Þorgerður Katrín vill fara Framsóknarleiðina í Evrópumálum
14.5.2008 | 22:20
Þau tíðindi gerðust í kvöld að varaformaður Sjálfstæðisflokksins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir viðurkenndi að sú leið sem Framsóknarflokkurinn hefur varðað í Evrópumálum, sé sú skynsamlegasta og boðar að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að styðja þá leið.
Þessu lýsti hún yfir á innanfélagsfundi Sjálfstæðisflokksins í kvöld. RÚV var undarlegt nokk mætt á fundinn og rennir stoðum undir uppnefnið Bláskjár, en hingað til hafa innanflokksfundir stjórnmálaflokkanna ekki verið teknir upp, nema þegar einhver stórtíðindi hafa átt sér stað.
Þótt það sé hárrétt hjá henni að tvöföld kosning sé skynsamlegasta leiðin, er það athyglisvert að hún telji það í ljósi þess að hún hefur ítrekað og sífellt sagt, nú síðast í Silfri Egils, að Sjálfstæðismenn telji ekki skynsamlegt að ganga í ESB. Af hverju ætti þá að kjósa ef hún er svona staðföst í þeirri trú?
Er það vegna þess að hún hefur verið að tala þvert gegn eigin sannfæringu?
Hvernig er hægt að taka mark á slíkum stjórnmálamönnum?
![]() |
Hefur áhyggjur af borgarmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orð dagsins...
14.5.2008 | 12:41
... á Gísli S Einarsson, bæjarstjóri Akraness, sem segir að:
"þótt hann gangi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn nú sé hann sami jafnaðarmaðurinn og hann hafi alltaf verið"
Það var og...
![]() |
Sjálfstæðismenn með hreinan meirihluta á Akranesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af hverju á loftslagið að njóta vafans?
14.5.2008 | 00:15
Þetta er afar sterk röksemdafærsla.
Getum við tekið þá áhættu að vona að gróðurhúsaáhrif af mannavöldum muni ekki valda stórkostlegum breytingum á lífsskilyrðum á jörðinni í von um að spara einhverjar upphæðir?
Getum við tekið þá áhættu að vona að það sé í lagi að nýta ekki orkuauðlindir sem spara útblástur gróðurhúsalofttegunda?
Búrma
13.5.2008 | 17:03
Mér finnst Einar K Guðfinnsson komast það vel að orði um málið í síðustu færslu sinni að ég hef engu við hana að bæta.
Skrítið að Búrma skuli ekki hafa verið sendar samúðarkveðjur, bara Kína.
Réttlætismál að komast í gegn
11.5.2008 | 21:10
Það ber að fagna þessari yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar, sem kemur eftir mikla pressu frá stjórnarandstöðunni.
Þrátt fyrir þá pressu ber henni, Valgerði Bjarnadóttur og Samfylkingunni heiður og hrós fyrir að þetta réttlætismál, skuli vonandi komast í gegn, enda stríðir það gegn réttlætiskennt rétthugsandi fólks. Sem dæmi um það flaug ályktun á síðasta flokksþingi Framsóknar um að allir landsmenn skuli búa við sambærileg lífeyrisréttindi og að afnema beri sérréttindi alþingismanna í gegn með lófataki.
![]() |
Eftirlaunalög Alþingis verða felld úr gildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þetta væri skárra ef samkeppni á matvælamarkaði væri raunveruleg
11.5.2008 | 10:29
Sú ógn sem bændur telja að stafi af þessum breytingum, sýnir enn og aftur afleiðingar þess að samkeppnisyfirvöld hafa ekki staðið vaktina nægjanlega á matvörumarkaði og leyft tvíhöfðaástandi að þróast. Stærstu mistökin voru líklegast að heimila Baugi að kaupa 10-11, sem var sjálfstætt fyrirtæki sem var í bullandi vexti.
Svo má heldur ekki gleyma því að sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu hafa ýtt undir þessa þróun með því að halda samvinnufyrirtækjum frá stærsta markaði landsins með því að úthluta þeim ekki lóðum til verslunarreksturs.
Þótt fákeppni sé líka reyndin á hinum Norðurlöndunum er einn stóur aðilana á þeim markaði samvinnufyrirtæki, sem horfir ekki blint á hagnað, og því er matvörumarkaðurinn þar í eðlilegri farvegi.
Ef samkeppnin væri eðlileg, þyrftu bændur ekki að hafa eins miklar áhyggjur af þessum breytingum en ella. Nóg er nú samt.
![]() |
Bændur uggandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samfylkingin með sjálfstæða heilbrigðisstefnu
10.5.2008 | 18:46
Þýðir þessi yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur um að Samfylkingin hafi sjálfstæða heilbrigðisstefnu að flokkurinn styðji ekki þá stefnu sem Guðlaugur Þór er að framkvæma?
Af hverju telur hún ástæðu til að taka þetta fram?
Af hverju telur Samfylkingin ástæðu til að taka fram að einkavæðing komi ekki til greina í sömu andrá og tekið sé fram að Samfylkingin sé ekki framlenging af Sjálfstæðisflokknum?
Er það vegna þess að við ríkisstjórnarborðið sé Sjálfstæðisflokkurinn að ýta á um að framkvæma einkavæðingarsefnu sína og Samfylkingin sé að sverja íhaldið af sér með þessum fundi?
Umræða um strandsiglingar er á villigötum
9.5.2008 | 11:05
Þessi umræða um strandsiglingar er meira bullið.
Fyrir það fyrsta þá eru strandsiglingar alls ekki aflagðar. Þær eru meiri nú en áður ef eitthvað er, þótt skipin séu hætt að sigla hálftóm hringin í kringum landið samkvæmt einhverri áætlun.
Samskip og Eimskip bjóða upp á strandflutninga frá Reykjavík til Vestmannaeyja og Austurlands, Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Ég heyri ekki annað á þeim en að nýtingin á þeim sé skelfileg og væri ekki komið við á þessum stöðum nema vegna þess að frá þessum stöðum er útflutningur sem fer beint út. Það er í sjálfu sér strandflutningur, ef menn skilgreina Reykjavík sem eina vöruflutningamiðstöðin, eins og þessi umræða snýst öll um í vanþekkingu sinni.
Þar að auki er salt, mjöl, lýsi, áburður, olía og mikið magn frosinna fiskafurða, flutt beint inn og út á ströndina. Allt er þetta strandflutningur auk þess sem ferskur fiskur er fluttur út með Norrænu, sem er einnig strandflutningur við þær forsendur sem þessi umræða gefur sér.
Það er rétt að hver tonnkílómeter mengar minna og kostar minna ef hann er á sjó miðað við vegaflutninga, en inn í þann reikning verður að taka lagerhald úti á landi, kostnað við umskipun, þjónustustig og þau lífsgæði sem felast í stöðugu aðgengi að ferskum matvörum, sem strandflutningar geta ekki veitt.
Þannig að vonandi fær frjálslyndið að njóta sín í stað þess stjórnlyndis sem þessi málflutningur hefur í för með sér, þótt auðvitað eigi flutningaaðilar að greiða fyrir þann kostnað sem þeir valda og eðlilegt sé að endurskoða það.
![]() |
Strandsiglingar kall nútímans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjálfstæðismenn ráða miðborgarstjóra
8.5.2008 | 22:34
Það var nú aldeilis gott fyrir okkur íbúa miðborgarinnar að við séum komin með miðborgarstjóra.
Hvers eiga íbúar annarra hverfa að gjalda að vera ekki með neinn borgarstjóra?
Sá einstaklingur sem mætti í Kastljós áðan og sagðist ætla að skoða málið með nefndarsetur miðborgarstjórans, ef mótmæli við þær yrðu of miklar, getur varla talist borgarstjóri. Borgarstjóri hlýtur jú að geta treyst eigin dómgreind en þarf ekki að treysta á hávaðamæli við ákvarðanatöku sína.
Þetta dýra grín er í boði Sjálfstæðisflokksins.
![]() |
Ráðning í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er ráðherraræðið orðið algert?
7.5.2008 | 19:34
Sú ríkisstjórn sem nú situr virðist líta svo á að landinu hafi verið skipt upp í lénsríki 12 lénsherra.
Lénsherrarnir fengu úthlutað hver sínu léni, fyrir suma voru búin til lén, meðan aðrir sitja í sínum gömlu lénum og er eigendatilfinning þeirra sífellt að gera meira og meira vart við sig. Lénsherrarnir hafa hver sína stefnuna og markmið og ætla sér að ná þeim einir og sér, jafnvel þótt það stangist á við stefnu annarra lénsherra, eins og t.d. í Evrópumálum. Þeir sem hafa sterkustu eigendatilfinninguna eru farnir að setja sér sjálfir lög og framfylgja þeim að vild.
Má þar nefna Grímseyjarferjumálið sem dæmi, þar sem lénsherra fjármála ákvað í samráði við sérlega aðra lénsherra að ráðstafa fjármunum samkvæmt einhverjum baktjaldasamningi, þótt skýrt sé í Stjórnarskrá lýðveldisins að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi. Reyndar telur lénsherra fjármála sig alls ekki þurfa að leita til Alþingis með þær fjárveitingar sem honum þóknast þó að leita heimilda fyrir en eftir á, sbr ummæli hans um þörfina á að endurskoða fjárlög í kjölfar brostinna forsendna þeirra. Það sé bara hægt að leiðrétta þetta í fjáraukalögum.
Annað dæmi er auglýsing og væntanleg ráðning lénsherra heilbrigðismála á forstjóra Sjúkratryggingastofnunnar. Stofnunnar sem er ekki til og ekki er búið að setja lög um á Alþingi að skuli vera til. Hlutverk og verkefni stofnunarinnar eru meira að segja tilgreind í auglýsingunni, án nokkura fyrirvara. Alþingi má sem sagt ekki breyta neinu og verður að kyngja þessari fyrirætlan lénsherrans.
Nú síðast setti Björn Bjarnason lénsherra dómsmála sér lög um að gera þyrfti Landhelgisáætlun, vann hana og kynnti í gær. Setti oggolítinn fyrirvara um að Alþingi myndi samþykkja fjárveitingarnar, en að öðru leiti var þetta kynnt sem orðinn hlutur og samþykkt stefnumörkun. Það er ekkert í lögum um Landhelgisgæsluna sem mælir fyrir um slíka áætlun og því getur Alþingi ekki verið heimilt að veita fjármuni til vinnslu slíkrar skýrslu, hversu góð og nauðsynleg sem hún annars kann að vera. Þessi stefnumótun er ekki einu sinni lögð fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga, eins og gerist við lögbundnar tilsvarandi áætlanir eins og samgönguáætlun, heilbrigðisáætlun o.s.frv. Hún er bara kynnt með pompi og prakt.
Ekki svo að skilja að ég sé ekki ánægður með að sett séu metnaðarfull markmið um Landhelgisgæsluna, sem er ein almikilvægasta stofnun landsins, en lénsherrarnir verða að fara að lögum og virða Stjórnarskrá lýðveldisins og grundvallarhugmyndir lýðræðisins um þrískiptingu ríkisvaldsins. Þessi dæmi eiga sér því miður allt of mörg systkini í veruleikanum.