Það er best að veiða ekki neitt í góðu veðri

... í það minnsta betra en að veiða ekki neitt í vondu veðri.

Dýrin í skóginum eiga að vera vinir

Heill þér áttræðum Steingrímur.

Fyrirlestrar dagsins sýndu svo ekki verður um villst hversu góður og framsýnn stjórnmálamaður Steingrímur Hermannsson er. Ætla ekki að reyna að endursegja þá, en þau voru mörg framfaraverkin sem unnin voru í forsætisráðherratíð hans. Ber það helst að nefna EES samninginn sem var unninn í tíð hans, sem Jón Baldvin fékk að leggja lokahöndina á, þjóðarsáttirnar 1986 og 1990 sem kváðu niður verðbólgudrauginn og sköpuðu þann stöðugleika sem undanfarið hagvaxtarskeið byggir á, auk þess sem staða Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu var styrkt með stofnun embættis ríkisendurskoðanda, Umboðsmanns Alþingis og Umhverfisráðuneytis. 

Í ávarpi sínu til okkar ráðstefnugestanna fannst mér Steingrímur lýsa afar vel af hverju hann var jafn farsæll forsætisráðherra og raun var. Hann bar virðingu fyrir samferðamönnum sínum í stjórnmálunum og leit ekki á þá sem andstæðinga, hlustaði á rök þeirra og hafði sjálfstraust til að viðurkenna að hans skoðanir voru ekki alltaf þær einu réttu, enda hann brúarsmiður sem á fáa sína líka í íslenskri stjórnmálasögu. Í því er fólginn mikill styrkur.

Með það viðhorf er mun auðveldara að ná árangri í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka og eitthvað sem þeir stjórnmálamenn sem eru í framlínunni í dag mættu læra af, að dýrin í skóginum eiga að vera vinir.


mbl.is Steingrímur Hermannsson 80
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð sinnaskipti hjá ríkisstjórninni - hver verða viðbrögð bankanna?

Jóhanna Sigurðardóttir er enn og aftur að sanna sig sem einn ábyrgasti stjórnmálamaður nútímans.

Tillögurnar sem nú hafa verið kynntar eru hófstillt skref í rétta átt, það hefði verið óskynsamlegt að ganga lengra á þessum tímapunkti.

Eru þær í takt við þær tillögur sem Framsókn, með Hall Magnússon í broddi fylkingar, hefur verið að leggja til frá því fyrir jól og getur maður alveg séð eftir þeim fjármunum sem hefðu sparast, hefði verið hlustað á þær strax þá. En vonandi eru ráðherrarnir nú búnir að læra að hlusta á góð ráð ábyrgs flokks sem hefur ekki misst sig í lýðskrumi og ofloforðum.

Jóhanna hefur nú náð að beygja íhaldið og vonandi fengið það til að sjá ljósið í þeim verðmætum sem samfélagið á í Íbúðalánasjóði, verðmæti sem ekki væru til staðar nema í gegnum sameignina á honum. Hingað hefur íhaldið lagt lykkju á leið sína til að ófrægja sjóðinn og kennt honum um allt að sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi, þrátt fyrir að hafa ítrekað verið leiðrétt með það, þannig að Jóhanna er þarna virkilega að sýna styrk sinn.

Það svigrúm sem bönkunum verður gefið með því að kaupa lán af þeim verða þeir að nýta á ábyrgan hátt. Hjól litilla, millistórra og stærri fyrirtækja verða að fara að snúast á ný á eðlilegan hátt með bættu aðgengi að fjármagni, en algert frost hefur verið á lánamarkaði undanfarna mánuði, bæði vegna utanaðkomandi aðstæðna, en ekki síður vegna óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað með ósamstilltri og hikandi framgöngu sinni. Nú reynir á bankana, en ég á bágt með að trúa því að þeim verði veitt svona tækifæri í bráð, misnoti þeir það.

Óábyrgar aðgerðir og yfirlýsingar annarra ráðherra, þá sérstaklega forsætisráðherra um að hætta að kaupa húsnæði og miklar væntingar vaktar af viðskiptaráðherra í tengslum við stimpilgjöldin, sem svo var bara leyst til hálfs, osfrv. Yfirlýsingar formanns og varaformanns fjárlaganefndarmanna um brostnar forsendur fjárlaga voru svo ekki til að bæta ástandið.

Útgáfa ríkisskuldabréfa er og afar góður hlutur, um að gera að setja ekki of mikið inn of hratt, því þetta eru dýr skuldabréf, þurfa að bera amk 16% vexti. Ef þessar aðgerðir styrkja gengi krónunnar, ætti verðbólguhraðinn að fara að minnka og hægt verður að hefja vaxtalækkunarferli og þar með væri næsta útgáfa ríkisskuldabréfa ekki að þurfa að vera eins dýr.

En á næstu vikum þurfa að koma fram fleiri skref, skipuleg skref sem geta sannfært fólk um að ríkisstjórnin hafi einhverja hugmynd um hvað hún sé að gera. Að hún hafi yfirsýn og ætli sér að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Skref sem slá á verðbólguna, sem yrði aftur til að hægt væri að hefja skipulagt vaxtalækkunarferli, sem aftur ætti að slá á verðbólguna, því með þessum okurvöxtum er einungis verið að auka framleiðslukostnað í samfélaginu, sem hlýtur að fara út í verðlagið, þannig að þessi slæma hringverkun fari að snúast við og vinda ofanaf vitleysunni.


mbl.is Breytingar á Íbúðalánasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir stunguskóflan í Helguvík?

Mér finnst enn eitt dæmið um dugleysi íslenskra fjölmiðla að hafa ekki skoðað þessa mynd betur, þar sem þingmaður Suðurlands, Samfylkingarmaðurinn Björgvin G Sigurðsson, nú viðskiptaráðherra var meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustunguna að nýju álveri í Helguvík.

Fín framkvæmd og gott að Björgvin skuli styðja hana, þótt ég voni að stjórnvöld tryggi að þessi framkvæmd muni ekki verða í veginum fyrir Húsvíkingum.

Það er eðlilegt að spurt sé hvort hann sé með þátttöku í þessari athöfn að lýsa yfir stuðningi Samfylkingarinnar við framkvæmdina og hvort fylkingin ætli að styðja þær framkvæmdir sem þarf að fara í til að útvega fyrirtækinu orku, eða hvort yfirlýsingar græna netsins sé til marks um stefnu Samfylkingarinnar.

Eða er Björgvin með þessu að lýsa vilja Alþýðubandalagsarms Samfylkingarinnar í andstöðu við kvennalistaarminn og grænanetsarminn?

Við hverju má búast í framhaldinu?

Til þess að þessi starfsemi geti gengið þarf nefnilega orku, og er eðlilegt að spurt sé hvaðan hún eigi að koma.

Ætla fjölmiðlar að láta viðskiptaráðherra komast upp með að svara ekki þeirri spurningu?

Á að láta það duga að segja eins og sagt var um netþjónabúið að orkan fáist af dreifikerfinu?

Mér þykir eðlilegt að ráðherrann sé inntur að því hvort hann hafi skipt um skoðun varðandi virkjun neðri hluta Þjórsár, sem hann lýsti sig mótfallinn í aðdraganda síðustu kosninga, eða hvort hann sé ósammála borgarfulltrúum Samfylkingarinnar sem slógu Bitruvirkjun umsvifalaust af borðinu eftir álit Skipulagsstofnunar. Orðum og gjörðum fylgir ábyrgð og er eðlilegt að menn séu inntir að því hvað menn séu að hugsa þegar þeir taka þátt í fjölmiðladansinum.

Eins er eðlilegt að spurt sé hvort ráðherran ætli að beita sér fyrir því að aflað verði losunarheimilda fyrir frekari iðnaðaruppbyggingu.


Réttur skotmanns birnu og ábúenda á Hrauni

Vonandi verða landeigendur og skotmaður ekki hlunnfarin um sinn hlut í þeim verðmætum sem fólgin eru í dauðum bangsa, en hann er tryggður með einum þeim elstu réttarheimildum sem í gildi eru á Íslandi.

Hér hlýtur réttaryfirfærsla að gilda beint frá hvölum yfir á ísbirni.


mbl.is Ísbjörninn að Hrauni dauður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjónasjóður til verndar "góðum" rándýrum

Refur, örn, fálki og smyrill eru rándýr sem eiga heima í íslenskri náttúru. Þessi dýr valda auðvitað einhverjum búsifjum hjá þeim sem nytja aðrar tegundir, eins og hjá æðarbændum og stöku sinnum hjá fjárbændum.

Þetta ísbjarnarmál og það tjón sem hann er að valda í æðarvarpinu á Hrauni, þykir mér sýna að þörf sé á sjóði til að bæta fyrir það tjón sem þessi dýr valda.

Er það bæði réttlætismál gagnvart þeim sem verða óumbeðið fyrir því tjóni sem dýrin valda en einnig verndarmál, því þá ætti freisting þeirra sem verða fyrir tjóni að verja sig með því að drepa dýrin að vera minni, sé peningalega tjónið bætt.

Ég er ekki sannfærður um að þessi sjóður ætti að vera opinber. Það eru mörg rök, aðallega sveigjanleikarök, sem hníga að því að betra væri að hafa hann utan opinbera kerfisins og ætti hann þá að fjármagnast með frjálsum fjárframlögum. Mink á aftur á móti að reyna að útrýma og það með opinberu fé.


mbl.is Beðið átekta að Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein fylkingin komin fram

Ég er sífellt að sannfærast betur og betur um það að Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi þess orðs. Þetta er kosningabandalag fylkinga sem í raun er hver sinn einsmálsflokkurinn, ekki ósvipað og Frjálslyndi flokkurinn var í upphafi. Það er margt gott fólk þarna innan um, en í raun er þetta stjórnlaus hópur.

Við erum nú með hinn nýstofnaða Landnema, Kvennalistann, Græna netið, Þjóðvaka, Alþýðubandalagið, Reykjavíkurkratana, Hafnarfjarðarkratana og landsbyggðarkratana úr Alþýðuflokknum sem Samfylkingin virðist sem regnhlíf kenna sig hugmyndafræðilega. Í það minnsta þegar finna á háfleyg orð á tyllidögum.

Fylkingarnar hafa svo hver sína stefnu í raun og því upplifir maður það að Samfylkingin sé sífellt að skipta um skoðun. Líklegast er það ekki rétt. Það eru bara fulltrúar mismunandi fylkinga að tala og virðist fylkingin sem slík bara vera sátt við það. Ef einhver sem ber ábyrgð þarf að taka umdeilda ákvörðun verður einhver fylkingin á móti og hefur það hlutverk að róa þá kjósendur sem eru á móti ákvörðuninni. Þessi vinnubrögð eru líklegast réttlætt undir nafni skoðanafrelsis, en eru í raun óábyrg tækifærismennska, sem á ekkert skylt við ábyrgt stjórnmálastarf.

Þetta með allt öðrum hætti í öðrum flokkum. Þeir finna leiðir til að vinna sig út úr þeim ágreiningi sem kemur upp og koma svo fram með eina stefnu eða aðferð, sem viðkomandi flokkur stendur svo við.

Því er Sjálfstæðisflokkurinn að kynnast í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og ég býst ekki við að gleðin sé mikil á þeim bænum, þótt þeir þori ekki að koma fram undir nafni með þá skoðun sína.


mbl.is „Viljum gera landnema sýnilegri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert hlutfall í Evrópukosningum endurtekur sig

Það virðist vera að það sé nákvæmlega sama hvaða þjóð í Vestur-Evrópu er spurð í þjóðaratkvæði um eitthvað er varðar samþykktir Evrópusambandsins, alltaf er uþb helmingur með og helmingur á móti.

Það virðist því tilviljun sem ræður því hvorum megin niðurstaðan fellur. Ef eitthvað er að marka tölfræðina þá gæti það verið til marks um að þýðið velji af tilviljun ekki þekkingu.

Ef það er rétt er það þá vegna þess að ESB er einfaldlega orðið of flókið og fjarri kjósendum til að þeir geti tekið upplýsta afstöðu?

Ég veit ekki...

Kosningaþátttakan er í það minnsta vísbending í þá átt.

Óháð því er samt full ástæða til að kanna kosti og galla þess fyrir okkur Íslendinga að ganga þarna inn.


mbl.is 53,4% Íra höfnuðu ESB-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilld að geta þakkað sér gott veður

Það er frábært að geta notað hvert tækifæri þegar gott er veður til að minna á grænu skrefin, eitt af því besta sem fyrsti meirihlutinn skildi eftir sig, meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, því þau eru afar góð og hefur þeim meirihlutum sem tekið hafa við borið gæfu til að halda áfram á þeirri braut..

Maður getur samt brosað örlítið út í annað þegar maður les fréttatilkynningu dagsins því í henni var allt að því verið að þakka grænu skrefunum góða veðrið.

Mikill er máttur þeirra greinilega....


mbl.is Sumarstemning í Pósthússtræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlandið kólnar... aftur

Fyrstu raunverulegu merki þess að ríkisstjórnin væri í einhverjum tengslum við raunveruleikann í efnahagslífinu birtust 28. mars þegar forsætisráðherra gaf yfirlýsingu á ársfundi Seðlabankans um að styrkja þyrfti bankann og hefja vinnu í að endurskoða peningamálastefnuna, með aðkomu vísustu manna, innlendra og erlendra. Fram að því höfðu ráðherrar básúnað hvað þeir fylgdust vel með. Komið hefur í ljós að það hefur verið það eina sem þeir hafa gert, ekkert hefur verið undirbúið og menn töluðu í kross, sem minnkaði enn tiltrú á markaðnum, með tilheyrandi tjóni fyrir efnahagslífið. Brást markaðurinn ágætlega við þeim tíðindum og hlýnaði, en þegar í ljós kom að ekkert átti að gera, féll allt í sama farið og krónan með. Endurskoðunarnefndin hefur enn ekki verið skipuð, hvað þá meira.

Næstu lífsmörk voru 16. maí þegar Seðlabankinn gerði tímabundna gjaldmiðilsskiptasamninga við þrjá norræna seðlabanka. Var það ágætt svo langt sem það náði, ekkert fylgdi eftir og nýtti ríkisstjórnin ekki það til að láta hné fylgja kviði og allt kólnaði aftur.

Síðustu lífsmörk ríkisstjórnarinnar voru svo undir lok þings, þegar heimild til 500 milljarða lántöku var veitt. Markaðurinn brást vel við en aftur kólnaði, þegar í ljós kom að ekkert fylgdi í kjölfarið. Engin lántaka eða neitt.

Ekkert hefur hins vegar verið gert og þau jákvæðu áhrif sem hvert og eitt af þessum skrefum hefur haft hefur ekki verið nýtt og því stendur ríkisstjórnin nú með ískalt hland í skónum, ráðalaus. Hún reynir að bera sig vel og segir að þetta hafi sparað henni pening í formi vaxta, en er ekkert að spá í að umbjóðendur hennar, almenningur borgar brúsann með himinháum vöxtum og hríðfallandi gengi.

Ef hlustað hefði nú verið á viðvaranir Framsóknar, sem Seðlabankinn hefur tekið undir að öllu leiti og fleiri í haust og aðgerðir undirbúnar og kynntar af myndugleik, þannig að hvert skrefið fylgi því næsta og styrki það.

Það er eins og ríkisstjórnin vilji stöðva hjól efnahagslífsins og ná fram atvinnuleysi til að minnka kaupmátt, atvinnurekendum til hagsbóta og auka samkennd launþega, sem Samfylkingin heldur líklegast að muni gagnast henni. En þá þarf hún að fara að tala máli þeirra, sem hún hefur ekki gert.

Himinháir vextir gagnast bara þeim sem eiga peninga, en ekki þeim sem skulda. Það er kannski rétt að horfa á aðgerðir og aðgerðaleysi manna í því ljósi.


mbl.is Háir stýrivextir farnir að bíta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband