Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stóra planið - úreltar tamningaaðferðir

Það er eins og ríkisstjórnin sé að beita gamalli en ómannúðlegri tamningaraðferð á þjóð sína.

Hún er svelt og hrætt í langan tíma, þannig að þegar eitthvað kemur fram sem er ekki svartasta svartnætti, verður henni þakkað.

Viðbrögðin við því að verið sé að ræða við Frakka um að miðla málum, voru enda afar jákvæð. Feginsbylgja, sem nær alveg að yfirskyggja ræfildóminn í því að hafa ekki farið beint til London og Amsterdam og málið klárað við þá á hæsta stigi og sett það í farveg þaðan. Sendinefndir hafa bara takmarkað umboð og einstaka embættismenn eiga það til að vilja skora stig með stífni, eins og ESB embættismennirnir gerðust berir að ef marka má Árna Mathiesen. Maður fréttir bara sjaldan af því, en það er örugglega talsvert algengt.

-----

Sama er með þetta IMF lán. Reynt er að leiða fólk í hreina örvinglan, þannig að fólk kalli á lausn, bara einhverja lausn, ekki endilega góða, þannig að þegar lausnin svo kemur verða allir kátir.

IMF vill auðvitað ekki lána fyrr en ljóst er að planið sem fara á eftir getur gengið upp.

Hvað halda menn eiginlega?

------

Svo hef ég heyrt, á eftir að finna það á heimasíðu IMF, að mismunun á grundvelli þjóðernis sé bönnuð samkvæmt reglum IMF.

Þess vegna eru yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að verið sé að beita okkur bolabrögðum af hendi breta og Hollendinga með því að blanda þessum tveimur málum saman í besta falli blekking, í versta falli lygi.


mbl.is Utanaðkomandi mál tefja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning kvöldsins

"Þú veist þegar þú ert að reka bankann að Seðlabankinn á X háan gjaldeyrisvaraforða, þú veist að bankakerfið er vaxið þjóðinni yfir höfuð og þú veist að við erum með krónu."

Sem viðbrögð við fullyrðingu og afsökun Björgólfs um.

"Við höfum ekkert bakland, við erum með Seðlabanka hér, sem að... hann á enga peninga, hann fékk ekkert lán"

Þetta eru einkafyrirtæki sem eiga fyrst og fremast að bera ábyrgð á sjálfum sér

"Við vildum fá 500 milljónir evra frá lífeyrissjóðunum, fengum þær ekki."

Eru lífeyrissjóðir landsmanna orðnir þrautavarasjóðir einkaaðila úti í bæ?

Þrátt fyrir að Landsbankinn í bretlandi eigi fyrir Icesaveinnlánunum. Hvað með alla þá lánveitendur sem hafa glatað fjármunum?

Er viðskiptavild allt í einu ekki verðmæti?

Hvernig í ósköpunum vogar hann sér að vona að hann muni ekki valda þjóðinni neinu tjóni og láta þar með í það skína að á endanum ætli hann segjast ekki hafa valdið þjóðinni tjóni með glæfraskap sínum?

Í hvaða umhverfi dettur mönnum í hug að senda starfsmönnum eftirlitsstofnanna rándýrar vínflöskur í jólagjöf. Hvað hefur eiginlega verið í gangi?


mbl.is Skuldir lenda ekki á þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af tveimur vondum kostum velur Geir hvorugan

Ákvarðanatökufælni er orð sem ég hélt að væri meira bundið við krata í vinsældastjórnmálum.

Það virðast liggja tveir valkostir í stöðunni og er hvorugur góður:

  • Girða sig í brók og fara til bretlands og Hollands að tala við þá herra augliti til auglitis, hugsanlega með tillögu um að fá sáttasemjara að málinu, eins og Norðmönnum fórst vel úr hendi í síðasta þorskastríði, gegn því að IMF lánið haldi áfram og komist í gegn. Skuldir þjóðarbúsins yrðu örugglega meiri til skamms tíma en ef við létum allt falla. Eitthvað kæmi og til baka í málaferlum við breta. Þá upphæð þarf að bera saman við þá þær eignir og framleiðslu sem hægt væri að bjarga og koma á fót í samvinnu við nágranna okkar og fyrri bandalagsþjóðir.
  • Hins vegar að fara í plan B og loka landinu, stúta viðskiptavild þjóðarinnar í þessum stærstu viðskiptalöndum okkar, framleiða og framleiða, safna gjaldeyri til að borga innlendar skuldir ríkisins, en gefa erlendum lánardrottnum langt nef, lánshæfismat sem hægt væri að finna niðri í kjallara, sem kæmi í veg fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi um talsvert langan tíma, bág lífskjör og landflótti hlytu að fylgja með. Innflutningshöft, gjaldeyrishöft og fjármagnsskömmtun eru allt helstu næringarefni spillingar, sem myndi óhjákvæmilega gegnsýra landið. Með ónýtan gjaldmiðil og kolbrennt ESB sem myndi ekki taka aðildarumsókn okkar fagnandi, yrðum við að finna aðrar leiðir í gjaldeyrismálum, sem hefðu líklegast í för með sér meira fullveldisframsal en inngangan í ESB. Líklegast yrði EES samningnum sagt upp við okkur, vegna þeirra brota sem við höfum hugsanlega framið og verðum að fremja vegna gjaldeyrismála.

Manni virðist Geir ætla að fara hvoruga leiðina. Á meðan blæðir atvinnulífinu hratt út sem leiðir af sér fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi og fjöldalandflótta.


mbl.is Enginn góður kostur í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Samfylkingin að liðast í sundur?

Það er eins og kosningabandalagið Samfylkingin hafi þegar liðast í sundur og fréttir af því að verið sé að yfirfara stjórnarsáttmálann gæti verið vísbending um að Ingibjörg Sólrún hafi viðurkennt það og ætli að endurnýja ríkisstjórnarsamstarfið á nýjum grunni, þá hugsanlega með einhvern hluta þingmanna kosningabandalagsins á bak við sig, enda leifir það vel af meirihlutanum að hún hefur efni á því.

Talsverður hluti þingmanna þess hefur á síðustu vikum hagað sér eins og þeir séu í stjórnarandstöðu og talað af algerri óábyrgð í hreinu vinsældakapphlaupi.

Alþýðubandalagshlutinn, með Össur Skarphéðinsson í forystu og Björgvin G Sigurðsson, valdamesta Alþýðubandalagsmann frá tímum Hannibals Valdimarssonar, sér við hlið, tekur undir með VG og fer í stjórnarandstöðu trekk í trekk. Nú síðast í þessu máli um loftrýmiseftirlit Breta.

Alþýðuflokkshluti Samfylkingarinnar og einhver hluti Kvennalistans gætu verið að koma út úr skápnum sem hreinir hægri kratar og vilja áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Krötum hafa alltaf fundist ráðherrastólarnir þægilegir og þykir gott að sitja við kjötkatlana og ausa úr þeim til vina og vandamanna. Árásir Lúðvíks Bergvinssonar og ASÍ á Björgvin eru eitt dæmið um stríðið sem geisar þarna á milli.

Áhugaverðast verður að sjá hvernig Jóhanna Sigurðardóttir og Þjóðvaki muni taka þessu. Jóhanna sér fram á að fjöldi manns missi vinnuna og þurfi að taka á sig rýrð kjör og mun reiði fólks óneitanlega bitna einnig á henni, sem ráðherra félags- og tryggingamála. Það er örugglega freistandi fyrir hana að fara í stjórnarandstöðu á þessum tímum, til að byggja enn undir vinsældir sínar, hafandi komið miklu af sínum málum í framkvæmd, sem nú liggur fyrir að draga þurfi úr, vegna efnahagsástandsins, en á móti kemur að Ingibjörg Sólrún verður að hafa stuðning hennar til að halda meirihluta á þingi.

En eins og ríkisstjórnin er ekki að stjórna núna held ég að affarasælast væri að forsetinn myndi utanþingsstjórn sem starfaði fram að kosningum, sem haldnar yrðu um leið og verstu hríðinni slotar.


mbl.is Kyssir ekki á vönd kvalaranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlagavitleysan

Það er eins og mönnum hafi ekki sést fyrir við setningu neyðarlaganna.

Eins og lagatextinn stendur, er enginn greinarmunur gerður á þjóðerni innistæðueigenda og reyndar get ég ekki lesið ótakmörkuðu ábyrgðina út úr textanum heldur, en ég er ekki lögfræðingur.

Þess vegna er erfitt að sjá annað en að útlendingar eigi að hafa sama rétt og Íslendingar.

Því verður sú spurning sífellt áleitnari, hvort við eigum ekki að afturkalla hluta neyðarlaganna og miða innistæðutrygginguna einungis við þau mörk sem tilskipunin kveður á um, þeas ca 3 milljónir, ef það er þá hægt, það er ef það stendur í lögunum yfir höfuð.

Að vísu gilda hafa yfirlýsingar ráðherra eitthvað réttargildi, en þeir hafa ekki lagasetningarvald.

Hversu miklum hagsmunum værum við að fórna hérna innanlands fyrir að losna undan milljarðahundraða ábyrgðum. Það mætti jafnvel hugsa sér að bæta þeim Íslendingum sem yrðu fyrir tjóni á einhvern hátt, til dæmis með því að fara í þjóðarsöfnun til að bæta þeim Íslendingum sem áttu yfir 3 milljónum sitt tjón.

Hins vegar má alveg ímynda sér að um leið og bretar yfirtóku Landsbankann í bretlandi á óvinveittan hátt með vísun í hryðjuerkalög hafi þeir einnig yfirtekið allar ábyrgðir í leiðinni. Það verður jú ekki bæði sleppt og haldið.


mbl.is Deilur vegna Íslands í gerðardóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvaða hagsmuni er að ræða?

Eitt finnst mér vanta inn í umræðuna um þetta Icesave mál.

Um hversu mikla hagsmuni var verið að ræða þegar Íslendingum var mismunað umfram útlendinga með neyðarlögunum?

Hversu margir áttu yfir 3 milljónir inni á innistæðutryggðum bankabókum og hversu háar upphæðir voru tryggðar aukalega með neyðarlögunum?

Voru ekki flestir sem áttu einhverjar upphæðir í sjóðum, sem nú hafa rýrnað umtalsvert?

Væri mögulegt að afturkalla hluta þessara laga?


mbl.is Barroso: Ísland leysi deilumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers konar samningagerð er þetta?

Ef íslenska ríkisstjórnin er, án nauðsynlegs samþykkis Alþingis, búin að skrifa undir samkomulag þess efnis að Íslendingar eigi að greiða hollenskum innistæðueigendum, af hverju í veröldinni berast þá fréttir þess efnis að Hollendingar standi í vegi fyrir afgreiðslu IMF á aðstoðinni við Íslendinga?

Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega, að undirgangst skuldbindingar umfram þrengstu þjóðréttarlegu ábyrgðir Íslendinga, fyrst það tryggir í það minnsta ekki lok málsins?

Á þessu verða að koma skýringar.


mbl.is 100 þúsund kröfur vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi er forseti vor í samráði við ríkisstjórn sína

Í hverju landi verður að vera ein utanríkisstefna.

Er sú stefna á forræði utanríkisráðherra og Utanríkisráðuneytisins skv lögum, sem forseti Íslands hefur staðfest, enda segir í 13. grein Stjórnarskrár lýðveldisins að "Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt."

"1. gr. Utanríkisþjónustan fer með utanríkismál og gætir í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum. Hún skal einkum gæta hagsmuna Íslands að því er snertir
   
1. stjórnmál og öryggismál,
   
2. utanríkisviðskipti, og
   
3. menningarmál.
Utanríkisþjónustan annast í umboði forseta samningagerðir við önnur ríki, nema þar frá sé gerð undantekning í lögum eða forsetaúrskurði. [...]"

Sjávarútvegsráðuneytið gæti ekki tekið upp sína eigin stefnu, enda gæti hún þá stangast á við utanríkismálastefnu samgönguráðuneytisins og svo framvegis.

Þess vegna ætla ég rétt að vona að þessi ummæli hr Ólafs Ragnars Grímssonar hafi fallið að höfðu samráði við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, eða einhvers sem hún hefur framselt vald sitt til, enda öll utanríkissamskipti okkar í miklu uppnámi þessa dagana og ekki hægt að leggja nægjanlega áherslu á að menn tali einum rómi.


mbl.is Mikið fjallað um ummæli forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýlenduherrarnir samir við sig

Það var fyrirséð að IMF tæki málið ekki fyrir, en slagurinn á sér ekki stað í framkvæmdastjórn IMF.

IMF vill ekki samþykkja lánið og aðgerðarpakkann án þess að hægt sé að fara hratt og örugglega í aðgerðapakkann og endurræsing krónunnar er hluti þess, ásamt örugglega mörgu af því sem verið er að kalla á núna, eins og endurskipulagningu Seðlabanka og peningamálastefnu, ásamt björgunarpakka fyrir fyrirtæki og heimili.

Forsenda fyrir því að hægt sé að endurræsa krónuna er að til sé nægjanlegur gjaldeyrisvaraforði til að kaupa þær krónur sem þarf að kaupa.

Það virðist ekki vera búið að safna nægjanlegu fyrir ræsinguna. IMF ætlar að koma með þriðjung, Norðurlöndin hafa lofað þriðjungi en eftir er að safna þriðjungi, svo frestunin var alveg fyrirséð.

bretar og Hollendingar standa greinilega í stríði við okkur á þeim vettvangi og gera allt sem þeir geta til að blokkera frekari lánveitingar, nema við undirgöngumst nýlenduherraskilyrði þeirra.

Hugtakið imperialist er viðkvæmt í þessum löndum og ættu íslenskir ráðamenn að fara að nota það um framferði þessara þjóða.


mbl.is Afgreiðslu umsóknar frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin áfram

Það er upplífgandi að lesa svona ályktanir og til mikillar fyrirmyndar.

Nú verða allir að leggjast á eitt og koma með allar þær góðu hugmyndir sem til framfara horfa.

Það er sama hvaðan gott kemur.


mbl.is Vilja að stjórnvöld nýti tækifæri í málmiðnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband