Bara ef það hentar mér....
18.1.2008 | 12:07
Þá liggur fyrir rökstuðningur Össurar vegna ráðningar Ólafar Ýrar.
Þetta virðist hin mætasta kona.
Það er tvennt sem stingur í augun.
"Við þessa ákvörðun tók ég einnig mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr 96/2000 en á grundvelli þeirra er viðurkennt að velja skuli aðila af því kyni sem er í minnihluta á hluteigandi starfssviði þegar tveir eða fleiri jafnhæfir einstaklingar sækja um stöðu"
Ég minnist þess ekki að Orkustofnun sé mikill kvennavinnustaður! Þessi rök virðast allavegana henta vel í þessu tilfelli, en ekki í öðrum?
"...tel ég hana líklegri en aðra umsækjendur til að hleypa nýju blóði í starfsemi stofnunarinnar..."
Ég vissi ekki til að stofnunin væri steinrunnin eins og ráðherra virðist gefa sér! Annars er þetta eini staðurinn í bréfinu þar sem eitthvað er vísað í samanburð við aðra umsækjendur. Hélt að rökstuðningurinn ætti að vera fyrir vali ráðherra milli hennar og annarra umsækjenda, ekki rökstuðningur um að hún uppfyllti skilyrði til ráðningar, sem hún vissulega gerir, og meira til, hún er m.a.s. krati.
Svona getur maður misskilið hlutina.
![]() |
Iðnaðarráðherra rökstyður ráðningu Ólafar Ýrar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Forsætisráðherra á hálum ís
18.1.2008 | 00:10
Í umræðum á Alþingi í vikunni fullyrti Geir H Haarde, forsætisráðherra að forsendur fjárlaga væru ekki brostnar. Mér finnst afar bratt af forsætisráðherra að halda þessu fram án nokkurra fyrirvara, því fullyrðingin byggir á meira en þriggja mánaða gömlum tölum og margt hefur breyst á þeim tíma.
Málið er að spáin byggir á rúmlega þriggja mánaða gömlum tölum, þeas með hliðsjón af nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2007. Það er alveg ljóst að fjármagnstekjur munu verða minni en áætlað var, en fjármálaráðuneytið orðar þetta mildilega:
"Áhrif lækkunar hlutabréfaverðs eru talin hafa takmörkuð áhrif til lækkunar tekjuskatts lögaðila og fjármagnstekjuskatts í ár. Tekjur af þessum liðum miðast að stærstum hluta við hagnað fyrirtækja og fjármálagjörninga fyrra árs. Þó er viðbúið að þróun á síðasta ársfjórðungi ársins 2007 hafi einhver áhrif til lækkunar þessara liða. Á móti má búast við meiri tekjum af tekjuskatti einstaklinga og veltusköttum á árinu með samanburði við fyrri þjóðhagsspá."
Engir útreikningar eru gerðir til að styðja þessar fullyrðingar, í það minnsta eru engar niðurstöður birtar. Þess vegna er fullyrðing forsætisráðherra um að forsendur fjárlaga standi byggð á afar veikum grunni. Frekar á óskhyggju en staðreyndum. Það getur verið að forsendurnar haldi, en það er síður en svo víst, enda setur fjármálaráðuneytið afar alvarlegan varnagla í sína spá, sem forsætisráðherra virðist ekki taka undir:
"Ef aðstæður í fjármála- og atvinnulífi á yfirstandandi ári þróast á verri veg en nú er gert ráð fyrir mun það hafa áhrif til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Jafnframt yrði slík þróun líkleg til að auka útgjöld ríkissjóðs, meðal annars vegna aukinna útgjalda til atvinnuleysisbóta."
Nei. Forsætisráðherra vonast til þess að allt fari vel. Vonandi gerir það það, en ef ríkisstjórnin tekur ekki virkan þátt í efnahagsstjórninni eru líkurnar á því minni og enn minni líkur á að undarleg "sönnun" hennar á því að hún sé að beita aðhaldi, afgangurinn af fjárlögum, hverfi. Hvernig ætlar ríkisstjórnin þá að geta haldið því fram að hún hafi ástundað ábyrga efnahagsstjórn, fyrst hún mælir ekki aðhaldsstigið í þróun útgjalda eins og eðlilegt væri?
Mér finnst reyndar með ólíkindum að það sé ekki hægt að vinna með nýrri tölur en 3ja mánaða tölur við jafn mikilvægan hlut og gerð þjóðhagsspár. Svona á tölvuöld. Þær tölur sem svo vantar, fyrir síðasta mánuðinn eða svo, hlýtur að vera hægt að áætla út frá breytum sem mældar eru stöðugt, eins og kortaveltu, bílasölu, fjölda gerða kaupsamninga o.s.frv, þannig að umræðan þurfi ekki að byggjast á ágiskunum, ágiskunum aðila sem hafa beinna hagsmuna að gæta, fjármálaráðuneytisins og bankanna.
Það leiðir náttúrulega hugan að því hvort ekki væri eðlilegt að slíkar spár væru unnar af óháðum aðila, t.d. sjálfstæðrar hagdeildar sem væri fjárlaganefnd Alþingis til stuðnings í sínum mikilvægu störfum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gullfiskaminni fjármálaráðherra
17.1.2008 | 11:57
Árni M Mathiesen sagði á Alþingi í dag að þenslan undanfarið væri vegna ákvarðana félagsmálaráðherra Framsóknar í íbúðalánamálum.
Ég vissi ekki betur en að hann hefði nú sjálfur setið í þeirri ríkisstjórn og ég trúi ekki að málið hafi verið afgreitt gegn vilja hans.
Minni fjármálaráðherra er greinilega heldur ekki gott. Það var nefnilega ekki Íbúðalánasjóður sem átti frumkvæði að hækkun lánshlutfalls við íbúðakaup á sínum tíma, heldur bankarnir, sem fóru í einu stökki í 90%, í 100% og þaðan af meira. Í stjórnarsáttmálanum stóð að fara ætti í 90% lánshlutfall, þegar og ef aðstæður í hagkerfinu leyfðu. Íbúðalánasjóður gerði ekkert annað en að fylgja bönkunum eftir, svo ekki yrði hrópandi ósamræmi í aðstöðu húsnæðiskaupenda á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á landsbyggðinni, þar sem bankarnir vildu ekki lána.
Kannski er fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn nú ósáttur við þá jafnréttisaðgerð?
Maður verður að gera kröfu til manna sem gegna ráðherraembætti að fara rétt með og mæli með því að hann taki lýsi á morgnanna, enda ku það bæta minni manna. Ekki er vanþörf á.
![]() |
Mikilvægt að halda ró sinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skynsamleg fyrirætlun í fangelsismálum
17.1.2008 | 11:22
Að ætla að hafa Litla-Hraun áfram aðalfangelsi landsins og efla það, um leið og komið yrði upp sómasamlegri gæsluvarðhaldsaðstöðu í tengslum við nýjar aðalstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hljómar afar skynsamlega hjá dómsmálaráðherra.
Það hefði verið óráð að vera að byggja og reka tvö fullkomin fangelsi, eitt á Hólmsheiði og annað á Litla-Hrauni og svo yrði alltaf að vera með einhverja vistun á lögreglustöðinni.
![]() |
Fangelsi og lögreglustöð saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Enn munu kröfurnar aukast
17.1.2008 | 00:01
Þessi dómur, þar sem Total er, ásamt þremur öðrum aðilum, gert að greiða um 18,5 milljarða íslenskra króna í skaðabætur, mun enn auka kröfur til flutninga á olíu. Ég hef ekki lesið dóminn en ég býst við að Total sé dæmt, vegna þess að félagið hefur að öllum líkindum farið á skjön við eigin verklagsreglur þegar skipið var leigt til flutningsins, því Total er ekki eigandi eða útgerðaraðili og ætti þess vegna ekki að bera ábyrgð að því.
Þetta slys, ásamt Prestige og ExxonWaldez slysunum eru tímamótaslys í olíuskipaútgerð, jafnvel þótt mörg önnur slys hafi valdið meiri losun olíu. Exxon Valdez sökk og mengaði afar viðkvæmt og fallegt svæði Prince Williams sunds við Anchorange i Alaska árið 1989 og er lífríkið enn að jafna sig eftir það, eða réttara sagt að jafna sig eftir hreinsiaðgerðirnar, því reynslan þaðan hefur sýnt að það voru hreinsiaðgerðirnar, heitur háþrýstiþvottur ásamt terpentínuhreinsiefnum sem drápu meira af lífríkinu en nokkurntíman olían. Þau svæði sem eru helst búin að jafna sig þar eru þau svæði sem ekki var hægt að komast til. Í dag eru aðrar aðferðir notaðar og náttúrunni leyft að sjá um meira sjálfri.
Í framhaldi af Exxon Valdez varð álitshnekkirinn til þess að Exxon varð að loka öllum bensínstöðvum sínum á vesturströnd Bandaríkjanna og er fyrst að opna stöðvar núna á þessum árum.
Í framhaldi af því slysi voru fjöldamargar kröfur innleiddar. Sú fyrsta er stíft eftirlit með áfengis- og fíkniefnaneyslu, en áhafnir skipa í viðskiptum við stóru olíufélögin eiga sífellt yfir höfði sér áfengis- og fíkniefnapróf. Það sama á við um það olíuskip sem er í eigu Olíudreifingar, Keili. Eins var gerð krafa um að ný skip skyldu vera með tvöföldum byrðingi, fyrst í USA en seinna á vettvangi IMO, alþjóða siglingamálastofnunarinnar.
Hið mikla áfall sem þetta olli Exxon varð til þess að stóru olíufélögin fóru að hafa meira eftirlit með skipum og stofnuðu OCIMF, samtök olíuskipaútgerða, sameiginlegt eftirlitskerfi árið 1993. Var það meðal annars vegna þess að fánaríkin, sem oft voru hentifánaríki, sinntu ekki eftirliti sínu með skipunum og var ástand þeirra afar misjafnt. Byggist þetta kerfi á því að á 6 mánaða fresti eru skipin skoðuð eftir nákvæmum gátlista og niðurstöðurnar settar í sameiginlegan gagnagrunn. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu meta félögin, hvert fyrir sig, hvort þau telji viðkomandi skip hæft til leigu. Ef skip koma illa út úr skoðun, eru betri skip tekin fram fyrir ef um val er að ræða og ef þau eru með alvarlegar athugasemdir eða ítrekaðar athugasemdir neita olíufélögin að taka viðkomandi skip á leigu og banna þeim að koma inn í sínar hafnir.
Er þetta eftirlit mun stífara, enda geta olíufélögin sett fram mun strangari túlkanir á alþjóðareglum en opinberir eftirlitsmenn og flokkunarfélög í umboði þeirra, sem þurfa að fara að stjórnsýslureglum og sett kröfur sem ekki hafa verið samþykktar sem alþjóðareglur enn.
Þess vegna kom það mér mjög á óvart að Erika skyldi yfirhöfuð vera í viðskiptum við Total, miðað við þær upplýsingar um ástand skipsins sem virtust hafa legið fyrir og líklegast er Total dæmt ábyrgt á þeim grunni. Verður þessi dómur til þess að félögin hætti endanlega að freistast að versla við þessi skip og velji einungis skip sem komast klakklaust í gegnum OCIMF skoðanirnar og útgerðarmenn sitji þar með við sama borð og fyrst og fremst mun öryggið aukast og umhverfið hagnast.
Þess vegna verður sá aðili sem myndi reka hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum að vera einn af stóru olíufélögunum, sem eru í þessu skoðunarsamstarfi.
