Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ríkisstjórnina frá og kjósum á ný

Þessi ríkisstjórn ráðleysis og sundurlyndis sem vanvirti viðvörunarljós á fjármálamarkaði sem byrjuðu að blikka fyrir 15 mánuðum og olli mestu hamförum í íslensku efnahagslífi frá lýðveldisstofnun, er eitthvert það mesta slys sem fyrir þessa þjóð hefur komið, en myndun hennar var samt það eina í stöðunni að loknum síðustu kosningum, þar sem þjóðin, södd og mett af ofgnótt atvinnuuppbyggingar, taldi sig geta verið án Framsóknar.

„Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ástundað vinsældakapphlaup í stað ábyrgrar samstöðu á erfiðum tímum og nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda reka á reiðanum. Framsóknarmenn hafa í rúmt ár varað mjög við þeirri stöðu sem þjóðarbúið er nú komið í og þeim óveðursskýjum sem stefndu að landinu erlendis frá. Þannig lýsti forsætisráðherra því m.a. í skýrslu sinni um efnahagsmál 2. september s.l. að þær efnahagsþrengingar sem væru framundan „væru vissulega krefjandi verkefni en ekki neyðarástand eða raunveruleg kreppa eins og Íslendingar kynntust fyrr á árum" og að við þyrftum „öll að búa okkur undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt um hríð". Skyldi forsætisráðherra enn vera sömu skoðunar? „

Segir í síðustu miðstjórnarályktun Framsóknar

Ofgnóttin blindaði þjóðina í síðustu kosningum sem trúði því að einhver innistæða væri fyrir loforðaflaumi Samfylkingarinnar.

Fjölmiðlar landsins brugðust algerlega hlutverki sínu við að spyrja og kanna hversu raunhæfar tillögur framboðanna voru og gefin voru út aukablöð til að afvegaleiða umræðuna og sverta þau framboð sem voru eigendum blaðana ekki þóknanlegir. Aukaútgáfa DV, blaðs baugs, sem myndaði Baugsstjórnina, verður lengi í minnum höfð.

Af hverju ætli peningamennirnir hafi viljað koma Framsókn úr ríkisstjórn?

Ætli það hafi verið vegna baráttu hennar fyrir eflingu Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunnar?

Einhvern vegin hef ég mikinn grun um það, í það minnsta eftir þær breytingar sem hafa orðið á þessum stofnunum eftir að kratarnir komust til valda.

Þessi mistök þarf að leyfa þjóðinni að leiðrétta.

Það verður að kjósa á ný og mynda starfhæfa og raunsæja ríkisstjórn, þegar bráðaaðgerðum á fjármálamarkaði er lokið.

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is 31,6% stuðningur við stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að Agnesa

Nú á seinni tímum hafa komið fram ný hugtök, sem munu lifa um einhvern tíma.

Að Haardera er að gera ekki neitt, þótt aðvörunaljós blikki og segja að ekki sé þörf á neinum aðgerðum. Jafnvel þótt það sé ósatt og viðkomandi sé það fullkunnugt.

Að Agnesa er ný íslensk þýðing á enska hugtakinu "let the bastards deny it", sem mikið var notað á Nixontímanum og er enn beitt ótt og títt.

Er þessi frétt hennar af þeim meiði, en í hverri viku kemur Agnes Bragadóttir, sem heyrir ekki undir ritstjóra Morgunblaðsins, heldur beint undir eiganda þess, Björgólf Guðmundsson, fram með fullyrðingar sem fylla fréttatímana um talsverðan tíma á eftir, hvort sem þær séu sannar eður ei, hvort frá þeim sé sagt í réttu samhengi eður ei eða hvort þær þær séu sanngjarnar eður ei?


mbl.is Lárus Welding: Rangt að reglur hafi verið brotnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantraust

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram vantraust á sitjandi ríkisstjórn sem tekið verður fyrir á mánudaginn.

Nú reynir á það hvort einhver innistæða sé fyrir þeim yfirlýsingum sem þingmenn stjórnarflokkana hafa viðhaft hver um annan og ráðherra ríkisstjórnarinnar.

  • Styðja þingmenn Sjálfstæðisflokksins ríkisstjórn þar sem umhverfisráðherra stendur á móti iðnaðaruppbyggingu, sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mótmælt?
  • Styðja þingmenn Samfylkingarinnar ríkisstjórn sem neitar að víkja seðlabankastjóra, eins og hún hefur krafist?
  • Styðja þingmenn Sjálfstæðisflokksins ríkisstjórn þar sem starfandi utanríkisráðherra stórmóðgar bandalagsþjóðir okkar með því að láta að því liggja að við ætlum ekki að standa við alþjóðaskuldbindingar okkar?
  • Styðja þingmenn Samfylkingarinnar ríkisstjórn sem skipar son seðlabankastjóra héraðsdómslögmann, þvert á álit matsnefndar?
  • Styðja þingmenn Sjálfstæðisflokksins ríkisstjórn þar sem bankamálaráðherra lætur auðmenn landsins boða sig á fund um miðjar nætur til að taka við skömmum?
  • Styðja þingmenn Samfylkingarinnar ríkisstjórn þar sem vitað er að ráðherrar hafa bein og mikil eignatengsl við bankastofnanir og eiga þar sem sitt undir því hvernig þeim reiðir af?
  • Styðja þingmenn Sjálfstæðisflokksins ríkisstjórn þar sem tveir af ráðherrum hennar hafa í raun lýst yfir vantraust á hana, sem umhverfis- og bankamálaráðherra hafa gert?
  • Styðja þingmenn Samfylkingarinnar áframhaldandi einkavæðingu heilbrigðiskerfisins?
  • Styðja þingmenn Sjálfstæðisflokksins ríkisstjórn þar sem gögn og upplýsingar leka eins og vatn út af ríkisstjórnarfundum?

Nú skilur á milli manna og músa, gaspurs og sannfæringar, lýðskrums og raunverulegra stjórnmála.


mbl.is Gætu dregið svartapétur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennum öðrum um!!!

Þau eru stórmannleg orð sem koma frá Samfylkingunni þessa dagana. Allt er öðrum að kenna. Sjálfsgagnrýnin er engin. Það eru hættuleg öfl sem ekki kunna að líta í eigin barm og fara yfir það sem gert hefur verið. Það tryggir bara að sömu mistökin verði endurtekin. Framsókn ber vissulega sína ábyrgð á því lagaumhverfi sem var við lýði við lok síðasta kjörtímabils, en sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki komið fram með neinar tillögur til breytinga á því umhverfi og hlýtur því að skiljast sem svo að hún hafi verið harla sátt við það.

Framsóknarmenn hafa í rúmt ár varað við þeirri stöðu sem þjóðarbúið stefndi í og óveðursskýjum sem stefndu að landinu erlendis frá. Því miður tóku stjórnarflokkarnir aðvörunarorð Framsóknarflokksins ekki alvarlega og því verða aðgerðarleysi stjórnarflokkanna og afneitun þeirra á stöðu efnahagsmála ekki skrifuð á reikning Framsóknarflokksins.

Nú hefur komið fram að formaður Samfylkingarinnar fékk gult ef ekki rautt aðvörunarljós í febrúar síðastliðinn.

Bankamálaráðherra kannast ekki neitt við neinn. Mat formaður Samfylkingarinnar málið þannig að ekkert væri á Seðlabankanum takandi og því þyrfti ekki að láta neinn vita, þó ekki væri nema til að kanna málið?

Ábyrgð Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins er mikil.

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins, svo eitthvað fari að gerast.


mbl.is Nýja Seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð og ríkisstjórn í leikskóla !

Ræða Davíðs Oddssonar hjá Viðskiptaráði er sorgleg fyrir margra hluta sakir

  • Hún er sorglegur vitnisburður um embættismann sem ætti að vera að bjarga hag þjóðar sinnar, en eyðir þess í stað tíma sínum í að kenna hinum og þessum um hvernig komið er. Sá tími mun koma að gera þarf upp málin, en sá tími er ekki núna.
  • Hún er sorglegur vitnisburður um sofandahátt ríkisstjórnar sem brást ekki við af myndarskap, þegar Seðlabankinn og að því er virðist Fjármálaeftirlitið einnig, vöruðu við ástandinu á bankamarkaðinum í vor.
  • Hún er sorglegur vitnisburður um aðgerðarleysi og dugleysi Seðlabanka og Fjármálaeftirlits, sem þó eru bundin af aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.
  • Hún er sorglegur vitnisburður um greinilegt virðingarleysi sem ríkir í garð Fjármálaeftirlits, sem þrátt fyrir allt ber skylda til að eiga samstarf við Seðlabankann, á meira að segja mann í stjórn Seðlabankans og öfugt.
  • Hún er sorglegur vitnisburður manns sem skilur augljóslega ekki alþjóðlegt samstarf. Á hverju það byggir og hversu mikils virði velvild nágrannaþjóða og helstu viðskiptaþjóða er. Heimastjórnarmennskan er þjóðinni ekki til framdráttar. Við verðum að vernda viðskiptavild þjóðarinnar.
  • En fyrst og síðast er ræða Davíðs Oddssonar sorglegur vitnisburður um mann sem aldrei hefur á ævinni tapað og sér hugsanlega fram á sitt fyrsta tap, en ákveður að berjast til síðasta blóðdropa, númeð því að varpa ábyrgð út og suður, sumpart á rétta staði, en í annan part ekki.

Ráðherrar og aðrir embættismenn bregðast við á sama plani og Seðlabankastjóri og segja „ekki ég", „það var ekki sagt mér það", „það er víst honum að kenna", „hann vissi meira en ég". Ástandið minnir á það ástand sem kemur upp oft og iðulega upp í leikskólum landsins og bið ég leikskólabörn landsins þegar afsökunar. Líklegast væri réttast að kalla til fólk sem er sérmenntað og vel þjálfað til að eiga við ástandið. Köllum leikskólakennara inn á ríkisstjórnarfundi til að hafa stjórn á þeim. Hagfræðingar, sagnfræðingar, lögfræðingar, líffræðingar, sagnfræðingar og dýralæknar geta það greinilega ekki.

Hins vegar komu einnig fram áhugaverð og réttmæt sjónarmið, sérstaklega um fjölmiðla landsins. Mikil má skömm Davíðs sjálfs vera að hafa lagt fram jafn meingölluð fjölmiðlalög á sínum tíma. Það léleg að þau fengust ekki í gegn.

Eins verður fróðlegt að sjá hvað olli raunverulega reiði breta. Það hlýtur að koma fljótlega fram, fyrst sandkassaleikurinn er kominn á fullt.


mbl.is Fréttaskýring: Vígreif varnarræða seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB lýsir vantrausti á ríkisstjórn Íslands – það geri ég líka

Ríkisstjórnin, Seðlabankastjóri og Forseti Íslands básúnast yfir því að 27 þjóðir ESB krefjist þess að Ísland gangi frá sínum málum áður en IMF pakkinn sé afgreiddur.

Ég skil afstöðu þeirra vel.

ESB-þjóðirnar Svíar, Danir og Finnar hafa verið með sendinefnd hér á landi ásamt Norðmönnum til að kanna aðstæður og hvað sé í bígerð hjá íslenskum stjórnvöldum. Fulltrúar þeirra hafa greinilega komist að þeirri augljósu niðurstöðu að ríkisstjórnin viti ekkert hvað hún sé að gera.

Er það nokkuð skrítið?

Þeir upplifa að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala út og suður, upp og niður og hjóla hver í annan í hverju málinu á fætur öðru.

·         Einn segir að sækja eigi um aðild að ESB, annar segir að það sé ekki á dagskrá.

·         Einn ver stýrivaxtahækkun, annar segir hana vitleysu.

·         Einn segist ekki kyssa vönd kvalara síns, annar er að reyna að semja frið við breta eftir eðlilegum leiðum.

·         Nokkrir krefjast þess að seðlabankastjórnin víkji, aðrir verja hana í drep

·         Einn gagnrýnir Seðlabankastjóra fyrir að hafa sagt að þjóðin ætli ekki að greiða erlendar skuldir, meðan staðgengill hans hefur sagt nákvæmlega það sama, jafnvel enn sterkar tveimur dögum áður, þá í embætti.

·         Talað er um aðhald, meðan það eina sem kemur fram er niðurskurður á útgjaldaaukningu.

·         Einn ver laun nýju bankastjóranna, annar gagnrýnir þau og sá sem ákveður þau í gegnum leppstjórnir sína, segist ekki vita hvað um sé að vera í bönkunum!

Hvernig á að vera hægt að treysta svona liði?

Ég geri það ekki.

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is Arnór: Áfallið meira hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjótt skipast veður í lofti - Guðni hættir

Eftirmæli Guðna sem stjórnmálamanns eru góð, þótt Framsókn hafi ekki komist á flug með hann sem formann. Hann tók við Landbúnaðarráðuneytinu á tímum þar sem kratískur harmakór hafði talað landbúnaðinn niður með þeim hætti að djúp gjá hafði myndast milli bænda og neytenda.

Þá gjá brúaði Guðni með framgöngu sinni og bjartsýni.

Hver talar illa um íslenskan landbúnað í dag?

Það gera ekki nema örfáir kratar.

Það blésu margir vindar á miðstjórnarfundi Framsóknar um helgina. Að þeir vindar myndu feykja Guðna af stóli kom mér á óvart, en krafan um breytingar er sterk í öllu samfélaginu - það skynjaði Guðni greinilega, þrátt fyrir að hann hafi í rauninni ekkert til saka unnið sem ráðherra, þá sat hann í ríkisstjórn sem er nú að ósekju dæmd mjög hart, en stjórnmálin eru ekki sanngjörn. Það ættu þau að vita sem gefa kost á sér í stjórnmálabaráttu.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á stöðu annarra þeirra sem eru í forystu í dag. Hvaða pressu setur þetta á Geir H Haarde, sem var fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn og efnahagsmálaráðherra á þeim tíma sem viðvörunarljós kreppunnar fóru að blikka, en aðhafðist ekkert? Þorgerður Katrín er í erfiðri stöðu eftir umræðuna um að maður hennar þurfi ekki að standa við skuldir sínar við Kaupþing, meðan almenningur þarf að standa við sínar skuldbindingar. Forysta Samfylkingarinnar lofaði öllum öllu allstaðar fyrir síðustu kosningar og hafa ekki sýnt ábyrga framkomu síðan þau settust í ríkisstjórn. Ábyrgð bankamálaráðherra er mikil, sem og starfandi utanríkisráðherra, sem söng það falskt að bretar réðust á okkur, lag sem kannski var ágætt, en söngtæknin var hörmuleg. Valgerðar Sverrisdóttur, sem nú tekur við formennsku í Framsókn, bíður það verkefni að útskýra gjörðir sínar meðan hún var viðskiptaráðherra, hvort og þá hvað hún hefði getað gert til að koma í veg fyrir hrunið. Ef hún fær að útskýra sitt mál ætti hún að fá að njóta sannmælis, en það er spurning hvort reiðin í samfélaginu sé henni um megn. Steingrímur J er algerlega andstæður ESB aðild, þvert á stuðning meginþorra stuðningsmanna VG.

Það má segja að við lifum á áhugaverðum tímum.

Reiðin í samfélaginu er mikil enda er fólk sem hefur ekkert gert af sér að lenda í miklum vandræðum, lánin hækka vegna vísitölubindingar og gengishruns og eignaverð lækkar.

Framsókn lagði til ákveðnar lausnir í því sambandi núna um helgina, enda flokkur sem talar í lausnum. Að þeim sem skulda vísitölulán verði gert kleyft að taka lán fyrir vísitöluhækkun næstu 12 mánaða og flytja það lán afturfyrir.

Það er þörf á Framsókn við stjórn landsins.


mbl.is Horft á eftir farsælum forystumanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn talar í lausnum

Venju samkvæmt, talar Framsókn í lausnum. Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins, sem haldinn var í gær samþykkti eftirfarandi stjórnmálaályktun um ástandið. Staðan er grafalvarleg og ekki ábyrgt að vera að reyna að slá pólitískar keilur eins og staðan er núna. Allir verða að leggjast á eitt til að komast út úr stöðunni og þeir sem ekki eru í ríkisstjórn gera sitt með því að leggja gott til, sem var gert í þessari ályktun:


Núverandi staða

Íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir meiri vanda en það hefur nokkru sinni gert áður á lýðveldistímanum. Við blasir hrun bankakerfisins, algjört vantraust á gjaldmiðli þjóðarinnar, veruleg eignaskerðing lífeyrissjóðakerfisins, stórfellt atvinnuleysi, eignatap einstaklinga og fyrirtækja og að skuldir heimila og fyrirtækja eru að sliga rekstur þeirra og framtíðarmöguleika. Ljóst er að mikill halli mun verða á fjárlögum ríkissjóðs og að skuldir hans munu margfaldast á næstu árum.

Ólögmætar árásir bandalagsþjóða á íslenska hagsmuni eru fordæmalausar og ólíðandi, enda eiga samskipti við nágranna- og viðskiptaþjóðir að grundvallast á þeim alþjóðasamningum sem Íslendingar eru aðilar að. Nauðsynlegt er að stjórnvöld landsins standi fast gegn öllum öðrum kröfum en þeim sem þjóðinni ber lögum samkvæmt að gangast undir og hiki ekki við að leita niðurstöðu dómstóla ef þurfa þykir.

Við þessar aðstæður er óþolandi með öllu að við völd situr ríkisstjórn sem, þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta, er ósamstíga og sundurleit. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ástundað vinsældakapphlaup í stað ábyrgrar samstöðu á erfiðum tímum og nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda reka á reiðanum. Framsóknarmenn hafa í rúmt ár varað mjög við þeirri stöðu sem þjóðarbúið er nú komið í og þeim óveðursskýjum sem stefndu að landinu erlendis frá. Þannig lýsti forsætisráðherra því m.a. í skýrslu sinni um efnahagsmál 2. september s.l. að þær efnahagsþrengingar sem væru framundan „væru vissulega krefjandi verkefni en ekki neyðarástand eða raunveruleg kreppa eins og Íslendingar kynntust fyrr á árum” og að við þyrftum „öll að búa okkur undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt um hríð”. Skyldi forsætisráðherra enn vera sömu skoðunar? Miðstjórn Framsóknar lýsir því yfir vantrausti á þá ríkisstjórn sem nú situr.

Nauðsynlegar aðgerðir

Þrátt fyrir mikil áföll er Ísland land tækifæranna og framtíðin er björt, ef rétt er haldið á málum. Endurreisa þarf traust milli
ríkisstjórnar, Alþingis, stofnana þjóðfélagsins og þjóðarinnar. Miðstjórn Framsóknarflokksins varar sterklega við því að brugðist verði við núverandi efnahagskreppu með höftum, hækkun skatta eða öðrum þeim aðgerðum sem hindra kunna viðskipti eða fjármagnsflutninga milli landa. Framsóknarflokkurinn telur að á næstu vikum og misserum sé mikilvægt að ráðist verði í viðamiklar skammtíma- og langtímaaðgerðir til styrktar almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Brýnustu aðgerðir eru eftirfarandi:

• Uppbygging markvissrar útflutningsstefnu í atvinnulífinu. Íslendingar eru háðari alþjóðaviðskiptum en flestar aðrar
þjóðir. Framtíðarhagvöxtur Íslands þarf að byggjast á útflutningi vöru og þjónustu sem tekur mið af hæsta mögulega virðisauka í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Einn mikilvægasti þáttur í útflutningsstefnunni þarf að vera stuðningur við
nýsköpun í gegnum rannsóknar- og þróunarstarf innan veggja fyrirtækja, háskóla og opinberra stofna og með stuðningi við sprotafyrirtæki.

• Hlúa þarf að innlendri framleiðslu landbúnaðarvara. Ljóst er að þeir umbrota- og óvissutímar sem nú ríkja kalla á ný sjónarmið varðandi landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Miðstjórn Framsóknarflokksins minnir á nauðsyn þess að íslenskur landbúnaður búi við þau starfsskilyrði að hann geti framleitt og tryggt þjóðinni helstu nauðsynjar á sviði matvæla.

• Mikilvægt er að ekki verði hróflað við stjórnkerfi fiskveiða við núverandi aðstæður. Miðstjórn telur samt nauðsynlegt að
undirbúa aðlögun kerfisins að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki landsins þurfa að búa við öryggt rekstrarumhverfi að svo miklu leyti sem hægt er. Veiðar, vinnsla og útflutningur sjávarafurða gegna lykilhlutverki í að leiða þjóðina upp úr þeim djúpa öldudal sem hún er nú í.

• Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins telur að tilraunir með að halda úti minnsta sjálfstæða gjaldmiðli heimsins hafi  beðið skipbrot. Misráðnar ákvarðanir seðlabankastjóra vega ekki hvað síst þungt í þeim efnum og blasir því við að víkja þarf bankastjórn Seðlabanka Íslands og yfirstjórn Fjármálaeftirlits frá störfum og endurskoða stjórnkerfi þessara stofnana og þá peningamálastefnu sem þjóðin þarf að búa við næstu misserin. Tiltrú alþjóðasamfélagsins á íslensku krónunni er enginn sem lýsir sér m.a. í gríðarlegu gengisfalli með tilheyrandi verðbólguvexti, skuldasöfnun heimila og fyrirtækja, fyrirsjáanlegri gjaldþrotahrinu, atvinnuleysi og landflótta. Þessu þarf að bregðast við af fullri alvöru með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

• Skoða þarf allar mögulegar leiðir til að afnema hina umfangsmiklu vísitölubindingu sem nú ríkir í fjármálakerfinu. Ekkert þróað hagkerfi býr við jafn umfangsmikla vísitölubindingu og hið íslenska. Ljóst að áframhaldandi notkun hennar mun verulega takmarka notkun þeirra hagstjórnartækja sem við höfum til að ná hagkerfinu upp úr efnahagslægðinni. Samtímis er hins vegar nauðsynlegt að benda á mikilvægi þess að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda í þjóðfélaginu, þar sem innlendur sparnaður verður undirstaða fjárfestinga í atvinnulífinu á næstu árum.

• Huga þarf vel að börnum og fjölskyldum landsins. Ríki og sveitarfélög eiga að leita leiða til þess að fjölskyldan og
einstaklingarnir geti borið höfuðið hátt og haldið reisn sinni í þeim erfiðleikum sem að steðja. Í ljósi þess er mikilvægt að efla alhliða forvarnir. Skoða ber ítarlega þá kosti sem í boði eru til að létta undir með fjölskyldum landsins, eins og að bjóða skuldbreytingu á vísitöluhækkun lána næstu 12 mánuði. Miðstjórn Framsóknarflokksins leggur áherslu á að sveitarfélögunum verði gert mögulegt að sinna mikilvægum nærþjónustuverkefnum sem sífellt verður meiri þörf fyrir. Þau þarf hugsanlega að útvíkka, t.d. með fríum skólamáltíðum eða lækkun kostnaðar við dagvistun. Því má ekki fella á brott 1,4 milljarða viðbótarframlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

• Ráðast þarf strax í endurskipulagningu bankakerfisins með það að markmiði að koma eignarhaldi þeirra sem fyrst úr ríkiseigu. Mikilvægt er að við sölu bankanna verði sérstaklega gætt að því að slíkt ferli verði gegnsætt og tryggi hagsmuni almennings í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins bendir á kosti þess að hluti bankakerfisins sé í erlendri eigu.

• Miðstjórn Framsóknarflokksins krefst þess að settar verði skýrar og gegnsæjar reglur um hvernig farið verður með afskriftir skulda og skuldbreytingar viðskiptavina nýju ríkisbankanna og varar sterklega við þeirri hættu sem hefur skapast á að eignum ríkisbankanna kunni að verða ráðstafað á grundvelli pólitískra tengsla en ekki á viðskiptalegum forsendum.

• Efla þarf starfsemi Íbúðarlánasjóðs, t.d. með því að rýmka reglur um endurbótalán til einstaklinga og sveitarfélaga til viðhalds á eigin húsnæði. Hins vegar ber að varast að leggja á Íbúðalánasjóð of þungar byrðar með yfirfærslu lána úr bankakerfinu, sem fóru langt fram yfir veðheimildir og hámarkslán eins og þau voru á hverjum tíma.

• Leggja þarf í sérstakt átak til að bæta ímynd Íslands erlendis með markvissu kynningarstarfi. Ljóst er að ímynd Íslands
hefur beðið mikinn hnekki á undanförnum vikum og allskyns ranghugmyndir eru í gangi um hver sé ábyrgð ríkissjóðs Íslands á skuldbindingum sem íslensku bankarnir stofnuðu til erlendis, þá í einkarekstri. Ef ekki verður gripið til markvissra aðgerða nú þegar er hætta á að viðskiptahagsmunir annarra íslenskra fyrirtækja og alls óskyldra kunni að skaðast verulega.

• Vegna mikilla umbrota í íslensku efnahagslífi er mikilvægara en áður að efla símenntun, verkmenntun og  fullorðinsfræðslu. Miðstjórn Framsóknarflokksins hvetur til þess að þetta sé unnið í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins.

Miðstjórn Framsóknarflokksins varar við þeirri leið sem ríkisstjórnin leggur fram til stuðnings fjölskyldum og heimilum í
landinu. Fólk leggur mikið á sig til að standa við skuldbindingar sínar á erfiðum tímum. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar hvetja til vanskila í stað þess að gera fólki auðveldara að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Í raun er ríkisstjórnin að hvetja til viðskiptalegs siðrofs og vanskila sem leiðar út úr vandanum. Leið ríkisstjórnarinnar, að gera stóran hluta þjóðarinnar að vanskilamönnum, er alger uppgjöf gagnvart verkefninu.

Miðstjórn Framsóknarflokksins telur að aðstæður í samfélaginu kalli á endurmat í íslensku samfélagi. Framsóknarflokkurinn þarf að eiga frumkvæði í því endurmati. Þar þarf að halda fram hugsjónum flokksins í bráð og lengd af bjartsýni og festu. Í þeirri vinnu þarf að leggja rækt við samvinnu og félagsleg og mannleg gildi. Að þeirri vinnu þurfa sem flestir flokksmenn að koma, auk utanaðkomandi aðila. Framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins er falið að setja þá vinnu af stað.


Niðurstaða um ESB feril Framsóknar

Líkt og á síðasta miðstjórnarfundi Framsóknar, sýndi flokkurinn í dag styrk sinn og málefnalega yfirburði.

Guðni Ágústsson, formaður flokksins, sem hefur verið mikill efasemdamaður um ESB, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, skynjaði flokk sinn og stöðuna i þjóðfélaginu rétt og niðurstaðan var með þeim hætti að allir fundarmenn samþykktu niðurstöðuna, sem komist var að með góðri samvinnu. Eitthvað sem ég er viss um að sé einsdæmi meðal flokka.

Það er engin tilviljun að niðurstaðan hafi verið einróma. Það byggist ekki á einhverri blindri leiðtogahollustu, það byggist á því að síðustu 7 ár hefur Framsókn undirbúið þessa spurningu af yfirvegun, skref fyrir skref, og nú er kominn tími til að stíga næsta skref í þessu ferli.

Spurningunni verður heldur ekki svarað í neinu óðagoti, enda liggur öll forvinna fyrir, heldur á sterku flokksþingi, öfugt á við íhaldið sem þarf að vinna alla undirbúningsvinnu í óðagoti mikillar tímapressu, á tímum þar sem kraftarnir ættu að fara í að fá hjól efnahagslífsins til að snúast á nýjan leik.

Nauðsynlegt var að flýta þinginu, þar sem maður hefur heyrt vísbendingar úr mörgum áttum úr hinum hripleku ríkisstjórnarflokkum að það verði farið í kosningar í vor.

Í vor, fyrir hrun bankakerfisins, mat Framsókn stöðuna þannig að hægt væri að leyfa sér að spyrja þjóðina hvort fara ætti í samningaviðræður og niðurstaða þeirra væri svo borin undir þjóðina á ný, eftir nauðsynlegar aðlaganir. Þær aðstæður eiga ekki við í dag.

Nú er ljóst að svara verður spurningunni fljótt og í raun er Framsókn eini flokkurinn sem er undirbúinn undir það að svara þeirri spurningu.

Samfylkingin er algerlega óundirbúin undir að taka þátt í umræðunni, eins undarlegt og það kann að hljóma. Þar á bæ hefur ekkert starf í Evrópumálum átt sér stað síðan flokkurinn skaut ágreiningnum í póstkostningu meðal flokksmanna.


mbl.is Framsókn flýtir flokksþingi og tekur fyrir tillögu um aðildarviðræður við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt dagsins

"Sjálfstæðismenn eru fljótir að bregðast við"
mbl.is Þrír leiða Evrópustarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband