Munu loftslagsáherslur Íslendinga koma fram í tíma?
17.2.2008 | 12:49
Þann 22. febrúar eiga þjóðir heims að vera búnar að senda áherslur sínar og sjónarmið varðandi hvað eigi að taka við að loknu tímabili Kyoto-bókunarinnar.
Ef eitthvað er stefnumótandi, þá er það framsetning slíkra áherslna. Þess vegna þætti mér eðlilegt að Alþingi álykti um þær, þannig að umboðið sé skýrt.
Ríkisstjórnin hefur talað út og suður um mál sem snerta loftslagsmálin, einn ráðherrann vill engar undanþágur, meðan aðrir tala um álver og virkjanir úti um koppa og grundir og ráðast á þá sem stíga varlega til jarðar. Þess vegna er alls ekki ljóst hverjar áherslurnar verða. Mun Ísland t.d. leggja áherslu á áframhaldandi viðurkenningu á góðum árangri sínum í orkumálum?
Við búum í alþjóðavæddum heimi og verða tillögurnar að miðast við það.
Í svipinn sé ég þrjár nálganir á málið:
Ríkjakvótanálgun, geiranálgun og einkaneyslunálgun, sem væri samþætting hinna fyrri.
Sú leið sem farin var í Kyoto er hrein ríkjakvótanálgun. Hvert ríki heldur utanum losun sem verður innan landamæra sinna. Kosturinn við hana er einfaldleiki kerfisins, á kostnað sanngirni og að hluta til hvata til framfara í framleiðslutækni og framfara. Eins er erfitt að ná utanum alþjóðasamgöngur og framleiðslu í þessari nálgun. Fyrirtæki fara með framleiðslueiningar til landa sem eiga inni kvóta eða eru utan núverandi kvóta. Er þetta kallað kolefnisleki. Það er eðli þessa kerfis að það getur ekki gengið upp.
Geiranálgunin byggist á því að hver geiri skilgreini viðmið um losun í sinni starfsemi og miðað við losun á framleidda einingu. Þannig væri ákveðin losun við heimilishald skilgreind, pr íbúa, hvert framleitt tonn af vöru eða einingar af þjónustu, sem skipt væri í vöruflokka eftir eðli, járn, korn, ál mjólk, gistinætur o.s.frv. Samgöngur er erfitt að nálgast með þessum hætti, því framleidda einingin þ.e. tonnkílómeterinn er afleiðing ákvarðana í öðrum geirum. Líklegast verður að beita söguskýringanálguninni á samgöngurnar og miða áfram við 1990.
Einkaneyslunálgunina væri hægt að hugsa eins og virðisaukaskattskerfi í anda líftímanálgunar. Haldið yrði utan um losun við framleiðslu hráefnis og framleiðslu hverrar vöru og losun við hverja einingu sem fylgdi henni svo milli framleiðslustiga þangað til að hún kemst í "lokanotkun". Gefinn yrði svo út kvóti á hvern einstakling í hverju ríki og svo er það hvers ríkis að ákveða hvaða ráðum er beitt til að halda sér innan hans. Það er nefnilega ekki sanngjarnt að ríki sem stunda mikinn útflutning skuli þurfa að "borga" fyrir losun sem komin er til vegna þarfa sem verið er að fullnægja í öðrum löndum. Kerfið er í eðli sínu nokkuð flókið, því fylgir talsvert skrifræði og hætta á svindli er mikil, svo það er þungt í framkvæmd, meðan ekki er hægt að hafa bókhaldið miðlægt og rafrænt á alþjóðavísu. Þetta kerfi er nálægt því að vera fullkomið, en ég tel ekki raunhæft að það komist á fyrir 2012.
Ég tel að Ísland eigi að leggja mikla áherslu á geiranálgunina í sínum málflutningi. Nálgun þar sem horfið er frá söguskýringum eins og hægt er, þar sem losunin er skoðuð í sögulegu samhengi, heldur verði losun við lausn hvers verkefnis mæld og stýrt og fyrirtækjunum gefinn kostur á að þróast til að uppfylla sínar skuldbindingar. Á þar næsta tímabili ætti svo að fara í einkaneyslunálgunina.
En maður heyrir ekki af neinum umræðum um málið innan ríkisstjórnarinnar og er það miður, því þetta er spurning sem skiptir hagsmuni Íslendinga miklu um alla framtíð.
Er markmið fréttamanna að meiða?
16.2.2008 | 13:49
Ég var spurður að því í gær hvort ég væri ekki feginn að Framsókn væri ekkert í umræðunni núna vegna REI málsins. Jú, ég var það svosem. En spurningin fékk mig til að hugsa af hverju svo væri, því vissulega er Framsókn hluti þessarar atburðarásar og var mikið í umræðunni til að byrja með. Fulltrúi flokksins sat jú í stjórn REI og stjórn OR og tók þátt í þeim ákvörðunum sem þar voru teknar, þótt vissulega væri forystan á hendi Sjálfstæðisflokksins.
Getur verið að það sé vegna þess að Björn Ingi sé hættur í borgarstjórn og umræða um hans þátt í málinu sé því hætt að geta valdið honum pólitískum búsifjum?
Getur það virkilega verið að fréttamenn séu búnir að missa sig algerlega í að reyna að meiða og koma höggi á þá sem þeir eru að fjalla um en gleyma að fjalla um atburðina eins og þeir áttu sér stað í raun og veru?
Renndi yfir blöðin í morgun og verð að segja að efnistökin í fréttaflutningnum um vandræðaganginn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins kveði ekki spurninguna niður, nema síður sé.
Er ekkert fréttnæmt nema að það komi einhverjum illa?
Verð að segja að þetta sé áleitin spurning. Hún á við um alla flokka, mismikið þó.
Dómurinn er góður vitnisburður um störf lögreglunnar
15.2.2008 | 10:42
Það er ekki hægt annað en að hella bílförmum af hrósi yfir lögregluna vegna Pólstjörnumálsins. Lögreglan undirbjó málið vel áður en hún lét til skarar skríða, aðgerðirnar gengu upp og gögn málsins greinilega þannig að sakborningarnir sáu að ekkert var hægt að gera annað en að játa.
Vonandi verður þetta til þess að fjárveitingavaldið sýni þessu þjóðþrifastarfi fullan skilning og skapi þeim sem best starfsumhverfi í baráttu þeirra við fíkniefnabölið um leið og farið verði af enn meiri krafti í forvarnir.
![]() |
Dæmt í Pólstjörnumálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Góðar fréttir fyrir efnahagslífið
14.2.2008 | 21:05
Yfirlýsing Geirs H Haarde er jákvæð og tímabær. Vonandi er hann að vakna af Þyrnirósarsvefninum og ætla að fara að koma skikki á yfirlýsingagleði ráðherra ríkisstjórnar sinnar, því þeir hafa verið að tala út og suður. Vonandi hefur hann einnig hlustað vel á viðskiptaþingi þegar hann var skammaður fyrir lausatök á ríkisfjármálunum og fer að vinna með Seðlabankanum en ekki á móti.
Batnandi mönnum er best að lifa.
![]() |
Mikilvægt að sýna samstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú þarf að standa við stóru orðin í auðlindamálum
12.2.2008 | 11:18
Fyrir síðustu kosningar var gerð tilraun til að koma ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá lýðveldisins.
Sjálfstæðisflokkurinn vildi þetta ekki, en gaf þó eftir, eftir að hafa náð að útvatna tillöguna talsvert.
Stjórnarandstaðan, Samfylkingin, Vinstri Grænir og Frjálslyndir, héldu blaðamannafund og buðust til að koma Framsókn til hjálpar í málinu. Hún heyktist á því, enda var ákvæðið ekki eins beitt og flokksþingssamþykkt Framsóknar mælti fyrir um.
Nú er frumvarp með því orðalagi komið fram og þá hljóta sjónir manna að beinast að þeim flokkum sem vildu styðja málið á sínum tíma. Ég er fyrirfram vonlaus um að Sjálfstæðisflokkurinn styðji málið, enda hefur hann unnið leynt og ljóst að því að koma öllum auðlindum í einkaeigu, sem ekki eru þegar komnar í eigu einkaaðila.
En spurningin er: Er Samfylkingin búin að selja sálu sína til Valhallar?
![]() |
Auðlindir í þjóðareign |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orð dagsins...
12.2.2008 | 08:37
...getur engin annar en Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson átt, þegar hann sagði
"ég hef axlað mína ábyrgð"
og vísar þar til þess að Björn Ingi sleit óstarfhæfu meirihlutasamstarfi við hann og hann missti borgarstjórastólinn í fyrsta skiptið, eftir að hann "lenti" í REI málinu.
Þetta er líklegast í fyrsta skipti sem einhver lendir í því að axla ábyrgð.
Orð dagsins | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leiðréttingar ganga of skammt
11.2.2008 | 17:33
Renndi lauslega yfir þessar breytingar á fæðingarorlofslögunum sem Jóhanna hefur lagt fram. Flest af því sem lagt er til er til bóta, enda getur gott lengi batnað og kerfið á að sjálfsögðu að fá að þróast. En eitt mesta óréttlætið er ekki leiðrétt. Fólk sem á börn með stuttu millibili verður nefnilega fyrir ósanngjarnri skerðingu, því ef greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, sem eru 80% af heildarlaunum, falla innan viðmiðunartímabilsins fyrir seinna barnið fást bara 64% af heildarlaunum þess tímabils og svo koll af kolli.
Auðvitað á að miða við 100% af tekjum, sé greiðandinn Fæðingarorlofssjóður.
Í tíð Framsóknar var búið að koma þessu óréttlæti á framfæri og ég vissi ekki betur en að verið væri að undirbúa leiðréttingu á því á þeim tíma. Félagsmálaráðherra hefur því greinilega ákveðið að taka ekki tillit til þessa.
Viðbót kl 21:21
Hvað varð um kosningaloforð Samfylkingarinnar úr Unga Ísland?:
"4. Lengja fæðingarorlofið í eitt ár og tryggja börnum einstæðra foreldra sama rétt og öðrum börnum til samvista við foreldra. "
Hún ætti að hafa stuðning Sjálfstæðisflokksins sem ályktaði
"Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að lengingu fæðingarorlofs. Gæta skal að því að ef aðeins einn aðili er með forsjá geti hann fengið fullt fæðingarorlof. "
![]() |
Leggur til breytingar á lögum um fæðingarorlof |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er þetta frétt?
11.2.2008 | 11:56
Mér hefði þótt það fréttnæmt ef það hefði verið haldið ball í Njálsbúð og það hefðu ekki brotist út slagsmál.
Í þau skipti sem við í Nemendaráði FSu héldum böll í Njálsbúð voru held ég alltaf einhverjir pústrar. Það eru að vísu nokkur ár síðan og kannski er þetta allt breytt núna...
![]() |
Handalögmál á þorrablóti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orð dagsins...
10.2.2008 | 21:53
...er lína borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í fréttum RÚV í kvöld
"við styðjum Vilhjálm meðan hann er oddviti"
Við hverju má hann þá búast frá þeim ef hann skyldi hætta? Það er kannski ekki skrítið að hann skuli þurfa að fara vandlega yfir stöðu sína!
![]() |
Pólitísk staða Vilhjálms rædd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orð dagsins | Breytt 12.2.2008 kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árni Páll Árnason boðar verðbólgu eða atvinnuleysi
9.2.2008 | 16:59
Það er eins og Samfylkingarmenn séu orðnir gersamlega vitfirrtir í trúboði sínu fyrir ESB aðild.
Að láta hafa eftir sér á opinberum vettvangi að krónan sé að kosta íslensk heimili 50-100 milljarða árlega án nokkurra fyrirvara er þvílík vitleysa að manni fallast bara hendur að fólk sem heldur þessu fram sé kosið á Alþingi.
Það getur vel verið að munurinn á vaxtagreiðslum ef evruvextir væru á Íslandi sé eitthvað af þessari stærðargráðu, en það sem hann segir ekki og verður að segja um leið er, að ef vextirnir væru ekki þetta háir væri verðbólgan mun hærri á Íslandi eða þá atvinnuleysið. Kostnaður heimilanna vegna verðbólgu væri örugglega af svipuðum stærðargráðum eða dýrari ef vextirnir hefðu verið svipaðir á Íslandi og á evrusvæðinu og ef reynt væri að ná sömu hagstjórnaráhrifum án verðbólgu getur það ekki kostað annað en atvinnuleysi með þeim hörmungum sem það hefur í för með sér fyrir allt og alla.
Það er nefnilega ekki af illgirni sem stýrivextir Seðlabankans eru svona háir. Það hefur verið mikil þensla og vöxtur í íslenska hagkerfinu, sem flestir ef ekki allir hafa notið góðs af og til að verðbólgan fari ekki alveg úr böndunum þarf háa stýrivexti. Ef hagvöxturinn hefði verið minni, væru vextirnir einnig lægri, en um leið myndi kaupmáttaraukning heimilanna einnig stöðvast eða glatast.
Svo virðist sem Jón Sigurðsson, kratinn þeas, hafi ekki komið þessu á kennsluskrána í stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar, þrátt fyrir að hafa gefið út að mörgu leiti ágæta kennslubók um efnið. Það er virkilega slæmt.
Þegar íslenska hagkerfið hefur náð jafnvægi, eru fyrst forsendur til að spá í peningastefnu þjóðarinnar. Á forsendum okkar eigin metnaðar og hagsmuna. Þar verður að taka tillit til margra þátta.
Hvort niðurstaðan verði upptaka Evru með eða án inngöngu, einhver tenging við Evru eða einhvern annan gjaldmiðil eða myntkörfu verður fyrst tímabært að leita svara við þá, en því lengur sem ríkisstjórnin gerir ekki neitt til að hjálpa Seðlabankanum, því lengra líður þangað til að það verði hægt. Þannig má segja að ríkisstjórn Árna Páls sé sífellt að fjarlægjast ESB aðild með framferði sínu.