Eftir Prestige slysið á árið 2002 var hávær umræða innan ESB um að einbyrðingsskip skyldu bönnuð og endaði það með algeru banni við einbyrðingsskipum árið 2003 og á alþjóðavettvangi verða einbyrðingsskip bönnuð frá og með 2010.
![]() |
Gert að greiða 192 milljónir evra í skaðabætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enn af dómaraskipun - Árni reynir að bera af sér sakir í Kastljósi
16.1.2008 | 11:30
Ef sú röksemdafærsla sem Árni Mathiesen, settur dómsmálaráðherra í dómarastöðuveitingamálinu, viðhafði í Kastjósinu í gærkvöld hefði staðist skoðun, hefði ég andað léttar og hugsað með mér að þetta væri hefðbundinn stormur í vatnsglasi.
Þar nefndi hann að 3 af umsækjendunum hefðu átt svipaðan starfsferil. Hinn ráðni, sem metinn var hæfur og 2 af þeim sem metnir voru mjög vel hæfir. Mér fannst hann tala af lítilsvirðingu um fræðistörf og framhaldsnám hinna, en ég verð líklegast að eiga það við mig, enda hef ég ekki valdið. En hann minntist ekki einu orði á þann sem maður hefði, á grundvelli þess sem hefur komið fram í fjölmiðlum, talið sjálfsagt að ráða eða eins og dómnefndin segir sjálf:
"Þannig er til dæmis ekki minnst á 35 ára starfsferil eins umsækjanda, sem allur
tengist dómstólum, bæði héraðsdómstólum og Hæstarétti..."
Það gerir hann sem sagt aftur í Kastljósinu. Hann skautar yfir hann og lætur eins og hann sé ekki til. Ekki er hægt að saka spyrjandan um að hann hefði ekki getað komið því að, því hún tók honum mildilegum og sanngjörnum tökum og fékk hann að koma öllu sínu að en elti hann því miður ekki uppi með þetta atriði, sem mér finnst þó afar mikilvægt.
Ef Ástráður Haraldsson, hæstaréttalögmaður, hefur rétt fyrir sér í grein sinni í Fréttablaðinu í dag, að ráðningin sé ólögleg verður þetta mál kannski á endanum til góðs, því ef einhver umsækjandanna kærir og fær veitinguna dæmda ólöglega, verður þetta þvílíkt víti til varnaðar að maður ætti að geta treyst því að vinnubrögðin verði betri hér eftir, því þetta eru ekki venjulegar ráðningar eins og ráðning embættismanna framkvæmdavaldsins, heldur æviráðning inn í dómsvaldið, sem á að vera óháð framkvæmda- og löggjafarvaldinu, sem ekki verður afturkölluð nema með dómi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Orð dagsins...
15.1.2008 | 12:42
á Sigurður Líndal lagaprófessor grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag:
"Ég hélt reyndar að þessi ofstækisöfl hefðu ekki náð til forystu flokksins í Valhöll, en hér hefur mér skjátlazt. Varaformaður flokksins hefur lýst eindregnum stuðningi við geðþóttaákvörðun setts dómsmálaráðherra. Röksemdirnar láta reyndar á sér standa því að hún kýs að ræða ætterni þess umsækjanda sem skipaður var gegn hæfnismati dómnefndarinnar. Þegar gengið er jafn gróflega í berhögg við álit nefndarinnar og naumast liggur annað fyrir frá settum dómsmálaráðherra en orðafar sem hæfir götustrákum er eðlilegt að menn leiti skýringa á háttsemi ráðherrans jafnt sennilegum sem ósennilegum."
Það er spurning hverju varaformaðurinn svarar þessu, sem lögfræðingur...
Orð dagsins | Breytt 12.2.2008 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er Árni Mathiesen að uppfylla drauma Ögmundar?
14.1.2008 | 23:16
Nú hefur Landic Property verið neitað að gera upp í Evrum. Ég þekki ekki forsendur til að dæma um hvort þeir uppfylli þau skilyrði sem gerð eru, en ef þetta byggir að einhverju leiti á túlkun er þetta þá forsmekkurinn að því sem koma skal varðandi Kaupþing, sem hefur kært ákvörðun Seðlabankans um að leggjast gegn því að bankinn geri upp í Evrum, er Árni Mathiesen ekki að gera annað en að reka þessi fyrirtæki úr landi.
Býst við að Ögmundur fagni, en það verða ekki mikið fleiri. Nema þá kannski einhverjir sem gætu óskað sér þess að fjármálalífið minnki aftur svo "réttir" menn verði aftur "aðal"?
Allavegana myndi ég sakna skatttekna fyrirtækjanna, fjárfestanna og ekki síst þeirra vellaunuðu starfsmanna sem starfa í þessum fyrirtækjum.
Er skipulagsferlið ekki að virka?
13.1.2008 | 20:20
Mér finnast þessi hús sem til stendur að rífa á Laugaveginum bænum til lítils sóma og syrgi ekki að þau fari. En það er ekki þar með sagt að það sé sama hvað komi í staðinn. Það verður að styðja það sem í kringum þau eru, sérstaklega Laugaveg 2 sem er fallegt hús sem á sem betur fer að hlífa.
Mér finnst nærtækast að benda á Aðalstrætið sem götu sem vel hefur tekist til með á seinni árum. Hótel Reykjavík Centrum er einstaklega vel heppnuð bygging, jafn vel heppnuð og húsið á móti er illa heppnað.
Ef það yrði rifið og eitthvað smekklegra byggt í staðin, myndi ég klappa.
Að húsafriðunarnefnd skuli nú vilja friða húsin á Laugarveginum á þeim forsendum að húsin sem koma eigi í staðin samræmist ekki götumyndinni bera því vott að einhver hefur sofið hressilega á verðinum í skipulagsferlinu.
Þeir sem ætla sér að byggja á reitnum hafa farið að öllu því sem fyrir þá hefur verið lagt, hafa öll leyfi og fylgt öllum lögum og reglum. Það er því ekki upp á það að klaga og virðast þeir hafa allan rétt sín megin. Sú forskrift sem þeim hefur verið gert að fylgja við hönnun húsanna hefur greinilega ekki verið nógu góð, fyrst húsafriðunarnefnd telur ástæðu til að friða þessa hjalla vegna þess. Húsafriðunarnefnd hefur þannig hiklaust sofið á verðinum, því hún hefur að því að fram hefur komið fengið að veita umsögn um málið á öllum stigum þess, sem og nágrannar og borgin og í rauninni allir þeir sem eru að mótmæla núna, þegar ferlið er í rauninni til enda runnið.
Skipulags- og byggingarlögin gera nefnilega ráð fyrir miklu samráðsferli sem hefur meðal annars þann tilgang að koma í veg fyrir að svona aðstæður komi upp og verður í því ljósi að skoða hvort gera þurfi breytingar á lögum og reglugerðum og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í framhaldinu, því þeir sem vilja framkvæma í borginni verða að geta treyst því ferli.
(Myndunum er stolið af vefnum nat.is)
![]() |
Að draga tönn úr fallegu brosi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mögnuð skilaboð til Sjávarútvegsráðherra
12.1.2008 | 00:53
Í kjölfar þess að Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, hefur sagt að hann telji að túlka beri niðurstöðu Mannréttindadómstóls SÞ þröngt og telji hæpið að hún eigi að leiða til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu, eru skilaboð Ingibjargar afar áhugaverð, þegar hún telur ástæðu til að taka þurfi fram að taka skuli niðurstöðuna alvarlega.
Þetta eru ekkert annað en bein skilaboð um að EKG eigi að fara sér hægt í yfirlýsingum. Eitthvað sem hennar eigin ráðherrar hafa reyndar ekkert verið neitt of duglegir við...