Spuni íhaldsins heldur áfram
13.8.2008 | 17:11
Í gær var sú frétt sett í loftið að íhaldið væri reiðubúið að starfa með Framsókn, í þeirri von að fram kæmi yfirlýsing um samstarfsvilja frá Óskari Bergssyni, sem bætti svo aftur samningsstöðuna gagnvart Ólafi F.
Sú yfirlýsing kom ekki, svo hún er bara búin til í gegnum ónafngreinda sjálfstæðismenn og sett í loftið.
Ólafur F sér jú rautt þegar minnst er á Framsókn og hefur kennt flokknum um flest það sem aflaga hefur farið í borginni að hans mati og veist að æru okkar framsóknarmanna án þess að færa fyrir því nein rök, þótt hann hafi beðinn skriflega um svör. Líklegast telur Ólafur F sig yfir það hafinn að svara borgarbúum og fylgja stjórnsýslulögum.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort þessi leikur íhaldsins hafi einhver áhrif á Ólaf F, sem á sína pólitísku framtíð jú undir því að fá að sitja áfram sem borgarstjóri, ef hann ætlar ekki að sækja um inngöngu í Sjálfstæðisflokkinn og vonast eftir uppstillingu fyrir næstu kosningar.
Á meðan situr borgarstjóri í boði Sjálfstæðisflokksins
![]() |
Frumkvæði frá Framsókn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Möguleikar íhaldsins í borginni
13.8.2008 | 12:04
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag heldur spuni velvildarmanna íhaldsins í borginni áfram um meintar viðræður íhaldsins og Framsóknar. Er þetta tilraun þeirra til að hjálpa íhaldinu við að tjónka við Ólaf F, en er um leið opinberun á algeru skipbroti borgarstjórnarflokksins. Sjónvarpið tekur einnig þátt, sló málinu upp sem fyrstu frétt í gærkvöldi en það vakti athygli mína að fréttastofa útvarpsins tók málið ekki upp og birtist það heldur ekki á textavarpinu. Heimildirnar hafa líklegast ekki verið taldar nægjanlega traustar á þeim bænum. Morgunblaðið virðist halda sig við að lýsa ástandi og þeirri staðreynd að auðvitað vilja sjálfstæðismenn breytingar. Það sér hver maður að þetta gengur ekki svona.
Tjarnarkvartettinn verður ekki endurreistur nema Ólafur F segi af sér setu í borgarstjórn, þannig að svo lengi sem hann segir ekki af sér er meirihluti án þátttöku Sjálfstæðisflokksins ómögulegur, sem gefur flokknum eftirfarandi möguleika:
- Hanna Birna taki við í mars. Sjálfstæðismenn verða að vona það besta og þurfa að gefa eftir i hinum og þessum málum eftir duttlungum Ólafs F, sem hefur meiri tíma til að sinna sínum hugðarefnum, ótruflaður af daglegum reksti borgarinnar, en reyndar án sinna aðstoðarmanna. Þetta er þó háð samþykki Ólafs F, sem hefur jú krafist að fá að sitja sem borgarstjóri áfram.
- Óbreytt staða, gefa eftir gagnvart Ólafi F og leyfa honum vera borgarstjóra áfram og þurfa að vinna með sífellt fleiri sérlegum ráðgjöfum borgarstjóra í hinum og þessum málum, sem fá að vera í ráðhúsinu meðan þeim er treyst, en það traust er jú hverfult. Flugeldasýning síðasta árs kjörtímabilsins myndi þurfa að deilast milli Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F og trufla það ímyndarplan íhaldsins sem núverandi samningur byggir á og eykur líkur á því að Ólafur F nái að kroppa fylgi af íhaldinu.
- Bjóða Ólafi F í Sjálfstæðisflokkinn og framlengja með því pólitískt líf hans, með loforði um öruggt sæti í næstu kosningum, en um leið minni áhrif, sérstaklega aðstoðarmanna hans. Þannig yrði prófkjör slegið út af borðinu. Það þarf þó að hljóta náð fyrir augum Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, en háværar raddir um breytingar í borgarstjórnarliði flokksins er í leiðinni krafa um prófkjör. Þeir sem gengið hafa í Sjálfstæðisflokkinn undanfarið og farið í prófkjör í kjölfarið hafa ekki riðið feitum hesti frá því, svo uppstilling er forsenda fyrir því að Ólafur F geti samþykkt að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Þessi möguleiki innifelur reyndar einnig að Ólafur gæti verið borgarstjóri áfram, en þá án sérlegu aðstoðarmannanna, en í staðin yrðu Valhellingar settir í ráðgjafahlutverkin til öryggis.
- Slíta meirihlutasamstarfinu og leita hófanna við aðra flokka. Þeir flokkar hafa reyndar bundist fastmælum um að ganga ekki til samstarfs við íhaldið og mér vitanlega er það samkomulag enn í gildi. Ef svo er ekki, er staðan samt sem áður erfið fyrir íhaldið.
- Samfylkingin er á miklu flugi í skoðanakönnunum og sér fram á hreinan meirihluta á næsta kjörtímabili og vill ekki gera neitt til að breyta þeirri stöðu og vilja alls ekki fá neina bláa slikju á sig. Nóg reynir örugglega á í ríkisstjórnarsamstarfinu. VG og B gerðu Dag B Eggertsson að stórstjörnu. Hann varð borgastjóri og andlit 100 daga meirihlutans og er í krafti þess að njóta meira og minna alls þess óánægju- og mótmælafylgis sem hefur farið af Sjálfstæðisflokknum. Dagur fær að njóta mikils friðar í allri umfjöllun og þarf afar lítið að svara fyrir sín mál og gjörðir sem borgarstjóra, sem sýnir kannski og sannar í hvers konar ofurtjóni núverandi meirihluti og íhaldið er í. Nema að íhaldið sé að geyma sér árásir á hann til síðasta árs kjörtímabilsins og ætli að taka hann með trukki þá.
- Framsókn. Vegna innri átaka í Sjálfstæðisflokknum var borgarstjórnarflokkur hans óstarfhæfur og í REI málinu sprakk fyrsti meirihlutinn. Mörg briglsyrði féllu í garð Framsóknar í þeirri ótrúlegu geðshræringu og ójafvægi sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru í eftir fyrstu meirihlutaslitin. Orð sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að kyngja áður en endurnýjað samstarf kemur yfir höfuð til greina og ljóst að samningsstaða íhaldsins er því síður er svo sterk, fáist Framsókn yfirhöfuð að samningaborðinu. Reyndar er búið að skipta um fólk í brúnni á báðum stöðum, en eftir sem áður situr framganga Sjálfstæðisflokksins í mörgum framsóknarmanninum.
- Vinstri Græn og Sjálfstæðisflokkurinn, draumastjórn fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, er tölfræðilegur kostur. Það er meira vafamál hvort hann sé málefnalegur kostur. Í landsmálunum eru þessir flokkar íhaldsflokkar og eiga mun meira sameiginlegt, en í vali á rekstrarlausnum, eins og sveitarstjórnarmálin snúast meira og minna um, standa VG og D andspænis hver öðrum og er erfitt að sjá þá ná málamiðlunum sem grasrót VG samþykkir til lengdar. Það er jú ekki á vísan að róa með VG grasrótina. Hún er hverful og skiptir hiklaust um skoðun, eins og hún gerði með Þórólf Árnason, þegar hún samþykkti hann inn í upphafi, vitandi af olíusamráðsmálinu, en dró það svo til baka þegar málið komst í hámæli, og rak þar með einn stærsta naglann í kistu R-listans.
Íhaldinu er svo sannarlega vandi á höndum og dýið sem það kom sér sjálft í virðist óendanlega djúpt og möguleikarnir ekki auðveldir. Hvaða leið það velur er óvíst og maður óttast að hagur borgarbúa sé ekki í forgangi í því vali.
![]() |
Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjálfstæðisflokkurinn að berja Ólaf F til hlýðni
12.8.2008 | 19:16
Það er holur hljómur í málflutningi Þorsteins Pálssonar og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum um að fá Framsókn inn fyrir Ólaf F í borgarstjórn Reykjavíkur.
Það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að fá fram, er yfirlýsing Framsóknar um samstarfsáhuga.
Þá yfirlýsingu verður svo farið með sem svipu til Ólafs F, sem mun samkvæmt orðrómi fara fram á að fá að sitja sem borgarstjóri út kjörtímabilið.
![]() |
Vilja styrkja meirihlutann í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hvaða möguleikar eru í stöðunni fyrir Ólaf F?
11.8.2008 | 23:56
Farsinn í kringum meirihlutann í borginni hlýtur að fara að enda.
Ólafur F Magnússon hlýtur að gera sér grein fyrir því og vera að leggja spilið niður fyrir sig.
Hann á nokkra kosti:
- Að líta á málefnasamninginn sem rammasamning, verða forseti borgarstjórnar og týnast. Hver hefur tekið eftir Vilhjálmi Þ undanfarið? Hvernig verður staða hans fyrir næstu kosningar, þar sem kjósendur munu ekki muna verk hans, bara muna stemminguna í kringum setu hans sem borgarstjóra, "alltaf eitthvað vesen" sem er honum ekki til framdráttar. Fólk mun hins vegar frekar muna verk Hönnu Birnu sem borgarstjóra sem kynnt verða og framkvæmd rétt fyrir kosningar og launa henni það. Þannig verður afar erfitt að keyra F-listaframboð á því í næstu kosningum.
- Að segja að málefnasamningurinn hafi tiltekið einn mann sem arftaka sinn, Vilhjálm Þ Vilhjálmsson. Ef breyta eigi því þurfi að semja upp á nýtt og þá sé eðlilegast að hann sitji áfram sem borgarstjóri, ætli Sjálfstæðisflokkurinn að geta stólað á hann. Þannig eigi hann möguleika á að vera sýnilegur í aðdraganda kosninga.
- Ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Það gæti gefið honum marga möguleika. Hann gæti samið um að fá öruggt sæti á næsta framboðslista, hugsanlega áframhaldandi borgarstjórasetu eða formennsku í þeim nefndum sem hann kysi, t.d. skipulagsráði.
- Að sprengja meirihlutann og taka aftur upp Tjarnarkvartettinn. Það er erfitt að sjá að það verði nokkurn tíma hægt að byggja aftur upp það traust sem þarf til þess, sérstaklega í ljósi síendurtekinna ómaklegra árása hans á Framsókn. Ólafur F er algerlega búinn að mála sig út í horn hvað það varðar.
- Að segja af sér í borgarstjórn og hleypa "gamla" Tjarnarkvartettnum að, með Margréti Sverris í forystu.
Það að Tjarnarkvartettinn verður ekki endurlífgaður með Ólaf F innanborðs gerir það að verkum að meirihlutamyndun án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, í heilu lagi eða bútum, er ómöguleg.
Líklegast hefur Ólafur F því bara tvo möguleika á því að framlengja pólitískt líf sitt, það er að ganga aftur í Sjálfstæðisflokkinn eða heimta borgarstjórastólinn áfram og vona að honum verði ekki hent á dyr.
Valið er Sjálfstæðismanna.
![]() |
Skipt um fulltrúa í skipulagsráði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórnin úr öllu sambandi við Seðlabankann
11.8.2008 | 00:18
Árni M Mathiesen á Kirkjuhvoli, virðist ekki vera í miklu sambandi við það sem er að gerast í efnahagslífinu. Ekki einu sinni það sem er að gerast á vettvangi hins opinbera.
Í viðtali við Bloomberg segir hann að ríkið ætli ekki að taka lán í bráð til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans, meðan kjörin eru eins og þau eru.
Á sama tíma kemur fram í fréttum að Seðlabankinn hefur þegar aukið gjaldeyrisvaraforðann um 12 % með lántöku. Skynsamlegri, rólegri lántöku í litlum bitum, sem vinnur í haginn fyrir hugsanlega stærri lántökur,
Það er ekki til þess að auka traustið á íslensku efnahagslífi, þegar fjármálaráðherra þjóðarinnar fer með staðleysur.
![]() |
Of dýrt að efla gjaldeyrisforðann nú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frábær gleðiganga
9.8.2008 | 20:51
Mikið rosalega var gaman á gleðigönguni í dag. Það sem mér fannst sérstaklega skemmtilegt var að sjá hvað það voru margir aðstandendur samkynhneigðra með í dag og hvað það er almenn ánægja og gleði.
Þetta hefði aldeilis ekki þótt svona sjálfsagt bara fyrir áratug eða svo.
Ég er bara ekki fjarri því að okkur gangi barasta sæmilega að tryggja samkynhneigðum fullt jafnrétti. Það er jú komið lagalega, en það er alltaf eitthvað eftir í hausnum á okkur er eftir sem þarf að vinna í.
- það kemur
Maður verður svo innilega glaður á svona dögum.
![]() |
Tugþúsundir í miðborginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þolinmæði aðila vinnumarkaðarins aðdáunarverð
9.8.2008 | 12:12
...eða kannski vítaverð.
Ríkisstjórnin talaði um það strax við myndun að stofna skuli samráðsvettvang aðila efnahagslífsins. Samfylkingin hafði þetta meira að segja í kosningastefnuskrá sinni.
Síðan hefur verið haldið eitt kaffiboð, fyrir hálfu ári síðan. Meðan hefur Róm brunnið.
Fyrst um sinn svöruðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar því að verið væri að undirbúa aðgerðir, sem þýðir að hún hefur talið aðgerða þörf, þótt hún hafi greinilega ekki getað komið sér saman umhvaða, en nú er hún farin að stæra sig af því að hafa ekkert gert.
Var þá ekkert að marka yfirlýsingarnar þá, eða er þetta eftiráskýring núna?
Þeir sem geta rekið ríkisstjórnina áfram, verða að taka höndum saman og gera það sem í þeirra valdi stendur til að vekja hana af svefni sínum í stólunum þægilegu.
Það er ábyrgðarhluti að gera það ekki.
![]() |
Til í slaginn saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mótsögn umboðsmanns Alþingis
8.8.2008 | 00:40
Þegar maður rennir í gegnum álit umboðsmanns Alþingis er einn þáttur gegnumgangandi í flestum þeirra.
Gerð er athugasemd við þann tíma sem meðhöndlun málsins tók í stjórnsýslunni.
Nú hefur umboðsmaður haft 7 mánuði til að fjalla um kvörtun umsækjenda um embættisfærslur Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra við skipan í embætti héraðsdómara fyrir norðan og austan, en ekkert bólar á niðurstöðu.
Er það ekki svolítið mótsagnakennt?
Atvinnumál ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar?
7.8.2008 | 00:01
Undanfarið hefur læðst að manni sá grunur að núverandi ríkisstjórn telji atvinnuuppbyggingu ekki á sínu verksviði. Mýmargt í gjörðum og aðgerðaleysi hennar hefur rennt stoðum undir það, en í Kastljósviðtali kvöldsins tók Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, af allan vafa þegar hún svaraði spurningum um úrskurð sinn um umhverfismat atvinnuuppbyggingar við Húsavík:
"Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að reisa álver, það er stefna sveitastjórna, sem sjá um atvinnuuppbyggingu í landinu, að efla atvinnuuppbyggingu á sínum svæðum."
Orðskrúð Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, Kristjáns L Möller og annarra Samfylkingarmanna í NA kjördæmi er sem sagt bara merkingarlaust hjal, beins stuðnings er ekki að vænta og viljayfirlýsing iðnaðarráðherra marklaust plagg, enda málið ekki á verksviði ríkisstjórnarinnar.
Það er greinilegt að Framsókn er ekki lengur í ríkisstjórn.
![]() |
Leiða leitað til að koma í veg fyrir töf á Bakkaframkvæmdum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hressilegt að heyra af almennilegum sakamálum
6.8.2008 | 10:02
Í gamla daga voru varla til verri glæpir en sauðaþjófnaður og gott er að sjá að lögreglan telji sauðaþjófa ekki ganga lausa í Hornafirði.
Þegar maður les "Öldin okkar" er nefnilega farið jöfnum höndum um umfjöllun um sauðaþjófnaði og mannsmorð, sem maður skyldi ætla að sé vísbending um hversu mikið rými málin voru að fá í annálum og almennri umræðu þess tíma - enda fátt lítilmótlegra en að stela björginni hver af öðrum.
Það var helst að hrossaþjófnaður fengi meiri athygli.
Í dag stela menn björginni hægri vinstri hver af öðrum, þá helst í formi skattsvika, en einnig með okurkjörum á neytendamarkaði sem fær þrifist vegna lítillar samstöðu neytenda gegn fákeppnisaðilunum.
...og telst varla fréttnæmt.
![]() |
Mál vegna meints sauðaþjófnaðar fellt niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |