Er yfirlýsing Samfylkingarráðherranna um hvalveiðiandstöðuna ómark?
22.5.2008 | 15:03
Í viðtölum eftir útgáfu hvalveiðikvótans, kom fram að Einari K Guðfinnsyni hafi verið fullkunnugt um afstöðu ráðherra Samfylkingarinnar til útgáfu hvalveiðikvóta. Það segir mér að málið hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundi.
Í ljósi 5. greinar laga um ráðherraábyrgð, fæ ég ekki séð annað en að allir þeir ráðherrar sem tóku þátt í þeirri umræðu bera sameiginlega ábyrgð á þeim gjörningi, en hún segir:
"5. gr. Sé um að ræða embættisathöfn í ríkisráði eða á ráðherrafundi, sbr. 16. og 17. gr. stjórnarskrárinnar, bera allir viðstaddir ráðherrar, sem með ráðum, fortölum, atkvæði eða á annan hátt hafa stuðlað að þeirri athöfn, ábyrgð á henni."
Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna hvort yfirlýsing Samfylkingarinnar um að þeir styddu ekki þessa ákvörðun sé ekki ómark að lögum og því lýðskrum af versta tagi?
Ef málið hefur ekki verið kynnt í ríkisstjórn er það stórkostleg yfirsjón hjá forsætisráðherra og jafnvel enn verra mál, því ef mál sem varða fleiri en eitt ráðuneyti, sem útgáfa hvalveiðikvóta vissulega gerir í ljósi þess að utanríkisráðuneytið þarf að verja gjörninginn erlendis, verður það að ræðast við það borð, þótt útgáfuheimild reglugerðarinnar liggi formlega hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
![]() |
Vinstristefna að tala niður atvinnulífið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stórkostleg fjölskylda
22.5.2008 | 01:21
Við sem horfum af hliðarlínunni á þjáningar þessarar fjölskyldu, getum ekki annað en dáðst að því hvernig hún hefur náð að breyta þessum sorglega atburði, sem virðist svo óendanlega tilgangslaus, í eitthvað sem mun vonandi bæta samfélagið sem við lifum í til frambúðar.
Fyrir það vil ég þakka og óska þeim alls hins besta í framhaldinu.
Jónína minnti í minningargrein sinni um stúlkuna á ábyrgð þeirra lækna sem ávísa læknadópi. Minnir það mann enn og aftur á þörfina á að koma á einni samræmdri sjúkraskrá og lyfjaskrá, sem því miður hefur tekið allt of langan tíma að koma á fót. Þar má ekki líða smákóngum að hefta framþróunina.
Grein Ingibjargar verður vonandi minnst sem greinar sem breytti barnaverndarmálum á Íslandi.
Réttur foreldra til barna sinna virðist vera mun sterkari en réttur barnanna til sómasamlegra uppeldisskilyrða. Því þarf að breyta, bæði í lagaumhverfinu og eins í framkvæmd barnaverndarmála sem og hjá dómstólum. Við skulum ekki gleyma því að börnin velja sér ekki foreldra og geta ekki komið fram sem þrýstihópur.
Það er margt sem rennur í gegnum hugann.
Væri til dæmis ekki eðlileg vinnuregla að foreldrar standist einfalt eiturlyfjapróf áður en börn eru skilin eftir án eftirlits þar sem saga eiturlyfjaneyslu er þekkt hjá viðkomandi?
Hvað er eðlilegt við það að fólk sem ekki getur átt börn þurfi að leita erlendis eftir börnum til að hlúa að, veita öryggi og tryggð, þegar fjöldi barna hér á landi eru svikin um það allt saman? Þeir foreldrar sem hafa tekið börn dópista að sér þurfa sífellt að vera að sjá á eftir börnunum til þeirra, bara vegna þess að blóðforeldrarnir, kannski bara annað þeirra, hefur haldist edrú í viku eða svo. Það getur ekki verið gott fyrir börnin að þurfa að búa við þennan hringlandahátt.
Væri "sjálfvirk" forræðissvipting yfir virkum dópistum úrræði sem einhverju myndi skila?
Eiga foreldrar og aðrir aðstandendur alltaf að þurfa að fara sjálfir í gegnum dómstóla þegar barnaverndaryfirvöld hafa kannski öflugri og fljótvirkari úrræði, eins og Dögg Pálsdóttir fer vel yfir í þessari færslu?
Barnaverndaryfirvöld eru ávallt í erfiðri stöðu gagnvart gagnrýni og geta ekki varið sig í málum gagnvart einstaklingum sem hafa sannleikan ekki alltaf í heiðri þegar þeir fara í fjölmiðla og er gott að sjá að Barnaverndarstofa skuli ætla að fara yfir málið, og sem betur fer er búið að koma á fót embætti Umboðsmanns barna sem ætti að sinna eftirliti með eftirlitnu útfrá sjónarhóli barnanna.
Þessi jákvæða nálgun á málið er til mikillar fyrirmyndar og sem betur fer gaf Guð drengjunum þessa stórkostlegu fjölskyldu sem getur annast þá.
Því miður eru ekki allir svo heppnir.
![]() |
Barnaverndarstofa rannsakar málið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hitt er alvarlegra, að menn tali tungum tveim í ríkisstjórninni
21.5.2008 | 13:43
Á vef Samfylkingarinnar í dag birtist pistill þar sem því er haldið fram að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi í viðtali í lok árs 2006 sagst hafa varað við ákvörðun um hvalveiðar í ríkisstjórn og að menn þyrftu að vera tilbúnir til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Þarna tekst textasmiðum Samfylkingarinnar heldur óhönduglega til því ef þeir læsu sjálfa fréttina sem þeir vitna til þá er hægur leikur að sjá að Guðni Ágústsson, þá landbúnaðarráðherra, sagðist hafa varað við því í ríkisstjórn að markaðsþróun í Bandaríkjunum gæti verið í uppnámi ef farið yrði út í hvalveiðar. Ekkert kemur fram um það að ráðherrann hafi verið andvígur hvalveiðunum sjálfum. Það er svo viðskiptaráðherrann sem segir að auðvitað komi til álita að vega saman meiri og minni hagsmuni og raunar sögðu fleiri svo á þessum tíma.
Þvert á móti því sem ýjað er að í pistli Samfylkingarinnar þá hefur Guðni Ágústsson barist ótrauður fyrir rétti Íslendinga til hvalveiða og verið skýr í þeim efnum, m.a. í umræðum á Alþingi um þessi mál haustið 2006. Við þá sömu umræðu sagði hins vegar formaður Samfylkingarinnar, þá í stjórnarandstöðu: ...ég held að þetta sé rangt hagsmunamat hjá ríkisstjórninni sem hafi farið fram í þessu máli. En, það er önnur saga. Hitt er alvarlegra, að menn tali tungum tveim í ríkisstjórninni."
Svo mörg voru þau orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar og núverandi utanríkisráðherra, þeirra hinnar sömu og sendi frá sér yfirlýsingu um sjöleytið sl. mánudag sem hljóðar svo:
Nú þegar sjávarútvegsráðherra tekur ákvörðun um útgáfu reglugerðar um hrefnuveiðikvóta er það skýrt á milli ráðherra í ríkisstjórninni að ráðherrar Samfylkingarinnar eru ekki fylgjandi þessari ákvörðun. Útgáfa reglugerðar um hrefnuveiðikvóta er ákvörðun sjávarútvegsráðherra, tekin í framhaldi af stefnu sem hann mótaði 2006. Sjávarútvegsráðherra hefur stjórnskipulegt forræði á útgáfu reglugerðar sem þessarar án þess að hún komi til afgreiðslu í ríkisstjórn. Sem utanríkisráðherra tel ég að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þrátt fyrir að kvótinn sé minni í ár en fyrri ár. Ég mun á erlendum vettvangi og þar sem þess gerist þörf útskýra þau rök um sjálfbæra nýtingu hrefnustofnsins sem að baki liggja."
Alvarleiki þess að menn tali tungum tveimur í ríkisstjórninni er greinilega ekki lengur fyrir hendi og þrátt fyrir að enginn ráðherra Samfylkingarinnar sé fylgjandi ákvörðun sjávarútvegsráðherra þá á ofangreind yfirlýsing að duga sem mótmælisvottur.
Það er svooo gaman í ríkisstjórninni!
Ráðherravæðingin staðfest - næstu skref
20.5.2008 | 11:59
Í ljósi þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa gefið hver öðrum heimild til að fara með vald sitt eins og þeim sýnist, kannski með þeim takmörkunum að viðkomandi athöfn sé ekki beinlínis bönnuð í stjórnarsáttmálanum, hlýtur maður í framhaldinu að þurfa að fara yfir hvers megi vænta af ráðherrunum. Ekki mun stefnumótun Alþingis tefja fyrir, enda búið að afnema þingræðið að mati ráðherrana og við hefur tekið einveldi ráðherra:
Forsætisráðherra mun líklegast sofa áfram. Það er ekkert í stjórnarsáttmálanum sem bannar það orðrétt, þótt reyndar séu nokkur verkefni sett á hans könnu, eins og t.d. stjórnarskrárbreytingar.
Utanríkisráðherra mun undirbúa aðildarumsókn að ESB, sem verður tilbúin til innsendingar eftir næstu kosningar.
Fjármálaráðherra mun leggja fram rammafjárlög með einni tölu í útgjöldum, sem svo verður nánar útfærð eftir geðþótta ráðherra með vísun í hinar ýmsu heimildir og baksamninga.
Dómsmálaráðherra mun koma sér upp íslenskum her og halda áfram að ráða vini sína sem dómara.
Heilbrigðisráðherra mun henda öllum rekstri heilbrigðiskerfisins, sem einhver gróðavon er í, í einkarekstur á grundvelli þessa umboðs:
VII. kafli. Samningar um heilbrigðisþjónustu.
28. gr. Samningsumboð ráðherra.
Ráðherra fer með umboð ríkisins til samningsgerðar um veitingu heilbrigðisþjónustu og greiðsluþátttöku ríkisins vegna hennar. Ráðherra skipar nefnd sem annast samningsgerð um heilbrigðisþjónustu fyrir hans hönd samkvæmt nánari ákvörðun hans.
Þetta mun verða kallað kostnaðarskerping. Hún er ekki bönnuð í stjórnarsáttmálanum og er algerlega í samræmi við einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum sem samþykkt var á síðasta landsfundi.
Samgönguráðherra mun láta gylla Héðinsfjarðargöngin, slá Sundabrautina af og Vaðlaheiðargöngin verða gerð gjaldfrjáls. Verst að ástandið í efnahagsmálum gerir það að verkum að verktakar geta ekki fjármagnað sig til að koma neinu í framkvæmd. Spurning hvort hann stofni framkvæmdabanka Vegagerðarinnar í formi fyrirframgreiðslna...
Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mun senda autt blað til mannréttindanefndar SÞ sem viðbrögð við úrskurðinum um kvótakerfið.
Menntamálaráðherra mun bjóða út rekstur allra framhaldsskóla landsins. Það er ekkert sem bannar það.
Umhverfisráðherra mun ekki veita nein framkvæmdaleyfi á neitt sem hefur ál í nafninu. Leiðinlegt að það skuli koma niður á hjálparstofnunum og þeim sem reka fjallaskála.
Iðnaðarráðherra mun leggja til að ál verði hér eftir eingöngu nefnt undir samheitinu léttmelmi og kemst þar með framhjá umhverfisráðherra í sínum störfum. Farið verði að tala um léttmelmisframleiðsluna í Fjarðabyggð í stað álversins í Reyðarfirði. Að öðru leiti mun bloggsíða hans verða enn fróðlegri aflestrar en hingað til.
Viðskiptaráðherra mun gefa út reglugerð um afnám vörugjalda og tolla og niðurfellingu stimpilgjalda, en komast að því sér til hrellingar að það er bara ekkert á hans borði.
Velferðarráðherra mun halda áfram að vinna sín góðu verk og hlustar ekkert á kröfur um eyðileggingu Íbúðalánasjóðs. Það er líklegast það eina jákvæða við þessa breytingu.
![]() |
Óánægja með hrefnuveiðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það er sitthvað Frón og Baunaland
19.5.2008 | 10:09
Í Danmörku er allt á suðupunkti og spenna ríkir í stjórnarsamstarfinu vegna þess að einn ráðherrann er ekki sammála því sem ríkisstjórnin danska er að gera.
Í einu máli.
Á Íslandi telst það til tíðinda ef ríkisstjórnin er sammála.
Í einu máli.
![]() |
Dönsk stjórnmál á suðupunkti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Framleiðsla hafmeyja og kentára gengur vel...
18.5.2008 | 23:08
Að blanda saman erfðaefni manna og dýra er eitthvað sem ég get engan vegin sætt mig við.
Að rækta stofnfrumur úr mönnum til rannsókna og lækninga er eitthvað sem mér finnst vera rétt við línuna, en samt réttu megin við hana, sé það gert í lækningaskyni, en að fara að blanda saman mönnum og dýrum eða dýrum og dýrum er vitlausu megin við hana.
Við verðum að bera þá virðingu fyrir sköpunarverkinu að ganga ekki svona langt, jafnvel þótt það sé hægt.
![]() |
Brown hvetur til stofnfrumurannsókna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dýrar yfirlýsingar um Íbúðalánasjóð
18.5.2008 | 12:21
Það er sorglegt að sjá stjórnmálamenn gera jafn dýr mistök og gerð hafa verið með óljósum yfirlýsingum um Íbúðalánasjóð.
Öll slík óvissa er samfélaginu dýr af margvíslegum ástæðum. Hún rýrir traust á sjóðnum sem hefur áhrif á þau kjör sem honum bjóðast. Hún skapar óvissu um þau kjör sem húsbyggjendur og fólk í íbúðakaupahugleiðingum bjóðast, sem alla jafna veldur því að það heldur að sér höndum, húsnæðiskeðjan stöðvast og þörfin safnast upp. Það veldur því svo að verktakar ná ekki að selja íbúðir og svo þegar stíflan brestur, verður yfirþan á markaði. Allt slíkt er óeðlilegt og skapar kostnað. Óþarfa kostnað sem engin græðir á.
Ef menn telja nauðsynlegt að fara í þau skemmdarverk sem mann heyrist að fara eigi í og í rauninni að hverfa frá grunnhugmyndinni á bakvið sjóðinn, að láta almenning njóta þess traust sem ríkissjóður hefur á lánamarkaði, á að undirbúa slíkar breytingar á bakvið tjöldin, kynna þær eins fullmótaðar og hægt er og láta þær koma til framkvæmda með skömmum fyrirvara.
Þetta yfirlýsingagljáfur sem sífellt dynur á þjóðinni, þetta síðast, sem var einnig helsta einkenni síðustu krata-íhaldsstjórnar, veikir alla tiltrú og skapar óvissu sem gerir vandaða áætlanagerð ómögulega, sem gerir það að verkum að mikil verðmæti glatast.
Telur Seðlabankinn trúverðugleika sinn alveg búinn?
16.5.2008 | 10:57
Í fréttatilkyninngu Seðlabankans um þessa ágætu samninga við systurbanka hans í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, opinberast sú staða sem Seðlabankinn telur sig vera kominn í vegna síendurtekinna innihaldslausra og rangra yfirlýsinga ráðherra ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
Seðlabankinn þorir ekki að gera efnislega grein fyrir samningunum, heldur vísar í fréttatilkynningar hinna bankanna. Býst þannig ekki við því að honum verði trúað gerði hann sjálfur grein fyrir þeim.
Ef þetta er að einhverju leiti rétt, hefur framkoma ríkisstjórnarinnar skaðað trúverðugleika íslensks efnahagslífs stórkostlega og valdið óheyrilegum kostnaði.
Næsta skref, sem löngu hefði átt að vera búið að stíga, er að auka gjaldeyrisvaraforðann sjálfan, því þessir samningar eru jú bara um aðgengi að skammtímakrít.
Enn á reyndar eftir að koma fram hvað þessir bankar fá fyrir sinn snúð, hvort greiða þurfi fyrir samninginn eða hvort í honum felist ábyrgðaryfirfærsla á starfsemi íslensku bankanna í þessum löndum til Íslands, eða hvort bankarnir meti það svo að þeim stafi svo mikil hætta af íslensku áhættunni að þeir telji þetta réttlætanlegt.
![]() |
Skiptasamningar gilda út árið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Flokkur valdsins er á móti breytingum
16.5.2008 | 00:53
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd meira og minna frá lýðveldisstofnun. Hefur stærð hans og fylgi verið langt umfram það sem eðlilegt mætti teljast út frá þeirri staðsetningu sem hann segist hafa í íslenskum stjórnmálum, þ.e. sem hægriflokkur einstaklingsfrelsisins.
Enda er hann engin hægriflokkur í raun. Hann er valdaflokkur, íhaldsflokkur fólks sem er við völd og vill fá að njóta þeirra gæða sem felast í því að vera áfram við völd í stjórnmálum eða viðskiptalífi. Í huga þess eru allar breytingar ógn. Ógn um að staða þess breytist og að hugsanlega gætu einhverjir náð spón úr þeirra aski eða komið sér sjálft í álnir eða stöðu sem gæti jafnast á við þeirra eigin stöðu og ógnað henni í einhverju tilliti. Ef breytingar eru óumflýjanlegar skal tryggt með ráðum og dáð að þær breyti ekki því valdahlutfalli sem komið hefur verið á.
Skipta hagsmunir heildarinnar þá minnstu máli en hagsmunir þeirra einstaklinga sem um ræðir, sú hlið er í þeirra munni kölluð frelsi einstaklingsins. Frelsi til að fá að halda sinni stöðu.
Hugsanleg innganga í ESB er slík ógn. Völd færðust til Brussel og ekki væri lengur hægt að hafa fulla stjórn á öllum þeim gæðum sem hægt er að afla og eru til skiptanna hverju sinni.
Þeir sem hafa ráðið ríkjum í Sjálfstæðisflokknum undanfarið eru sáttir við óbreytt ástand og því er hann íhaldssamur, því breytingar hafa ávallt í för með sér að einhver gæði gætu færst til og það er handhöfum gæðanna á hverjum tíma á móti skapi.
Þess vegna verður afar fróðlegt að fylgjast áfram með því hvernig Evrópuumræðan hjá Sjálfstæðisflokknum mun þróast á næstunni, eftir að Þorgerður Katrín sá ljósið í þeirri leið sem Framsókn hefur varðað í málaflokknum. Hún á nefnilega ekki rætur í þvi umhverfi sem skapar þá íhaldssemi sem ég lýsti hér að ofan og Björn Bjarnason er frekar fulltrúi fyrir.
Mun frjálshyggjan og frelsi allra einstaklinga sigra íhaldssemina?
![]() |
Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eðlilegt að jafna skattaumhverfi fyrirtækja í alþjóðaumhverfi
15.5.2008 | 13:31
Ekki veit ég á hvaða forsendu Framsóknarþingmennirnir sátu hjá við afgreiðslu þessa máls, en þessi löggjöf mun bæta stöðu þjóðarbúsins verulega, þar sem meira af þeim eignum sem er í eigu Íslendinga, sem oft hafa tekið lán til að kaupa þær, mun verða skráð á Íslandi og koma þar með til lækkunar nettóskuldsetningar þjóðarbúsins.
Mun það bæta lánakjör Íslendinga sem heildar og þar með græða allir.
Hefðu menn heykst á því að taka þetta skref hefðu enn fleiri fyrirtæki farið með hlutabréf sín úr landi og við hefðum ekki notið góðs af eignastöðunni og hvort eð er ekki fengið neinar skatttekjur af þeim viðskiptum.
Menn verða að átta sig á því að Ísland er ekki eyland í viðskiptum. Vonandi halda menn áfram á þessari braut og gera kaupskipaútgerð og aðra starfsemi, sem er í alþjóðlegri skattalegri samkeppni mögulegt að reka starfsemi sína hér á landi.
Þar hefur fjármálaráðuneytið því miður staðið fast á móti í mörg ár og ber þeim sem þar hafa setið skömm fyrir, enda siglir ekkert kaupskip undir íslenskum fána í dag.
![]() |
Söluhagnaður fyrirtækja vegna hlutabréfa skattfrjáls |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |