Íhaldið hræðist nýjan formann SUF

Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sér ógn í nýjum formanni Sambands ungra framsóknarmanna, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, sem kjörin var á þingi sambandsins um helgina.

Í dálkinum klippt og skorið í miðopnu 24 stunda er beitt bókstaflegum moldarburði til að ata hana og spyrða við einhverja arma innan Framsóknar og henni stillt upp sem andstæðingi Björns Inga Hrafnssonar og hún sett í lið með Guðna formanni. Allir Framsóknarmenn eru í liði með Guðna formanni, einnig Björn Ingi.

Ég veit ekki betur en að þessi glæsilegi lögfræðingur hafi sjálfstæðar skoðanir sem eru á engan hátt í liði með neinum í þeim skilningi sem íhaldið þekkir best innan eigin vébanda og vill greinilega að sé innan annara flokka. Hennar skrif bera vitni um það. Til dæmis veit ég ekki betur en að Bryndís hafi afar svipaðar skoðanir og Björn Ingi í evrópumálum, sem hefur verið helsta ágreiningsefnið innan Framsóknar undanfarin ár, sem Guðni hefur nú sett í afar farsælan farveg og losað flokkinn undan þeirri skoðanakúgun sem ástunduð er hjá íhaldinu og krötum gagnvart þeirri umræðu.


Er verið að leita að sökinni á vitlausum stað?

Að jafngildi 3.500 milljarða króna fari út úr hagkerfi, auk annars stríðskostnaðar USA í Írak, sem samkvæmt þessari síðu er kominn yfir 40.000 milljarða hlýtur að hafa ofboðsleg áhrif á hagkerfi dollarsins.

Getur verið að þetta útstreymi fjármagns, hafi meira að segja um ástand fjármála heimsins en undirmálslánin í Bandaríkjunum og viðskiptahallinn við Kína og verið sé að reyna að koma sökinni fyrir til að fela áhrif Íraksstríðsins á bandarískt efnahagslíf?

Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is 3500 milljarðar króna horfnir í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin tekur ekki mark á Mannréttindanefnd SÞ

Þetta svar við áliti mannréttindanefndar SÞ er undarleg lesning.

Fyrir það fyrsta er fallinn úrskurður, álit mannréttindanefndar SÞ. Ísland greip til varna gagnvart kærunni og niðurstaða fékkst. Þess vegna er hlálegt að sjá viðbrögð þar sem I. hlutinn eru nýjar og endurteknar varnir Íslands í málinu, söguskýringar og útskýringar. Slíkt á heima í málflutningnum sjálfum, ekki í viðbrögðum við niðurstöðu hans.

"Þessi viðbrögð eru hér með kynnt mannréttindanefndinni og er vænst viðbragða frá henni við framangreindu og hvort nóg sé að gert."

Þessi lokaorð viðbragðanna eru ekkert annað en yfirlýsing um að ríkisstjórnin taki ekki mark á álitinu um leið og ríkisstjórnin viðurkennir að hafa ekki varið sinn málstað með nægjanlegum hætti. Heldur ríkisstjórnin að mannréttindanefndin segi "sorrý, við misskildum þetta aðeins og ætlum að breyta álitinu"!!!

Það er reyndar alveg í samræmi við þá sýn sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa á íslenskum dómstólum, og birtist nú síðast í Baugsmálinu.

Í öðru lagi er því hafnað að greiddar verði bætur. Álit mannréttindanefndarinnar er sem sagt virt að vettugi.

Í þriðja lagi þá er sagt að

"...efnt verði til allsherjarskoðunar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu í náinni framtíð með breytingar í huga þannig að komið verði til móts við kröfur mannréttindanefndar Sþ, eftir því sem unnt er."

...eftir því sem unnt er!

Engar tímasetningar, engin aðferðafræði, engin markmið. Það er alveg greinilegt að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að fara í þá vinnu sem nauðsynleg er til að bregðast við áliti mannréttindanefndarinnar, til þess er líklegast engin eining milli stjórnarflokkanna.

Þetta mál er og í kolvitlausum farvegi. Fyrst ríkisstjórnin náði ekki samstöðu um lagabreytingar, hefði sjávarútvegsráðherra átt að flytja Alþingi skýrslu um álitið fyrir þingfrestun, þar sem einmitt hefði átt að fara yfir þær varnir sem hafðar voru uppi og leggja svo í framhaldinu fram þingsályktunartillögu þar sem verklag við endurskoðun fiskveiðstjórnunarkerfisins væri fest niður, skilgreindir þeir aðilar sem að því starfi ættu að koma og settir tímafrestir niðurstaðna. Þess í stað fer fram umræða utan dagskrár. Ekkert formlegt, bara kjaftasnakk. Ríkisstjórnin virðir þannig löggjafarvaldið og þingræðið að vettugi. Ekki í fyrsta skipti.

Þetta svar er hins vegar bara loft, með smá svifryki og Íslandi til skammar.


mbl.is Svar sent til mannréttindanefndar SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr meirihluti - hvað mun Ólafur F gera?

Í svokölluðum málefnasamningi Ólafs F og Sjálfstæðisflokksins stendur að það eigi að vera Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson sem eigi að taka við af Ólafi F sem borgarstjóri. Ekki einhver annar Sjálfstæðismaður.

En það er eitt í þessu spili sem ekki er búið að klára. Nú hafa Sjálfstæðismenn ákveðið að breyta samningnum við Ólaf F einhliða, með því að skipta nafni Vilhjálms út fyrir Hönnu Birnu.

Það er í rauninni kominn nýr meirihluti með þessum gjörningi. Sá fjórði.

Mun Ólafur F geta treyst því að Sjálfstæðismenn ætli sér ekki að breyta einhverju fleira einhliða í leiðinni? - fordæmið er jú gefið.

Verður Ólafur F tilbúinn til málamiðlana að hætti Hönnu Birnu, svipaðra og hún ætlaðist til af Birni Inga, að hann miðlaði málum með því að fallast á allt sem þau sögðu í REI ruglinu þeirra!

***

Þetta er í rauninni afar haganlegt fyrir Sjálfstæðismenn, nú geta þeir undirbúið málin þangað til að þeir fá borgarstjórastólinn og hafið þá flugeldasýningu fyrir kosningar. Óánægja sem safnast alltaf í kringum ákvarðanir yfirstjórnendur festast á Ólaf en Sjálfstæðismennirnir sleppa við sletturnar fram að því.

Við útsvarsgreiðendur þurfum að borga brúsann, en það er þeim nok sama um, bara að fylgið hækki.


Verður tóm Landspítalalóðin minnisvarði einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar?

Við sölu Símans voru teknir til hliðar peningar til byggingar fyrsta hluta spítala, svo ef ekki hefur verið framið rán í Seðlabankanum, er hrein vitleysa í formanni fjárlaganefndar að breyting á tekjum ríkissjóðs eigi að hafa áhrif á byggingu spítalans.

Nema endurtekning Sjálfstæðisflokkshestanna á undirbúningsvinnu sem þegar hefur farið fram kosti svona rosalega mikið að það taki alla peninga? Ég á bágt með að trúa því.

Maður hræðist svona fréttir, sérstaklega í ljósi einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum, sem virðist ætla að koma allri starfsemi sem hægt er að græða á til einkaaðila, svo hægt sé að hefja einkavæðingu á næsta kjörtímabili. Bygging háskólasjúkrahúss gengur jú gegn þeirri stefnu, svo frestun þess er enn einn vitnisburðurinn um að þetta sé hinn raunverulegi ásetningur Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisráðuneytinu og það sem Geir H Haarde átti við þegar hann nú væri hægt að gera hluti sem ekki hefði verið hægt með Framsókn í ríkisstjórn.

Þessu virðist Samfylkingin ætla að taka þátt í.

Ljótt ef satt er.


mbl.is Fresta nýja spítalanum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar hugmyndir Talsmanns neytenda

Þótt maður leggi sig allan fram á maður oft í erfiðleikum með að komast að því hvað hlutirnir kosta, ef þeir eru yfirhöfuð merktir í matvöruverslunum. Það gerir það að verkum að maður er oft að setja hluti í körfuna sem maður veit ekkert hvað kosta og getur því ekki tekið upplýsta ákvörðun um kaupin.

Maður nennir ekki að standa í því að fara á kassann og spyrja að því hvað hitt og þetta kosti.

Það er einnig eðlilegt að miðað sé við að verðbreytingar séu ekki framkvæmdar á opnunartíma þegar um rafrænar verðmerkingar er að ræða. Eðlilegt er að miða við að slíkt sé gert fyrir eða eftir opnun, og miðað við miðnætti ef búðin er opin allan sólarhringinn.


mbl.is Vill nefna verslanir sem verðmerkja ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB, sjálfstæðið og hvalveiðar

Sem betur fer erum við ekki undir valdi ESB í þessu máli og eins og ég skil grein Dimas, umhverfisframkvæmdastjóra ESB, hefði sambandið ekkert að segja um málið þótt við værum þar inni. Hann er að kalla eftir sjálfviljugum stuðningi ESB ríkjanna við sitt sjónarmið í grein sinni. Leiðrétting væri vel þegin ef skilningur minn er rangur.

Ég held að þessum ágæta framkvæmdastjóra væri nær að beina sjónum sínum að drápi á skepnum sem eru raunverulega í útrýmingarhættu í stað þess að vera að agnúast yfir nýtingu stofna sem eru í góðu jafnvægi, enda þorir hann ekki að minnast á Ísland í greininni, heldur vísar í veiðar í Suðurhöfum, þar sem hætta í tengslum við hvalveiðar er mun raunverulegri.


mbl.is Hvetur ríki ESB til að sameinast gegn hvalveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki nóg að hengja bíleigendur einu sinni fyrir glæp sinn?

Í nýjum tillögum um breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis kemur margt gott fram. Er verið að leggja áherslu á beitingu hagrænna hvata til að ná umhverfismarkmiðum, sem er afar gott, en ég tel eftir fyrstu lesningu að verið sé að marghengja bíleigendur fyrir glæp sinn.

Það er nefnilega ekki rétt að gera hvoru tveggja, að kolefnisjafna eldsneytið um leið og bílarnir eru einnig skattlagðir eftir eyðslu. Það verður að velja.

Ég tel réttast að umhverfisvalið verði gert auðveldara við innkaup á nýjum bílum í gegnum vörugjöldin. Þeir sem kaupa nýja bíla og ákveða með þeim hætti hvernig bílaflotinn er samsettur, ætla kannski ekki að eiga þá nema í nokkur ár og fyrir þeim nær munurinn í eldsneytiseyðslu ekki að skipta neinu máli miðað við innkaupsverðið, þótt það gerði það yfir lengri tíma eða líftíma bílsins.

Sömuleiðis á að vernda þá réttlátu gjaldtöku sem notendur vegakerfisins greiða fyrir noktun þess í gegnum kílómetra- og olíugjaldið. Það er alltaf hægt að ræða hvernig gjaldskráin á nákvæmlega að vera, en á þann hátt er einnig tryggt að gjaldtakan fari í vegina en ekki eitthvað annað og verði þar með skattheimta, þar sem forsendur þeirrar gjaldheimtu væru ekki lengur tengdar notkun veganna. Það eru næg verkefni fyrir höndum þar og verða um ókomin ár.


Tími fyrir nýjan langreyðakvóta

Einu rökin fyrir því að gefa ekki út nýjan langreyðakvóta var að ekki væri markaður fyrir kjötið.

Nú er skriffinskunni í Japan lokið og því hægt að afhenda kjötið þar og því ekkert að vanbúnaði að gefa út nýjan kvóta.

Vonandi verður það gert hið fyrsta


mbl.is Langreyðakjöt sent til Japans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjasti kokkteillinn - Hvergerðingur

Víða um Hveragerði hafa menn verið að blanda nýjasta kokkteilinn, sem hlotið hefur nafnið Hvergerðingur.

Þú tekur allt vínið í húsinu; sterkt, rautt, hvítt, líkjöra og alles, hendir því í gólfið, hrærir í því með gólftusku og vindur í fötu.

Hægt er að drekka þetta beint úr fötunni, en í lúxusútgáfu eru glerbrotin síuð frá og hellt í glös.

Engum sögum fer reyndar af því hversu vinsæll drykkurinn er, en hann hefur verið blandaður ótrúlega víða að undanförnu.

 


mbl.is Allt í lamasessi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband