Breyting á ráðuneytum - skýrar tillögur

Á síðasta flokksþingi Framóknar var kynnt vinna starfshóps sem vann að tillögum um breytingum á Stjórnarráði Íslands, þ.e. ráðuneytunum.

Hópurinn skilaði niðurstöðu í formi frumvarps til laga, sem hægt væri að taka til efnislegrar meðferðar strax á næsta þingi.

Meginatriði tillagna nefndarinnar eru eftirfarandi:

  • Áréttað er að ríkisstjórn skiptir sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn.
  • Grunneiningar Stjórnarráðsins verði um 60 skrifstofur.
  • Mál, sem eðli máls samkvæmt heyra saman, falla undir sömu skrifstofu.
  • Unnt verður að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta.
  • Samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta eru ekki bundin í lögum.
  • Illsamrýmanleg mál eiga ekki að heyra undir sama ráðherra.
  • Forsætisráðherra fer að jafnaði ekki með önnur málefni en æðstu yfirstjórn.
  • Áréttuð er heimild til þess að skipa ráðherra án ráðuneytis.
  • Bætt er við heimild til þess að skipa aðstoðarutanríkisráðherra.
  • Ráðherrar sitja ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti.
  • Ekki er dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika.
  • Pólitísk forysta í Stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfi er stórefld.

Í tillögunum er sem sagt tekið á fjölda mála sem hefur staðið stjórnsýslunni fyrir þrifum. Allir flokkar hafa stundað pólitískar ráðningar inn í embættismannakerfið, vegna þess að einn aðstoðarmaður ráðherra er ekki nóg. Betra er að hlutirnir heiti sínu rétta nafni og heimilað verði að ráða fleiri pólitíska aðstoðarmenn tímabundið, en þeim sé ekki troðið inn í embættismannahópinn, sem fær þar með meiri frið til að vinna sína vinnu. Um þetta hefur verið rætt og ritað lengi, sem og það að ráðherrar séu ekki þingmenn samtímis og heimilt verði að ráða ráðherra án ráðuneytis, til að sinna sérstökum verkefnum, t.d. ef gengið yrði til samninga við Evrópusambandið gæti sá sem leiddi þá vinnu verið slíkur ráðherra.

Meginbreytingin í nálgun Framsóknar að stjórnarráðinu er að grundvalla stjórnarráðið ekki á ráðuneytum, heldur skrifstofum, sem svo eru sett saman í ráðuneyti. Skrifstofurnar séu einingar sem gangi starfsmannalega upp, þannig að yfirmaður skrifstofu hafi hæfilega marga undirmenn. Samsetning skrifstofa í ráðuneyti væri hægt að hafa breytileg, allt eftir þeim áherslum sem stjórnvöld hafa á hverjum tíma og þeim verkefnum sem fyrir liggja. Lög frá Alþingi kvæðu ekki á um hvar innan framkvæmdavaldsins verkefnin væru leyst, heldur væri það á ábyrgð framkvæmdavaldsins. Á þann hátt og með því að ráðherrar gegndu ekki samtímis þingmennsku, væri aðskilnaður löggjafar og framkvæmdavalds betur tryggður.

Í lok skýrslunnar er svo sett upp dæmi um ráðuneyti og skrifstofur eins og við sáum þetta fyrir okkur. Þær hugmyndir eru ekki endanlegar og verða það aldrei, en með því að innleiða skrifstofuhugsunina, er frekar tryggt að stjórnarráðið endurspegli frekar þau verkefni sem það þarf að inna af hendi á skilvirkan hátt.

Hinir flokkarnir hafa allir talað um fækkun ráðuneyta og nefnt eitt eða tvö, en engin þeirra hefur skoðað málið í heild sinni til enda. Það hefur Framsókn gert í anda sinnar hefðar, öfgalaust, frjótt og skynsamlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þetta eru skynsamlegar tillögur enda auka þær sveigjanleikann í stjórnkerfinu sem ekki er vanþörf á. Hvað varðar aðskilnað framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins þá það löngu tímabært að slíkur aðskilnaður fari fram enda nærri 300 ár síðan Montesque benti á þrískiptingu ríkisvaldsins en ekki tvískiptingu. Þegar á heildina er litið gott mál. Langar líka að benda þér Gestur á þessa færslu um tengt efni.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 19.4.2007 kl. 15:33

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Áhugavert. Það er full ástæða til að bæta verklag við lagasetningu og lykillinn að því er verkefnastjórnun, sem þýðir styrkingu nefndasviðsins, að maður tali nú ekki um að lengja vinnuárið og það að verða endurflytja öll mál, sem kannski eru komin í 2. umræðu eða lengra.

Gestur Guðjónsson, 19.4.2007 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband