Eru áhyggjur Reykjavíkurbréfs ekki óþarfar?

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er Sjálfstæðisflokkurinn varaður við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Ég tel reyndar í ljósi sögunnar að þeir þurfi að passa sig á henni, en ef ég skil stjórnskipunina rétt, hefur forsætisráðherra þingrofsrétt, svo lengi sem hann gegnir því starfi.

Af þeim sökum tel ég að Ingibjörg Sólrún geti því ekki hlaupið bara sí sona á miðju kjörtímabili og myndað stjórn til vinstri, þótt hana myndi langa. Geir getur nefnilega rofið þing og efnt til nýrra kosninga, sem myndi opna alla stöðuna upp á nýtt.

Þetta ættu bæði Ingibjörg og Geir að vita og því mun ekki til þess koma. Ef Ingibjörg hefur nokkurn áhuga á að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra eða á maður að segja forsætisráðfrú þjóðarinnar, þá er hennar tækifæri nú, þótt það séu auðvitað torveldari stjórnarmyndunarviðræður en þær sem hún á í með íhaldinu við undirbúning Baugsstjórnarinnar eða Bleikjunnar, eins og vinur minn Sigurður G Tómasson kýs að kalla hana. Gott nafn það.


Valgerður hjálpar í Palestínu

Í nýjasta tölublaði Stiklna, fréttabréfi Utanríkisráðuneytisins er lýst enn einu góðverkinu sem Valgerður Sverrisdóttir stendur fyrir sem Utanríkisráðherra með styrkingu grasrótarstarfs hjá þjáðum þjóðum. Það er alveg ljóst að hún lætur Framsóknarhjartað ráða för og hefur nýtt þau tækifæri sem efling utanríkisþjónustunnar, friðargæslu og þróunarsamvinnu til að láta að okkur kveða til góðs, síðast með yfirlýsingu um að hún styddi Palestínu, sem reyndar var í óþökk Geirs H Haarde.

"Verkefnið sem íslensk stjórnvöld styrkja kallast Sulafa og felst í rekstri níu félagsmiðstöðva þar sem hundruðir kvenna úr flóttamannabúðum á Gaza svæðinu geta unnið að hannyrðum, sem Sunbala samtökin sjá um að selja. Framlag Íslands mun renna til vöruþróunar, markaðssetningar og námskeiðahalda. Markmiðið með verkefninu er að stuðla að fjárhagslegu öryggi kvennanna og fjölskyldna þeirra."

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort nýr utanríkisráðherra muni feta sömu braut.


mbl.is Ísralesher drap þrjá Hamasliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging varaformanns Samfylkingarinnar

Það er með ólíkindum að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar skuli ekki vera einn af innstu koppum í búri við stjórnarmyndunarviðræður og vera viðstaddur viðræðurnar á Þingvöllum. Varaformaður er staðgengill formanns og verður að geta komið inn í stað formanns komi eitthvað upp á. Í stjórnarsamstarfi verður að vera fullur sameiginlegur skilningur á því hvað í stjórnarsáttmála felst og sá skilningur fæst ekki með lestri sáttmálans sjálfs eingöngu, heldur og sérstaklega af þeim samræðum sem eiga sér stað við undirbúning hans, af hverju hlutirnir eru skrifaðir á þann hátt sem gert er og ekki síður hvað stendur ekki í honum og af hverju.

Það er eðlilegt og klókt af Ingibjörgu að hafa Össur með sér, en að útiloka og niðurlægja varaformann sinn með þessum hætti getur ekki verið eðlileg framganga.


mbl.is Fundað um stjórnarmyndun á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi verður Landsvirkjun ekki sett á sölu

Það er ekkert í stefnuskrá Samfylkingarinnar sem stendur á móti því að Landsvirkjun verði seld, en Sjálfstæðisflokkurinn setti það á sína stefnuskrá fyrir kosningar. Væri það ótrúlegt óheillaspor og sannaði hversu nauðsynlegt það hefði verið að fá auðlindaákvæðið inn í stjórnarskrána á síðasta þingi. Illu heilli stóð Samfylkingin í vegi fyrir því að sameign þjóðarinnar á auðlindum hennar væri tryggð í stjórnarskrá. Ætli það sé vegna þess að þetta stjórnarsamstarf hafi verið löngu undirbúið og málefnavinna langt komið að hún hafi gert það?

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn ráðherra af landsbyggðinni?

Eftir því sem ég hugsa meira um það býst ég frekar við því að ráðuneytunum verður fækkað, þar sem ráðherrakapall Samfylkingarinnar gengur varla upp öðruvísi. 9 ráðuneyti, 5 til Sjálfstæðisflokks og 4 til Samfylkingarinnar, Forsætis-, utanríkis-, fjármála-, innanríkis-, atvinnuvega-, umhverfis og auðlinda-, menntamála-, félagsmála- og heilbrigðisráðuneyti.

Væri það í samræmi við tillögur Framsóknar í þeim efnum, en Samfylkingin hefur verið óhrædd við að taka stefnumál þaðan. Eðlilega.

Væru ráðherrarnir því fyrir Sjálfstæðisflokk

Geir H Haarde, Guðlaugur Þór, Þorgerður Katrín, Björn Bjarnason og Guðfinna Bjarnadóttir

Fyrir Samfylkingu

Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna og Ágúst Ólafur.

Væri því um hreina höfuðborgarstjórn að ræða og landsbyggðarþingmennirnir settir í formennskur nefnda til málamynda.


Húsnæðiseigendur allra landa sameinist

Nú hlakkar í bönkunum. Þeir sjá fram á að Íbúðalánasjóður verði seldur umyrðalaust og framlög til samkeppnismála dregin saman. Til bölvunar fyrir alla húsnæðiseigendur, þó sérstaklega úti á landi.

Líklegast verður þessarar stjórnar minnst, ef Geir er ekki að fífla ISG á leið sinni til VG, sem stjórnarinnar sem lagði landsbyggðina í rúst. Íbúðalánasjóður er ein sú mikilvirkasta byggðastofnun sem komið hefur verið á stofn, þar sem kjör og aðgengi að fjármagni er það sama um allt land, með mannúðlegum greiðsluaðlögunarmöguleikum og góðum kjörum. Það mun allt breytast þegar bankarnir eru orðnir einir á markaði. Afnám stimpilgjalds gæti hugsanlega minnkað áhrifin eitthvað á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi verður fólki gert ómögulegt að fjármagna húsnæðiskaup.


mbl.is Telur að ný „viðreisnarstjórn" verði fjármálamörkuðum hagfelld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar að bjarga forsetaembættinu?

Með því að fara fram með eðlilegum hætti við veitingu umboðs til stjórnarmyndunar til Geirs H Haarde er hann vonandi að bjarga forsetaembættinu frá því að Sjálfstæðisflokkurinn holi hlutverk embættisins algerlega að innan.

Sá ventill sem forsetaembættið er í stjórnskipuninni er algerlega nauðsynlegur, sama hvaða einstaklingur gegnir því. Í fjölmiðlamálinu þótti mörgum forsetinn misnota vald sitt, ætla ekki að fjalla um það hér, en með þessum gjörningi ættu raddir Sjálfstæðismanna, sem byggðar eru á vantrausti til persónunnar sem gegnir embættinu að hljóðna. Vera má að skýra þurfi ýmis atriði, sérstaklega er varða þjóðaratkvæðagreiðslur, en hlutverk forsetans við myndun ríkisstjórnar er ótvírætt og bráðnauðsynlegt.


mbl.is Geir falið að mynda nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsstjórnin löngu handsöluð?

Annað hvort er Ingibjörg Sólrún að klúðra allri samningsstöðu sinni í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn út um gluggann með því að koma í viðtal í Kastljósið eins og blæsma gimbur eða að Baugsstjórnin er löngu handsöluð.

Ef maður skoðar söguna og óheilindi hennar við Framsókn, þar sem hún sór að hún myndi ekki fara í landsmálin við þriðju endurnýjun R-listans kæmi það manni ekki á óvart að hún væri löngu handsöluð og Geir að sýna á sér alveg nýja hlið. Alfreð Þorsteinsson og Sigrún Magnúsdóttir voru ásamt öðrum í R-listanum búin að gera stjörnu úr ISG í borginni og var eðlilegt að hún væri krafin slíks loforðs. Það sveik hún. Síðan hefur ISG verið ófeimin við að eigna sér afrek R-listans ein, nú síðast í kosningabaráttunni þegar hún montaði sig af þeim launamun sem Steinunn Valdís átti hvað mestan þátt í að jafna í góðri sátt allra þeirra sem að R-listanum stóðu, einsetningu grunnskólana sem Sigrún Magnúsdóttir stóð fyrir. Það eina sem hún eignaði sér ekki var Orkuveitan. Til þess var Alfreð of áberandi leiðtogi.

Ef stjórnin er ekki fullfrágengin er þátttaka hennar í þættinum óendanlega barnaleg. Segjum að upp úr slitni. Hún er búin að afneita því sem hún margoft hefur sagt að Samfylkingin sé stofnuð sem höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins, eins og hún var margoft búin að segja að hún ætlaði ekki í landsmálin, byrjuð að veita afslátt af hinum og þessum málum og ég veit ekki hvað. Greinilegt er að unga Ísland virðist vera henni ofarlega í huga en fagra Ísland minnist hún ekki á.

Hef áður sett fram spá um Baugsstjórnina og fyrstu verk hennar, sem ég kallaði þá SlowDown stjórnina, en eftir innkomu Baugs í stjórnmálin með útgáfu DV og auglýsingu Jóhannesar Jónssonar, er önnur nafngift óviðeigandi. Líklegast verður Björn Bjarnason ekki áfram ráðherra, ef Baugur fær að ráða.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG fellir tjöldin

Eftir hádegisviðtalið á Stöð 2 í dag við Steingrím Joð er maður algerlega bit. Slík er stefnu- og prinsippfesta flokksins núna þegar allar kýr á Alþingi virðast vera yxna.

Í stað þess að tala um algert stóriðjustopp án undantekninga, sem var aðalkosningamál hreyfingarinnar, baular hann nú um það sem er tæknilega og lagalega mögulegt að stoppa og Helguvík er amk undir, með virkjunum á Reykjanesi og í Neðri-Þjórsá. Ekki var í eitt einasta skipti minnst á neina slíka fyrirvara í málflutningi þeirra í einum einasta þætti sem ég fylgdist með í kosningabaráttunni og fylgdist þó með mörgum.

Hann hefur sem sagt tekið upp nákvæmlega sömu stefnu og Framsókn sýndi á Íslandskorti sínu, sem þó var með Þeistareyki á stefnuskránni til að tryggja framkvæmdina á Bakka á Húsavík.

Kjósendur VG hljóta að finnast þeir hafa keypt köttinn í sekknum núna og hafa slæmt bragð í munninum, nú þegar Steingrímur er farinn að semja við sjálfan sig í beinni útsendingu og kastar stefnufestu sinni fyrir róða til að komast í stjórn.


Geir ber greinilega ekki mikið traust til VG og S

Það að Geir Haarde skuli virkilega vilja reyna til þrautar að fá Framsókn, stórlaskaða, með sér í áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf, með eins þingmanns meirihluta í stað þess að fara í stjórn með Samfylkingunni eða forvitnilega stjórn með VG segir meira en mörg orð um hvaða augum Geir sér þessa flokka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband