Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvers virði er stuðningur Jóhönnu Sigurðardóttur?

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra segir að hún hafi fullan skilning á launakröfurm ljósmæðra að þvi að fram kom hjá RÚV í kvöld.

Ef hún vill ekki vera talin jafn mikill blaðrari og sumir aðrir ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins sem hafa flúið eins mýs undanfarið, hlýtur hún að beita sér í málinu, enda ber hún ábyrgð á málinu ásamt öllum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.

Eins og Siv Friðleifsdóttir benti á, að þegar BSRB hefði í vor gert samninga við ríkið þá hefði ekki verið hægt að leiðrétta kjör kvenna. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefði sagt að það myndi reyna á stjórnarsáttmálann varðandi þetta mál.

Nú reynir sem sagt á stjórnarsáttmálann og treysti ég helst Jóhönnu til að láta til sín taka.

Annars var ég að heyra frá ljósmæðrum að fjármálaráðuneytið væri að undirbúa kæru á hendur þeim fyrir ólöglegt verkfall.

Það væri þá dálaglegt ef rétt reynist.


mbl.is Samningar tókust ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök við mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar?

Ef rétt reynist að bruni mosans í kringum Hellisheiðarvirkjun sé af völdum virkjunarinnar, kemur það Orkuveitu Reykjavíkur og ráðgjöfum hennar á óvart og hlýtur maður að álykta að matið á umhverfisáhrifum hafi þar með ekki verið nægjanlega vandað. Á sama hátt hlýtur maður að horfa til hlutar Skipulagsstofnunnar í ferlinu, sem samþykkti jú matið.

Í umhverfismatinu er því lýst að brennisteinsvetnið oxist og falli út nálægt virkjuninni og því séu litlar líkur á að lykt berist í bæinn. Gott og vel, en í framhaldinu hlýtur að vera eðlilegt að menn hefðu skoðað afdrif brennisteinsins, minnugir súru skógana í Evrópu, sem hafa drifið áfram svo stífar kröfur til útblásturs að nú sitja olíuhreinsistöðvar uppi með heilu fjöllin af brennisteini sem búið er að fjarlægja úr olíunni og helmingur kostnaðar við kolaorkuver eru hreinsivirki til að fjarlægja m.a. brennisteininn.

Tækni til að fjarlægja brennistein úr útblæstri er nefnilega þekkt um allan heim, hún kostar reyndar pening, svo það er erfitt að ímynda sér að draumur iðnaðarráðherra að lausn á þessu vandamáli muni skapa okkur einhver sóknartækifæri í útflutningi. En gott og vel, fínt ef rétt reynist. 

Reyndar verður að hafa í huga að þessi áhrif hafa ekki verið staðfest við Nesjavallavirkjun að því að fram kemur á vef Orkuveitu Reykjavíkur og eru viðbrögð fyrirtækisins til sóma, en það vill láta rannsaka málið til botns, eins og umhverfismatið gerir reyndar ráð fyrir að gera þurfi hvort eð er. Ef samhengið verður staðfest hlýtur svo að verða byggt hreinsivirki í framhaldinu, jafnvel þótt það byggi ekki endilega á íslenskum uppfinningum.

Ekki er hægt að segja að þetta hafi átt að koma algerlega á óvart, því Umhverfisstofnun benti á gróðurskemmdir við borteiga við vettvangsskoðun:

"Vakin er athygli að í vettvangsferð stofnunarinnar hafi komið í ljós mikil áhrif útstreymi heits vatns grunnt undir yfirborði við rannsóknarholu og útfellingar úr gufu á gróður, einkum mosa og fléttur utan borsvæðis. Talsverðra áhrifa hafi gætt á svæði sem numið hafi nokkrum hekturum að flatarmáli." 

Skipulagsstofnun ákvað hins vegar að láta ekki rannsaka skemmdirnar frekar eða gera kröfu um hreinsivirki, heldur leggja eftirlitsskyldu á framkvæmdaaðila:

"Skipulagsstofnun telur að gera megi ráð fyrir nokkrum áhrifum utan skilgreindra borteiga af útstreymi heits vatns frá borholum grunnt undir yfirborði, auk þess sem gufuútstreymi frá borholum yfir gróðurlendi getur hugsanlega spillt gróðri í nálægð holanna. Skipulagsstofnun telur að með þeim mótvægisaðgerðum og eftirliti sem fram koma í framlögðum gögnum Orkuveitu Reykjavíkur og fjallað er um í kafla 4.3.2 í þessum úrskurði megi draga úr hugsanlegum áhrifum vatns og gufu á gróður í nágrenni borhola. Þannig þarf að setja dropasíur á blástursbúnað borhola, útbúa svelgholur í jaðri borteiga, skrá plöntutegundir og fylgjast sérstaklega með gróðri þar sem jarðhiti er á yfirborði"

Í því sambandi hljóta að vakna spurningar um ábyrgð framkvæmdaaðila gagnvart umhverfinu, sem er jú ekki aðili með kennitölu og Skipulagsstofnun á að gæta en spurningar um ábyrgð ráðgjafa gagnvart framkvæmdaaðila hljóta einnig að vakna.

Í stóra samhenginu verður maður að segja að enn og aftur koma áhrif ofsafenginnar umræðu um Kárahnjúkavirkjun í ljós í þessari virkjun, því enginn umhverfisverndarsinnana kom heldur fram með athugasemd um þetta atriði eða hinna forljótu lagna og hljóta þau samtök einnig að verða að horfa í eigin barm í framhaldinu.


mbl.is Gróður drepst vegna mengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymt átakamál í Evrópuumræðunni

Ég tel mig ekki hafa forsendur til að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu og eru örugglega margir í sömu stöðu og ég. Margir í kringum mig hafa hins vegar tekið afstöðu og minna mann stundum á áhangendur fótboltaliða í því sambandi, með og á móti. Það færir umræðuna hins vegar lítið áfram, og meðan afstaða VG, Sjálfstæðismanna og Samfylkingarinnar er jafn svart-hvít og hún er, mun málið lítið þroskast og færast hægar nær skynsamlegri niðurstöðu en ef umræðan væri fordómalaus og opin.

Las ágæta evrópuskýrslu sem unnin var á vegum Framsóknar árið 2007, sem kristallar það sem málið snýst um að mestu leyti. Þar segir:

"Miðað við óbreyttar aðstæður getur samningurinn um Evrópska Efnahagssvæðið verið grundvöllur Evrópusamskipta Íslendinga á næstu árum. Sviptingar í þróun og á vettvangi Evrópusambandsins geta hinsvegar breytt þeirri forsendu á skömmum tíma og kallað á hröð viðbrögð og stefnumótun. Verði breytingar á aðstæðum kann að verða nauðsynlegt að undirbúa tillögu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Ef til þess kemur á næstu árum að taka þurfi ákvarðanir með skömmum fyrirvara í Evrópumálum er mikilvægt að Íslendingar noti tímann vel og vinni að langvarandi stöðugleika og varanlegu jafnvægi í efnahags-, verðlags- og gjaldeyrismálum. Þetta eiga Íslendingar að gera upp á eigin spýtur og að eigin frumkvæði sem frjáls þjóð. Árangur í þessu kann að taka nokkur ár. Hann er jafnframt forsenda þessað Íslendingar uppfylli Maastricht-skilmálana sem verða, að sínu leyti, skilyrði þess að Íslendingar gætu gengið til Evrópusamstarfsins um sameiginlegan gjaldmiðil ef þeir svo kjósa í framtíðinni. Fátt bendir þó til að það verði gert öðruvísi en með fullri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu.

Ef sótt yrði um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu yrði umsóknin að miðast við sérstöðu Íslands, landsréttindi og þjóðarhagsmuni Íslendinga, nauðsynlega aðlögun og öryggisþætti. Í þessu samhengi er vert að benda á að í aðalsáttmála Evrópusambandsins eru ákvæði sem tryggja fjarlægum eyjasamfélögum víðtæka sérstöðu og eigin yfirráð, m.a. á sviði fiskveiða og landbúnaðar (299. gr.). Í frumvarpi að aðildarsamningi Norðmanna, sem fellt var í þjóðaratkvæðagreiðslu, er varanlegt ákvæði um eignarhald á fiskiskipum. Í aðildarsamningi Finna eru ákvæði um víðtæk frávik frá landbúnaðarstefnu ESB í formi svæðisbundinna styrkja. Aðildarsamningur Maltverja gerir ráð fyrir nokkrum sérréttindum heimamanna í fiskveiðum og á sviði þjónusturekstrar. Ennfremur eru þar ákvæði um eignarhald á landi og fasteignum. Hliðstæð sérréttindi er varðar eignarhald á fasteignum má einnig finna í aðildarsamningi Dana."

Jón Sigurðsson, fv formaður Framsóknar hefur einmitt verið að rifja upp nokkur þessara atriða og dýpkað þau frekar í greinum sem birst hafa í Morgunblaðinu að undanförnu og ber þökk fyrir.

Fyrir mér fer spurningunum fækkandi, en um leið verða þær flóknari og erfiðari og ljóst að þeim verður ekki svarað nema í aðildarviðræðum:

  • Hversu mikils virði er nýr gjaldmiðill okkur í formi lægri vaxta og stöðugleika í gengi?
  • Hversu miklar hömlur setur það efnahagsstjórninni og uppbyggingu þjóðfélagsins að missa vaxtaákvörðunartækið úr okkar höndum, hvaða þörf verður á fleiri tækjum þegar myntin er orðin stöðugri, hvaða önnur tæki eru til staðar og hver þeirra viljum við nota, verður atvinnustig kannski eina efnahagsstjórnartækið?
  • Hversu mikil yfirráð munum við hafa yfir auðlindum okkar?
  • Hvað myndi breytast ef eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum mætti verða erlent?
  • Hvað kostar aðildin?
  • Á hvaða lokagengi yrði íslenska krónan metin inn í myntsamstarf?

Þessi síðasta spurning er líklegast sú sem minnst hefur verið rædd, en um leið kannski sú erfiðasta. Ef tekið yrði upp fast myntsamstarf, annaðhvort með upptöku evru, annarar myntar eða fasttengingar við aðra mynt yrðu Íslendingar að semja við viðkomandi seðlabanka um það gengi sem miðað yrði við.

Um væri að ræða heildarmat á virði íslensks efnahags.

Einnig þarf að meta áhrif gengisins á útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum, sem blómstra núna eftir gengisfallið, meðan að kaupmáttur almennings er mun rýrari en áður. Þarna takast á stórir og miklir hagsmunir og þar erum við íslendingar ekki einir um ákvörðunina. Við þyrftum nefnilega að semja um það við seðlabanka viðkomandi ríkis sem þyrfti að samþykkja að kaupa íslenskar krónur á tilteknu gengi.

Einhliða upptaka er tæknilega möguleg, en ef hún er tekin í beinni andstöðu við seðlabanka þeirrar myntar sem tekin yrði upp, er hætt við að upptökutímabilið yrði ansi róstursamt, því sá seðlabanki gæti ákveðið að kaupa íslenskar krónur á því gengi sem honum sýndist í samræmi við eigin hagsmuni, án tillits til okkar hagsmuna. Þannig er það varla mögulegt að taka upp aðra mynt öðruvísi en með samkomulagi við hann.

Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni og fylgjast með henni dýpka og vonandi munu íslenskir stjórnmálaflokkar axla þá ábyrgð að hefja umræðuna upp úr skotgröfunum á málefnalegt plan.


Landsskipulag: Góð hugmynd misskilin í framkvæmd

Grunnhugmyndin með landsskipulagi kom frá okkur Framsóknarmönnum og var samþykkt sem ályktun á flokksþingi, en hún fól í sér allt annað en það sem nú er verið að fjalla um.

Sú hugmynd fól í sér að ríkið ætti að samhæfa sínar áætlanir og koma þeim á framfæri við sveitarfélögin á einum stað til að einfalda skipulagsvinnu sveitarfélaganna.

Ríkið væri þar með skyldað til innbyrðis samhæfingar en vera ekki að skipuleggja þvers og kruss út frá sitt hvorum forsendunum eins og mörg dæmi eru um.

Það er allt önnur nálgun en að ríkið deili og drottni eins og felst í því frumvarpi sem nú er komið fram og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vill koma í gegn með lófaklappi Græna netsins.

Eftir sem áður þurfa sveitarfélögin auðvitað að taka afstöðu til þeirra óska sem koma fram um landnotkun í sinni skipulagsvinnu, þ.á.m. óska ríkisins um landnotkun til vegagerðar, flugvalla, fjarskiptamannvirkja, línulagna o.s.frv en endanlega ákvarðanatökuvaldið á að vera hjá sveitarfélögunum en skipulagsvinnan ætti að vera einfaldara hvað varðar óskir ríkisins með tilkomu þess landsskipulags sem Framsókn vildi koma í lög.


mbl.is Græna netið vill landsskipulag á næsta þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðlæti Gísla Marteins og Þorleifs við fjaðraskreytingar

Síðan ég fór að taka þátt í borgarmálunum, fyrst í meirihluta í umhverfisráði, svo í miðborgarstjórn í 2. meirihluta, sem reyndar aldrei fundaði, í 3ja meirihlutanum sem áheyrnarfulltrúi í menningar- og ferðamálaráði og núna sem varaformaður í umhverfis- og samgönguráði hefur það verið brýnt fyrir mér að það sé óskráð og skráð regla að það sem gerist í undirnefndum borgarstjórnar og starfshópum hans sé trúnaðarmál.

Endanlegar ákvarðanirnar eru teknar í borgarráði og svo borgarstjórn, sem hafa fulla heimild til að breyta ákvörðunum ráða og starfshópa, svo það er varasamt að vera að tjá sig um mál fyrr en búið er að fjalla um málin í borgarstjórn.

Maður hefur oft tekið þátt í góðu starfi og komið með hugmyndir og ábendingar, sem manni hefði þótt gaman að skrifa um, en það má ekki og það verður maður að virða, nema í mesta lagi um það sem fram kemur í sjálfum fundargerðum ráðanna og þá sérstaklega bókunum þess, en fundargerðir starfshópanna eru aftur á móti ekki opinberar og á ekki að fjalla um.

Þess vegna fannst mér skrítið að sjá Gísla Martein skrifa um frábært mál sem verið er að vinna að í starfshópi um kaffihús í Hljómskálagarðinum. Við erum að vinna í því í mikilli einingu fulltrúar minnihluta og meirihluta eins og hann lýsir ágætlega, en engin niðurstaða er komin, þótt málið sé komið í góðan farveg og muni efalaust fá góða niðurstöðu.

Svona gerir maður ekki...

Á sama hátt gerir maður ekki eins og Þorleifur Gunnlaugsson VG sem fór að tala um úrlausnir í málefnum útilegumanna sem sínar, meðan að það rétta var að velferðarráð er að vinna að þeirri lausn sem hann lýsir í góðri sátt og verða endanlegar lausnir kynntar þegar þær hafa farið rétta leið í kerfinu.


Er búið að semja um vopnahlé í ríkisstjórninni?

Þögn Samfylkingarinnar í leiðréttingarbaráttu ljósmæðra hefur komið mér afar spánskt fyrir sjónir í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga ráðherra hennar og beinlínis árása á samstarfsflokkinn og ráðherra hennar undanfarið þegar erfið og umdeild mál hafa komið upp. Formaður flokksins segir að engin kreppa sé, svo rök fjármálaráðherra um að nú séu ekki aðstæður í þjóðfélaginu til að leiðrétta kjör ljósmæðra halda varla í hennar eyrum og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þrýsta á um að semja, enda er leiðréttingin í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Ég get bara séð eina líklega skýringu á því.

Eftir fylgistap Sjálfstæðisflokksins í síðustu Gallupkönnun og fylgisaukningu Samfylkingarinnar hefur Geir H Haarde farið til Ingibjargar Sólrúnar og sagt hingað og ekki lengra. Ef samstarfið eigi að halda áfram þurfa ráðherrar Samfylkingarinnar að hætta ráðast á Sjálfstæðisflokkinn í hvert skipti sem tækifæri gefst.

Nú þurfi vopnahlé, annars missi forysta Sjálfstæðisflokksins stuðning við áframhaldandi samstarf meðal flokksmanna.

Þau skilaboð hefur formaðurinn borið áfram til ráðherra sinna og þeir hlýða, minnugir þess að ISG hefur að því að ég hef heyrt opna heimild til að víkja ráðherrum, kjósi hún svo að gera. Undarlegt lýðræði það ef rétt er.

Reyndar hefur kvennahreyfing Samfylkingarinnar ekki fengið boðin, sem og ritstjóri vefsíðu þeirra, sem birti mótmæli kvennahreyfingarinnar.

Þau vonast líklegast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki ekki eftir mótmælunum, bara þeir kjósendur sem kusu flokkinn út á jafnréttisáherslur.


Ljósmæðradeilan: Til hvers er Samfylkingin í ríkisstjórn?

Meðan gusurnar hafa gengið yfir Árna M Mathiesen fjármálaráðherra vegna afstöðu hans til leiðréttingarkröfu ljósmæðra gerir Samfylkingin... ekkert.

Formaður flokksins hefur ekkert tjáð sig hvað ég hef tekið eftir og í ljósi þess hve foringjaræðið er orðið mikið í íslenskum stjórnmálum þýðir það bara eitt. Hún ætlar ekki að beita sér.

Send er út fréttatilkynning í gegnum kvennahreyfingu Samfylkingarinnar um að hún sé á móti. Líklegast í von um að gusurnar lendi ekki á þeim.

Það er kattarþvottur af aumustu gerð.

Samfylkingin er í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og ber þar með sameiginlega ábyrgð samkvæmt lögum, enda hlýtur málið að hafa verið rætt í ríkisstjórn. Málið er aukinheldur meitlað fast í stjórnarsáttmálanum, svo hæg eru heimatökin ef viljinn er fyrir hendi.

Þarf að minna á jafnréttisstefnuna sem Samfylkingin var kosin út á í síðustu kosningum eða ætlar Samfylkingin að ástunda sömu vörusvik þar og hún hefur þegar gert með Fagra Ísland?

Er nema von að maður spyrji til hvers er Samfylkingin sé í ríkisstjórn?


mbl.is Mikið álag á starfsfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt nef Össurar er verðmætt

Ég var líklegast ekki einn um að finnast flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hálf umkomulausir á sviðinu þegar handboltalandsliðið var hyllt á Arnarhóli. Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra og þá starfandi forsætisráðherra, átti að sjálfsögðu að vera þarna með forsetanum, en þar með lýkur upptalningunni.

Þegar Össuri Skarphéðinssyni varð ljóst í hvað stefndi í móttökunni á Kjarvalsstöðum sýndi hann að hann hefur ekki misst lyktarskyn fresskattarins þótt hann hafi slegist við alla hina kettina í hverfinu.

Hann hafði nefnilega vit á því að kveðja, láta sig hverfa og komast þannig hjá því að líta út fyrir að vera að reyna að baða sig að ósekju í dýrðarljóma handboltalandsliðsins á sviðinu á Arnarhóli.

Lyktarskyn er verðmætur eiginleiki hjá stjórnmálamanni.


Bara ef það hentar mér - öskrandi þögn VG um olíuleit

Ég fagna því að við skulum ætla að rannsaka það hvort olíu sé að finna á íslenska landgrunninu. Veitti umsögn um frumvörpin um leitina á sínum tíma og veit að unnin hefur verið góð vinna við þennan undirbúning, bæði í tíð núverandi og fyrrverandi iðnaðarráðherra.

En það sem stingur í augun er öskrandi þögn VG um málið. Ekkert er að finna um málið í ályktunum síðasta flokksráðs og ekkert í stefnuskrá flokksins. Þar er bara talað gegn stóriðju.

Steingrímur J Sigfússon talar á móti álverum og olíuhreinsistöð á Vestfjörðum og staglast endalaust á því að Ísland hafi ekki losunarkvóta fyrir alla þessa uppbyggingu. Það er rétt og óumdeilt og ekki rök í málinu. Þeir aðilar sem ekki fá kvóta úthlutað frá ríkinu kaupa hann einfaldlega á markaði.

Steingrímur J talar aftur á móti ekkert gegn olíuleitinni, heldur er hann meðflutningsmaður á þingsályktunartillögu á yfirstandandi þingi um byggingu þjónustumiðstöðvar fyrir olíuleitina í heimabyggð sinni.

Er þetta hámark NIMBY-ismans?

Það má engin sóða - nema það henti honum?


mbl.is Fagnar áhuga olíurisanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilviljun hvaða búðir merkja vel?

Það er undarleg tilviljun að allar þær búðir sem koma verst út í þessari verðmerkingakönnun skuli vera Baugsbúðir, en þeir eiga enga af þeim sem eru með sitt í lagi.

Ef þetta hengi bara á verslunarstjórunum hlytu búðir frá hinum ýmsu eigendum að detta inn í báða flokkana, en það er greinilegt að svo er ekki.


mbl.is Verðmerkingum ábótavant í matvörubúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband