Ótrúleg hræsni Vísis.is í umfjöllun um spilamennsku Birkis Jóns

Vísir.is hefur undanfarið farið mikinn í rógsherferð sinni gegn Birki Jóni Jónssyni í tengslum við spilaáhuga hans.

Ekki nóg með að frétt Andra Ólafssonar, fv formanns Ungra Jafnaðarmanna í Hafnarfirði, sem er vísvitandi röng og þannig fram sett að lesendur sitja uppi með að hann hafi brotið lög með spilamennsku sinni og ég hef áður bent á, er ennþá á forsíðu vefjarins 3 dögum seinna, eins og sjá má hér:

Fyrsta fréttin

og málinu áfram haldið lifandi með frétt um bloggfærslu hans neðar á síðunni.

En um leið og visir.is telur sig umkominn að fara rangt með og fjalla með þótta og dómhörku um spilaáhuga Birkis, er þessi auglýsing neðst á síðunni:

Betson auglýsing

Tja....... var einhver að tala um flísar og bjálka?


Össuri hótað brottrekstri úr ríkisstjórn

"Ætli menn að vera ráðherrar lengi eiga þeir að vinna og skrifa á daginn, en sofa á nóttunni"

Ég fæ ekki skilið þessi ummæli Geirs H Haarde í kvöldfréttum Stöðvar 2 núna áðan öðruvísi en að hann sé að hóta Össuri Skarphéðinssyni brottrekstri, hætti hann ekki þeirri iðju sinni að ráðast á Sjálfstæðismenn með næturbloggfærslum. Hann megi ekki vera í stjórnarandstöðu á nóttunni .

Samfylkingin hefur enga hótunarstöðu gagnvart Geir, sem hefur stjórnarmyndunarumboðið einn. Í gleðivímunni yfir að komast í ríkisstjórn samdi hún einnig þingrofsréttinn af sér og getur Geir því óhindrað myndað nýja ríkisstjórn að vild, ráðið og rekið ráðherra án þess að Samfylkingin geti neitt gert. Myndi hún því þurfa að kyngja því að Össur yrði rekinn, vilji hún vera áfram í ríkisstjórn.

Þessi hótun setur lestur bloggsíðu Össurar í alveg nýtt samhengi.


Orð dagsins...

...á fréttamaður Stöðvar 2 í frétt um spurningar umboðsmanns Alþingis til Árna Mathiesens, setts dómsmálaráðherra í héraðsdómararáðningamálinu mikla:

"Samkvæmt heimildum fréttastofu eru spurningarnar vel ígrundaðar og bréfið upp á nokkrar síður. "

Þar sem honum hefur þótt þetta fréttnæmt, hlýtur maður að spyrja, hvort fréttamanninum hafi þótt annað sem frá umboðsmanni kemur illa ígrundað og stuttaralegt?


Stóra pókermálið - máttur framsetningarinnar

Það er furðulegt að fylgjast með stóra pókermálinu. Andri Ólafsson blaðamaður fer langa leið í upphafsumfjöllun sinni um málið til að láta líta út fyrir að Birkir Jón hafi óhreint mjöl í pokahorninu.

Segir hann frá því að þingmaðurinn hafi spilað póker um helgina en fer gegn betri vitund rangt með þessum ummælum

"Heimildir Vísis herma að Birkir Jón hafi grætt um 50 þúsund krónur þetta kvöld. Birkir Jón neitar því hins vegar sjálfur og vill ekki tjá sig um hversu mikla peninga hann spilaði fyrir."

Því næst fer blaðamaðurinn í umræðu um að:

"...samkvæmt almennum hegningarlögum skar hver sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Þá segir einnig í almennum hegningarlögum að hver sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári."

Málið er sem sagt sett þannig fram að lesendur eiga að álykta að Birkir Jón hafi framið lögbrot, þótt það sé aldrei sagt berum orðum í fréttinni að Birkir hafi brotið nein lög.

Birkir hefur staðfest við mig að hann hafi sagt blaðamanninum allt af létta með upphæðina, 18 þúsund, svo brotavilji blaðamannsins til að meiða þingmanninn er mikill, fyrst hann segir að Birkir hafi neitað að segja honum upphæðina. Ekkert hefur komið fram í máli Birkis um að nein lög hafi verið brotin. Bara dylgjur í gegnum framsetningu, sem margir hafa greinilega fallið fyrir.

Sló Andra þessum Ólafssyni upp á Google og það tók ekki langan tíma að komast að því að hann var fyrsti formaður ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, svo kannski er rétt að horfa á blaðamennsku hans í því ljósi. Hann er greinilega á því að tilgangur hans sem flokkshests og blaðamanns sé að meiða þá sem fylgja honum ekki í pólitík sem mest. Sannleikurinn og sanngirnin mega sín lítils gegn því.

Svo er allt önnur umræða, sem ætti sem minnst að vera tengd þessari, hvort ekki sé þörf á að setja almenn lög um fjárhættuspil á Íslandi. Held að það væri gustuk að setja skýran ramma um hvað sé löglegt og hvað ólöglegt í þessu, því eins og hegningarlögin eru nú, virðist það vera túlkunaratriði lögreglu hverju hún eigi að sinna og hverju ekki. Ég fæ ekki séð annað en að þegar bridds, póker, golf eða hvað eina er spilað upp á verðlaun sé um fjárhættuspil að ræða. Það er löglegt svo lengi sem enginn hefur atvinnu af því eða græðir á að standa fyrir því. Ég minnist þess sem krakki að hafa margoft tekið þátt í félagsvist hefur lengi verið notuð sem fjáröflun hjá hinum ýmsu félagasamtökum, til dæmis ungmennafélaginu heima. Þar er um skýrt brot að ræða m.v. hegningarlögin, þar sem félagasamtökin eru að halda keppnina með því yfirlýsta markmiði að afla fjár.

Vill fólk hafa það þannig?


mbl.is Tvískinnungur að aðrar reglur gildi um póker
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill Hafró ekki finna loðnuna?

Rakst á eftirfarandi frásögn af miðunum

"Það er alveg merkilegt með það að þegar skipstjórar eru að hringja í þá og segja þeim frá miklu magni af loðnu þá segja þeir að þeir séu búnir að mæla þetta og hafi verið þarna. Hvað heldur hafró að loðna sé???? þetta er ekki eins og að fara út í karteflugarð og taka upp. Jú loðna hefur víst synt í mörg mörg ár. Það er alveg magnað að þeir sem eru að veiða loðnu eru að rembast eins og þeir geta að fylgja þessu eftir svo að þetta hverfi ekki. En hafró fer í land og kemur ekki á miðinn í marga daga. svo frétta þeir af loðnu á sama stað og þeir sáu fyrir eitthverjum dögum og segja. Já við erum búnir að mæla þetta. "

Slæmt ef satt er.


mbl.is Tekjutap upp á 7-8 milljarða verði loðnuveiðum hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómakleg árás Össurar á Gísla Martein

Síðastliðna nótt sat maður við tölvuna sína á Vesturgötunni og skrifaði:

"Hvað lá eftir Gísla Martein þegar kom að atburðarrásinni kringum REI? Ekkert, nema hræin af mávunum sem hann lét embættismenn skjóta og stillti sér svo upp hjá einsog Rambó sjálfur." 

Hver skrifar svo? Jú, sá maður sem gegnir því embætti sem samflokksmenn hans kalla "hinn umhverfisráðherrann". Reyndar hefur hann einnig gegnt hinu eiginlega umhverfisráðherraembætti, svo maður skyldi ætla að hann hefði áhuga á málaflokknum og jafnvel einhverja innsýn eða í það minnsta yfirborðsþekkingu.

En nei. Ég sat með Gísla Marteini í fyrsta meirihluta umhverfisráðs þessa kjörtímabils og mér er til efs að nokkur meirihluti hafi náð að gera jafn mikið á jafn stuttum tíma í umhverfismálum og sá meirihluti sem Gísli Marteinn var í forsvari fyrir og leiddi af miklum áhuga.

Grænu skrefin mörkuðu rammann um þær aðgerðir sem við fórum í. Mikið af þeim var þegar kominn í framkvæmd þegar meirihlutinn sprakk. Það er eftirsjá af þessu ráði fyrir umhverfið.

Menn verða að vera sanngjarnir og það voru samflokksmenn Össurar í minnihluta ráðsins. Sem dæmi studdi minnihlutinn grænu skrefin og fagnaði þeim. Gísli stýrði vinnu umhverfisráðs með þeim hætti að starfsáætlun ráðsins var samþykkt af öllum nefndarmönnum. Er það einsdæmi og til mikillar eftirbreytni.

Hafandi sagt þetta verður að sjálfsögðu að vara við öskrandi hægrimennskunni í Gísla Marteini. Menn þurfa ávallt að vera á varðbergi gagnvart henni, því hún skýst upp í tíma og ótíma. Það gerðum við, fulltrúar Framsóknar í ráðinu.

Hvernig einstökum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins reiðir svo af í gjörningaveðrinu núna veit ég ekki. Þar ráða tilviljanir örugglega miklu, en pólitískir andstæðingar verða að vera sanngjarnir. Það er Össur ekki í þessari færslu sinni og ber skömm fyrir.


Orð dagsins...

...á Björgvin G Sigurðsson, viðskiptaráðherra þegar hann sagði á Alþingi í dag, að

"eina leiðin sem hann teldi færa í framtíðinni væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu og Myntbandalagi Evrópu."

Taldi hann að leiða yrði þessa umræðu til lykta á næstu misserum.

Ég get engan veginn skilið orð forsætisráðherra undanfarið með sama hætti, en það er hann sem fer með efnahagsmál þjóðarinnar. Einnig get ég engan vegin lesið þetta út úr stjórnarsáttmálanum, þar sem reynslan af EES samningnum er dásömuð.

"Ríki Evrópusambandsins eru mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hefur reynst þjóðinni vel og hann er ein af grunnstoðum öflugs efnahagslífs þjóðarinnar. Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum."

Getur verið að ráðherra sé enn og aftur að tala sem þingmaður en ekki ráðherra, því ég þekki vel persónulegan hug hans til málsins. Hann verður að láta vita með hvorn hattinn hann er með þá og þá stundina, svo maður geti áttað sig á því hver stefna ríkisstjórnarinnar er og við hverju megi búast af henni.

Hins vegar er alveg rétt að peningamálastefnan er komin í öngstræti sem komast þarf út úr, þá fyrst með því að setja raunhæf verðbólgumarkmið, hugsanlega að tengja krónuna við aðra gjaldmiðla eða myntkörfu. En fyrst og fremst þarf að ná tökum á efnahagslífinu.


mbl.is Eina leiðin að sækja um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stenst kjarasamningaútspil ríkisstjórnarinnar stjórnarskrána?

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við lúkningu kjarasamninga segir meðal annars:

  • "Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign.
  • Jafnframt verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti, fyrir einstaklinga 35 ára og yngri, til að hvetja til sparnaðar hjá þeim sem hyggja á fyrstu kaup eigin húsnæðis eða búseturéttar. "

Einhvernvegin held ég að þessi loforð standist illa eftirfarandi:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna"

Þetta er 65. grein Stjórnarskrárinnar.

Þótt hugurinn í tillögum ríkisstjórnarinnar sé góður, eru þessar vanhugsaðar og kalla á svindl, ójafnrétti og mismunun sem stenst ekki skoðun eins og svo margar sértækar kratískar lausnir.

Par sem sleppir því að skrá sig í sambúð, heldur kaupir annað fyrst íbúð og svo þegar hitt hefur keypt næstu íbúð fá þau tvöfaldan afslátt af stimpilgjaldinu, sem heiðarlegt par sem skráir sig strax í sambúð nýtur ekki. Hélt að hagnaðurinn af þessu sambandsskráningarsvindli væri nú nægur fyrir, svo ekki sé bætt enn í. Hvernig á svo að meðhöndla þennan rétt við sambúðarslit? Það eru uppgrip framundan hjá lögfræðingum þessa lands, svo mikið er víst.

Tillagan um niðurfellingu stimpilgjalds við kaup á fyrstu íbúð hlýtur einnig að vera mismunun á stöðu minni sem íbúðakaupanda gagnvart þeim sem hefur ákveðið að leigja hingað til, ef ég hef einhverntíma á lífsleiðinni keypt mér íbúð. Vaxtabæturnar eru ekki þessu marki brennd með sama hætti.

Hvers á ég einnig að gjalda að vera orðinn 35 ára og fá ekki að njóta skattaafsláttar vegna húsnæðissparnaðar? Hvaða aldur er þetta? Getur verið að þetta tengist því að þetta eru aldursmörk ungliðahreyfinga flestra stjórnmálaflokkanna? Aldur getur ekki verið lögmæt ástæða til mismununar með þessum hætti. Þessi réttir á einnig að miðast við kaup á fyrstu íbúð, svo sambúðarsvindlið verður enn ábatasamara og enn meira að gera fyrir skilnaðarlögfræðingana.

Eignastaða og tekjur hljóta að vera lögmætar ástæður mismununar, sbr vaxtabæturnar, svo hægt væri að koma húsnæðissparnaðinum á með þeim takmörkunum, en ekki aldri eða hvort ég hafi asnast til að kaupa einhverntíma áður í stað þess að hafa alltaf verið á leigumarkaðnum.

Ég held að ef menn hefðu rétt á húsnæðissparnaði til kaupa á íbúð eða búseturétti, háð eignastöðu og tekjum eins og vaxtabæturnar byggja á, er um gæði að ræða sem allir hafa rétt á og stenst því stjórnarskrána. En tillögur ríkisstjórnarinnar tæplega.

Ég er ekki löglærður, en einhvernvegin stingur þetta í augun og þar sem lög eru yfirleitt sanngjörn, hlýtur þetta að vera andstætt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og því ólöglegt.


Góðir samningar í höfn en bakreikningurinn bíður

Það ber að hrósa SA, ASÍ og ríkisstjórninni fyrir samningana og útspil í tengslum við þá.

Maður getur ekki annað en fagnað því að þeir sem lægstu launin hafa fái mestu hækkanirnar og leiðrétting skerðingarmarka var tímabær og gott að þessir samningar gefi svigrúm til þess. Það er alltaf hægt að segja að meira hefði þurft að gera, en eins og staðan er í efnahagslífinu núna, er óhægt um vik að verða við því. SA og ASÍ hafa með þessum samningi gert sitt til að ná stjórn á verðbólgunni. Flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar liggja inni í framtíðinni og geta bara kallað á eitt, ef hún ætlar að róa í sömu átt og Seðlabankinn, SA og ASÍ. Minnkuð útgjöld ríkissjóðs.

Verður það mikil breyting frá fimmtungs aukningu á ríkisútgjöldum yfirstandandi árs. Aukning sem varla verður pláss fyrir í efnahagslífinu á komandi árum. Ríkisstjórnin verður um leið og hún setur fram þessi loforð að svara því hvernig hún ætlar að fjármagna þau, þannig að verðbólgunni verði haldið í skefjum. Hvaða framkvæmdum ætlar ríkisstjórnin að fresta og hvaða samfélagsþjónustu á að draga úr á móti þessum aðgerðum?

Eða ætlar ríkisstjórnin áfram öðrum að axla ábyrgð í efnahagsmálum þjóðarinnar?


mbl.is 20 milljarðar í aðgerðirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert stefnir Samfylkingin í borginni?

Stefán Jón Hafstein bað um að fá að mæta í Silfur Egils í dag og fékk drottningarviðtal. Boðaði hann að eina lausnin á stjórnarkreppu borgarinnar væri að Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn tækju við völdum í borginni.

Gengi það þvert á það samkomulag sem gamli meirihlutinn, VG, S, B og Margrét Sverris eru búin að handsala. Maður vildi óska þess að þetta sé vegna þess að borgarfulltrúinn hefur verið í Afríku lengi og ekki fylgst með því sem hefur verið að gerast í borginni, en Stefán Jón sagðist vera í góðu sambandi heim, svo taka ber orð hans alvarlega.

Stefán Jón telur samkvæmt þessu að hann þurfi ekki að standa við það samkomulag sem Samfylkingin hefur gert og er það stóralvarlegt í ljósi þess að hann getur hvenær sem er tekið það borgarstjórnarsæti sem hann hefur verið kosinn til. Væri það áframhald á þeim svikastjórnmálum sem skekið hafa borgarstjórn Reykjavíkur undanfarin misseri. Ég hélt að það væri nóg komið af þeim.

Samfylkingin verður að gera hreint fyrir sínum dyrum og gefa skýr svör um það hvort Stefán Jón tali fyrir hönd annarra í borgarstjórnarflokki hennar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband