Barnaleg ofureinföldun Lúðvíks ekki til að bæta ástandið

Yfirlýsing Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar um að menn hefðu bara um tvennt að velja, krónu eða evru, á morgunvakt Rásar 1 í gærmorgun, er ofureinföldun á þeim valkostum sem við höfum.

Vissulega er innganga í myntbandalag Evrópu með inngöngu í ESB einn möguleikanna sem hugsanlega standa okkur til boða, þegar þar að kemur. En að lýsa ástandinu núna sem afleiðingu þess að við séum með sjálfstæðan gjaldmiðil og eina leiðin út úr því sé að ganga í ESB er einfaldlega ekki rétt og það vekur furðu að þingflokksformaður láti svona út úr sér og ekki til þess fallið að auka trú á Íslandi, frekar en "ekki gera neitt" stefna ríkisstjórnarinnar.

Það er rétt að þessir háu vextir koma heimilunum illa og gengið hefur sveiflast frá því að gengi hennar var sett á flot 1991. En þetta ástand er afleiðing af mikilli hækkun kaupmáttar, kannski meiri hækkun en framleiðsla og útflutningur hefur getað staðið undir. Hann hefur að hluta verið tekinn að láni í kjölfar óábyrgrar innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Nú er jafnvægi kannski að nást í formi gengisfellingar og verðbólguskots, almenningur borgar sem sagt fyrir eyðslufyllerýið.

En Lúðvík leyfir sér að hoppa yfir marga kafla í bókinni í blindu ESB trúboði. Til dæmis getur hann ekkert sagt um hvernig hann ætli að ná stöðugleika í efnahagslífið, frekar en ríkisstjórnin. Hún meldaði pass í gær og markaðirnir brugðust við, með lækkun.

Fyrir það fyrsta þarf fyrst að ná stöðugleika áður en menn geta tekið stöðuna og ákveðið hvenær hægt sé að ræða peningastefnuna, hver verðbólgumarkmiðin eiga að vera, eigum við að halda flotkrónu áfram, við hvaða gjaldmiðla eigi að miða, verði aftur farið í myntkörfustýringu eða hvaða gjaldmiðil ætti að taka upp velji menn þá lausn.

Allt þetta þarf að fara gaumgæfilega yfir, án sleggjudóma, því þeir sem segja að gera eigi þetta og hitt, byggja þá skoðun sína á sandi, ekki yfirvegaðri greiningu á þeim möguleikum sem fyrir eru. 

Manni virðist umræðan vera svo ofsalega lík umræðunni um ensku knattspyrnuna. Menn fara að halda með liði og er alveg sama hvernig hin liðin spila, má ekki hrósa þeim. Hvort evran sé besta liðið, flotkróna eða tenging við aðra mynt veit ég ekki. Ég ætla ekki að taka afstöðu fyrr en ég hef forsendur til þess. Held að ég sé ekki einn með þá skoðun.


mbl.is Fjármálastofnanir skortir traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um tímasetningu

Framsókn er búið að skilgreina samningsmarkmið, einn flokka, og greinilegt að flokkarnir virðast ekki ráða við að taka afstöðu í spurningunni um ESB. Þess vegna er afar gott að þjóðin svari því hvort málið sé á dagskrá.

Að fengnu svari við því hvort fara eigi í aðildarviðræður, þarf þá ekki að karpa um það. Í bili amk. Verkefni stjórnmálamannana er svo að leysa sem best úr því verkefni.

Reyndar tel ég að ekki eigi að spyrja þjóðina þessarar spurningar fyrr en efnahagsmálin eru komin í jafnvægi, en það verður ekki fyrr en að nokkrum misserum liðnum. Við erum ekki í neinni samningsaðstöðu fyrr.


mbl.is SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantrú á Íslandi kostar almenning stórfé

Af fréttum erlendis frá að dæma, virðist það ekki vera vantrú á viðskiptabönkunum sem er að valda þessu gengissigi. Það virðist vera vantrú og vantraust á íslensku efnahagslífi í heild sinni.

Af hverju ætli það sé?

Er það vegna þess að greinendur sjá að Seðlabankinn rær einn á móti verðbólgunni?

Er það vegna þess að ríkisstjórnin setur fjárlög þar sem flóðgáttir eru opnaðar og útgjöld aukin um 20%, sem vinnur beint á móti Seðlabankanum?

Er það vegna þess að ríkisstjórnin aðhefst ekkert til að styrkja Seðlabankann, t.d. með aukningu gjaldeyrisvarasjóðs?

Er það vegna þess að skuldir þjóðarbúsins í heild sinni mælast mikilar, m.a. vegna þess að fyrirtæki eru ekki að skrá erlend eignasöfn sín hér á landi, vegna skattareglna?

Er það vegna þess að í tengslum við kjarasamninga gefur ríkisstjórnin út yfirlýsingu sem skilur alla eftir í lausu lofti, vegna þess að engar útfærslur eða tímasetnignar á aðgerðum liggja fyrir, ss á stimpilgjöldum og breytingu gjalda?

Er það vegna þess að ráðherrar tala út og suður um framtíðarsýn sína í peningamálum og engin skipulögð umræða fer fram um málið af hálfu ríkisstjórnarinnar?

Er það vegna þess að við blasir að ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um aðgerðir til að bregðast við vandanum?

Er það vegna þess að það eru tvær eða kannski tólf ríkisstjórnir í landinu og kalla megi fundina í stjórnarráðinu ráðherrafundi en ekki ríkisstjórnarfundi, enda tala ráðherrar út og suður um öll mál?

Ég veit ekki hvað af þessu vegur þyngst, en almenningur þarf að borga fyrir það svo mikið er víst.


mbl.is Gengið sígur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjófnaður frá þeim sem minna mega sín

Ég er sáttur við að borga skatt til að tryggja almenna velferð samfélaginu. Í því felst meðal annars jöfn tækifæri til menntunar, heilsugæslu og annarar þjónustu sem greidd hefur verið úr sameiginlegum sjóðum í gegnum ríki og sveitarfélög. Sömuleiðis félagsþjónusta, stuðningur og framfærslutrygging fyrir þá sem hallast standa. Það geri ég í trausti þess að vel sé farið með peningana.

Þess vegna svíður mér rosalega að sjá mínar skatttekjur fara til þeirra sem misnota kerfið með því að falsa hjúskaparstöðu sína og gerast með því hreinir og klárir þjófar. Það lítilmannlegasta við þann þjófnað er að það er verið að stela af þeim sem verst standa í samfélaginu, þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda.

Allir þekkja örugglega fjölda dæma um fólk, þar sem móðirin er skráð einstæð móðir en heimilisfaðirinn er skráður annarsstaðar. Allar bætur hækka, leikskólagjöld lækka og komist er framhjá biðröðum í kerfinu. Þessi svik geta numið hundruðum þúsunda og milljónum á ári, ef börnin eru mörg. Virðist fólk gera þetta jafnvel þótt afkoma þess virðist bara bærileg, bílarnir fínir og einbýlishúsin stór og endurnýjuð reglulega. Við þessu verður að bregðast.

Ég bar þetta upp við Árna Magnússon, sem þá var félagsmálaráðherra. Sveið honum þetta alveg eins og mér og sagðist ætla að skoða leiðir til að sporna við þessu. Seinna, þegar Jón Kristjánsson var orðinn ráðherra, bar ég málið undir aðstoðarmann hans og sögðust þau vera að skoða leiðir, t.d. að hægt yrði að tilkynna þjófnaðinn nafnlaust eins og hægt er hjá skattinum, en þar sem málið féll þá undir tvö ráðuneyti og fara þyrfti vandlega yfir alla lögfræði í málinu, gekk það hægt, jafnvel þótt fullur vilji væri til staðar á báðum stöðum.

Nú er búið að sameina þá málaflokka sem þetta snýst helst um í eitt félags- og tryggingamálaráðuneyti, svo það ætti að vera hægari heimatökin fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að taka á þessu máli og stýra því örugglega í höfn. Ég vona svo sannarlega að hún geri það, svo þeir peningar sem ætlaðir eru í velferð fari í ríkari mæli til þeirra sem þurfa á henni að halda og hægt sé að gera betur við það fólk. Ekki veitir af.


The million dollar question

Fyrirhugað álver í Helguvík mun losa 400.000 tonn CO2eq/ári miðað við umhverfismatsskýrslu Norðuráls.

Meðalverð losunarheimilda CO2 á Evrópumarkaði er €22-25 pr tonn CO2eq.

Ef Helguvík fær úthlutað losunarheimildum af kvóta Íslands er verðmæti þeirrar úthlutunar sem sagt 1.000.000.000 kr/ári. Einn milljarður króna.

Er skrítið að Helguvíkurmenn geri allt til að vinna kapphlaupið við Húsavík og reyni að fá sem flesta krossa í kladdann til að geta talist vera komnir lengra í undirbúningi, sem veitir forgang við úthlutun losunarheimilda og tryggja sér þennan byggðastyrk?

Ísland hefur ekki losunarheimildir til nema annars álversins. Valið og valdið er úthlutunarnefndar losunarheimilda. Formaður þeirrar nefndar er skipaður af iðnaðarráðherra, en kærum mun umhverfisráðherra sinna.

Þannig að allir þræðir málsins eru í höndum Samfylkingarinnar. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig hún bregst við og hvað er að marka það sem hún hefur sagt að hún ætli að gera og sagst geta gert.


mbl.is Framkvæmdir hafnar í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing VG fyrir mannslífum

Það er bankað á dyrnar. Til dyra kemur grátbólgin faðir. Inni heyrast reglulegar grátkviður þriggja barna lögreglukonu sem drepin var við skyldustörf í gærkvöldi. Hún gat ekki varið sig þegar hún lenti í vopnaðri árás.

"Hvað vilt þú?"

"Sæll. Ég heiti Atli Gíslason, dómsmálaráðherra, og vill votta þér samúð mína. Eins og þú líklega veist hef ég sagt að mannslífum sé fórnandi áður en mér þætti réttlætanlegt að íhuga að bæta stöðu lögreglunnar. Nú hefur konan þín fórnað sínu lífi og í framhaldinu mun ég skoða hvað hægt sé að gera til að gera lögreglunni kleyft að verja sig. Þannig að þetta var alls ekki til einskis hjá henni. Vonandi fer þetta allt vel hjá ykkur. Veriði blessuð"

Ég ætla rétt að vona að þessi samskipti þurfi aldrei að eiga sér stað. Þú getur lagt þitt lóð á vogarskálina með því að kjósa ekki fólk með þessi viðhorf.


Peningum kastað út um gluggann í óðagoti

Það er gott að til standi að fara í þessar framkvæmdir, en ég vissi reyndar ekki til þess að lög um Samgönguáætlun gerðu ráð fyrir viðaukum og ég hefði áhuga á að vita hvaða framkvæmdum er ýtt aftar í forgangsröðina í leiðinni og á hvaða forsendum.

Þessi gjörningur er nefnilega enn ein staðfestingin á því öngstræti vegamálin eru í og hafa verið í. Forgangsröðun framkvæmda virðist algerlega háð duttlungum þingmanna og ráðherra, meðan málefnalegar forsendur mega éta það sem úti frýs.

Framkvæmdir geta að mínu mati komist inn í Samgönguáætlun á þrennum forsendum:

  • Arðsemi, reiknuð sem innri vextir að teknu tilliti til framkvæmdakostnaðar, viðhaldskostnaðar, aksturskostnaðar og slysakostnaðar,
  • umferðaröryggis, þar sem slysasvæði, svokallaðir svartir blettir eru skilgreindir og þeim útrýmt skipulega og
  • á samfélagsforsendum, þar sem verið er að sameina svæði í stærri atvinnusvæði, rjúfa einangrun byggðalaga og aðrar slíkar ástæður liggja til grundvallar.

Eðlilega ættu þau verkefni sem auka annað hvort umferðaröryggi mest, eru arðsömust eða bæta samfélagsmynstrið mest að hljóta mestan forgang við afgreiðslu Samgönguáætlunar. Hins vegar hefur aldrei verið gerð grein fyrir þessum þáttum í þeim Samgönguáætlun sem hingað til hafa verið samþykktar. Ákvörðunum um forgangsröðun er leyft að orsakast af duttlungum ráðherra og alþingismanna.

Vinnulagið hefur verið þannig að þess sé gætt að sem jafnast fjármagn renni til hvers kjördæmis og svo setjast þingmenn allra flokka hvers kjördæmis niður og útdeila spottum hér og spottum þar, brú hér og ekki þar. Fagleg forgangsröðun byggð á málefnalegum forsendum er að engu höfð og erum við skattgreiðendur hafðir að fíflum með þessum vinnubrögðum.

Í þessu sambandi eru allir flokkar sekir og við skattgreiðendur þurfum að horfa upp á að arðsömustu framkvæmdunum er frestað, hættulegustu blettirnir fá að drepa áfram og einangruðustu svæðin að vera áfram einangruð til að menn geti baðað sig í kastljósinu eins og þeir félagar gerðu á blaðamannafundinum í morgun.

Er einkaframkvæmd skynsamleg?

Þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármagn í þessar framkvæmdir á samgönguáætlun verða báðar þessar framkvæmdir í einkaframkvæmd.  Hluti ríkisins verði greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur. Ég veit ekki hvort það standist lög að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti, en ég er bara aumur verkfræðingur svo ég á líklegast bara að þegja.

En hvað kostar þetta óðagot okkur skattgreiðendur?

Ríkissjóður er skuldlaus og býðst mun betri vaxtakjör en nokkur af þeim lánastofnunum sem starfa hér á landi. Einnig hlýtur ávöxtunarkrafa sjóðseigenda að vera meiri en sem nemur þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast. Ef Suðurlandsvegurinn kostar 10 milljarða og Vaðlaheiðargöngin 6 milljarða, er víxillinn 16 milljarðar. Hvert prósent í lakari vaxtakjörum er því 160.000.000 krónur á ári í aukinn kostnað fyrir okkur skattgreiðendur. Munurinn á vaxtatryggingaálagi ríkissjóðs og bankanna hefur verið um 3% undanfarið, svo þetta slagar hátt í hálfan milljarð á ári. Það má bæta vegakerfið talsvert fyrir þá peninga.

Við skulum heldur ekki gleyma því að meirihluti kostnaðar við vegaframkvæmdir fer í gegnum opinber útboð til einkaaðila. Hönnun, framkvæmd og eftirlit. Þannig að það er bábilja að halda því fram að með einkaframkvæmd sé verið að nýta kosti og hagkvæmni einkaframtaksins umfram hefðbundið framkvæmdaform. Það eina sem er öðruvísi er fjármögnunin og þar hefur ríkissjóður yfirburði yfir einkaaðilana.

Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp þessi ummæli núverandi samgönguráðherra, sem hefur nú þurft að beygja sig gegn betri vitund fyrir ásælni fjármagnseigenda sem fá með þessu að koma miklum fjármunum í góða og þægilega vinnu á kostnað okkar skattgreiðenda.

Þetta var dýr blaðamannafundur. Það verð ég að segja, þótt framkvæmdirnar sem slíkar séu góðar.

Uppfært 13:12: Sé að það á bara að tvöfalda hluta af leiðinni austur og eyða alls 10-11 milljörðum, sem gerir 300 milljóna árlegan aukakostnað vegna einkaframkvæmdarinnar, ekki 500 milljarða. Nóg er það samt.


mbl.is Tvöföldun hefst 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaup um losunarkvótann

Að fengnu þessu framkvæmdaleyfi virðist hægt að hefja byggingu álversins í Helguvík.

Þótt ekkert standi í vegi fyrir byggingu álversins sem slíks, liggur samt ekkert fyrir um hvort rekstraraðilum verði mögulegt að reka það. Til að reka álver þarf nefnilega losunarkvóta og smámuni eins og orku heim að dyrum.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, að kærðri niðurstöðu nefndarinnar, er í afar þröngri stöðu ef hún ætlar sér að taka fleiri sjónarmið en fyrstur kemur fyrstur fær í sinni úthlutun, þegar hún þarf að velja milli Helguvíkur og Húsavíkur í úthlutun sinni. Það er erfitt að sjá að byggðasjónarmið og umhverfisáhrif þeirrar orkuöflunar sem þarf við útdeilingu þessara gæða fái nokkru ráðið, að útgefnu þessu framkvæmdaleyfi, en í lögum um losun gróðurhúsalofttegunda segir:

"Umsækjendur sem hafa þegar starfsleyfi og/eða eru komnir langt í undirbúningi framkvæmda skulu njóta forgangs við ákvörðun um úthlutun losunarheimilda í áætlun úthlutunarnefndar umfram aðra sem skemmra eru komnir í undirbúningi."

Þetta er mergurinn málsins og ástæða þessa hamagangs í Suðurnesjamönnum. Sá aðili sem kominn er lengra í undirbúningi nýtur forgangs. Þannig að jafnvel þótt framkvæmdaleyfið sé byggt á grunnum gögnum eins og umhverfisráðherra heldur fram, er Helguvíkurverkefnið nú komið með fleiri krossa í kladdann en Húsavík, jafnvel þótt ekki sé búið að tryggja orku, flutningsleiðir eða útkljá kærumál. Hvaða vægi þessi kross hefur á eftir að koma í ljós.

En þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Húsvíkinga. Sérstaklega þegar ríkisstjórnin talar út og suður um málið. Engin stefna. Maður fer að halda að það séu 12 ríkisstjórnir í þessu landi.


mbl.is Framkvæmdaleyfi vegna Helguvíkurálvers afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífrænn landbúnaður á Íslandi

Meðan ég var í námi í Danmörku fyrir rúmum áratug voru lífrænar afurðir að ryðja sér til rúms af krafti. Er talsvert stór hluti framleiðslunnar í dag lífrænn og mikil og góð eftirspurn eftir vörunum. Slíku er ekki til að dreifa hér á landi. Af hverju ætli það sé?

Í Evrópu er jarðnæði þaulnýtt, mikil áburðar- og eiturefnanotkun. Það hefur haft það í för með sér að umhverfisáhrif landbúnaðar á ár, vötn, strandsvæði og sjó eru merkjanleg og oft á tíðum mikil. Það sem þó hefur haft mest áhrif á umræðuna um landbúnaðinn víðast hvar er mengun drykkjarvatns af hans völdum, enda drykkjarvatn sótt í grunnvatnið undir túnum og ökrum bænda.

Engum af þessum vandamálum hefur verið til að dreifa hér á landi.

Við verðum að átta okkur á því að lífræn ræktun í Evrópu er að mestu leiti drifin áfram af nauðsyn umhverfisins og er því styrkt sérstaklega af samfélaginu vegna þess, en er ekki drifin áfram af óskum markaðarins eða lýðheilsuástæðum.

Umræða um að lífrænt ræktaðar vörur séu heilnæmari en aðrar hefur ekki farið eins hátt erlendis og umræðan um umhverfisáhrif ræktunarinnar. Reyndar hef ég heyrt að ósannað sé að þær séu heilnæmari, en mér finnst lífrænt ræktað grænmeti yfirleitt bragðmeira og lystugra og ætla að leyfa mér að trúa því að það sé hollara en afurð úr þauleldi. En sú trú mín getur ekki réttlætt samfélagsútgjöld til að ýta undir lífræna ræktun, en mér er að sjálfsögðu frjálst að borga meira fyrir lífræna vöru vegna þessarar afstöðu minnar. Samfélagsútgjöld verða að byggja á staðreyndum.

Á Íslandi er lífræn ræktun eingöngu drifin áfram af óskum markaðarins og því gengur innleiðing lífrænnar ræktunar hægt. Hefðbundnar íslenskar landbúnaðarvörur eru líka framleiddar á hátt sem er afar nálægt þeim lífræna og ég hef oft spurt mig hvort gera eigi sömu kröfur til vottunar á lífrænni ræktun um allan heim? Hvort hefðbundinn íslenskur landbúnaður byggi ekki í raun á lífrænni ræktun, þegar tekið er tillit til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að notkun tilbúins áburðar hér hafi valdið umhverfinu skaða, lyfjanotkun er í algeru lágmarki og eiturefnanotkun hverfandi?

Verða kröfurnar ekki að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað?


mbl.is Vantar peninga til að ýta undir lífrænan búskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu vextir lækka að eyddri óvissu um kjarasamninga?

Einhvernvegin skyldi maður ætla að sú óvissa sem eytt hefur verið nú þegar búið er að samþykkja kjarasamninga SA og ASÍ, valdi því að nú geti Seðlabankinn farið að lækka vextina. Nema DO treysti ekki Ögmundi Jónassyni til að gera svipaða samninga og ASÍ fór í. Hann verður að gera það.

Um leið verður ríkisstjórnin að fara í tímabundnar sértækar aðgerðir til að milda þá losun á verðbólguþrýstingi sem óhjákvæmilega verður í kjölfar vaxtalækkunarinnar. Væri hægt að fara í lækkun á virðisaukaskatti, tímabundna lækkun olíu- og bensíngjalds eða aðrar kostnaðarlækkandi aðgerðir. Þær mega alveg vera tímabundnar og líklegast er best að þær séu það. En nú verður ríkisstjórnin að spila með Seðlabankanum og lækka vextina.

Annað er ábyrgðarleysi, skaðlegt heimilunum og fyrirtækjunum.


mbl.is Kjarasamningarnir samþykktir með miklum meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband