Einkavæðing í pípunum?
8.1.2009 | 10:43
Ef loka á St Jósefsspítala í Hafnarfirði, stendur hús sem er svo heppilega með legurými, skurðstofur og alla aðra aðstöðu til reksturs spítala autt.
Slíkar eignir þýðir jú ekkert að liggja með ef einhver vill kaupa.
Ætli kaupandinn komi svo ekki með hugmyndir um rekstur og þrýsti svo á heilbrigðisráðherra um að hann kaupi af þeim þjónustu?
Það er jú svo hagkvæmt að kaupa þjónustuna af einkaaðilum, ekki satt?
![]() |
Framsóknarmenn mótmæla vinnubrögðum heilbrigðisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vönduð vinna skilar árangri
7.1.2009 | 08:20
Nýi meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð sem hann axlaði, þegar Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir leystu borgina undan viðjum stjórnleysis.
Að geta skilað fjárhagsáætlun í þessu árferði, þar sem varnarlínan er dregin við að engum verði sagt upp, engin grunnþjónusta skert og engar gjaldskrár hækkaðar, er stórafrek.
Strax í myndun meirihlutans var ákveðið að taka þyrfti á fjármálum borgarinnar af ábyrgð og festu og hefur sú vandaða vinna sem Óskar og Hanna Birna hafa leitt, í mun meiri samvinnu við minnihlutann en áður hefur þekkst, en ekki síður í góðri samvinnu við stjórnkerfi borgarinnar, skilað þeim árangri að borginni verður stjórnað með hliðsjón af eins raunhæfri fjárhagsáætlun og aðstæður í samfélaginu gera mögulegt.
Við í umhverfis- og samgönguráði unnum fjölda hagræðingartillagna með starfsmönnum sviðsins, sem hafa mætt þeim kröfum sem til okkar voru gerðar, auk þess sem við komum með nokkrar miðlægar tillögur sem eru ekki bara til peningalegs hagræðis, heldur einnig umhverfislegs. Umhverfismál þurfa nefnilega ekki alltaf að kosta aukin útgjöld. Góðir búskaparhættir eru nefnilega yfirleitt umhverfisvænni en aðrir. Um tillögurnar var góð sátt alveg fram á síðasta fund, þegar fulltrúar minnihlutans fóru allt í einu að bóka á neikvæðum nótum. Það er þeirra val, sem ég harma, því það er jú auðvitað alltaf betra fyrir borgarbúa að hafa alla sjö ráðsmennina saman í liði við að gera borgina betri, en að vera fjögur við það en hafa þrjá af fulltrúum upptekna við að finna atriði sem hægt er að slá pólitískar keilur með. Vonandi fellur þessi veggur sem fyrst aftur, því hugmyndir minnihlutans eru auðvitað margar góðar, minna væri nú.
Þessari fjárhagsáætlun verður fylgt eftir með nýjum hætti, þar sem hún verður endurskoðuð reglulega, sem er afar jákvætt, sérstaklega í þessu efnahagsumhverfi og vonandi heldur það verklag áfram einnig þegar ísa leysir.
En vinnubrögðin eru til fyrirmyndar, niðurstaðan eftir því og ég er stoltur af því að tilheyra þessum hópi.
![]() |
Rætt um fjárhagsáætlun fram á nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er sem sagt fiskur undir steini?
6.1.2009 | 14:21
Það er greinilegt að í þessu máli, eins og í öllu sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, er ekki öll sagan sögð.
Getur verið að þessi varfærna nálgun ríkislögmanns og bresku lögmannana gagnvart breskum yfirvöldum sé vegna þess að í ljós hefur komið að bankarnir hafi hagað sér með þeim hætti að bresk stjórnvöld hafi í raun haft ástæðu til að ætla að verið væri að fremja ólöglega gerninga, sem sett gæti breska fjármálakerfið á hliðina?
Mér finnst ekki hafa komið fram með nægjanlega skýrum hætti hvað gordon brown átti við þegar hann talaði um peningasendingar til Íslands og eins hvort rétt sé að þær hafi farið beinustu leið til Lúxemborgar og hvert þá þaðan.
Ef það er fiskur undir steini, verðum við sem þurfum að borga brúsan að vita af því. Auðvitað er ekki hægt að segja frá því í smáatriðum núna, en mér væri nægjanlegt að vita að verið sé að rannsaka það mál af efnahagsbrotadeild með ákæru í huga.
![]() |
Leita til mannréttindadómstóls |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ísraelsstríðið og Íraksstríðið
5.1.2009 | 10:06
Þegar forystumenn ríkisstjórnar Íslands tóku ákvörðun um að styðja Azoreyjayfirlýsinguna, sem innihélt m.a. stuðning við innrás í Írak, en reyndar einnig loforð USA um stofnun Palestínuríkis, fór formaður Samfylkingarinnar hamförum yfir því að sú ákvörðun hafi verið tekin án samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis.
- með réttu.
En nú ber svo við að utanríkisráðherra fordæmir innrás Ísraelsmanna inn í Gaza
- með réttu.
En hún gerir það algerlega án nokkurs samráðs. Ekki einu sinni innan ríkisstjórnarinnar, hvað þá við utanríkismálanefnd.
Ætlar niðurlægingu Alþingis og ósamkvæmni Samfylkingarinnar aldrei að linna?
![]() |
Æfðu innrásina í átján mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ábyrgðarflótti Samfylkingarinnar?
5.1.2009 | 01:46
Í febrúar mun IMF meta stöðuna á Íslandi á ný, áður en næsti hluti lánsins verður veittur sem og megnið af lánum frá vinaþjóðum okkar. Þá eiga einnig að vera komin fram fjárlög fyrir árið 2010. Þau verða að vera hallalaus, að því að ég heyri.
Það þýðir geysilegan niðurskurð í velferðarkerfinu og skattahækkanir.
Ummæli undanfarinna daga fá mann til að hugsa að við þessari stöðu hafi Samfylkingin bara eitt svar. Að flýja af hólmi og slíta stjórnarsamstarfinu, til að þurfa ekki að takast á við óvinsældir þessara aðgerða.
Sjálfstæðismönnum er hótað og storkað, þannig að þeir geti ekki samþykkt eins róttæka breytingu í Evrópumálum og annars hefði orðið. Stolt þeirra leyfir ekki að láta stjórnmálamenn í öðrum flokkum ráða för í stefnumótun flokksins.
Þá niðurstöðu mun hún svo nýta sem átyllu fyrir stjórnarslitum, til að verja þá stöðu sem Samfylkingin hefur í skoðanakönnunum.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur þá frammi fyrir tveimur kostum, hafandi þingrofsréttinn. Annaðhvort að fara í kosningar með afleita upphafsstöðu og enn verri horfur og tryggja Samfylkingunni lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum, eða að byggja brú yfir til VG með tvöföldu ESB leiðinni sem Geir H Haarde virðist nú flúinn í. Það er leið sem við Framsóknarmenn töldum okkur hafa tíma í fyrir hrun, en það er ljóst í mínum huga að við höfum ekki lengur þann tíma. Við verðum að hafa nothæfa mynt til að efnahagslífið geti komist í gang á ný og hægt verði að fjárfesta á ný í atvinnulífinu.
Þannig mun Geir H Haarde fá einhvern tíma til að reyna að bæta stöðu eigin flokks, áður en bakland VG springur og boðað yrði til kosninga.
![]() |
ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Keisarinn er nakinn - Landið er stjórnlaust
4.1.2009 | 19:54
Utanríkisráðherra fordæmir sem betur fer innrás Ísraelsmanna á Gaza - Menntamálaráðherra segir ekki hægt að fordæma hana.
Sjálfstæðisflokkurinn veit ekki hvað hann vill í ESB málum - amk ekki enn og er að undirbúa það undir hótunum Samfylkingarinnar um að ríkisstjórnarsamstarfinu sé sjálfhætt, verði ekki sótt um aðild, jafnvel þótt ríkisstjórnarsáttmálinn sé skýr á ESB sviðinu
Enginn veit hvað ríkisstjórnin ætlar að gera varðandi lögsókn á hendur Breta, jafnvel þótt Alþingi hafi talað afar skýrt.
Enginn veit hvað ríkisstjórnin ætlar sér í efnahagsmálum. Líklegast vegna þess að flokkarnir geta ekki komið sér saman um hvert halda skuli.
Seðlabankastjóri situr, jafnvel þótt Samfylkingin vilji hann burt.
Yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins situr, jafnvel þótt þingmenn Sjálfstæðismanna vilji endurnýjun þar.
Það er eins og barnið sagði, keisarinn er nakinn.
Það er öllum ljóst sem það vilja sjá. Landið er stjórnlaust.
![]() |
Fordæmir innrás á Gasa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað er að gerast?
4.1.2009 | 00:53
Ég á erfitt með að sjá að arabaheimurinn sitji með hendur í skauti ef landheri Ísraelsmanna er kominn inn í Gaza. Það er spurning hvaða þjóðir bregðist til varnar.
Kannski er það tilgangurinn, að storka þjóðum eins og Írönum til að bregðast við og þannig sé George W Bush kominn með tylliástæðu til að ráðast inn í Íran og Sýrland áður en hann lætur af völdin í hendur Obama.
Guð forði okkur frá þeim hildarleik sem af því hlytist
![]() |
Landher Ísraels inn á Gaza |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað getur réttlætt aðgerðir Ísraelsmanna?
2.1.2009 | 12:15
Sú sorg og þær hörmungar sem Palestínumenn hafa þurft að þola síðan við Íslendingar, ásamt meirihluta ríkja Sameinuðu þjóðanna, samþykktum stofnun Ísraelsríkis eru óendanlegar.
Ekki var staðið við þá samþykkt og stofnuð tvö ríki og enn er því ekki lokið, heldur fá Ísraelsmenn með aðstoð Bandaríkjamanna að murka lífið úr heilli þjóð, þannig á endanum verður kannski engin þjóð til að stofna Palestínuríki.
Ætla menn bara að segja sorrý og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist eftir þessi morð?
Þó ekki eigi að bæta eitt böl með því að benda á annað verra, eru þjáningar írösku þjóðarinnar hjóm eitt á móts við langvarandi þjáningar Palestínumanna. Samt var farið í aðgerðir gegn íröskum valdhöfum, sem við Íslendingar studdum, þótt á röngum forsendum hefði verið.
Það urðu margir reiðir Framsókn að standa að stuðningnum við innrásina í Írak, innanflokks sem utan.
Ekki var staðið að þeirri ákvörðun með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið og vonandi munu stjórnmálin læra af því. Framsókn hefur viðurkennt það og hefur lært af þeirri reynslu. Reyndar sýnist manni vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar við samningagerð um stærstu efnahagshagsmuni þjóðarinnar frá lýðveldisstofnun vera með jafnvel enn verri hætti í því tilfelli, svo það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ósáttur við svona vinnubrögð og gengisfall Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar er fordæmalaus í þessu ljósi.
En ákvörðunin um stuðning við innrásina í Írak var byggð á ákveðnum forsendum. Forsendum sem ekki stóðust og ekki var staðið við.
Stuðningurinn fólst í því að forsætisráðherra og utanríkisráðherra studdu svokallaða Azoreyjayfirlýsingu: http://www.whitehouse.gov/news/releases/2003/03/20030316-3.html
Azoreyjayfirlýsingin snérist um margt annað en bara nauðsyn þess að steypa níðingnum Saddam Hussein af stóli.
- Hún innihélt yfirlýsingu um að Saddam Hussein byggi yfir gereyðingarvopnum.
- Hún innihélt yfirlýsingu um að Saddam Hussein byggi yfir efnavopnum
- Hún innihélt yfirlýsingu um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu.
Sú fullyrðing að Saddam Hussein byggi yfir gereyðingarvopnum og efnavopnum reyndist helber lygi í Bandaríkjamönnum. Lygi sem aldrei má gleymast þegar upplýsingar frá leyniþjónustu Bandaríkjanna eru metnar.
Ég gagnrýndi Halldór Ásgrímsson harkalega þegar hann kynnti okkur frambjóðendum í Reykjavík þessa ákvörðun, vildi að slík ákvörðun væri tekin á grundvelli Sameinuðu þjóðanna. Eftir að hann hafði farið yfir málið með okkur og sagt okkur hvað hékk fleira á spýtunni á grundvelli Azoreyjayfirlýsingarinnar, ákvað ég að sýna ákvörðunni skilning og verja hana. Út frá þeim forsendum sem lágu fyrir og í trausti þess að þetta tæki fljótt af var það rétt ákvörðun hjá mér á þeim tíma.
Frakkar og Rússar höfðu slíka hagsmuni að vernda í Írak, Frakkar í formi olíusölusamninga og Rússar í formi tækni- og vinnslusamninga að það var mat þeirra sem stóðu að þessar þjóðir myndu alltaf beita eða misbeita neitunarvaldi sínu gegn innrás í Írak. Viðbrögð þjóða heims við fjármálakreppunni núna ættu að sýna mönnum og sanna hvernig stórþjóðir vinna. Þær beita sér hiklaust til að ná fram sínum hagsmunum. Er enginn bróðir í þeim leik.
Lygin um að Saddam Hussein byggi yfir gereyðingarvopnum gerði það að verkum að það var erfitt að réttlæta það að aðhafast ekkert, þótt það afsaki ekki að aðrir níðingar séu ekki stoppaðir.
Eins og ætti að gera við Ísraelsmenn núna.
og enn er ekki búið að stofna Palestínuríki...
![]() |
Ísraelsher ofmat ógnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)