, minnugir súru skógana í Evrópu, sem hafa drifið áfram svo stífar kröfur til útblásturs að nú sitja olíuhreinsistöðvar uppi með heilu fjöllin af brennisteini sem búið er að fjarlægja úr olíunni og helmingur kostnaðar við kolaorkuver eru hreinsivirki til að fjarlægja m.a. brennisteininn.
Tækni til að fjarlægja brennistein úr útblæstri er nefnilega þekkt um allan heim, hún kostar reyndar pening, svo það er erfitt að ímynda sér að draumur iðnaðarráðherra að lausn á þessu vandamáli muni skapa okkur einhver sóknartækifæri í útflutningi. En gott og vel, fínt ef rétt reynist.
Reyndar verður að hafa í huga að þessi áhrif hafa ekki verið staðfest við Nesjavallavirkjun að því að fram kemur á vef Orkuveitu Reykjavíkur og eru viðbrögð fyrirtækisins til sóma, en það vill láta rannsaka málið til botns, eins og umhverfismatið gerir reyndar ráð fyrir að gera þurfi hvort eð er. Ef samhengið verður staðfest hlýtur svo að verða byggt hreinsivirki í framhaldinu, jafnvel þótt það byggi ekki endilega á íslenskum uppfinningum.
Ekki er hægt að segja að þetta hafi átt að koma algerlega á óvart, því Umhverfisstofnun benti á gróðurskemmdir við borteiga við vettvangsskoðun:
"Vakin er athygli að í vettvangsferð stofnunarinnar hafi komið í ljós mikil áhrif útstreymi heits vatns grunnt undir yfirborði við rannsóknarholu og útfellingar úr gufu á gróður, einkum mosa og fléttur utan borsvæðis. Talsverðra áhrifa hafi gætt á svæði sem numið hafi nokkrum hekturum að flatarmáli."
Skipulagsstofnun ákvað hins vegar að láta ekki rannsaka skemmdirnar frekar eða gera kröfu um hreinsivirki, heldur leggja eftirlitsskyldu á framkvæmdaaðila:
"Skipulagsstofnun telur að gera megi ráð fyrir nokkrum áhrifum utan skilgreindra borteiga af útstreymi heits vatns frá borholum grunnt undir yfirborði, auk þess sem gufuútstreymi frá borholum yfir gróðurlendi getur hugsanlega spillt gróðri í nálægð holanna. Skipulagsstofnun telur að með þeim mótvægisaðgerðum og eftirliti sem fram koma í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur og fjallað er um í kafla 4.3.2 í þessum úrskurði megi draga úr hugsanlegum áhrifum vatns og gufu á gróður í nágrenni borhola. Þannig þarf að setja dropasíur á blástursbúnað borhola, útbúa svelgholur í jaðri borteiga, skrá plöntutegundir og fylgjast sérstaklega með gróðri þar sem jarðhiti er á yfirborði"
Í því sambandi hljóta að vakna spurningar um ábyrgð framkvæmdaaðila gagnvart umhverfinu, sem er jú ekki aðili með kennitölu og Skipulagsstofnun á að gæta en spurningar um ábyrgð ráðgjafa gagnvart framkvæmdaaðila hljóta einnig að vakna.
Í stóra samhenginu verður maður að segja að enn og aftur koma áhrif ofsafenginnar umræðu um Kárahnjúkavirkjun í ljós í þessari virkjun, því enginn umhverfisverndarsinnana kom heldur fram með athugasemd um þetta atriði eða hinna forljótu lagna og hljóta þau samtök einnig að verða að horfa í eigin barm í framhaldinu.
Gróður drepst vegna mengunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Er þetta ekki bara histería í umhverfisverndarfólki? Hvaða fórn er það þó einhverjir hektarar af þúsundum hektara af mosa sviðni. Eins og plöntufræðingurinn sagði, þá skapar þetta ágæt skilyrði fyrir háplöntur.
Elliðaárdalur var eitt sinn mosa og lyngvaxinn. Í dag er hann skógi vaxinn og allir dásama það. Gerum næsta nágreni Hellisheiðarvirkjunar að skógarparadís og frábæru útivistarsvæði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2008 kl. 01:13
Ég veit ekki hvaða áhrif sýran mun hafa á vaxtarskilyrði háplantna.
Gestur Guðjónsson, 9.9.2008 kl. 01:14
Er þetta umhverfismat okkar ekki alveg stórgallað ?
Sjálfur framkvæmdaaðilinn er látinn sjá alfarið um umhverfismatið . Og yfirleitt leitar hann til undirverktaka við matið sem síðan hafa framtíðarhagsmuni af verkefnum við sjálfa framkvæmdina.
Á Hellisheiðinni er verið að hleypa út gríðarlegu magni af brennisteinsvetni , sem hefur verið innilokað á 2-3 km dýpi, út í andrúmsloftið- dag og nótt -árum saman. Það er til ein mælingastöð á höfuðborgarsvæðinu sem mælir brennisteinsvetni í andrúmsloftinu, inni á Grensás. Mælingar þar sýna mikla aukningu á brennisteinsvetni eftir gangsetningu Hellisheiðarvirkjunar- mæligildi oft yfir þeim mörkum sem t.d Kaliforniuríki setur sem hættumörk.
Hvað með starfsfólk sem þarna vinnur við Hellisheiðarvirkjanirnar- þessi mengun skemmir lungu á nokkrum tíma. Allavega hér er á ferðinni háalvarlegt mál sem skoða verður alveg niður í kjölinn....
Sævar Helgason, 9.9.2008 kl. 09:44
Að framkvæmdaaðilinn framkvæmi matið sjálfur er hið besta mál að mínu mati. Það er í samræmi við "polluter pays principle" og hefur mikið uppeldislegt gildi fyrir framkvæmdaaðila. Framkvæmdaaðilar geta nefnilega oft á tíðum fundið mun hagkvæmari lausnir á þeim vandamálum sem upp koma og leyst þau oft betur en lágmarkskröfur í krafti þekkingar sinnar og fjármagns. Þekki það ágætlega úr mínu starfi í olíugeiranum, þar sem við erum oft að detta niður á betri lausnir en eftirlitsmennirnir fara fram á, enda erum við oft meiri sérfræðingar á viðkomandi sviði en eftirlitsaðilarnir, sem verða einnig að fylgja stjórnsýslulögum, meðalhófi og ég veit ekki hverju.
Hins vegar verður rýniferillinn að taka mið af þeim hagsmunum sem þú lýsir Sævar og er rétt er að mosabruninn sé vegna brennisteins er það talsverður áfellisdómur yfir því ferli. Þar klikkar vísindasamfélagið, Skipulagsstofnun og í rauninni allir nema Umhverfisstofnun, sem benti á þetta í sinni umsögn.
Á þessum tíma voru allir svo uppteknir við að öskra og æpa á Kárahnjúkavirkjun að þetta ferli týndist algerlega í almennri umræðu. Eitthvað sem Landvernd, NSI og önnur samtök horfa framan í núna. Þau sváfu á verðinum.
Hvað varðar vinnuumhverfið veit ég ekki um langtímaáhrif, það er eitthvað sem Vinnueftirlitið hlýtur að hafa á sinni könnu.
Brennisteinsvetni er hættuleg lofttegund og þarf að fylgja reglum um inngöngu í lokuð rými.
Gestur Guðjónsson, 9.9.2008 kl. 09:53
Svo má nú líka velta fyrir sér af hverju háspennumöstrin uppi á heiði eru flest orðin meira og minna ryðguð meðan samskonar möstur sitt hvoru megin við heiðina og á sömu línu eru óryðguð.
Jónas Yngvi Ásgrímsson, 9.9.2008 kl. 10:32
Varðandi háspennumöstrin - Þau eru galvanhúðuð. Þetta brennssteinsumhverfi sem þau eru í frá útblæstri virkjana- eyða upp galvanhúðuninni. Þetta vandamál þekkjum við vel í álverum- þar verður að mála yfir alla galvanhúðun, sé þar settur upp galvanhúðaður búnaður. Þannig að endirnartími þessara mastra er háður ryðgunartímanum- en þarna getur bæst við mikil sjávarselta sem hraðar því ferli..... Það er fátt til gleði þarna...
Sævar Helgason, 9.9.2008 kl. 11:42
Þessar upplýsingar lágu fyrir allan tímann. Síðan skömmu upp úr 1980 hefur verið umhverfisvöktun í Reykjavík og hefur m.a. verið kannað sérstaklega hversu sinkhúð á bárujárni eyðist hratt. Verkfræðistofa Péturs og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hafa staðið í áraraðir með þessar rannsóknir.
Vitað er að sinkhúðin eyðist nú u.þ.b. tvöfalt hraðar og endist skemur að sama skapi en fyrir um 30 árum. Hverju skyldi það vera að kenna? Vitað er að magn brennisteinsvetnis hefur aukist mjög mikið á þessu tímabili en brennisteinsvetni breytist í brennisteinssýru þegar það kemst í tæri við rakann í andrúmsloftinu.
Mosa finnst margir sýna þessu máli mikla léttúð og nefna jafnvel það sem ómerkilegt nöldur í okkur sem viljum fara gætilega í þessum málum. Eigi er gott að hlusta á hjal slíkra gallagripa. Betur væri að þeir legðu e-ð þarflegt til í umræðunni enda varða þessi mál okkur mjög.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 9.9.2008 kl. 13:06
Mengunin frá virkjununum á Hellisheiði er langt undir öllum alþjóðlegum viðmiðunarstöðlum í Rvk.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2008 kl. 15:23
Gunnar: Það er rétt, en það eru heilsuverndarmörk.
Það sem um er rætt hér eru áhrif á gróður.
Gestur Guðjónsson, 9.9.2008 kl. 16:57
Hjá mér vakna nú spurningar um milljarðaverðmæti íslenskrar þekkingar á beislun jarhitaorku.
Árni Gunnarsson, 9.9.2008 kl. 17:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.