Koma þörungar loftslaginu til bjargar?

Það er afar spennandi að fylgjast með umræðunni um framtíðarorkugjafa samgöngukerfis heimsins.

Á ráðstefnunni Driving Sustainability sem haldin var hérna í Reykjavík í fyrravetur, var í mínu huga endanlega ljóst að bílar framtíðarinnar verða knúnir tengitvinnvélum, þeas rafmagnsmótorum og hleðslubatterýum auk þess sem bremsuorka bílsins verður nýtt til rafmagnsframleiðslu. Þar sem orkuþéttleiki batterýa er afar lítill munu bílar sem þurfa svo að fara yfir lengri veg verða að auki búnir rafli, knúnum af fljótandi eldsneyti eða gasi:

  1. Jarðefnaeldsneyti, með öllum þeim áhrifum sem það hefur á umhverfið, en sem betur fer eru vélarnar enn að þróast, sérstaklega gasolíuvélin (e:diesel), sem mun nýtast öðru eldsneyti þegar þar að kemur.
  2. Metani framleiddu úr þeim úrgangi sem er til á viðkomandi svæði, eins og gert er hjá Sorpu.
  3. Vetni, þar sem umhverfisvæn raforka er til staðar.
  4. Metanóli sem framleitt er úr þeim koltvísýringi sem til reiðu er á þeim svæðum sem umhverfisvæn raforka er til staðar.
  5. Jurtakolvetni, annaðhvort sem etanól eða jurtaolía.
  6. Þörungaolíu, sem brennt er annaðhvort í bensín- eða gasolíuvélum.

Metanið er komið í ágætan farveg hér á landi, í það minnsta hjá Sorpu og er einsýnt að ríkisvaldið verður að tryggja í gegnum skattkerfið að það verði allt nýtt á bíla. Það er ekki forsvaranlegt að það skuli ekki allt nýtt á bíla.

Ég hef takmarkaða trú á vetni. Það hættulegt við geymslu vegna hás þrýstings og er orkuþéttleikinn ekki nægjanlega hár við gasgeymslu í það minnsta. Hættan er kannski ekki mikil á nýjum bílum, en þegar þeir eldast og tæring hefst getum við endað með sprengjur á hjólum. Forsenda fyrir því að vetni sé umhverfisvænt er aðgengi að útblásturslausu rafmagni. Það er takmarkað í stórum ríkjum, svo fjöldaframleiðsla á vetnisbílum mun að líkindum seint borga sig. Lausnin er að auki afar dýr, þar sem kosta þarf innleiðingu alveg nýrra innviða í orkudreifingunni. En vetni getur alveg nýst við sérstakar aðstæður, þar sem hægt er að geyma það á öruggan hátt. Sérstaklega sé ég skipaflotann fyrir mér og verður spennandi að fylgjast með tilraunum í þá veru.

Metanólframleiðsla hefur lengi verið möguleiki hér á landi, enda til staðar umhverfisvæn raforka. Þar sem það er tilfellið, vind-, jarðgufu-, vatnsafls- eða kjarnorkurafmagn, er metanólframleiðsla áhugaverður kostur. Vandinn við metanólið er að það er eitrað og því mun vandasamara í meðhöndlun en venjulegt bensín og lífrænt eldsneyti. Líkurnar á því að metanól verði útbreidd lausn á heimsvísu er því kannski takmörkuð en þar sem hægt er að nýta það í stað bensíns getur það tæknilega og innviðalega auðveldlega komið í stað bensíns að öllu leiti eða hluta þar sem þær aðstæður eru, eins og hér á landi.

Jurtakolvetni hefur verið notað í Brasilíu um áratugi með góðum árangri. Bandaríkjamenn hafa lagt mikla áherslu á þessa leið, en vandinn við hana er sú að í framleiðsluna, eins og hún er í dag, fara matvæli, sem skortur er af í heiminum. Er það því vart siðferðilega forsvaranlegt að nýta matvæli í þetta, auk þess sem mikið magn jarðefnaeldsneytis fer í framleiðslu á eldsneytinu, svo umhverfisávinningurinn er oft afar lítill, ef einhver. Hann er mikill í heitu löndunum, en sú leið sem Bandaríkjamenn fara er umhverfisneikvæð að stórum hlutum. Reyndar er verið að skoða nýtingu annara kolvetna en sæðis, eins og hálms, grass og annars lífræns úrgangs, en forvinna á þeim fyrir gerjun hefur þó hingað til verið afar dýr, orkufrek og kostað efnanotkun og þar með mengun, en margir aðilar vinna hörðum höndum að nýjum lausnum á þeim vettvangi. Líklegt er að etanól og jurtaolía muni leysa einhvern hluta jarðefnaeldsneytisins af hólmi, þar sem aðstæður eru til staðar og bruggefni ódýrt, enda hægt að blanda þessum afurðum saman og brenna á nákvæmlega sömu vélum og hægt að nýta þá innviði sem eru til staðar. Uppskerubrestur þarf því ekki að þýða einhver stórvandræði, bara meiri brennslu á jarðefnaeldsneyti.

Það sem ég tel þó algerlega víst að verði meginkeppinautur og meginarftaki jarðefnaeldsneytis á samgöngutæki eru þörungar. Ræktun þeirra krefst sólar og vatns, auk næringarefna og pláss. Hiti eykur svo afkastagetuna. Verið er að leita að og þróa þörunga sem framleiða vökva sem nýtist nánast beint til eldsneytisframleiðslu án mikillar vinnslu. Helsti kosturinn er einfaldleikinn. Þörungunum er hægt að dæla til og frá og hræra í þeim sem er afar orkuvæn aðferð og öll grundvallartækni framleiðslunnar er því velþekkt og einföld. Hátæknin liggur í þróun sjálfra þörunganna.  Sumarnæturnar íslensku ásamt heitu og gnægð volgs vatns gerir okkar stöðu ákjósanlega til framleiðslu á þörungum og nóg er plássið. Tel til dæmis einsýnt að í nágrenni jarðgufuvirkjana verði staðsett þörungaeldi og vinnsla, þar sem kælivatnið er nýtt í þörungaeldið en gufan í eiminguna.

Einn stærsti kosturinn í mínum huga er sá að framleiðsla þörunga er vænlegust einmitt á þeim svæðum sem eru rík af olíu í dag. Því yrði ekki um eins stóra tilfærslu á völdum og yrði við aðrar breytingar og því líklegra að þetta komist pólitískt á koppinn án stórátaka. Það sem helst heldur aftur af útbreiðslunni er að rannsóknarstofur sem eru að þróa þörungana hafa þegar sótt um einkaleyfi á sínum vörum og geta þar með mjólkað þörungaframleiðendur að vild næsta áratuginn eftir að varan kemur á markað. Þær verða því að einhverju leiti í sömu stöðu og eigendur olíulinda í dag, enda þeir aðilar einna stórtækastir í fjárfestingum í þörungatækninni. Eðlilega, þeir vita hvað það eru miklir peningar í spilunum.

Þessi þróun mun auðvitað taka einhvern tíma, líklegast 20-30 ár, en þangað til verðum við að keyra þróunina í átt til tvíorkubíla, tvinnbíla, sem hægt er að færa yfir í umhverfisvænt fljótandi eldsneyti í þeim mæli sem það er til staðar.

Þetta er orðið allt of langt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Það vantar fjármagn og ákvarðanatöku þar um  í rannsóknir og þróunarvinnu.

annars fróðlegt.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 19.8.2008 kl. 02:02

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þörungar til bjargar umhverfinu - framsókn til bjargar íhaldinu. Það eru einhver undarleg líkindi hér á ferð. Eru þörungar ekki annars eitraðir?

Heimir Eyvindarson, 20.8.2008 kl. 00:59

3 Smámynd: Snorri Hansson

Samkvæmtfrétt frá Verkfræðistofunni Mannvit verður komin í gang verksmiðja á suðurnesjum sem framleiðir Methanol sem

með 5% íblöndun af bensini og verður hægt að setja á allar bensinvélar.Þessi framleiðsla fer í gang í mai á næsts ári.

Framleiðslugeta á fyrsta ári verður á fimmta miljón lítra

Snorri Hansson, 27.8.2008 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband