Framsókn í umhverfismálum

Það kann að hljóma undarlega, en almennt er ekki mikill ágreiningur milli flokkanna um umhverfismál. Umhverfismál eru nefnilega svo mikið meira en virkjanir og náttúruvernd. Þau eru marghöfða þurs, með höfuð manna, dýra, plantna og annars í lífríkinu, jarðvegs, jarðmyndana, vatns, lofts, veðurfars og landslags, samfélags, heilbrigðis, menningar og menningarminja, atvinnu og efnislegra verðmæta.

Framsókn hefur um árabil haft alla þessa þætti í sinni stefnuskrá og á síðasta flokksþingi var stefnan meitluð enn betur, en sjálfbær þróun er grunnstef hennar. Framsókn hefur staðið fyrir byltingu í endurnýtingu og meðhöndlun spilliefna, þannig að aðrar þjóðir eru að taka okkar aðferð upp. Hagrænum hvötum er beitt sífellt meira, þannig að sá sem mengar á að borga. Mengunarvarnarlöggjöfin hefur verið endurskoðuð í þeim anda og ábyrgð fyrirtækja skerpt. Nauðsyn þess sannaði sig við strand Wilson Muuga núna í vetur, en samgönguráðherra kom ekki að þeirri endurskoðun með uppfærslu á siglingalögum og því var bótaskylda eigandans mun minni en ella hefði verið. Sem betur fer gat Jónína Bjartmarz gengið frá samkomulagi við eigendur skipsins um farsæla lausn á því máli. Framsókn hefur komið á nýrri og faglegri aðferðafræði við náttúruvernd með náttúruverndaráætlun og er stefnan að ganga enn lengra og meta ástand allra tegunda dýra og plantna með tilliti til vaxtar, viðgangs og nýtingar, svo ekki þurfi að grípa til dýrra og óþægilegra aðgerða eftir að í óefni er komið. Það er framsýni í anda Framsóknar.

Unnið er að samræmdri stefnu ríkis og nokkurra sveitarfélaga í vistvænum innkaupum í samræmi við innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar og Staðardagskrá 21. Í febrúar var samið við Samband íslenskra sveitarfélaga um áframhald málsins. Þetta eru allt mál sem fer lítið fyrir vegna þess að það er sátt um þau. Þau skipta okkar daglega líf og framtíð okkar miklu máli og er nauðsynlegt að halda áfram á sömu braut, en ekki á braut frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins eða bann- og stoppstefnu vinstri flokkanna.

Loftslagsmál eru stærsta mál umhverfismálanna, enda almennt viðurkennt að hækkun hitastigs á jörðinni sé stærsta einstaka ógnin við lífríkið og samfélagið á jörðinni. Um það eru allir flokkar sammála, þótt innan Sjálfstæðisflokksins heyrist reyndar enn efasemdaraddir. Allir jarðarbúar verða að axla ábyrgð og færa fórnir fyrir framtíðina. Líka Íslendingar. Okkur ber skylda til að nýta þær orkuauðlindir okkar sem við teljum forsvaranlegt að gera út frá náttúruverndarsjónarmiðum, því heimurinn þarf orku sama hvað hver segir og áliðnaðurinn er sú aðferð sem best hefur þótt henta til að binda orkuna og flytja hana út, því við erum fyrir löngu orðin sjálfum okkur næg í rafmagni og hita og getum því trauðla náð lengra, nema á sviði samgangna. Þar leika almenningssamgöngur lykilhlutverk.

Til að skýra málstað sinn hefur Framsókn á Íslandskorti sínu sett á skýran hátt fram þau svæði sem mögulega á að nýta, hvaða svæði ber að vernda og hvar eigi að staldra við og skoða málið. Aðrir flokkar flæmast undan, meira að segja Vinstri Græn eru tvístígandi, Samfylkingin virðist hafa eina stefnu í hverju kjördæmi, meðan Sjálfstæðisflokkurinn segir ekki neitt handfast í þessu, frekar en öðrum málum. Bara að það eigi að selja Landsvirkjun.

Ef þér er annt um jörðina og landið okkar er atkvæði þínu best varið hjá Framsókn.


Kjósendur að átta sig á hverju raunveruleg velferð og framfarir byggja

Til að geta gert betur í velferðarmálum þarf traustan grunn, stöðugar framfarir og samfellu í þróun.

Þessu virðast kjósendur vera að átta sig á. Til að geta lofað útgjöldum verður að gera grein fyrir því hvernig teknanna er aflað.

Það hefur Samfylkingin ekki gert skattatillögur þeirra valda tekjuminnkun ríksins, sömuleiðis Frjálslyndir sem bulla út og suður um skattamál, VG vilja hækka skattleysismörkin án þess að minnka tekjur ríkisins, sem krefst hækkunar skattprósentunar upp í 50%. Það getur hrakið stóran hluta hálaunafólks úr landi og dregur úr hvata til menntunar. Sjálfstæðisflokkurinn segir ekki neitt en íhaldsgrýlan skín í gegn með aukinni misskiptingu. Íslandshreyfingin virðist ekki vera í okkar tíma eða rúmi, líklegast á frúnni úti að fljúga

Þegar skattatillögur flokkanna eru teknar saman gefur það eftirfarandi tekjuniðurstöðu sem sem nýtist til ráðstöfunar m.a. í aukna velferð, menntun og auknar fjárfestingar í innviðum samfélagsins. SAmkvæmt því verða Frjálslyndir, Samfylkingin og Íslandshreyfingin að gera kjósendum grein fyrir því hvar þeir ætla að skera niður í velferðinni.

  • B          87,3     milljarðar króna, hófsöm lækkun skatta, meiri áhersla á velferð
  • D         59,1     milljarður króna, stöðug lækkun hlutfalls, aukin misskipting
  • F          -20,2    milljarðar króna, vanhugsaðar tillögur í skattamálum eru dýrar
  • S          -13,3    milljarðar króna,
  • V          70,5    milljarðar króna með hækkun tekjuskatts í 50%
  • Í           -93,8    milljarðar króna, öfgahægristefna í skattamálum án tengingar við raunveruleikann

Þetta á vonandi eftir að koma í ljós á laugardaginn, því sem betur fer fær stór hluti kjósenda gott skynsemiskast í kjörklefanum.


mbl.is Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn án skýrrar stefnu í umhverfismálum?

Guðfinna Bjarnadóttir opinberaði stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum í umhverfismálaþætti sjónvarpsins í gærkvöldi. Þegar hún var spurð beinna spurninga varð hún að tala fyrir sjálfa sig og hvað henni fyndist sjálfri, enda stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki afar ómarkviss og ónákvæm og án nokkura beinna tillagna nema að leggja skuli rafstrengi í jörð. Stefnan er einungis sambland af vel til unnu hrósi til umhverfisráðherra Framsóknar og vilja til að klára þau lagafrumvörp sem búið er að vinna í ráðuneytum Framsóknar og almennum lýsingum um að bæta í örfáa hluta umhverfismálanna:

  • Efnahagslegir hvatar verði notaðir í ríkari mæli til að ýta undir almenna notkun vistvænna ökutækja - Rétt er að minna á að fjármálaráðherra hefur ítrekað hafnað öllum undanþágum á gjöldum, t.d. vegna lífdísels.
  • Herða viðurlög við umhverfisspjöllum - auðvitað, held að allir flokkar hafi þennan punkt.
  • Vatnajökulsþjóðgarði fagnað - vilja halda áfram án þess að nefna nein dæmi.
  • Stórefla landgræðslu - nefna hið merka verkefni Kolviður, sem hleypt var af stokkunum og þegar er komið til framkvæmda, ekkert nýtt sem sagt.
  • Gerð verndar og nýtingaráætlunar. Þetta er orðað þannig að þeir eru í raun að boða stóriðjustopp þótt allir frambjóðendur þeirra tali á annan veg. Ekkert er minnst á þá kosti sem þeir vilja halda áfram með og komnir eru í farveg.
  • Færa rafmagnslínur í jörð - eina beina tillagan
  • Auka rannsóknir - á sviði umhverfis og auðlindamála. Flokkurinn vill sem sagt einskorða umhverfisrannsóknirnar við auðlindanýtingu?

Ekkert er minnst á mengun sjávar, sem er grundvöllurinn fyrir heilnæmri fæðu úr hafinu, endurnýtingu og endurvinnslu og ábyrgð fyrirtækja. Stefnan er hvað skýrust hvað varðar eignarhald á auðlindunum og orkufyrirtækja, sem þeir vilja færa í einkaeigu. Engar beinar tillögur eða leiðir, nema að færa rafmagnslínur í jörð. Þegar fara átti í skýrari svör tiltók hún ávallt að hún væri bara að tala um eigin skoðanir.

Í loftslagsmálunum er stefnan að Kyotobókunin sé í gildi. Engar leiðir eða lausnir. Það er reyndar ekki skrítið, þar sem málsvarar flokksins hafa hafnað því að hækkað hitastig jarðar sé af mannavöldum.

Þannig að græni fálkinn er ansi bláleitur, en Guðfinna virðist vel græn. Megi vegur hennar verða sem mestur innan Sjálfstæðisflokksins...


Frjálslyndir vilja auka skattbyrði lífeyrisþega - Kosningaloforðaflaumur V

Í flokkaþætti Frjálslyndra kom enn betur í ljós hvaða stefnu þeir hafa í skattamálum og hversu heillum horfnir þeir eru í skattamálum. Ég hef áður fjallað um arfavitlausar tillögur þeirra er varða tekjuskattinn, þar sem þeir vilja í raun afnema staðgreiðslukerfið. Nú vilja þeir ganga lengra í vitleysunni og auka skattbyrði lífeyrisþega um 4,3 milljarða!

Það gera þeir með því að vilja skattleggja lífeyrisgreiðslur eins og sem fjármagnstekjur. Engin persónuafsláttur er á fjármagnstekjur og því 10% skattur á alla 34 milljarðana sem greiddir eru úr lífeyrissjóðunum.

Annars lítur skattaloforðaskjalið út svona núna:

Tekjur-skattar-ofl-05


Fyrstu verk Slow Down stjórnarinnar

 

Eins og skoðanakannanir líta út í dag er eina starfhæfa stjórnin í kortunum stjórn S og D, Slow Down stjórnin, en Ingibjörgu Sólrúnu liggur svo mikið á að komast í stjórn að hún semur um nánast óbreytta stjórn, amk óbreytta skiptingu ráðherra..

 

Ráðherraskipanin yrði þá líklegast eitthvað á þessa leið:

Sjálfstæðisflokkur

  • Geir H Haarde Forsætisráðherra
  • Árni Mathiesen Fjármálaráðherra
  • Einar K Guðfinnsson Sjávarútvegsráðherra
  • Sturla Böðvarsson Samgönguráðherra
  • Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Menntamálaráðherra.

Samfylking

  • Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra.
  • Ágúst Ólafur Ágústsson heilbrigðisráðherra
  • Jóhanna Sigurðardóttir Félagsmálaráðherra
  • Össur Skarphéðinsson Iðnaðarráðherra. Guð mun forða bönkunum frá honum í stól fjármálaráðherra
  • Kristján Möller Umhverfisráðherra
  • Björgvin G Sigurðsson Landbúnaðarráðherra.

Fyrstu verk nýrra ráðherra væru líklegast eftirfarandi.

Utanríkisráðuneytið

Hér yrði fyrsti biðlistinn tæmdur með aðstoð Eiríks Bergmanns aðstoðarmanns. Biðlisti atvinnulausra alþingismanna. Sigríður Anna Þórðardóttir, Sólveig Pétursdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir yrðu gerðar að sendiherrum og haldin veisla til að fagna bættu jafnrétti í utanríkisþjónustunni. Mannréttindastefnan sem Valgerður vann að verður umsvifalaust gerð að stefnu Samfylkingarinnar.  Evrópumálin verða sett í stóra nefnd sem verður ætlað að skila áfangaskýrslu um kosti og galla ESB aðildar árið 2030.

Félagsmálaráðuneytið

Fullt starf yrði fyrstu árin að fá samþykkt þau lög sem ráðherrar Framsóknar hafa undirbúið og kynnt, um jafnrétti kynjanna og launamisrétti. Jóhanna færi að öðru leiti ófáar ferðir í fjármálaráðuneytið að óska meira fjár til sveitarfélaganna.

Heilbrigðisráðuneytið

Bygging Landspítalans verður stöðvuð umsvifalaust, að kröfu Jóns Sigurðssonar fyrrverandi, til að geta sagst hafa dregið úr opinberum framkvæmdum. Að öðru leiti yrði ráðherra í því að vígja BUGL, þau tæplega 400 hjúkrunarrými sem undirbúningi er lokið á eða komin í byggingu, 65 yrðu vígð á þessu ári. Að öðru leiti færi tími Ágústar og Árna í að rífast um hver hefði réttar upplýsingar. Margréti Frímansdóttur yrði veitt staða forstjóra Tryggingastofnunnar og Karli Steinari veitt fálkaorðan fyrir að hafa haldið stöðunni innan kratanna allan þennan tíma.

Landbúnaðarráðuneytið

Björgvin G Sigurðsson heldur áfram þeirri stefnu sem hann hefur kynnt á fundum, sem er samhljóða stefnu Framsóknar, en ósamhljóða stefnu Samfylkingarinnar. Það mun koma Samfylkingunni talsvert á óvart fyrst í stað.

Iðnaðarráðuneytið

Össur fer í að semja um háar skaðabætur til þeirra orkufyrirtækja sem Samfylkingin stöðvar þróun og uppbyggingu hjá, í Svartsengi, Hellisheiði og Þeistareykjum. Í framhaldinu verður samið við Húsvíkinga um sérstakan byggðastyrk - tímabundið.

Umhverfisráðherra

Kristján Möller mun berjast hart gegn stöðvun stóriðjuframkvæmda við Húsavík við iðnaðarráðherra og bíða lægri hlut.  Að því loknu mun umhverfisráðherra sneiða fram hjá Þingeyjarsýslu á ferðum sínum um kjördæmið það sem eftir er kjörtímabilsins. 


Sláandi munur á milli kannana

Síminn hringir: "Halló, þetta er hjá Gallup má ég spyrja þig nokkra spurninga?" heyrist í símanum.

Eigandi símans: (Jess. þeir hringja í mig, mitt álit skiptir máli. Jess.) "já, alveg sjálfsagt"

Gallup: "Hvaða flokk myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag?"

Eigandi símans: "Tja....... veit ekki........ alveg" (Aulahrollur hríslast um eiganda símans fyrir að vera svona mikill auli að hafa ekki afgerandi skoðanir, standandi á stól í kaffistofunni og prédika einhvern boðskap)

Gallup:"en hvaða flokk væri líklegast að þú kysir?"

Eigandi símans: (Aulahrollurinn eykst. ) "æ....... veit ekki" (úff er maður alveg skoðanalaus? Ég var að hugsa um að kjósa X en æ mér líkar ekki Y við þá, kannski er Z betri eða .....)

Gallup:"Er líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna?"

Eigandi símans: (Nei, fokk. Ég er nú ekki alveg skoðanalaus. Má ég ekki velja neinn af hinum flokkunum núna? Ef ég segi bara einhvern af hinum flokkunum heldur hún að ég sé alger auli, það vil ég ekki) "Já já bara Sjálfstæðisflokkinn."

Ætli þessi síðasta spurning sem er alveg ný í skoðanakönnunum á Íslandi hafi ekki mikið að segja um þennan sláandi mun sem er á skoðanakönnunum í dag? 

Mitt rate var reyndar dulítið afgerandi í Bifrastarkönnuninni

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 43.75%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 100%
Stuðningur við Samfylkinguna: 50%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 37.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 19%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Er greinilega á réttri hillu í pólitík


mbl.is Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill Samfylkingin hætta við allar langtímaáætlanir ríkisins?

Ágúst Ólafur Ágústsson og Árni Páll Árnason Samfylkingarmenn hafa verið duglegir við að básúna út að ríkisstjórnin hafi sent 400 milljarða króna kosningavíxil inn í framtíðina. Ég hef átt erfitt með að fá útskýringar á þessum fullyrðingum, þeir virðast yfir það hafnir að þurfa að útskýra orð sín, þrátt fyrir áskoranir þar um.

En með því að hlusta gaumgæfilega á þá kumpána um helgina áttaði ég mig á því hvað þeir voru að fara.

Þeir voru að tala um skuldbindingar þær sem felast í samgönguáætlun (60), áætlanir um úrbætur í málefnum geðfatlaðra (1,5), áætlun um byggingu Hátæknisjúkrahúss (50), náttúrverndaráætlun, bygging tónlistarhúss (9), fjarskiptasjóður (2,5) áætlun um byggingu tæplega 400 hjúkrunarrýma á Höfuðborgarsvæðinu (20), samkomulagið við aldraða (30), lok byggingar BUGL (1), Heilsugæslubygging á Siglufirði, skurðstofa í Keflavík, heilsugæslubyggingar á Eskifirði og í Ólafsvík, samningur við sauðfjárbændur og mjólkurbændur (4), framlög til nýsköpunar og þróunarstarfsemi (1,5), Byggðaáætlun, stækkun framhaldsskólanna í Breiðholti, Ármúla, MR, Iðnskólans í Reykjavík og Garðabæ og tímamótasamningur um rannsóknir við HÍ, stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, byggingu varðskips, eflingu þyrlusveitanna og ný eftirlitsflugvél fyrir Landhelgisgæsluna og auka þróunarsamvinnu.

Man ekki eftir fleiri áætlunum í svipinn, en ég man ekki eftir því að þessum hlutum hafi svo mjög verði mótmælt af þeirra hálfu, frekar að ekki væri nóg að gert!

Það er grundvallaratriði í skynsömum rekstri að gera áætlanir. Þeir kumpánar virðast með yfirlýsingum sínum vera mótfallnir þessum áformum og ákvörðunum og vilja greinilega halda áfram eins og hingað til, að fá að sveiflast með skoðanir sínar eins og lauf í vindi frá degi til dags. Það vill Framsókn ekki og vonandi ekki kjósendur heldur.


Íslandshreyfingin vill minnka velferðina um 51 milljarð !

Stjórnmálaályktun Íslandshreyfingarinnar sannar að hreyfingin aðhyllist raunverulega öfgahægristefnu. Tillögur þeirra um lækkaða skattbyrði allra, sem ég get ekki skilið annað en að halda eigi sömu skattprósentu og 142.600 kr skattleysi, kostar ríkissjóð 51 milljarð í beina tekjulækkun, mv tekjur 2006. Á móti kæmi einhver tekjuaukning í veltuskattsaukningum, mv. að virðisaukaskatturinn er 7% og 24,5% má áætla að það sé um 10-15%, sem er 5-7 milljarðar, en þar sem einnig á að taka af allar tekjutengingar bóta, er alveg ljóst að það kostar meira en sú aukning.

Þeirri tekjuminnkun þarf að mæta með útgjaldaminnkun, en til samanburðar kostar Háskóli Íslands 6,5 milljarða á ári, lífeyristryggingar 41 milljarð og sjúkratryggingar 17 milljarða. Rekstur Landspítalans kostar 31 milljarð og heildarskatttekjur ríkisins eru 343 milljarðar.

Við þetta bætist að þeir ætla að taka í handbremsuna og leggja til að finnska leiðin í nýsköpun verði farin, sem reyndar var í lög færð fyrir 2 árum á Íslandi. Það stendur greinilega ekki steinn yfir steini hjá þeim og ekki hægt að treysta þeim fyrir atkvæði sínu. .


mbl.is Íslandshreyfingin vill að skattleysismörk verði 142.600 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sala Landsvirkjunar?

Eftir að ríkið eignaðist Landsvirkjun að fullu hefur sú skoðun orðið sífellt háværari innan Sjálfstæðisflokksins að selja beri fyrirtækið. Tel ég það hið mesta glapræði og er Framsókn sammála mér í því.

Í framhaldi af yfirlýsingunni um kaupin lýsti Geir H Haarde, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins að þetta sé fyrsta skrefið í hlutafélagavæðingu Landsvirkjunar sem undanfara á sölu Landsvirkjunnar til einkaaðila. Sú skoðun hans er nú komin í stefnu Sjálfstæðisflokksins og alveg í samræmi við grundvallarstefnu hans. En þessi stefnahún vekur margar og afar flóknar spurningar, sem leita þarf svara við áður en lengra verður haldið á þeirri braut.

Landsvirkjun hefur ekki greitt raunverulegt gjald, auðlindagjald, fyrir sín virkjanaleyfi enda hefur verið víðtæk sátt um að afl stóru fossanna sé þjóðareign og eigi þeir að mala allri þjóðinni gull og eru kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í rauninni eðlilegt skref til staðfestingar á þeirri sátt. Sama mætti segja um háhitann, hann eigi að blása í sín hljóðfæri, almenningi til heilla.

En þegar farið er að fjalla um sölu á Landsvirkjun til einkaaðila vaknar fjöldin allur af spurningum. Er eðlilegt að sumir einkaaðilar en ekki aðrir eigi að njóta þess að eiga í fyrirtæki sem nýtur ríkisábyrgðar á lánum, eða er ætlunin að Landsvirkjun fjármagni sig upp á nýtt án ríkisábyrgðar? Er víst að Landsvirkjun sé eins aðbært fyrirtæki án ríkisábyrgðar á lánum? Hvað ætli fáist fyrir Landsvirkjun þá?

Er eðlilegt að einkaaðilar fái afhentan hlut í auðlindum sem eru í dag sameign þjóðarinnar? Nóg hefur verið fjallað um aðgengið að fisknum í sjónum, sem þó er auðlind sem einkaaðilar gerðu að þeim verðmætum sem hún er með atorku sinni og var úthlutað með hefðarréttinn að leiðarljósi við upptöku kvótakerfisins. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða.

Á hvaða verði á að verðleggja virkjanaheimildirnar svo sanngjarnt sé? Er rétt að miða við verðmæti þeirra tímabundnu orkusölusamninga sem eru í gildi í dag? Hvað ef hrein sjálfbær orka hækkar enn frekar í verði í kjölfar næsta skuldbindingatímabils Kyotobókunarinar? Hvað ef kjarnorka verður bönnuð á alþjóðavísu í kjölfar einhvers hörmulegs slyss? Hvers virði er það land og þau náttúruvætti sem fórnað hefur verið fyrir þessa orku? Hver á að meta það og á hvaða forsendum? Hvernig á að endurmeta eignarnám sem gert hefur verið hingað til á grundvelli almannahagsmuna sem yrðu einkahagsmunir við sölu?

Það er alveg ljóst að stór hluti verðmæta Landsvirkjunar og í rauninni tilvist fyrirtækisins er fólgin í því að það er og hefur verið almannafyrirtæki sem hefur í krafti almannahagsmuna haft aðgengi að náttúrunni með allt öðrum hætti en einkafyrirtæki hefði nokkurn tíma haft og verður ekki séð annað en að fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn verður að útskýra sitt mál mun betur áður en hugsanlega verður hugað að því að halda lengra á þeirri braut sem formaður flokksins hefur lýst.
Þannig að ef þú vilt tryggja áframhaldandi þjóðareign á Landsvirkjun um leið og lögð er áhersla á áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins, sem grundvöll velferðarkerfisins, þá er Framsókn málið.

Jafnrétti í verki - Framsókn með forystu

Nú eru komnar niðurstöður jafnréttisvogar framboðslistanna, en hún var birt í nýjasta fréttablaði Jafnréttisstofu. Kemur það fram enn og einu sinni að Framsókn framkvæmir. Einnig í jafnréttismálum, en flokkurinn kom best út úr matinu..

Jafnréttisvogin er eitt af því sem fulltrúar allra flokka á þingi undirbjuggum í starfshóp sem skipaður var til að bæta jafnrétti á Alþingi. Í nefndinni sátu Pétur Blöndal (D), Katrín Jakobsdóttir (V), Katrín Júlíusdóttir (S), Helga Jónsdóttir (F) auk mín, en Dagný Jónsdóttir (B) leiddi nefndina. Reyndar kom Margrét Sverrisdóttir á nokkra fundi, svo það má segja að það séu ennþá fulltrúar allra framboða sem komu að þessu. Niðurstaðan staðfestir enn og aftur góða stöðu Framsóknar í jafnréttismálum:

  1. B  Framsóknarflokkurinn                    81
  2. V  Vinstri hreyfingin - grænt framboð 79
  3. S  Samfylkingin                                  76
  4. F  Frjálslyndi flokkurinn                     65
  5. D  Sjálfstæðisflokkurinn                     50
  6.     Heild                                             74

Framsókn er með algert jafnrétti í efstu sætum sem er í samræmi við algert jafnrétti flokksins í ríkisstjórn.

Þessu þarf að halda áfram og ég met það þannig að í heildina séu listarnir núna að skora mun betur en síðast, en yfirfjöldi kvenna í varaþingmannssætum dregur heildina svolítið niður. Það er eins og konur þurfi að berjast fyrir setu sinni, meðan karlarnir sitja þægilega í "öruggu" sætunum. Þessu þarf að breyta og það skal breytast.

Taflan í heild sinni er hér

jafnréttisvog


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband