Hver sagði hvað hvenær? - er Samfylkingin stjórnlaus?
4.12.2008 | 21:46
Fyrst Davíð sagði ekki 0%, hvað sagði hann þá?
Sagði hann að allt væri í himnalagi?
Einhvernvegin held ég að það geti ekki verið. Ef svo hefði verið ætti það líka að koma fram.
Það sem meira er, ef hann hefur sagt eitthvað í þessa átt, að útlitið væri svart, hví í veröldinni var viðskiptaráðherra ekki gert viðvart um orð seðlabankastjóra, eins og hann hefur haldið fram?
Ef þetta er tilfellið og Ingibjörg Sólrún vantreystir Björgvini G Sigurðssyni sem viðskiptaráðherra á þann hátt að hann fær ekki slíkar upplýsingar, hlýtur maður að spyrja hví í veröldinni hún skiptir honum ekki út fyrir manni sem hún treystir?
Á þessum tímum verður fullkomið traust að ríkja á milli manna í ríkisstjórn, sérstaklega innan stjórnarflokkanna. Getur verið að ástæðan sé að Samfylkingin sé raunverulega klofin, eins og ég hef áður haldið fram að hún sé og slík brottvikning myndi opinbera klofninginn?
![]() |
Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lýðskrumið afhjúpað
4.12.2008 | 15:24
Davíð Oddsson ber fyrir sig bankaleynd þegar hann neitar að upplýsa viðskiptanefnd um vitneskju hans um hvað varð til þess að bretar beittu hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum.
Maður hlýtur að gera þá lágmarkskröfu til formanns viðskiptanefndar, sérstaklega ef viðkomandi er lögfræðingur, að það liggi fyrir hvort heimilt sé að æskja þeirra upplýsinga sem óskað er. Slíkt getur ekki komið mönnum á óvart.
Ef Davíð er ekki stætt á þessu, verður viðskiptanefnd, ef hún vill að borin sé minnsta virðing fyrir sér, að fylgja þessu eftir og krefjast upplýsinganna
- eða viðurkenna að málið hafi allt verið lýðskrum.
Árni Páll Árnason, lögfræðingur og nefndarmaður í viðskiptanefnd, virðist gera sér grein fyrir vitleysunni í sér og samflokksmönnum sínum, þegar hann segir ólíklegt að viðskiptanefnd muni aðhafast frekar í málinu.
Með því hefur hann í raun viðurkennt að um lýðskrum hafi verið að ræða, sem eru vinnubrögð sem eru ekki sæmandi Alþingi Íslendinga.
![]() |
Kom á óvart að Davíð upplýsti ekkert |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Smjörklípa ársins
4.12.2008 | 09:25
Daginn sem krónan er sett á flot lætur Davíð Oddsson hafa eftir sér í viðtali við danskt héraðsfréttablað að hann ætli sér í stjórnmálin á ný, verði hann hrakinn úr Seðlabankastjórastólnum.
Allt fer á hvolf útaf því, þannig að enginn tekur eftir kvörtunum þeirra aðila í fjármálalífinu sem eru beittir höftum og teknir sem gíslar og annarri umfjöllun um stórskaðleg áhrif síðustu aðgerða ríkisstjórnar og Seðlabanka.
Svo er smjörklípan sjálf svo flott: "Davíð Oddsson að koma aftur í stjórnmál"
Bíddu, hætti hann einhverntíma?
Af hverju notaði hann ekki klúbbblað Huddersfield Town United?
![]() |
Davíð: Þá mun ég snúa aftur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Haftasamfélagið í burðarliðnum á ný?
3.12.2008 | 21:28
Stjórn hinna vinnandi stétta kom á almennum höftum árið 1934, tímabundið, en þau voru samt fyrst afnumin að fullu 60 árum síðar.
Núverandi ríkisstjórn virðist ætla að að feta sömu leið.
Gjaldeyrishöft koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu og lífeyrissjóðir eru hvattir til að hafa með sér samráð til að koma í veg fyrir samkeppni um fjárfestingu innanlands með stofnun fjárfestingasjóðs. Ríkið virðist ætla að koma með þeim inn í það. Fyrirtæki landsins mun því bara hafa einn aðila utan ríkisbankanna sem hefur eitthvert fjármagn.
Bankarnir eru nú í ríkiseigu og þessi yfirlýsing viðskiptaráðherra er ekki hægt að skilja með öðrum hætti en að hann sé giska ánægður með völd sín og vilji viðhalda þeim í gegnum pólitískt skipuð bankaráðin. Fínt að fá peninga lánardrottnanna til að leika sér með, en helst ekki neina afskiptasemi. Ég er ekki viss um að lánardrottnarnir séu jafn hrifnir og ráðherran af hugmyndinni.
Allt tal hans um að vilja inn í ESB virðist vera algerlega gleymt, en það byggir jú meðal annars á frjálsu flæði fjármagns, jafnrétti og jafnræði. Ekkert af þessum hugtökum eiga við þann veruleika sem viðskiptaráðherra virðist vilja keyra Ísland í.
Vonandi er ég að misskilja þetta alltsaman, því í svona landi vil ég ekki búa.
![]() |
Ríkið eigi áfram í bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
LÍÚ keyrir ESB umræðuna enn og aftur í skotgrafirnar
3.12.2008 | 14:01
LÍÚ gefur sér forsendur og dæmir svo.
Þeir eru fáir Íslendingarnir sem myndu samþykkja afsal náttúruauðlindanna og vissulega eru allar undanþágur tímabundnar.
Hins vegar er viðurkenning á sérstöðu ekki tímabundin og því hægt að fara með samningsmarkmið sem byggir á þeirri nálgun.
Birti hér grein sem Jón Sigurðsson, fv. formaður Framsóknar birti í Morgunblaðinu um málið í gær:
Eftir Jón Sigurðsson: "Nauðsynlegt er að vönduð umræða fari fram um málið."
TÍMABÆRT er að Íslendingar móti samningsmarkmið sín og samningskröfur gagnvart Evrópusambandinu. Nauðsynlegt er að vönduð umræða fari fram um málið. Hér fylgir lausleg tilraun til að stuðla að umræðum.
1. Íslendingar hljóta að gera ráð fyrir að ákvæði um fortakslausan einhliða úrsagnarrétt verði í aðildarsamningi að ESB og er það í samræmi við 50. gr. Lissabonsáttmála ESB. Slíkt ákvæði fullnægir fullveldiskröfu Íslendinga. Þetta þarf að koma fram í samningi, jafnvel þótt ákvæði Lissabonsáttmálans sé skýrt.
2. Landhelgi Íslands verði áfram sérstakt stjórnunarsvæði, með eigið svæðisráð (skv. reglum ESB um RAC). Tekið verði skýrt fram að engir útlendingar hafa skilgreinda veiðireynslu í landhelginni og koma því ekki til greina við úthlutun veiðiheimilda (sbr. reglu ESB um stöðugt hlutfall). Tekið verði fram að fiskveiðistjórnun, stjórnunarkerfi og úthlutun veiðiheimilda eru á stjórnsviði Íslands og er það í samræmi við nálægðarreglu ESB og CFP. Höfð verði hliðsjón af reglum um landhelgi Möltu þótt lítil sé (Viðbætir III.8 í aðildarsamningi Möltu), af reglum um írska hólfið og Hjaltlandseyjahólfið, og af sérstöðu Azoreyja, Madeira og Kanaríeyja í 349. gr. Lissabonsáttmálans (299. gr. í Nice-sáttmálanum). Eðlilegt er að Íslendingar geri kröfu á grundvelli lífshagsmuna um virkan og varanlegan stuðning ESB varðandi stöðu og rétt Íslendinga í samningum við þriðju ríki um úthafsveiðar, deili- og flökkustofna og veiðar á öðrum hafsvæðum, og verði í aðildarsamningi ákvæði um meðhöndlun slíkra mála andspænis öðrum aðildarþjóðum ESB. Til greina kemur að fallast á að ákvörðun um árlegt heildarveiðimagn verði tekin í ráðherraráði ESB (skv. CFP) en þá á grundvelli tillögu íslenska ráðherrans sem byggist á ráðgjöf íslenskra vísindastofnana.
3. Íslenskur landbúnaður fái ríflegan aðlögunartíma og tillit verði tekið til breytinga yfir til græns stuðnings. Viðurkenndar verði íslenskar heilbrigðiskröfur um innflutt matvæli og innflutning á dýrum. Höfð verði hliðsjón af reglum ESB um finnskan og sænskan Norðurslóðalandbúnað og af reglum um búskap í afskekktum Alpasveitum. Viðurkenndur verði viðlagaréttur Íslendinga vegna fæðuöryggis þjóðarinnar. Eðlilegt er að ákvæði verði í samningi um samfylgd í DOHA-viðræðum WTO.
4. Viðurkennd verði heimild til að nýta á Íslandi sams konar rétt og fram kemur í 2. bókun með aðildarsamningi Finna, um hembygdsrätt á Álandseyjum, svo og í 6. bókun með aðildarsamningi Maltverja, um forgangsrétt heimamanna um atvinnurekstur, fasteignir, lóðir og lendur, sbr. einnig reglur Dana um tómstundahús. Þessi heimild gildi meðal annars og ekki síst um undirstöðuþætti eins og nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og orkuauðlindanna. Eðlilegt er að Íslendingar leiti eftir sams konar aðstöðu og ríkissstjórnir Frakklands og Spánar hafa miðað við þegar eignarhald útlendinga á orkufyrirtækjum ber á góma. Ákvæði íslenskra laga verði lögð til grundvallar í samningnum, um sameign íslensku þjóðarinnar, í ráðstöfun og umsjón íslenska ríkisins, á þjóðlendum og á orku- og auðlindum í þjóðlendum, svo og í og undir hafinu sem hefur réttarstöðu eins og þjóðlenda, þar með talinni fiskveiðiauðlindinni. Höfð verði hliðsjón af ákvæði í Fskj. IIIA.12 í samningsfrumvarpinu sem Norðmenn felldu en það fjallar um eignarhald á fiskiskipum. Viðurkennd verði sérstaða Íslands og nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar. Við það verði miðað að þessar forsendur og tengd ákvæði í aðildarsamningi gefi stöðu ekki lakari en nú er, þ.e.a.s. 49,9 %-reglan í sjávarútvegi og takmarkanir á eignarhaldi á orkumarkaði.
5. Ásættanleg niðurstaða fáist í aðildarsamningi um gjöld Íslendinga til ESB og um væntanlegar greiðslur þaðan til Íslendinga. Samkomulag náist um aðgengi Íslendinga að sjóðum ESB. Íslenskir hagsmunir verði viðurkenndir við ákvörðun um skiptigengi (lokagengi) íslenskrar krónu og um tilhögun við umbreytingu peningamála- og gjaldeyrismála á Íslandi. Viðurkennt verði að Íslendingar ætla áfram að hafa opinn og mjög sveigjanlegan vinnumarkað. Viðurkennt verði sérstaklega að Íslendingar geta ekki afborið langvarandi atvinnuleysi vegna hættu á landflótta, sbr. fámenni þjóðarinnar og viðkvæmar byggðaraðstæður. Viðurkennt verði að Ísland er hátekju- og háþjónustuland með viðamikið velferðarkerfi sem þjóðin vill efla í framtíðinni.
6. Ákvæði verði í aðildarsamningi um öryggi siglinga og vöruflutninga og um öryggi aðdrátta í viðlögum. Ákvæði verði um varðstöðu við og eflingu þjóðmenningar, þjóðtungu og þjóðhátta á Íslandi.
Höf. er fv. formaður Framsóknarflokksins.
![]() |
ESB-aðild ávísun á atvinnuleysi og launalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er ríkisstjórninni sama um landslög?
3.12.2008 | 10:48
Það lýðskrum ríkisstjórnarinnar að senda tilmæli til Kjararáðs um að lækka eigin laun, lýsir kannski betur en margt annað hvernig komið er fyrir íslensku stjórnkerfi.
Virðingin fyrir landslögum og þar með Alþingi sem löggjafarvaldi er engin. Annað hvort þekkir framkvæmdavaldið ekki þau lög sem því ber að fara eftir eða er alveg sama um þau.
Svar Kjararáðs er skýrt: Því er ekki heimilt að lækka launin.
Lögfræðingarnir í ríkisstjórninni gátu sagt sér þetta fyrirfram, enda hefur slíkt erindi áður verið sent kjararáði og það afgreiddi málið með nákvæmlega saman hætti. Þá var það Davíð Oddsson sem þurfti að afvegaleiða umræðu.
Ef framkvæmdavaldið er orðið svona gersamlega virðingarlaust fyrir lögum landsins er ekki von á góðu. Það ber greinilega ekkert traust til löggjafarvaldsins, sem þrátt fyrir það lýsir yfir trausti til handhafa framkvæmdavaldsins. Því bera þeir Alþingismenn sem það gerðu ábyrgð á - allir.
Fjárlagagerðin og framkvæmd þeirra er annað dæmi.
Ég ætla ekki að fara yfir þau brot á landslögum sem ýmsir þeir gerningar framkvæmdir hafa verið undanfarið og er verið að framkvæma. Til þess eru aðrir betur færir, en það verður að fara í grundvallarbreytingar á samskiptum og skilum löggjafarvalds og framkvæmdavalds til að koma í veg fyrir að svona viðhorf eins og núverandi ríkisstjórn hefur gagnvart Alþingi og löggjafarvaldinu fái að grassera
![]() |
Fjárlögin úr nefnd eftir rúma viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útfærslan má ekki verða skrípó
2.12.2008 | 14:26
Ríkisstjórnin og Alþingi verða að vanda sig við útfærslu á þessum stefnumiðum, sem sum eru góð en önnur ekki. Það má ekki takast jafn óhönduglega til og með lögin um hlutfallsatvinnuleysisbæturnar.
Hugmyndin er góð sem slík, en lögin gilda bara til 1. maí 2009, þannig að rétt þegar fólk er komið inn í kerfið, verður það lagt niður.
Sem þýðir í raun að það verður aldrei að veruleika í neinum mæli sem máli skiptir. Er bara skrípó.
Forsenda fjárfestingasjóðs atvinnulífsins verður að vera að gjaldeyrishöft verði afnumin fyrst. Annars verður fjárfestingasjóðurinn ríkisstyrkt sjóðasukk með einokunaraðstöðu á markaði í krafti inngreiðslna launþega og atvinnurekenda. Stjórnendur fyrirtækja verða að hafa val, ákall um að menn eigi að haga sér vel og misnota ekki aðstöðu sína skiptir engu máli í því sambandi.
![]() |
Mikilvægar og þarfar aðgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífeyrissjóðirnir til bjargar eða bölvunar?
2.12.2008 | 09:45
Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt neinar tillögur sem hjálpa fyrirtækjum landsins, heldur hefur hún gefist upp gagnvart því verkefni og er bara í aðgerðum gagnvart þeim einstaklingum sem missa vinnuna og komast í greiðsluþrot.
Einu útspil hennar gagnvart atvinnulífinu eru gjaldeyrisreglur sem banna erlenda fjárfestingu.
Í þessu algera tómarúmi þar sem fyrirtæki ber stjórnlaust fram af hengiflugi gjaldþrota, eru fréttir um stofnun sameiginlegs fjárfestingasjóðs lífeyrissjóðanna jákvæðar.
...eða hvað?
Lífeyrissjóðirnir eru nú í raun einu fjárfestarnir á markaði, í einokunarstöðu í allri fjárfestingu og með fyrirtækin á hnjánum eru lífeyrissjóðirnir með stofnun þessa sameiginlega sjóðs að tryggja að það verði ekki samkeppni milli fjárfesta. Það þýðir bara eitt fyrir þá samningsstöðu sem fyrirtækin og núverandi eigendur þeirra eru í. Þau hafa ekkert val og þessi sjóður fær fyrirtæki landsins á algerri brunaútsölu.
Allt í skjóli gjaldeyrishafta ríkisstjórnarinnar.
Ef maður væri viss um að lífeyrissjóðunum væri stjórnað á gagnsæjan og lýðræðislegan hátt, með virkri aðkomu sjóðsfélaga, væri maður kannski ekki svo uggandi.
En ég er uggandi.
![]() |
Vilja endurreisa fyrirtæki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þáttaskil í ESB?
2.12.2008 | 00:45
Eitt er víst. Það Evrópusamband sem við erum að íhuga að sækja um aðild að nú verður annað Evrópusamband en það sem okkur ber vonandi gæfa til að sækja um aðild að og enn annað en það Evrópusamband sem við myndum svo ganga í, ef við næðum samningi sem þjóðin meti að bæti hag sinn.
Evrópusambandið hefur verið að þróast í átt til eiginlegs þjóðríkis, en í öllum þjóðaratkvæðagreiðslum um slík mál eru þær að falla eða að samþykkjast með afar naumum meirihluta.
Þau skilaboð hljóta stjórnendur ESB að fara að skilja.
Efnahagskreppan sem ríður núna húsum mun einnig ýta í sömu átt. Þjóðríkin hafa verið að horfa í eigin barm og vera sjálfum sér næst, sem hefur óhjákvæmilega það í för með sér að ESB hlýtur að fara að grynnast á ný og þróast meira í átt að því efnahagsbandalagi, sem það var í upphafi.
![]() |
Tekist á um kreppuviðbrögð í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stærsti vinargreiðinn bannaður
1.12.2008 | 10:01
Lánveitingar nágrannaþjóðanna til okkar bera vissulega vott um mikið vinarþel í okkar garð.
Sömuleiðis var það íslenskri þjóð til mikillar gæfu að vinir okkar skyldu setja IMF leiðina að skilyrði fyrir aðstoðinni og setja einangrunarsinnum á Íslandi stólinn fyrir dyrnar.
En því miður bönnuðu þessar vinaþjóðir sínum mesta vinargreiðan sem þær hefði getað gert okkur.
Í samtölum mínum við fulltrúa dansks banka sem var hér á landi í síðustu viku kom fram að þeir hefðu endilega viljað kaupa einn íslensku bankanna og skjóta þannig fleiri stoðum undir eigin rekstur um leið og fleiri stoðum yrði skotið undir íslenska fjármálastarfsemi.
En skilyrði danskra yfirvalda fyrir aðstoð við danskar fjármálastofnanir er að þær hætti öllum kaupum á öðrum bönkum, þám íslenskum. Þess vegna er þeim ekki heimilt að koma okkur til hjálpar með þeim hætti sem best hefði verið, á eðlilegum viðskiptalegum forsendum.
Þetta er víst tilfellið í öðrum nágrannalöndum okkar og á meðan sitjum við uppi með ríkisrekna banka, stjórnað af gömlu stjórnendunum undir pólitískt skipuðum bankaráðum, sem er afar hættuleg blanda fyrir spillingu.
![]() |
Íslendingar muna vinargreiða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)