Umhverfisumræðan um olíuhreinsun er á villigötum

Ríkisútvarpið fjallaði um málþing um stóriðju á Vestfjörðum fyrir skömmu. Var yfirskrift og meginumfjöllunarefni fréttarinnar yfirlýsing embættismanns í Utanríkisráðuneytinu um að Íslendingar væru varnarlausir gagnvart meiriháttar mengunarslysum.

Þeim málflutningi mótmælti ég í færslu strax þá um kvöldið og benti á þann viðbúnað sem í landinu er og þá samninga og tengingar sem við höfum til að bregðast við mengunarslysum, sem er sama nálgun og aðrar þjóðir hafa gagnvart meiriháttar mengunaróhöppum, að nýta afl samvinnunnar. Það er eðlileg nálgun, enda virðir mengun engin landamæri.

Þegar ég svo skoðaði þá fyrirlestra sem fluttir voru á málþinginu  og birtust seinna á heimasíðu Fjórðungssambands Vestfjarða, kom í ljós að fréttamaður RÚV hafði alls ekki haft rétt eftir Ragnari Baldurssyni. Hann segir hvergi að við séum varnarlaus gagnvart meiriháttar mengunarslysum, heldur bendir hann réttilega á að með auknum flutningum þarf aukinn viðbúnað. Það er hárrétt og ég er honum algerlega sammála. Ég hef talað fyrir því að við eigum að minnsta kosti að hafa tvö varðskip, eins og það sem verið er að hefja smíði á, enda olíu, gas eða gámaflutningaskipin öll stór og fara stækkandi. Það er óháð byggingu olíuhreinsistöðvar. Við þurfum sífellt að meta hvort sá bráðamengunarvarnarbúnaður sem í landinu er, henti og sé til í nægjanlegu magni og gera viðeigandi ráðstafanir ef þörf er á. En umfjöllun RÚV er þeim ekki til vegsauka.

En öflugasta mengunarvörnin er að reyna að koma í veg fyrir að skip lendi í nauðum og hafa nægjanlegan viðbúnað til að koma í veg fyrir að skip strandi eða sökkvi. Þar gegna skip og búnaður Landhelgisgæslunnar lykilhlutverki. Það er ekki fyrr en skip hefur lent í nauðum að kemur til kasta búnaðar Umhverfisstofnunnar og erlendra tengiliða, eins og t.d. við strand Wilson Muuga þar sem innlendir aðilar gátu klárað málið.

Umhverfisumræðan um hugsanlega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum eins og hún fór fram á málþinginu finnst mér annars vera á villigötum. Hún hefur að megninu til snúist um hlut sem er ekki einu sinni til umræðu. Hvort losunarheimildir séu til staðar fyrir hreinsistöðina.

Þær eru ekki til. Það liggur fyrir. Ef byggð yrði olíuhreinsunarstöð myndi framkvæmdaaðilinn, sem líklegast væri að leggja niður hreinsistöð af svipaðri stærð, þurfa að koma með losunarkvóta með sér.

Nema þá að hann gæti nýtt sér jarðvarma í grunnhitun olíunnar og næði að tryggja sér raforku til vetnisfrmaleiðslu sem er annar afar orkukrefjandi þáttur í rekstri slíkrar stöðvar. Ef slíkar hugmyndir um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa við hreinsunina væru uppi á borðinu, væri t.d. Húsavík með nágrennið við gufuna og hitann á Þeistareykjum og raforkuna þaðan mun hagkvæmari staðsetning. Sérstaklega ef farið yrði í olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Umræðan um umhverfisáhrif olíuhreinsistöðvar á að fjalla um önnur atriði, þá aðallega siglingarnar og þá auka áhættu sem siglingin inn að hreinsistöðinni hefur í för með sér, en einnig losun rokgjarnra efna, svifryks og fastra efna og meðhöndlun þeirra. Losunarkvótar eru mál rekstraraðilans, ekki ríkisns.


Náttúruauðlindir í þjóðareigu - strax

Verið er að ræða frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á orkulögum og fleira á Alþingi núna. Það sem verið er að leggja til þar að auðlindir sem eru ekki í séreign í dag, séu sameign þjóðarinnar.

Er ákvæðið ekki ósvipað og það sem stendur í fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna. Gildi eða réttara sagt réttarvirkni þess ákvæðis um sameign hefur verið véfengt og ekki talið verja hagsmuni þjóðarinnar nægjanlega.

Það er þess vegna sem Framsókn hefur lagt fram tillögu til stjórnarskrárbreytingar um sameign þjóðarinnar á öllum þeim auðlindum sem ekki eru þegar í einkaeigu.

Það er eina leiðin til að ná markmiðum frumvarps iðnaðarráðherra. Ef Samfylkingin er samkvæm sjálfri sér frá því fyrir kosningar getur hún því ekki annað en stutt stjórnarskrárbreytinguna.


Það sem bankastjórarnir segja ekki

Viðbrögð bankastjóranna við grein Illuga og Bjarna Ben sem birtist í Morgunblaðinu í gær eru fyrirsjáanleg. Styrkja þarf ímynd íslenska hagkerfisins og bankanna sem sterkra fyrirtækja. Auðvitað. Það geta allir tekið undir það.

En auðvitað taka þeir mest undir með því sjónarmiði þeirra að koma eigi Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef. Hreiðar Már, eini íslenski bankastjórinn, hann borgar amk raunverulegan skatt hér á Íslandi, segir:

"Við höfum bent á það áður að stjórnvöld reka tvo banka í landinu, annars vegar seðlabanka og hins vegar íbúðabanka og það væri eðlilegt fyrsta skref að þessir tveir bankar mundu stíga í takt,” segir Hreiðar Már. “Að okkar mati gengur það ekki að annar bankinn setji 14% grunnvexti í kerfið og hinn bankinn reyni að taka af okkur viðskiptavini alla daga með því að lána þeim út á 5,5% vöxtum. Þetta er nú ekki flóknara en þetta. Svo skilja menn ekkert í því að ójafnvægi sé í  kerfinu, vaxtahækkanir hafi ekki áhrif og verðbólga fari af stað."

Vissulega hefur hann rétt fyrir sér að ef Íbúðalánasjóði væri beitt sem vaxtastýringatæki hefði það áhrif á húsnæðismarkaðinn að einhverju leiti. En er þetta svona einfalt?

Nei. Ég tel alveg ljóst að ef Íbúðalánasjóður hefði fylgt Seðlabankanum er engin trygging fyrir því að  bankarnir hefðu gert það, síður en svo. Því hefði vaxtahækkun Íbúðalánasjóðs bara bitnað á þeim sem síst skyldi, landsbyggðinni og þeim á höfuðborgarsvæðinu sem hallast stóðu. Meiri kæling á köldum svæðum en áframhaldandi hiti á heitum svæðum.

Íslensku bankarnir hafa jú haft aðgengi að ódýru erlendu lánsfé, sem þeir hafa getað endurlánað, algerlega óháð íslensku stýrivöxtunum. Í því hefur kannski bitleysi aðgerða Seðlabankans helst legið.

Það eru því ódýr undanbrögð frá eigin ábyrgð að kenna tilvist Íbúðalánasjóðs um það sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi. Það voru bankarnir sem geystust inn á íbúðalánamarkaðinn stórhækkunum á lánshlutfalli og hámarkslánum og bundu lánveitingarnar ekki einu sinni við að íbúðaviðskipti ættu sér stað. Íbúðalánasjóður gerði ekkert annað en fylgja að einhverju leiti á eftir til að tryggja jafnræði íbúanna eftir búsetu og hefur aldrei kvikað frá því skilyrði að íbúðalán séu einungis veitt vegna viðskipta með húsnæði.

Það hafa bankarnir ekki gert, heldur dældu þeir inn ódýru lánsfé í stríðum straumum, langt umfram það sem hagkerfið hefur þolað og því stöndum við í þeim sporum sem við gerum í dag. Ekki vegna virkjanaframkvæmda fyrir austan eða Íbúðalánasjóðs.

En vonandi fer verðbólguþrýstingurinn minnkandi, nú þegar minna aðgengi er að ódýru erlendu lánsfé sem hefur tekið tennurnar úr stýrivaxtavopni Seðlabankans, þannig að hann geti farið að lækka sína stýrivexti. Ef ekki þarf Seðlabankinn að gefa yfirvöldum skýringar á því af hverju verðbólgumarkmiðin hafi ekki náðst og skoða alvarlega hvort verðbólgumarkmið hans sé rétt.


mbl.is Aðstæður að skapast fyrir lækkun stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu Davíð, Illugi og Bjarni beygja Geir?

Loksins heyrist eitthvað í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmálin. Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson kváðu sér hljóðs í ítarlegri og sjálfstæðislegri grein í miðopnu Morgunblaðs dagsins. Það er allrar athygli vert að þessi grein er birt um leið og Geir fer úr landi til að ræða við herrana í Brussel og á því óhægt um vik að svara henni.

Greinin byrjar sem réttmæt lofgjörð um árangur undanfarinna ára, hækkaðan kaupmátt og vöxt. Þó þora þeir ekki að segja satt með að líklegast hefur kaupmátturinn hækkað meira en efni stóðu til eða réttara sagt handbært fé, hafi í of miklum mæli verið fengið að láni, sérstaklega með innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Í staðin er farið í árás á Íbúðalánasjóð sem Framsókn hefur staðið vörð um gagnvart íhaldinu, enda eitt mesta jöfnunartæki gagnvart efnahag og búsetu sem til er og hefur um langa hríð verið þyrnir í augu Sjálfstæðismanna. Vonandi stendur Samfylkingin sig í þeirri vörn, þótt maður sjái blikur á lofti í ljósi yfirlýsinga forsætisráðherra um einangrun félagslega þáttar sjóðsins, sem þýðir ekkert annað en að til standi að afhenda sjóðinn bönkunum.

Í rauninni væri það að gefa bönkunum ríkisábyrgð í þegar útgefnum skuldabréfum sjóðsins. Er það kannski ástæða þess að þeir nefna Íbúðalánasjóð sérstaklega? Stæðist það lög? Ég er ekki viss.

Ég er sammála þeim að leita eigi hámörkunar á þeim tekjum sem samfélagið fær af fyrirtækjum. Vel ígrunduð lækkun skattprósentu á fyrirtæki er örugglega spor á þeirri leið.

Svo er farið í fjaðrastuld þegar þeir segja "Fyrir nokkru var samin skýrsla um hvernig hægt væri að bæta umhverfi íslenska fjármálakerfisins og leggja þar með grunn að alþjóðlegri fjármálastarfemi hér að landi." Væri ekki drengilegt að halda því til haga að þessar fjaðrir eru í eigu Halldórs Ásgrímssonar? Það er kannski til of mikils mælst. Ágúst Ólafur Ágústsson, hinn gleymdi varaformaður Samfylkingarinnar, reynir einnig að gera hugmyndina að sinni í grein á næstu síðu Moggans, svo þeir eru ekki einir um þennan ásetning.

En það sem er þó merkilegast í þessari grein er að þeir benda góðlátlega á að setja eigi verðbólgumarkmið Seðlabankans með þeim hætti að þau séu trúverðug. Þetta er sama ákall og Þorsteinn Pálsson hefur gert í leiðara Fréttablaðsins og fleiri og fleiri. Seðlabankinn getur, að fengju samþykki forsætisráðherra, breytt markmiðum sínum án þess að lögum verði breytt. Miðað við horfur á markaði er ekki hægt að sjá annað en að verðbólgan sé og verði áfram há, svo ef einhver möguleiki á að vera að lækka vexti í bráð, sem verður að fara að gerast svo lítil og meðalstór fyrirtæki og almenningur lendi ekki í stórvandræðum, þarf tímabundið að sætta sig við hærri verðbólgumarkmið.

Ekki er hægt að skilja skrif þessara þingmanna Sjálfstæðisflokksins á annan veg en að Geir H Haarde hafi þráast við að breyta markmiðunum og nú komi þeir Illugi og Bjarni vini sínum Davíð Oddssyni til hjálpar við að beygja Geir til hlýðni, en hann hefur bara komið með óskir um 2-3 álver sem tillögur að bættu efnahagsástandi. Álver sem ekki er til losunarkvóti fyrir. Mætti ég frekar biðja um eitt álver á Bakka og svo frekar netþjónabú eða ámóta starfsemi fyrir afganginn.

Vonandi verður þeim að ósk sinni, svo við förum að geta séð fram á stöðugleika. Að honum fengnum er fyrst hægt að ræða um framtíðarstöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Ekki fyrr.


mbl.is Brýnt að grípa strax til aðgerða vegna bankanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Batnandi mönnum er best að lifa

Þegar félög innan Sjálfstæðisflokksins eru farin að ákalla eigin sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra að setja aukin kraft í hafrannsóknir og það meira að segja opinberlega eins og FUS í Snæfellsbæ, hlýtur að vera farið að kólna í neðra. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft bæði embættin í að verða tvo áratugi, svo hæg ættu heimatökin að vera.

En þetta er algerlega í samræmi við það sem Framsókn hefur haft á sinni stefnuskrá um árabil, en ekki fengið framgengi í stjórn, hvað þá núna þegar hún er komin í stjórnarandstöðu.

En eins og ég segi, batnandi mönnum er best að lifa og vonandi veit þetta á gott varðandi auknar hafrannsóknir við Ísland.


mbl.is Vilja að kraftur sé settur í þorskarannsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjustefna Samfylkingarinnar - hring eftir hring - hring eftir hring

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var virkri stóriðjustefnu ríkisins hætt. Virk leit að erlendum fjárfestum með boðum um sérsamninga og fyrirgreiðslu var hætt og handvirk fyrirgreiðsla pólitíkusa var afnumin.

Frjálslyndi í stað stjórnlyndis.

Þessari staðreynd mótmælti og rangfærði Samfylkingin í kosningabaráttunni og gaf lítið fyrir orð Jóns Sigurðssonar sem lýsti staðreyndum málsins þó ágætlega. Var því statt og stöðugt haldið fram að Framsókn ætlaði áfram að stjórna meiri stóriðju inn í landið. Í dag koma þessir þingmenn upp og segja að Framsókn hafi tekið af öll stjórntæki í stóriðjumálum og nú hafi þau engin stjórntæki til eins eða neins.

Þetta kallar maður að tala í hring.

Um leið og frjálslyndið tók við af stjórnlyndinu sem Samfylkingin virðist vilja innleiða á ný, voru sett lög um losun gróðurhúsalofttegunda til að tryggja að við náum að uppfylla skuldbindingar okkar í loftslagsmálum, sem setja um leið ramma á hversu langt er hægt að ganga í stóriðjumálum. Ekki er samhljómur hjá Samfylkingarráðherrunum um hvernig eigi að nýta það sem eftir er af kvótanum. Einn ráðherra Samfylkingarinnar segir ekki meir, ekki meir, meðan annar segir á fundi á Húsavík að engin ráðherra Samfylkingarinnar hafi talað á móti álveri á Bakka. 

Sömuleiðis vildi Framsókn setja lög um verndun og nýtingu náttúruauðlinda, sem Samfylkingin kom í veg fyrir að yrði að lögum.

Höfum það á hreinu. Það var Samfylkingin ásamt VG sem kom í veg fyrir að lögin um vernd og nýtingu náttúruauðlinda yrðu samþykkt á sínum tíma. Það var einnig sama Samfylking sem kom í veg fyrir að sameign þjóðarinnar á náttúrulauðlindum kæmist í stjórnarskrá, þrátt fyrir loforð þar um.

Er það að fara í hring? Kannski er það bara að fara út og suður. Spurning hvort er verra.

Heimasíða rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er vistuð hjá Landvernd. Ég hef ekki orðið var við að hún hafi verið uppfærð undanfarið og hef heldur ekki heyrt að starfið sé yfirhöfuð í gangi, þrátt fyrir búið sé að skipa nýja verkefnisstjórn fyrir þónokkru.

Skiladagur á að vera 1. júlí 2009. Eftir 16 mánuði. Ég ekkert heyrt af starfinu, bara tal um að gera þurfi áætlunina. Er virkilega ekkert í gangi þar?

Svo er spurningin hvort hringferðin sé ekki að verða enn hraðari, núna þegar Sjálfstæðisflokkurinn kemur fram með hugmyndir um frekari stóriðjuuppbyggingu sem viðbragð við efnahagsástandinu núna. Núna hlýtur að þýða snör vinnubrögð við gerð rammaáætluninar eða á að fara í þessar boðuðu aðgerðir framhjá henni?


mbl.is Náttúruperlum ekki kastað í forina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er upphaf endaloka Íbúðalánasjóðs hafið?

Í Mogganum í dag var birt viðtal við Geir H Haarde. Var það ósköp ljúft á yfirborðinu en ein setning fékk mig til að staldra hressilega við:

"Félagsmálaráðherra er með vinnu í gangi við að einangra félagslega þáttinn í íbúðalánakerfinu, þannig að við getum tryggt áfram aðstoð til þeirra sem þurfa á því að halda en rekið íbúðalánakerfið að öðru leyti á markaðslegum forsendum."

Jóhanna og Geir eru sem sagt með það á prjónunum að taka félagslega þáttinn út úr Íbúðalánasjóði. Þegar það er búið hefur íhaldið loksins fengið þau rök að segja að Íbúðalánasjóður hafi engu hlutverki að gegna, sem bankarnir geti ekki sinnt og selja eða leggja hann niður.

Eftir verður kratískt ölmusukerfi um leið og bönkunum verður gefinn sá hluti húsnæðismarkaðarins sem þeir hafa lengi viljað. Restin, þá sérstaklega landsbyggðin, mega éta það sem úti frýs og ójafnrétti landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins eykst enn...

Viljum við það?


Rangfærslur utanríkisráðuneytisins um viðbúnað við mengunarslysum

Í gær var haldið málþing um hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Var þar gefin yfirlýsing sem fjölmiðlum hefur greinilega þótt merkileg, sbr umfjöllun RÚV um málið:

"Fram kom í máli Ragnars Baldurssonar hjá utanríkisráðuneytinu á málþinginu í dag að illa sé hægt að bregðast við verði meiriháttar olíuslys verða hér við land. Í lok júlí 2006 steytti rússneskt olíuskip á ísjaka fyrir norðan landið sumarið 2006. Íslendingar eru varnarlausir gegn meiriháttar mengunarslysum segir embættismaður í utanríkisráðuneytinu."

Á hverju byggir embættismaðurinn yfirlýsingu sína? Utanríkisráðuneytið sér ekki um þennan málaflokk í stjórnsýslunni og virðist fulltrúa ráðuneytisins ekki vera kunnugt um hvernig bráðamengunarmálum er sinnt hérlendis. Viðbrögð við mengunaróhöppum er á ábyrgð Umhverfisstofnunnar, sem vinnur með Landhelgisgæslunni og fleiri aðilum, þám okkur í Olíudreifingu, og hefur komið sér upp búnaði og skipulagi til að bregðast við mengunaróhöppum. Auk þess er í  gildi samningur sem skuldbindur Norðurlöndin um gagnkvæma skyldu til að koma til aðstoðar, verði meiriháttar mengunaróhapp. Um er að ræða aðgengi að miklum búnaði og mannskap, meðan annars búnaði Norðmanna, einnar mestu olíuvinnsluþjóðar heims. Eins virðist honum ekki vera kunnugt um að í Southampton á Englandi sé ein stærsta viðbragðsmiðstöð gegn olíumengun staðsett og hafa tryggingafélög flestra ef ekki allra olíuskipa aðgengi að þeim búnaði.

Fulltrúi Umhverfisstofnunar hefur líklegast ekki verið boðið á ráðstefnuna, amk er ekkert innlegg frá stofnuninni á dagskrá hennar, svo ég er hræddur um að þessi fullyrðing embættismannsins hafi ekki verið leiðrétt á fundinum.


Ótrúleg hræsni Vísis.is í umfjöllun um spilamennsku Birkis Jóns

Vísir.is hefur undanfarið farið mikinn í rógsherferð sinni gegn Birki Jóni Jónssyni í tengslum við spilaáhuga hans.

Ekki nóg með að frétt Andra Ólafssonar, fv formanns Ungra Jafnaðarmanna í Hafnarfirði, sem er vísvitandi röng og þannig fram sett að lesendur sitja uppi með að hann hafi brotið lög með spilamennsku sinni og ég hef áður bent á, er ennþá á forsíðu vefjarins 3 dögum seinna, eins og sjá má hér:

Fyrsta fréttin

og málinu áfram haldið lifandi með frétt um bloggfærslu hans neðar á síðunni.

En um leið og visir.is telur sig umkominn að fara rangt með og fjalla með þótta og dómhörku um spilaáhuga Birkis, er þessi auglýsing neðst á síðunni:

Betson auglýsing

Tja....... var einhver að tala um flísar og bjálka?


Össuri hótað brottrekstri úr ríkisstjórn

"Ætli menn að vera ráðherrar lengi eiga þeir að vinna og skrifa á daginn, en sofa á nóttunni"

Ég fæ ekki skilið þessi ummæli Geirs H Haarde í kvöldfréttum Stöðvar 2 núna áðan öðruvísi en að hann sé að hóta Össuri Skarphéðinssyni brottrekstri, hætti hann ekki þeirri iðju sinni að ráðast á Sjálfstæðismenn með næturbloggfærslum. Hann megi ekki vera í stjórnarandstöðu á nóttunni .

Samfylkingin hefur enga hótunarstöðu gagnvart Geir, sem hefur stjórnarmyndunarumboðið einn. Í gleðivímunni yfir að komast í ríkisstjórn samdi hún einnig þingrofsréttinn af sér og getur Geir því óhindrað myndað nýja ríkisstjórn að vild, ráðið og rekið ráðherra án þess að Samfylkingin geti neitt gert. Myndi hún því þurfa að kyngja því að Össur yrði rekinn, vilji hún vera áfram í ríkisstjórn.

Þessi hótun setur lestur bloggsíðu Össurar í alveg nýtt samhengi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband