Barnaleg ofureinföldun Lúðvíks ekki til að bæta ástandið

Yfirlýsing Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar um að menn hefðu bara um tvennt að velja, krónu eða evru, á morgunvakt Rásar 1 í gærmorgun, er ofureinföldun á þeim valkostum sem við höfum.

Vissulega er innganga í myntbandalag Evrópu með inngöngu í ESB einn möguleikanna sem hugsanlega standa okkur til boða, þegar þar að kemur. En að lýsa ástandinu núna sem afleiðingu þess að við séum með sjálfstæðan gjaldmiðil og eina leiðin út úr því sé að ganga í ESB er einfaldlega ekki rétt og það vekur furðu að þingflokksformaður láti svona út úr sér og ekki til þess fallið að auka trú á Íslandi, frekar en "ekki gera neitt" stefna ríkisstjórnarinnar.

Það er rétt að þessir háu vextir koma heimilunum illa og gengið hefur sveiflast frá því að gengi hennar var sett á flot 1991. En þetta ástand er afleiðing af mikilli hækkun kaupmáttar, kannski meiri hækkun en framleiðsla og útflutningur hefur getað staðið undir. Hann hefur að hluta verið tekinn að láni í kjölfar óábyrgrar innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Nú er jafnvægi kannski að nást í formi gengisfellingar og verðbólguskots, almenningur borgar sem sagt fyrir eyðslufyllerýið.

En Lúðvík leyfir sér að hoppa yfir marga kafla í bókinni í blindu ESB trúboði. Til dæmis getur hann ekkert sagt um hvernig hann ætli að ná stöðugleika í efnahagslífið, frekar en ríkisstjórnin. Hún meldaði pass í gær og markaðirnir brugðust við, með lækkun.

Fyrir það fyrsta þarf fyrst að ná stöðugleika áður en menn geta tekið stöðuna og ákveðið hvenær hægt sé að ræða peningastefnuna, hver verðbólgumarkmiðin eiga að vera, eigum við að halda flotkrónu áfram, við hvaða gjaldmiðla eigi að miða, verði aftur farið í myntkörfustýringu eða hvaða gjaldmiðil ætti að taka upp velji menn þá lausn.

Allt þetta þarf að fara gaumgæfilega yfir, án sleggjudóma, því þeir sem segja að gera eigi þetta og hitt, byggja þá skoðun sína á sandi, ekki yfirvegaðri greiningu á þeim möguleikum sem fyrir eru. 

Manni virðist umræðan vera svo ofsalega lík umræðunni um ensku knattspyrnuna. Menn fara að halda með liði og er alveg sama hvernig hin liðin spila, má ekki hrósa þeim. Hvort evran sé besta liðið, flotkróna eða tenging við aðra mynt veit ég ekki. Ég ætla ekki að taka afstöðu fyrr en ég hef forsendur til þess. Held að ég sé ekki einn með þá skoðun.


mbl.is Fjármálastofnanir skortir traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég tek undir þessi skrif.

Sigurjón Þórðarson, 20.3.2008 kl. 11:10

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk fyrir góðan pistil! Tek undir allt sem þú segir þarna...

Óskar Arnórsson, 21.3.2008 kl. 03:49

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þakka fyrir góðan pistil. Ég tek undir með þér að það er nánast barnaleg einföldun að halda að allt batni með því að taka upp evru.

Ég lít svo á að vendamálið sé ekki krónan, heldur mennirnir sem stjórna fjármálum og þjóðfélagi. 

Guðbjörn Jónsson, 21.3.2008 kl. 07:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband