Ríkisendurskoðandi virtur að vettugi
30.4.2008 | 15:22
Þrátt fyrir margendurteknar ábendingar Ríkisendurskoðanda um að bæta eigi framkvæmd fjárlaga, virðist Árni Mathiesen ekkert ætla að taka tillit til þess í ljósi ummæla sinna á Alþingi í dag. Setja á allt í aukafjárlög eins og venjulega, þrátt fyrir að ljóst sé að tekjuáætlun muni ekki halda og ýmis útgjöld hafi verið ákveðin framhjá fjárlögum.
Er það þrátt fyrir jákvæðar yfirlýsingar fjárlaganefndarmanna í þá vegu, bæði Gunnars Svavarssonar formanns og Kristján Þórs Júlíussonar varaformanns nefndarinnar.
Það er eins og Árni telji sig hafinn yfir alla gagnrýni og þurfi ekkert að hlusta á þessa menn, enda stendur til að ráða nýjan ríkisendurskoðanda. Ætli þolinmæði og langlundargeð verði ekki eitt af skilyrðunum sem sett verða til nýs ríkisendurskoðanda, svo Árni þurfi ekki að vera að hlusta á þetta tuð. Hann ætlar sér hvort eð er ekkert að fara eftir honum og því leiðinlegt að vera að hlusta á svona tuð.
![]() |
Ekki þörf á að endurskoða grunn fjárlaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tímamótagrein Jóns Sigurðssonar um ESB
29.4.2008 | 09:35
Það er ekki bara að Jón Sigurðsson sé fyrrverandi formaður Framsóknar, hann er líka fyrrverandi Seðlabankastjóri. Hann leiddi einnig Evrópunefnd Framsóknar, nefnd sem greindi málin afar djúpt og skilaði af sér skynsamlegum tillögum sem okkur ber að líta til. Þessi grein markar í mínum huga tímamót. Það er ekki lengur hægt að bíða og sjá til. Jón færir sterk rök fyrir því að ESB-Grýlan sé ekki eins ljót og hún virðist við fyrstu sýn.
Ég hef verið afar tvístígandi í minni afstöðu, eins og ég held að meirihluti þjóðarinnar sé. Finnst ég ekki hafa forsendur til að taka afstöðu, langar ekki beint inn í ESB, en tel samt að hagsmunir þjóðarinnar þurfi að fá að ráða umfram tilfinningar. Það er líklegast munurinn á minni kynslóð og þeim sem upplifðu 1944. Það er alveg ljóst að það þarf að skera á þennan hnút og taka afstöðu.
Þess vegna er ég fylgjandi tillögu Magnúsar Stefánssonar, að raunhæf samningsmarkmið verði mótuð í samvinnu allra aðila og í framhaldinu yrði ákvörðun um hvort sækja eigi um á grundvelli þeirra samningsmarkmiða lögð fyrir þjóðina í næstu sveitarstjórnarkosningum.
Með því vinnst margt:
Umboð til aðildarviðræðna yrði mjög skýrt. Bæði til handa þeim sem færu í viðræðurnar, sem ættu þá að fá frið til að vinna sína vinnu, en ekki síður skýr skilaboð tið ESB um hvað við ætlum okkur. Samningsstaða okkar yrði því sterkari en ella.
Ef tillagan yrði felld, yrði hugsanleg ESB umsókn ekki viðfangsefni íslenskra stjórnmála um einhvern tíma, áratug eða svo.
Almenningur gæti undirbúið sig fyrir sjálfa ákvörðunina um inngöngu. Fræðsla til almennings verður stóraukin í tengslum við þá kosningabaráttu sem færi í gang. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki rétti vettvangurinn fyrir þessa umræðu. Til þess eru of skiptar skoðanir innan þeirra. Eðlilegt væri að ríkið styrkti Heimssýn og Evrópusamtökin og önnur slík samtök til að standa að kynningu, en einnig yrði sendiherra ESB gagnvart Íslandi boðið að opna tímabundna ræðisskrifstofu, þar sem almenningur og samtök gæti aflað sér milliliðalausra upplýsinga.
Á meðan næst vonandi skikkur á efnahagsmálin hjá okkur sjálfum áður en að sjálfum aðildarviðræðunum kæmi. Það verður að nást, óháð umsókn.
Birti grein Jóns hér:
TÍMI UMSÓKNAR ER KOMINN
FJÁRMÁLAATBURÐIR síðustu mánaða hafa haft mikil áhrif á umræður um Evrópumál og langflestir virðast telja að aðild Íslands að ESB sé óhjákvæmileg. Við erum nú þegar aukaaðilar að ESB með aðildinni að EES. Full aðild Íslands að ESB snertir fjögur svið sérstaklega: landbúnað, sjávarútveg og fiskveiðiauðlindina, peningamálastefnu og gjaldmiðilinn, og síðast en ekki síst fullveldi Íslands. Enginn skyldi halda að almenningur taki létt á þessum málum. Íslendingar gleyma ekki þorskastríðunum eða þjóðfrelsisbaráttu liðinna tíða.En hver er staðan á þessum fjórum sviðum ?Væntanlegar stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar munu valda róttækum breytingum í landbúnaði á rúmum áratug. Þegar að þessu kemur verður aðild að ESB landbúnaðinum frekar til stuðnings heldur en hitt. En ekkert er gefið án fyrirhafnar í samningum.Álendingar hafa í aðildarsamningi Finna sérstakan rétt heima fyrir til að eiga og reka fyrirtæki og til að eiga fasteignir og lóðir. Sams konar ákvæði eru í samningi Maltverja. Þessu til viðbótar er sérstakt ,,Norðurslóðaákvæði í stjórnarskrárfrumvarpi ESB. Þessi atriði skipta máli.Forsendur sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB eiga ekki við á Íslandsmiðum. Nálægðarregla ESB og regla þess um stöðug hlutföll virða fiskveiðistjórnarkerfi hvers aðildarríkis. Viðurkennt er að útlendingar eiga ekki rétt til veiða á Íslandsmiðum. Trúlega stendur þó eftir að tillaga aðildarríkis um heildaraflamagn sé staðfest í ráðherraráði ESB. En Azoreyingar, Kanaríeyingar, Madeirabúar og fleiri hafa sérstök ákvæði í 299. grein aðalsamnings ESB sem tryggja þeim sérstöðu. Maltverjar hafa líka varanlegt sérákvæði. Þrátt fyrir þessi fordæmi verða sjávarútvegsmálin erfið viðfangs í samningum við ESB. Vandi Íslendinga á sviði gjaldeyris- og peningamála er augljós. Íslenska ríkið verður að verja fjármálakerfið og aðstoða bankana með eðlilegum skilyrðum. Hér er galopið lítið hagkerfi og flest leiðandi fyrirtæki eru þátttakendur í öðrum miklu stærri hagkerfum. Í hagkerfi okkar eru í raun þrír gjaldmiðlar: íslenska krónan, verðtryggð og gengistryggð reiknikróna og evra. Seðlabankinn hefur aðeins vald yfir íslensku krónunni og verður að forskrúfa hana til að getahaft áhrif á önnur viðskipti. Þetta gengur ekki nema á stuttu millibilsskeiði. ESB og evra virðast framtíðarvalkostur og aðrir möguleikar aðeins fræðilegir. En innganga að fullu inn í miklu stærri efnahagsheild er mjög vandasamt og flókið mál.Full aðild að ESB felur í sér nýja skilgreiningu fullveldis, þannig að þættir þess verða sameiginlegir. En hún er ekki einhliða takmörkun fullveldis. Í stjórnarskrárfrumvarpi ESB er ákvæði um úrsagnarrétt aðildarríkis og þetta ákvæði er líka í endurskoðuðum tillögum innan ESB. Ákvæði um úrsagnarrétt eyðir vafa um stöðu fullveldisins.Þetta verður að vera algerlega ljóst.
Úrslit í Evrópumálum verða aðeins ráðin við samningaborð og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tími umsóknar er kominn."
![]() |
Tímabært að sækja um ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Máttarstólpar þjóðfélaga
29.4.2008 | 09:01
Ég ætla að leyfa mér þann þjófnað að endurbirta snilldarfærslu Þráins Bertelssonar:
"Björgólfur Thor Björgólfsson er í 29. sæti á lista yfir ríkustu menn Bretlands sem Sunday Times birtir í dag.
Ég er hins vegar númer eitt á listanum yfir ríkustu íbúa við Fischerssund í Reykjavík og borga skattana mína glaður."Ekki veit ég hvar ég er á listanum yfir ríkustu íbúa við Grettisgötu, en fæ í það minnsta ekki að kaupa neinar hallir niðri í miðbæ, eða neitt.Kannski vegna þess að ég borga mína skatta hér.
Syndajátning Össurar
28.4.2008 | 09:01
Í færslu á heimasíðu sinni segir Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra:
"Árni M. Mathiesen er sem alþjóð veit dýralæknir að mennt með hrossalækningar sem sérgrein. Við Jón Baldvin bjuggum til þá sögu árið 1991 þegar Árni bauð sig fram til þings, að þá hafi blaðamaður spurt Árna, hví hann gæfi kost á sér til þingmennsku. "Ja," átti fjármálaráðherrann tilvonandi að hafa svarað, "ég tel að menntun mín muni gagnast svo vel í þingflokki Sjálfstæðismanna." "
Hvernig eiga þessir menn að geta unnið saman eftir svona játningu?
Er svona mönnum treystandi fyrir landsstjórninni??????
Hvernig hugsa fréttamenn Stöðvar 2?
27.4.2008 | 12:39
Í kjölfar ummæla Láru Ómarsdóttur sem fóru óvart í loftið um sviðsetningu atburða fyrir beina útsendingu frá óeirðunum við Rauðavatn um daginn, fór af stað undirskriftarsöfnun meðal fréttamanna Stöðvar 2 um að hún segði ekki upp.
Hvað felst í þeirri gjörð?
Felst ekki í því að allir fréttamenn Stöðvar 2, nema Lára sjálf og Steingrímur Ólafsson fréttastjóri sem hefur talað skýrt um alvarleika málsins, telji það sem hún sagði, í góðu lagi, að hún hafi bara verið óheppin að vera "tekin"?
Hver er trúverðugleiki þess fólks sem telur svona ummæli í lagi?
Höfum í huga að öllu gamni fylgir nokkur alvara, sama hvað Lára segir um hversu lítið hún meinti með ummælum sínum.
Aukið fylgi við auðlindasjóð
25.4.2008 | 12:39
Þessi hugmynd um auðlindasjóð var komin fram í frumvarpi hjá Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn var á móti hugmyndinni, en Samfylkingin, VG og F buðu fram stuðning sinn, en heyktust svo á því að styðja málið þegar til átti að taka.
Þess vegna er afar gott að sjá aukið fylgi við þessar hugmyndir og vonandi komast þær sem fyrst til framkvæmda, en fróðlegt væri að heyra hvað hafi breyst í millitíðinni, sem hefur fengið núverandi stjórnarherra til að snúast í átt til stefnu Framsóknar í málinu.
![]() |
Vilja skoða hugmynd um þjóðarsjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tilgangslaus vitleysisgangur
23.4.2008 | 20:53
Lögreglan hefði átt að vera búin að láta til skarar skríða fyrr.
Þessir mótmælendur stöðva löglega starfsemi, loka leiðum sem sjúkrabílar og slökkvilið gætu þurft að nota. Þetta varðar almannaheill.
Að ráðast gegn lögreglu má alls ekki líða. Það verður að taka hart á því. Hvað yrði næst ef það yrði látið líðast?
Það er líka tóm vitleysa að olíuverðið sé að setja þá á hausinn. Þeir geta einfaldlega hækkað hjá sér taxtana og reynt að endursemja ef þeir eru fastir í lágum verðtilboðum, í þeim tilfellum þar sem ekki er tekið tillit til olíuverðs. Það eru allir í bransanum að verða fyrir sömu hækkunum.
Það sem menn eru í raun að mótmæla er aukinn hagvöxtur í Kína og réttmæt þátttaka þeirra í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Yfirvöld þurfa að íhuga að gera samkeppnisstöðu díselbíla betri en bensínbíla, umhverfisins vegna, en það er ekki neitt sem þessir mótmælendur hafa tjáð sig neitt um.
![]() |
Mótmælin fóru úr böndunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Góð ráðning vegamálastjóra
23.4.2008 | 20:29
Hef kynnst Hreini og störfum hans hjá Vegagerðinni og tel ég að ekki hafi verið hægt að finna betri mann í starfið. Menntun hans, reynsla og vinnubrögð gera hann óumdeildan í mínum huga.
![]() |
Hreinn nýr vegamálastjóri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Engin refsing við broti á banni við áfengisauglýsingum
23.4.2008 | 16:16
Þessi dómur er birtingarmynd á því að löggjöfin um bann við áfengisauglýsingum er algerlega ónýt. Bara ókeypis umfjöllunin um þennan dóm er Ölgerðinni meira virði en sektarkostnaðurinn.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir svona lagað er annaðhvort að hækka sektargreiðslurnar, þannig að þær komi eitthvað við fyrirtækin eða að þeir sem brjóti bannið verði óheimilt að framleiða, selja eða hafa milligöngu um sölu á áfengi.
![]() |
Dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ekkert svar.... ekkert hljóð, bara....
22.4.2008 | 22:09
Úrræðaleysi við stjórn landsins virðist algert. Engin svör fást, hvorki frá Seðlabanka né Forsætisráðherra við spurningum sem hefðu átt að liggja fyrir löngu áður en Framsókn spurði þeirra.
Guðni Ágústsson sendi skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra um áhrif þorskniðurskurðarins á byggðir landsins og meintar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim þann 26.2.2008. Er 10 daga frestur forsætisráðherra til svara löngu liðinn og ekkert bólar á svörum.
Sömuleiðis var Seðlabankanum sendar spurningar um stöðu efnahagsmála í febrúar þar sem óskað var eftir svörum um áhrif kjarasamninga og hvort Seðlabankinn telji ríkisstjórnina hafa gengið nógu langt til að draga úr þenslu í samfélaginu og hvaða áhrif tillögur ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir í kjaramálum hafi á þróun efnahagslífisins, ríkisútgjöld og tekjuöflun ríkisins og hvort ríkisstjórn landsins hafi gengið nógu lagt í þá átt að draga úr þenslu í samfélaginu.
Líklegast eru svörin óþægileg, svo það er þægilegra að hafa hausinn áfram í sandinum.
Á meðan blæðir efnahagslífinu...