Dýrmætur svefn

Var í Stavanger í gær vegna vinnunnar. Verkefninu lauk um kl 3 i nótt og thar sem flugid var áætlad kl 10, ákvad ég ad ná mér i smá kríu. Sá fram á ca 4 tíma svefn. Thegar ég loksins fann laust hótelherbergi fékk ég verdid framan í mig: 16.000 kall. 4.000 kall á tímann. Ég var svo hlessa ad ég eyddi næstum helmingnum af thessum dýrmæta tíma í ad jafna mig.

Hver segir svo ad thad sé bara dýrt ad lifa á Íslandi...


Er nammið búið úr pokanum?

Hin ofþöndu fjárlög kratanna og íhaldsins, sem bólgnuðu út um 18% frá síðasta ári, eru að koma ríkisstjórninni í koll núna. Nammið er búið úr pokanum, búið að lofa öllu fögru til hægri og vinstri, í samgöngubætur, velferðarbætur og hin og þessi loforð, sem hver um sig eru góðra gjalda verð, en samanlagt gefa þau minna en ekkert rými í hagkerfinu til að liðka fyrir kjaraviðræðum, sem eru þó líklegast mikilvægasti einstaki áhrifavaldurinn á stöðugleikann.

Stöðugleikinn er svo forsenda áframhaldandi velmegunar, þannig að með austri sínum er nammið ekki bara búið heldur er hagkerfið komið með í magann af væntingum og mun þurfa fyrirlegu meðan að það nær sér á ný.

Það var þá björgulegt. Vonandi bráir þó fljótlega af því, með hjálp Seðlabankans, aðila vinnumarkaðarins og fleiri góðra aðila, en það er amk ekki með hjálp ríkisstjórnarinnar, svo mikið er víst. Hún hefði betur hlustað á málflutning Framsóknar í haust.


mbl.is Flóabandalagið vísar kjaradeilu til sáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Stefán taka sömu forsendur með sér í nýja djobbið

... og hann notaði þegar hann fór í talnaleikfimi fyrir síðustu kostningar til að sýna undrandi almenningi að hann hefði það víst mun verr nú en áður en 60% kaupmáttaraukningin reið yfir í tíð síðustu ríkisstjórnar?

Það verður áhugavert að fylgjast með því.

Farnist honum vel í því verkefni sem og öðrum, því af nógu er alltaf að taka í þessum málaflokki, sem oft á tíðum er afar vanþakklátt.


mbl.is Stefán Ólafsson prófessor formaður TR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ráðning í miklu ráðningafári

Í öllu þessu ráðningafári er ráðning Margrétar Frímannsdóttur sem forstöðumanns Litla-Hrauns ljós í myrkrinu. Hennar reynsla, hjartalag og mannkostir allir gera hana afar hæfa í embættið. Ég var að vonast til þess að hún hefði verið sett Fangelsismálastjóri, en í lögum kveður á um að í þá stöðu skuli skipa lögfræðing, þannig að það var víst ekki hægt.


mbl.is Margrét Frímannsdóttir forstöðumaður Litla-Hrauns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta forsmekkurinn að því sem koma skal?

Nú er íhaldið komin í heilbrigðisráðuneytið með sína óheftu frjálshyggju og er þegar komið í æfingar með komugjöld. Ætli það sé ekki verið að venja aldraða og öryrkja við það að þeirra afsláttur falli alveg niður og svo er röðin næst komin að barnafólkinu?

Ætli það verði tekið tillit til þessa við ákvörðun bótaupphæða þessara hópa?


mbl.is Mótmælir hækkun komugjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskrandi þögn Samfylkingarinnar í kjaramálum

Eins og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa verið yfirlýsingaglaðir um hvað eina sem viðkemur þeirra ráðuneytum og annarra, er þögn þeirra í sambandi við tillögur ASÍ í tengslum við kjarasamninga æpandi. Sérstaklega kemur þetta á óvart þegar haft er í huga hve greiðan aðgang forysta ASÍ hefur að innsta hring Samfylkingarinnar.

Getur það verið vegna þess að þeir hafi viðhaft varnaðarorð eins og Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, viðhefur á bloggi sínu í dag, þegar hann segir ríkisstjórnina skorta yfirsýn í efnahagsmálum.

Bendir hann á, rétt eins og Framsókn hefur gert um árabil, núna síðast í umræðum um fjárlögin fyrir jól, að efnahagsmálin séu stóru kjaramálin:

"Það hefur alltaf legið fyrir að ef ríkisstjórnin komi ekki að málinu með ábyrgri efnahagstjórn, þá liggur fyrir að tilboð SA sem er helmingi lægra en verðbólgan og verður enn lægra þegar líður á árið vegna, sem bein afleiðing rangrar afstöðu ríkistjórnarinnar. " 

og líkur máli sínu á eftirfarandi hátt:

"Hafa stjórnvöld ekki áttað sig á því að núverandi ástand kallar á stefnubreytingu í efnhagsstjórn?"

Hverju svarar Samfylkingin þessu, er hún sammála afstöðu Sjálfstæðisflokksins, sem telur illmögulegt væri að veita lágtekjufólki auka persónuafslátt upp á tuttugu þúsund krónur, eins og verkalýðshreyfingin hefði farið fram á? 

Reyndar get ég ekki verið sammála Guðmundi í söguskýringu sinni að "Mestu mistökin voru að sleppa bönkunum afskiptalausum inn á íbúðalánamarkaðinn til þess að efna kosningaloforð." Vill Guðmundur að bönkunum hefði verið bannað að fara inn á íbúðalánamarkaðinn og taka þar með upp skömmtunarkerfi lánsfjármagns á ný?

Gassaleg innkoma bankana á íbúðalánamarkaðinn var ekki stjórnvaldsákvörðun, heldur óábyrg varnaraðgerð bankanna til að verja stöðu sína á markaði, þar sem þeir höfðu getað makað krókinn við fjármögnun síðustu 20-35% íbúðakaupa almennings, sem fyrirheit síðustu ríkisstjórnar um allt að 90% lánshlutfalli á góðum kjörum, ef efnahagsástand hefði leyft, óneitanlega var.


Tillögur til bóta eða hvað?

Mér sýnast þessar tillögur sem Viðskiptaráðherra ætlar sér að fara að vinna og fá í gegnum ríkisstjórn og svo Alþingi góðra gjalda verðar. Finnst reyndar vogað af honum að segja hvað hann ætli sér að ná í gegnum ríkisstjórn og þingflokka ríkisstjórnarinnar án þess að það liggi fyrir, en það er hans mál.

Ég hef heyrt raddir um að seðilgjaldið sé ólöglegt eins og það er í dag, þar sem það liggur blátt bann við gjaldtöku fyrir útgáfu reiknings. Veit einhver hvort Hæstiréttur hafi fjallað um heimild til álagningar seðilgjalds?

Hvað uppgreiðslugjaldið varðar, þá þýðir það 0,25% hærri vexti, ef miða má við Íbúðalánasjóð. Þannig er í rauninni verið að þvinga 0,25% vaxtahækkun á alla sem taka 50 milljón króna lán eða minna. Betra væri að hafa þetta valkvætt fyrir öll lán.

Viðbrögð bankanna við takmörkunum á FIT kostnaði hlýtur að vera að bjóða viðskiptavinum upp á tvennt. Annaðhvort að hafa FIT kostnaðinn áfram eða að undirgangast harðara eftirlit með reikningum manna, lokun á kortum, auknar innhringingar o.s.frv. En það er gott að þetta skuli vera gert samningsskylt, eins og öll kjör eiga að vera. En þetta tel ég að muni ekki breyta miklu.

Ég held almennt að þessar aðgerðir muni lítið gagnast til að auka samkeppni á bankamarkaði. Það verður ekki fyrr en stimpligjaldið verður afnumið að einhver raunveruleg samkeppni mun skapast milli bankanna að maður tali nú ekki um innkomu fleiri aðila á markaðinn.


mbl.is Seðilgjöld heyri sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við hverja er verið að semja?

Mér finnst svolítið skrítin sú nálgun sem verkalýðshreyfingin er að taka á kjarasamningaviðræðurnar.

Ef hún fær ekki ríkisstjórnina til að breyta sinni pólitík ætlar hún ekki að tala við SA! Ég hélt í einfeldni minni að SA væri sá aðili sem verkalýðshreyfingin væri að semja við!

Kjósendur, þmt launþegar, semja við stjórnmálaflokkana á fjögurra ára fresti, í kosningum. Allir flokkar lögðu fram skattatillögur í kosningunum, misgreinargóðar þó og mis-misvísandi og á grundvelli þeirra var stjórnarsáttmáli þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn byggður. Vettvangur stjórnmálamannana er svo Alþingi, sem ákvarðar skattana og er nýbúið að ákvarða rammann um skattheimtuna fyrir næsta ár, í fjárlögum. Út frá honum eiga geta aðilar vinnumarkaðarins að geta gengið.

Annað ferli er óheppilegt og skapar bara glundroða. Það er hlutverk Alþingis að hafa þennan ramma eins góðan og skýran og hægt er til að samningaviðræðurnar geti orðið eins einfaldar og unnt er, en allur glundroði frá hendi ríkisstjórnarinnar, skilar sér beint inn í kjaraviðræður sem enn meiri glundroði þar sem óþekktu stærðunum sem fjallað er um fjölgar bara við svona nálgun.

Við skulum ekki gleyma því að öll óvissa og glundroði skilar sér sem hærri álagning, verðlag og þar með verðbólga, sem kemur öllu launafólki illa, sérstaklega þeim sem minnst hafa og skulda mest.

En það sem upp úr stendur er, að kjarasamningar eru á milli vinnuveitenda og launþega. Ekki annarra. Þessi hliðarleikur verkalýðshreyfingarinnar er ekkert annað en birtingarmynd þeirrar litlu trúar sem hún hefur á ríkisstjórninni og stefnufestu hennar.


Var breytingin á skoðunarkerfi skipa til góðs?

Í handhófsúttekt Siglingastofnunar í sumar kom í ljós að frágangur björgunarbáta í fjölda skipa og báta hefði verið óásættanlegur. Skilja mátti af fulltrúa Siglingastofnunar að þetta ástand væri vegna breytts skoðunarkerfis skipa, en beint eftirlit stofunarinnar var lagt niður og flutt til faggiltra skoðunarstofa (flokkunarfélaga) árið 2004 og mátti skilja af fréttaflutningnum að þetta hafi verið óheillaskref.

Ég er því ósammála. Mér finnst þessi niðurstaða sýna að kerfið er einmitt að virka eins og lagt var upp með. Það er hlutverk Siglingastofnunar að fylgjast með því að flokkunarfélögin sinni sínu eftirliti, nokkuð sem ekki var til að dreifa með sama hætti meðan Siglingastofnun var sjálft með eftirlitið. Ég er þess fullviss að finna hefði mátt sömu ágalla meðan að gamla kerfið var við lýði. Það kom bara ekki í ljós.

Í framhaldinu hlýtur stofnunin að gera athugasemdir við viðkomandi flokkunarfélög og ef þau sýna ítrekað að þau sinni ekki skyldum sínum missa þau heimild sína til eftirlitsins. Þannig er flokkunarfélögunum haldið á tánum í sínum störfum og það sem mestu skipti, öryggi sjófarenda er betur tryggt.


Tvær nýjar Vestfjarðanefndir stofnaðar

Það kann að hljóma vel að stofna fleiri Vestfjarðanefndir til að fjalla um einstök landsvæði.

En þyrfti ríkisstjórnin ekki fyrst að sýna að hún ætli að taka eitthvað mark á þeirri fyrstu og framkvæma eitthvað meira af tillögum hennar áður en hún stofnar til fleiri?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband