Torlæsi Seðlabanka og fréttamanna á tillögur Framsóknar

Það er með ólíkindum hvernig fjallað er um þær einu tillögur sem fram hafa komið til að koma heimilum landsins til aðstoðar, hinar 18 tillögur Framsóknar.

Samfylkingin telur nóg að gert, vill hneppa sem stærstan hluta almennings í skuldafangelsi greiðsluaðlögunar, sem letur fólk fremur en hvetur til að leggja hart að sér við að koma undir sig fótunum og VG komu ekki með neitt í efnahagsmálum á sínum landsfundi.

Sú tillaga sem mesta umfjöllun hefur hlotið, að fella niður 20% íbúðaskulda heimilanna, og jafnsetja þau þar með stöðunni fyrir hrun, var sett fram með einni aukasetningu sem enginn virðist vilja lesa. Tillögur Framsóknar voru nefnilega settar fram með mögulegu hámarki.

Í því sambandi væri í mínum huga eðlilegt að miða við hóflegt húsnæði, sem skv skilgreiningu Íbúðalánasjóðs er um 24 milljónir, sem þýddi 4,8 milljóna hámarksniðurfellingu, 2,4 milljónir á einstakling.

Þess í stað velta fjölmiðlar og nú Seðlabankinn sér eingöngu upp úr þeim hópi sem einmitt fengi ekki fulla niðurfellingu, sökum upphæðar lánanna.

Þetta er ómerkilegur málflutningur og villandi og ekki Seðlabankanum sæmandi.


mbl.is Ójöfn dreifing skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkurinn treystir Bjarna - en treystir þjóðin flokknum?

Það verður áhugavert að sjá hvort forystuskiptin í Sjálfstæðisflokknum, svona kortéri fyrir kosningar muni hafa einhver áhrif á þá stöðu sem flokkurinn er kominn í.

Bjarni Benediktsson er að mínu viti hinn vænsti maður, sem vill landi og þjóð allt hið besta, þótt ég sé ekki sammála honum um það hvað það sé, sem er landinu fyrir bestu.

Þrátt fyrir þessa breytingu er nánast engin önnur breyting á Sjálfstæðisflokknum fyrir þessa kosningar. Frjálshyggjupésarnir hlutu allir góða kosningu í örugg þingsæti í Reykjavík, nánast óbreyttur listi í Kraganum, dæmdur maður í næsta öruggu þingsæti í Suðurkjördæmi, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar fyrir hrunið í baráttunni í Norðausturkjördæmi og óverðskuldað laskaður fyrrverandi ráðherra í baráttusætinu í Norðvesturkjördæminu.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort þjóðin treysti flokki sem stillir upp á þann hátt.


mbl.is Nýrri kynslóð treyst til verks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágkúrulegasta lágkúra seinni tíma

Árás Davíðs Oddssonar á Sigmund Erni, hversu réttmæt sem hún kynni að vera í annan tíma, í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er líklegast mesta lágkúra sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð.

Hún er skör lægri en lágkúra Össurar Skarphéðinssonar þegar hann spurði hvar heilbrigðisráðherra væri, vitandi að Ingibjörg Pálmadóttir var erlendis að jafna sig eftir áfall.

Sigmundur Ernir missti barn í vikunni.

Við slíkar aðstæður eru menn friðhelgir.

Engin afsökunarbeiðni hefur komið frá Davíð Oddssyni vegna málsins, þrátt fyrir að bloggarar og fésbæklingar hafi gert viðvart um þetta og sómakærir Sjálfstæðismenn hljóta að hafa séð, þótt Davíð hafi ekki gert það, sem ég efa þó, eins vel tengdur og maðurinn er.


mbl.is Víkingar með Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýlyndi Sjálfstæðismanna er viðbrugðið

Það er afar fátítt í íslenskum stjórnmálum og jafnvel þótt víðar væri leitað, að fyrrverandi formaður stjórnmálaflokks kalli stóran hóp eigin flokksmanna í rauninni fífl.

En það er örugglega einsdæmi að þeir hinir sömu og fái slíkan dóm, hylli þann sem kveður upp dóminn.

Þetta getur bara gerst í Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is Vilhjálmur: Ómakleg ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ASÍ gengið í Samfylkinguna?

Dagskrá aukaársfundar ASÍ sem haldinn er vegna alþingiskosninganna er með þeim hætti að hann gæti allt eins verið landsfundur eða framboðsfundur Samfylkingarinnar.

Yfirskrift fundarins er Hagur, Vinna og Velferð, meðan að yfirskrift landsfundar Samfylkingarinnar er Vinna og velferð.

Gylfi Arnbjörnsson, prófkjörsframbjóðandi Samfylkingarinnar flytur að sjálfsögðu ávarp, að því loknu fær formannsframbjóðandi Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, orðið og seinna flytur Edda Rós Karlsdóttir Steinars Guðnasonar erindi.

Í leiðinni er Vigdís Hauksdóttir rekin úr starfi sem lögfræðingur ASÍ fyrir að vera í framboði fyrir Framsókn, meðan að yfirmaður hennar, Magnús Norðdahl, má gjarnan vera í framboði fyrir Samfylkinguna.

Ég held að það væri heiðarlegast að ASÍ lýsti því yfir að sambandið sé gengið á ný inn í Alþýðuflokkinn eða Samfylkinguna eins og flokkurinn heitir í dag.


mbl.is Verða að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar ofsóknir ASÍ

Forystumenn ASÍ hefur margoft reynt fyrir sér í prófkjörum og framboðum fyrir Samfylkinguna. Nú bíður svo við að einn starfsmaður ASÍ, Vigdís Hauksdóttir, er í framboði fyrir annan flokk en forystunni virðist þóknast, en hún leiðir lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Þá er hún rekin.

Þeir forystumenn og starfsmenn ASÍ sem hafa setið á listum og boðið sig fram í prófkjörum fyrir Samfylkinguna hljóta þá að sjá sóma sinn í að hætta þegar störfum, en vera algerir ómerkingar ella.


Aðgerðin tókst ekki og læknirinn lést

Þegar farið er af stað með of lítil inngrip sem duga ekki til er oft grínast með að aðgerðin hafi tekist en sjúklingurinn hafi látist. Í tilfelli bankanna sem ætluðu að ganga milli bols og höfuðs á Íbúðalánasjóði tókst aðgerðin ekki, Íbúðalánasjóður hélt sinni stöðu sem lánveitandi til þeirra sem vildi fá örugg lán til að kaupa eðlilega stærð af húsnæði.

Aftur á móti kostaði aðgerðin, að fara inn á markaðinn með 90% - svo 100 % lán án nokkurs hámarks á lánaupphæðina að stöðugleikinn í íslenska efnahagslífinu fór allur á hliðina, krónan fór af stað, verðbólgan í kjölfarið, stýrivextir voru svo hækkaðir til að sprona við henni, sem aftur olli rangri skráningu á gengi, sem aftur jók lánsfjármagn í umferð, nú erlendis frá sem endaði með því að spírallinn hrundi innanfrá og bankarnir með.

Aðgerðin tókst sem sagt ekki en læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina lést.


mbl.is Bankar litu á ÍLS sem óvininn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjöldin falla eitt og eitt

Ástæða þeirrar þungu umræðu og áróðurs í kringum einkavæðingu Búnaðarbankans er nú smátt og smátt að koma í ljós. Það er greinilegt að umræðan var keyrð áfram til að beina sjónum manna frá því hvernig staðið var að sölu Landsbankans, þar sem lægstbjóðanda var seldur bankinn og meira segja þannig að ekki þurfti að greiða hann að fullu.

Búnaðarbankinn var þrátt fyrir allt seldur hæstbjóðanda, þótt auðvitað hefði átt að halda þeirri stefnu sem mörkuð var í upphafi, að selja hann dreift.

Nýttu eigendur Landsbankans ítök sín og eignarhald m.a. sá Björgólfur til þess að helsti talsmaður sinn og verjandi, Agnes Bragadóttir, héldi starfi sínu, þrátt fyrir að ritstjóri Morgunblaðsins hefði sagt henni upp störfum, allt til að halda tjöldunum uppi.

Það tókst þar til bankarnir hrundu...


mbl.is Samson hótaði viðræðuslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íhaldið talar með lungunum - ekki hjartanu

Það má vel vera að einhverjum þyki Sjálfstæðisstefnan sé það sem þessari þjóð sé fyrir bestu og í því ljósi gæti maður haft samúð með því meginsjónarmiði sem endurreisnarskýrsla íhaldsins lýsir.

En í raun er þetta ámátlegt yfirklór þegar litið er til niðurstöðu þeirra prófkjöra sem Sjálfstæðismenn héldu um síðustu helgi.

Allir frjálshyggjupésarnir sem boðuðu óbreytt viðhorf fengu fina kosningu. Lítil sem engin endurnýjun.

Hér eru íhaldsmenn því að tala með lungunum til að reyna að tosa fylgið upp, meðan þau skilaboð sem þeir gáfu með hjartanu í prófkjörunum eru allt önnur.


mbl.is Fólkið brást, ekki stefnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós í myrkrinu

Ég er feginn að sjá að Róbert Wessmann skuli standa undir þeim væntingum sem ég gerði til hans, að hann væri ekki einn af þessum blindu útrásarvíkingum sem fælu sig og sitt í leynifylgsnum.

Hann virðist ætla að starfa áfram á sama grunni og hann gerði áður, sem er jú ótvíræður vitnisburður um að hann hafi verið traustari en margra annarra, svo ekki sé meira sagt.

Ef ekki eru tækifæri til fjárfestinga á Íslandi nú, eru þau aldrei. Vandinn er bara að það er ekkert fjármagn á lausu, en sem betur fer virðist Róbert vera í þeirri stöðu að geta lagt fjármagn í atvinnuuppbyggingu.

Því ber að fagna.


mbl.is Gætu orðið til 300 störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband