Nýtum mátt samvinnunnar í þágu heimilanna
25.2.2010 | 17:59
Ríkisstjórnin á að nota þann tíma sem hún gaf sjálfri sér og þjóðinni þegar hún framlengdi uppboðsfrest íbúðahúsnæðis í að undirbúa og stofna húsnæðissamvinnufélög sem fólk sem ekki getur haldið eigið húsnæði af skilgreindum ástæðum, geti lagt húsnæði sitt inn í.
Af húsnæðinu yrði greidd leigu, en fólk fengi að búa áfram í húsnæðinu. Hluti leigunnar rynni í stofnfjársjóð samvinnufélagsins, þannig að samvinnufélagið verði með tíð og tíma sjálfbært og gæti greitt ríkinu eða lífeyrissjóðunum til baka sitt framlag, sem er aftur á móti nauðsynlegt í upphafi í formi samvinnubréfa, en félagar samvinnufélagsins, þ.e. íbúarnir hefðu yfirráðarétt yfir félaginu í formi atkvæðaréttar síns.
Máttur samvinnunar á við hér eins og svo víða.
![]() |
Margt gott gert innan bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enginn er eins blindur og sá sem ekki vill sjá
24.2.2010 | 21:35
Íslensku þjóðinni er alveg treystandi til að taka afstöðu til þess hvort Ísland eigi að vera í ESB eða utan þess.
Þá afstöðu er hins vegar ekki hægt að taka nema fyrir liggi í hverju aðild felst. Sú vitneskja kemur ekki fram nema í gegnum aðildarviðræður.
Í stað þess að berjast á móti ferlinu eiga hagsmunasamtök sjómanna og bænda að einhenda sér í að skilgreina hvernig samning samtökin myndu vilja sjá og taka fullan þátt í því að reyna að ná þeim samningi.
Því það getur endað með því að þjóðin samþykki aðild út frá allt öðrum hagsmunum en landbúnaðarins eða sjávarútvegsins og þá er eins gott að þessar greinar séu í það minnsta búnar að ná því fram sem hægt er.
![]() |
Skiptar skoðanir um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samvinnustjórnmál bera árangur
21.2.2010 | 21:34
Það var ekki fyrr en ríkisstjórnin sá að sér og fór að ástunda samvinnustjórnmál í stað þess að stunda spuna- og fleluleikjastjórnmál að mál fóru að hreyfast í rétta átt í Icesave.
Reyndar það góðan að spunameistarar Samfylkingarinnar eru komnir á fullt í mannorðsávirðingum til að einstaklingar í stjórnarandstöðunni fái ekki notið sammælis um sinn hlut.
En vonandi er þetta hluti af því ferli að útrýma svoleiðis vitleysu, og menn fari að ræða málefni og svara efnislega í stað þess að ráðast á sendiboðana í sífellu.
![]() |
Held í vonina um samstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Öfugt farið að öllu - líka í sókninni
18.2.2010 | 10:31
Með pompi og prakt kynnti ríkisstjórnin að hún ætlaði varaformönnum sínum, þeim Degi B Eggertssyni og Katrínu Jakobsdóttur að fara í sóknaráætlun 20/20 og hafa verið haldnir fjöldi funda sem þau vilja kalla Þjóðfundi, til skrumskælingar og lítilsvirðingar við Þjóðfundinn sem haldinn var í Laugardalshöll
Þetta verkefni hefur verkefnisstjórn. Þverpólitíska?
Nei - þessi verkefnisstjórn er nánast einungis skipuð flokksmönnum Samfylkingar og Vinstri Grænna, þannig að þetta er illa dulbúin aðferð til að láta ríkissjóð greiða málefnastarf þessara flokka.
Á hvaða grundvelli er farið í þetta starf?
Tja allavegana er grunnurinn ekki skýr, því fyrst núna er lögð fram þingsályktunartillaga um að fara eigi í verkefnið. Er hún á dagskrá þingsins í dag.
Samt er þegar búið að halda fjölda funda, opna vef og ég veit ekki hvað.
Hvað ef þingsályktunartillögunni verður breytt eða hún felld?
Menn verða að fara rétt að hlutunum, ekki öfugt.
![]() |
Baráttufundur í Ólafsvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mistök Samkeppnisstofnunnar sett á markað
16.2.2010 | 14:03
Afstaða Arion banka að setja Haga á markað í heilu lagi og taka ekki í mál að hluta fyrirtækið í sundur er bara merki um eitt.
Bankinn telur fyrirtækið meira virði þannig, sem er afar athyglisvert.
Bankinn ætlar sér sem sagt að selja markaðsyfirburði Haga, sem urðu til fyrir mistök Samkeppnisstofnunnar, þegar Baugsveldið fékk að kaupa keppinauta sína út af markaðnum.
Ef ekki, væri örugglega hægt að fá hærra verð fyrir einstaka hluta þess, enda reksturinn fjölbreyttur og eftir að hann varð einvörðungu innlendur, er lítil samlegð í rekstri tískuvöruverslanna og lágvörumatvörubúðar eða útivistarvöruverslunar.
Þetta er örugglega löglegt, en hvort þetta sé siðlegt og til þess fallið að bæta hag íslensku þjóðarinnar er allt annað mál.
![]() |
Hagar og Baugur deila um milljarð sem var gjaldfelldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neyðarsendar
15.2.2010 | 12:29
Þvílikt lán og gæfa sem það er fyrir okkur Íslendinga að hafa björgunarsveitirnar. Þeir telja sig heppna að hafa fundið mæðginin, en það er nú svo undarlegt hvað heppnin fylgir þeim sem eru vel undirbúnir.
En eitt skil ég ekki. Af hverju í veröldinni er ekki í boði að kaupa eða leigja neyðarsenda, sem snjósleðamenn og annað ferðafólk getur tekið með sér?
Þannig geta björgunarsveitirnar gengið að fólki vísu, lendi það í háska.
Auðvitað yrði eitthvað um fölsk neyðarboð, en það er alveg ljóst að ekki þarf líkt því eins marga björgunarsveitarmenn í hvert raunverulegt útkall ef hægt er að miða fólk út, þannig að heildarvinnustundirnar sem færu í björgunarstörf hljóta því að vera færri, fyrir utan öryggið fyrir ferðafólk og ekki síður björgunarsveitarfólk.
![]() |
Við sáum þarna þúst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samfylkingarstjórnskipunarbull
12.2.2010 | 14:49
Það er furðuleg hegðun ráðherra Samfylkingarinnar að virða ekki þá stjórnarskrá sem þeir hafa undirritað eiðstaf að og þau lög sem gilda um störf þeirra.
Björgvin G Sigurðsson fann sem Viðskiptaráðherra upp fyrirbærið tilmæli, þótt engin forsenda væri fyrir þeim í lögum og nú kemur Jóhanna Sigurðardóttir með nýtt fyrirbæri, sleggjudóma inn í íslenska stjórnskipan.
Við búum í réttarríki og ráðherrar í ríkisstjórn landsins verða að átta sig á því.
Ráðherrar eiga að framfylgja lögum og hafa hlutverk í pólitískri stefnumótun í gegnum framlagningu stjórnarfrumvarpa, en þeir hljóta að vera bundnir af því hlutverki, svo lengi sem þeir eru ráðherrar, en vera ekki að gapa út og suður marklaust tal, sem þeir hafa enga lagastoð fyrir og enga möguleika á að fylgja eftir.
Það eina sem fæst út úr því er vanhæfi, komi til þess að þeir þurfi að fjalla um mál þeirra sem um ræðir.
![]() |
Eiga að víkja til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Öflug samvinnuhreyfing um allan heim - Danmörk
10.2.2010 | 12:03
Samvinnuhugsjónin lifir góðu lífi um allan heim.
Í Danmörku er stærsta samvinnufélagið FDB, með 1,6 milljón félaga, 1 milljón sem hafa beina aðild og afganginn sem hefur aðild í gegnum samvinnufélög sem hafa svo aðild að FDB.
FDB á Coop a/s, sem er hlutafélag sem aftur rekur Brugsen-búðirnar og Kvickly, sem velta um 1.000 milljörðum íslenskra króna á ári, sem er til samans stærsta matvörukeðja Danmerkur.
Fyrir hverja búð kjósa félagar í FDB á svæðinu í stjórn, sem mótar stefnu búðarinnar og áætlun um félagsstarf í kringum viðkomandi búð, í samvinnu við starfsfólk hennar. Stjórnin fer yfir og samþykkir ársreikning og áætlun búðarinnar og ræður og rekur verslunarstjóra.
Markmið FDB er ekki bara að tryggja hagstætt vöruverð, en félagsmenn fá sérstakan afslátt af vörum auk félagsmannatilboða, heldur einnig að taka þátt í kynningu á þeim þáttum sem hafa þýðingu fyrir val og öryggi neytenda. Neytendavernd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Samvinnuhugsjónin á erindi sem aldrei fyrr
9.2.2010 | 19:50
Með bættum samgöngum og upplýsingatækni má segja að Ísland sé orðið allt eitt markaðssvæði, sem er þrátt fyrir það afar lítið og þótt settur hafi verið skýr og strangur rammi um samkeppnismál ríkir fákeppni á flestum mörkuðum og staða hvers og eins neytenda gagnvart seljendum vöru eða þjónustu er í flestum tilfellum veik. Á það sérstaklega við þegar seljendur vöru eða þjónustu hafa með sér samráð, eins og ítrekað hefur komið í ljós á undanförnum árum.
Svarið við vanmætti neytenda gagnvart þessu ástandi liggur í samtakamætti félaga í anda samvinnuhugsjónarinnar sem Framsóknarflokkurinn er stofnaður í kringum.
Út á hvað ganga samvinnufélög?
Samvinnuhugsjónin gengur sem sagt gegn þessari stöðu seljenda og skapar neytendum sterkari stöðu í viðskiptum. Þannig taka neytendur sig saman um sín viðskipti í samvinnufélagi og ná með því kjörum hjá seljendum þjónustu eða vöru, sem keppast við að ná stórum viðskiptasamningunum. Kjörin sem bjóðast standa félagsmönnum svo til boða að greiddum þeim kostnaði sem fellur til, en hagnaðurinn rennur til félagsmanna í formi hagstæðra kjara.
Í nútíma viðskiptaumhverfi er rekstur samvinnufélaga einfaldari en nokkru sinni fyrr og ætti að vera auðvelt að halda kostnaði í lágmarki. Útboð geta gengið hratt og auðveldlega fyrir sig og gætu félagsmenn lagt inn sínar pantanir eða viðskipti á vefnum og fengið bestu kjör á markaði hverju sinni.
Mætti hugsa sér að þeir sem hafa svipaðar þarfir í raforkukaupum tækju sig saman og biðu út raforkunotkun sína til þeirra sem selja slíka þjónustu, sama getur átt við um tryggingar húseigna og bíla, eldsneytiskaup og þess vegna bankaviðskipti, en minna má á að sparisjóðirnir og búsetafélögin eru einmitt samvinnufélög.
Í gegnum samvinnufélög geta þeir neytendur sem áhuga hafa á tiltekinni vöru eða framleiðsluháttum beitt samtakamætti sínum beint vöruþróun í þá átt sem þeir æskja. Mætti nefna samvinnufélag sem keypti inn lífræn matvæli fyrir félagsmenn, samvinnufélag sem keypti inn vörur sem uppfylla þá umhverfisstaðla sem þeir óska og samvinnufélag sem keypti inn "fair trade" vörur.
Fyrirtæki í rekstri í sömu grein eða sveitarfélög geta á sama hátt tekið sig saman um sín innkaup.
Ríkið hefur lengi nýtt sér grundvallarhugsun samvinnufélaga í gegnum Innkaupastofnun og Framkvæmdasýslu ríkisins með því að sameina innkaup stofnana til að ná magninnkaupum og þar með magnafsláttum.
Jarðvegurinn er frjórri en áður
Hinir nýju frjálsu markaðir í orkugeiranum, eftirlitsgeiranum og fleiri sviðum skapa ný tækifæri fyrir samvinnufélög í sinni tærustu mynd, sem ekki var áður til að dreifa og vegna bættra samgangna þarf ekki lengur að skilgreina starfssvæði hvers samvinnufélags með landfræðilegum hætti, heldur er hægt að skilgreina það með þeim hætti sem hentugastur í hverju tilfelli.
Nú er lag
Það er því löngu kominn tími til að skoða stofnun fleiri samvinnufélaga, en nefna má að í Bandaríkjunum er samvinnuformið það félagsform sem mest er stofnað af í dag, en það nýtur meiri hylli en t.d. hlutafélagaformið, þar sem atkvæðamagn er háð hlutafé og þeir stóru drottna, meðan í samvinnufélögum hefur hver félagsmaður eitt atkvæði á fundi, óháð umsvifum.
Neytendur taki markaðinn í sínar hendur
Vanmáttur neytenda gagnvart seljendum vöru og þjónustu er ekki eðlilegur og sjálfsagður. Það höfum við framsóknarmenn vitað um áratugi og teljum að erindi og nauðsyn samvinnuhugsjónarinnar sé jafnvel enn meira nú en í árdaga, þegar fátækir bændur á Húsavík stofnuðu fyrsta kaupfélagið til að skapa sér stöðu gagnvart okri kaupmanna.
Breytum Högum í samvinnufélag
8.2.2010 | 14:11
Við þeirri umræðu sem upp er komin um ráðstöfun fyrirtækisins Haga, liggur í augum uppi að breyta fyrirtækinu í samvinnufélag.
Félagsmenn, kæmu inn með stofnfé, að lágmarki t.d. 50.000, greitt yfir ákveðið tímabil, mynduðu þannig sameiginlega eiginfjárstofn fyrirtækisins. Þeir sem vildu leggja meira inn, mættu það, en hver félagsmaður hefði sitt atkvæði, í samræmi við samvinnufélagsformið. Arðgreiðslur, sem aðallega fælust í bættum kjörum, en einnig ráðstöfun afgangs, yrðu greiddar út sem hlutfall af viðskiptum.
Enginn einn fengi meira en eitt atkvæði á félagsfundi, óháð stofnfjárstærð, þannig að blokkamyndun væri nánast óhugsandi og beint lýðræði fengi að ráða, öfugt á við gamla Sambandsveldið, sem byggðist upp á margföldu fulltrúalýðræði, þar sem hver silkihúfan kom upp af annarri.
Þannig færi stærsta smásöluverslunarfyrirtæki landsins í félagslega eigu, sem yrði öðrum aðilum á markaði, sem fyrir eru og væntanlega munu koma til, góð viðspyrna, enda yrði félagið ekki rekið með ofurhagnað í huga, heldur hagsmuni neytenda og félagsmanna í huga.
Þessi leið fæli í sér betri tíð með blóm í haga.
![]() |
Ákvörðun Arion banka misbýður samfélaginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)