Hvenær fáum við að sjá afstöðu Íslands í loftslagsmálum?

Var á fundi SA um loftslagsmál í morgun. Var hann virkilega áhugaverður og ber SA þökk fyrir framtakið.

Kom margt merkilegt fram þar.

Helst fannst mér merkilegur sá vinnugangur sem er viðhafður við gerð sáttmála eins og loftslagssáttmálanna. Hefur hann verið afar dramatískur og hefur hlutur forseta þinganna verið ótrúlega mikill og virðist skipta afar miklu hvernig þeir höndla sitt starf. Eins var áhugavert og í rauninni ógnvekjandi hafandi Þyrnirósarsvefn ríkisstjórnarinnar í huga að heyra það hversu óhemju mikla vinnu þurfti að leggja í að fá sérstöðu Íslands viðurkennda í Kyoto. Var um áralanga vinnu að ræða.

Fyrir liggur að fyrir 22. febrúar þarf Ísland að senda inn sína sýn í loftslagsmálum til samninganefnda alþjóðasamfélagsins. Ef ríkisstjórnin ber einhverja virðingu fyrir þingræðinu ætti að fjalla um stefnu Ísland og sýn í sölum Alþingis. Alþingi hefur hið stefnumarkandi vald en ríkisstjórnin á að framfylgja því.

Hitt sem vert er að hafa í huga og hlýtur að vera okkur umhugsunarefni, er, að þrátt fyrir íslenska ákvæðið, þá eru miklar kvaðir lagðar á okkur hin og verðum við svo sannarlega að girða okkur í brók í okkar hegðun. Á það sérstaklega við um samgöngumálin. Við erum náttúrulega komin í höfn með rafmagnsframleiðsluna og húsahitunina, sem eru stór þáttur í aðgerðum annarra ríkja, en við fáum kannski ekki viðurkennt, því við vorum komin svo langt þegar viðmiðunin var tekin, öfugt á við t.d. Norðmenn.

En ef ráðherranefndin fer ekki að koma með tillögu að stefnumörkun inn á Alþingi innan örfárra daga, er hún að bregðast skyldu sinni og vinna landi og þjóð stórtjón.


Lærdómur REI málsins

Lærdómur þessarar skýrslu er í mínum huga einfaldur.

Menn verða að fara eftir samþykktum sveitarfélaga og starfa í anda þeirra og eðlilegra lýðræðislegra stjórnarhátta.

Maður les út úr skýrslunni að sami andi hafi svifið yfir vötnum þarna og í huga fjármálaráðherra varðandi héraðsdómarastöðuveitinguna. Valdið er okkar og ef hægt er að túlka lögin og reglurnar okkur í hag, þá gerum við það. Einnig verða stjórnmálamennirnir að passa sig á því á því að taka ekki orð embættismanna sem lög, heldur beita sinni eigin dómgreind á málin. En þar koma atriði eins og traust inn í og þar er vandrataður meðalvegurinn.

 


mbl.is REI verði í 100% eigu OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða áhrif mun REI skýrslan hafa á orkuútrásina?

Ég er smeykur um að þessi vinnubrögð öll í tengslum við REI verði til þess að við, eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, verðum af miklum fjármunum. Ekki beinu tjóni, heldur erum við líkast til að verða af miklum tækifærum.

Þá er ég ekki eingöngu að tala um þær fjárfestingar og tækifæri sem liggur fyrir að taka þarf ákvarðanir um á næstu dögum og hljóta að vera í töluverðu uppnámi, heldur ekki síður þau verðmæti sem felast í REI sem verkfæri til að leiða saman einkaframtakið og opinberan rekstur.

Hugmyndin með REI var góð og er góð. Þeir sem aftur á móti stjórnuðu batterýinu virðast aftur á móti engan vegin hafa höndlað málið. Svo mikið er víst. Virðist það eiga bæði við um fulltrúa Framsóknar en þó ekki síður Sjálfstæðisflokksins, sem var jú með stjórnarformennskuna í OR og REI og ber því mun meiri ábyrgð. Menn verða að fara rétt að og vinna þannig að allt standist skoðun.

Menn skripluðu á skötu með þessa kaupréttarsamninga. Það hefur verið viðurkennt og þeir dregnir til baka, en það að mönnum skuli hafa dottið það í hug yfirhöfuð lýsir kannski þeirri stemmingu sem var við borðin. Mikið fjör og mikið gaman með dollarablik í augum. Að FL-group hafi svo verið hleypt að málum með beinum hætti, líklegast með svipu Landsbankans á bakinu, er einnig mikill dómgreindarbrestur. Auðvitað vilja FL-menn komast að, það er skiljanlegt og ekkert við þá að sakast með það, en það á ekki að leyfa þeim það.

Til að lágmarka tjónið sýnist manni ekkert annað að gera en að fella REI aftur undir rekstur OR og reyna að vinna úr stöðunni þaðan.

Í framhaldinu fæ ég ekki séð af hverju Geysir Green Energy og svipaðir aðilar fari í framhaldinu ekki í hreint strandhögg í fyrirtækið og sæki sér starfsmenn og þekkingu með launayfirboðum og fari því næst í enn öflugri útrás einir síns liðs, án þess að OR, sem byggt hefur upp þessa þekkingu og þar með við, fái nokkuð fyrir sinn snúð.

Engin veit hvað haft hefur fyrr en misst hefur og er það berlega að koma í ljós núna með Alfreð Þorsteinsson sem byggði OR upp í stjórnarformannstíð sinni.

Málið er kannski enn ein birtingarmynd þeirrar viðleitni hægrimanna að básúna að opinber rekstur sé ómögulegur og þegar þeir svo komast í að stjórna honum, sanna þeir það rækilega.

ps.

Óháð því hvaða breytingum REI skýrslan hefur tekið í gær og í dag, eru það ólíðandi vinnubrögð að vinnuskjöl leki eins og vatn til fjölmiðla. Þeir sem slíkt gera geta vart kallast heiðarlegir embættis- eða stjórnmálamenn og er kannski enn ein birtingarmynd þess farsa sem við erum að upplifa í málinu.


mbl.is REI skýrslan áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í ræðustól með hausinn í sandinum

Guðni Ágústsson formaður Framsóknar bregst með eðlilegum og sjálfsögðum hætti við áliti mannréttindanefndar SÞ, meðan íhaldið stingur höfðinu í sandinn og kveður sífellt kunnuglegra stef úr ræðustóli Alþingis: Það ræður enginn yfir okkur. Við gerum eins og okkur sýnist. Við höfum valdið.

Mannréttindanefnd SÞ hefur ekki yfirþjóðlegt vald. Það er rétt. Við getum verið ánægð eða óánægð með niðurstöðu nefndarinnar, en við verðum að taka tillit til hennar. Það er, ef við viljum láta taka okkur alvarlega á alþjóðavettvangi.

Ingibjörg Sólrún er á sömu línu og Framsókn, sem og forystumenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna. Íhaldið er þannig einangrað í sinni afstöðu um að engu eigi að breyta í kvótakerfinu. Það kemur Össuri Skarphéðinssyni á óvart, en það er hans vandamál að þekkja ekki til og kynna sér ekki málin áður en hann gasprar á veftorgum. Hvaða breytingar eigi að gera er annað mál. Um það eru menn ekki sammála, enda engar tillögur komnar fram. Einhvernskonar fyrning með uppboði hlýtur að koma til álita í því sambandi.

Kvótakerfið hefur valdið byltingu í afkomu sjávarútvegsins og má með réttu fullyrða að það er ein mikilvægasta forsenda þeirra efnahagsframfara sem einkennt hafa undanfarin ár, þótt ég telji að heimildin til veðsetningar kvótans hafi verið mikil mistök hjá krötum og íhaldinu árið 1991. Í framhaldið af þeirri ákvörðun hækkaði verðið á kvótanum ótæpilega og fjöldi manns fór út úr greininni með fúlgur fjár. Ég er sannfærður um að það er það sem er enn að skapa ósætti um kerfið í dag. Hið frjálsa framsal eitt og sér eru smámunir í þvi sambandi, en það er samspil framsalsins og kvótaveðsetningarinnar sem skapar ósættið.

Hins vegar er greinilegt að ekki hefur verið lögð nægjanleg áhersla á hafrannsóknir. Fjallaði um það hér, hér og hér. Þar ber Framsókn sína ábyrgð, en ekki síður íhaldið, sem hefur haft ráðuneyti sjávarútvegsmála síðan 1991

Framsókn ályktaði á síðasta flokksþingi að sátt þyrfti að ríkja um sjávarútveginn og gera þyrfti heildarúttekt á kostum og göllum íslenska kvótakerfisins. Í þessari stefnumörkun felst að sjálfsögðu vilji til breytinga, þótt Framsókn skilji vel nauðsyn þess að útgerðarfyrirtækin hafi traustan rekstrargrundvöll og þoli engar kollsteypur. Rétt er að benda á að þessi stefnumörkun er gerð áður en niðurstaða mannréttindanefndarinnar var birt og áður en niðurskurðartillögur Hafrannsóknarstofnunar lágu fyrir.

Þannig að Guðni fylgir í sínum yfirlýsingum algerlega stefnu Framsóknar og er að bregðast við niðurstöðu mannréttindanefndarinnar af ábyrgð og skynsemi.


mbl.is Guðni: Verðum að taka á kvótamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur og Evrópusambandið

Í nýjasta næturpistli sínum reynir Össur að mála Framsókn sem stefnulausan flokk í Evrópumálum. Þetta er svo sem ágæt tilraun, en samt spaugilegt að það skuli vera Samfylkingarmaður sem farinn er að kalla aðra vindhana í pólitík. Maður hlýtur að spyrja sig hver sé með bjálkann og hver flísina í auganu?

Málið er að í þessum málum er ekki kominn tími ákvarðana. Til þess eru engar forsendur. Stefna Framsóknar er skýr. Koma þarf á jafnvægi í efnahagslífinu fyrst og þarf það jafnvægi að hafa staðið í nokkurn tíma áður en menn meta hvort sækja eigi um eður ei. Slíka ákvörðun á að taka í styrkleika með langtímahagsmuni í huga, en ekki sem flótta frá aðstæðum.

Menn geta haft sína trú á það hvar hagsmunir þjóðarinnar liggja þá og þegar aðstæður í efnahagslífinu eru með þeim hætti að spyrja eigi þeirrar spurningar, en það er svo margt sem getur gerst þangað til og eftir því sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sofa lengur sínum Þyrnirósarsvefni í efnahagsstjórninni, því lengra verður þangað til að við getum tekið sólarhæðina í þessu sambandi.

Þess vegna má eiginlega segja að Samfylkingin sé ásamt íhaldinu það stjórnmálaafl sem á undanförnum árum hefur fært okkur hvað hraðast frá aðild að ESB, jafnvel þótt ESB-trúarbrögð þau sem iðkuð eru í Samfylkingunni hafi farið hátt og muni fara hátt. Maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé ákvarðanatökufælni og minnimáttarkennd sem knýr þessi trúarbrögð svona sterkt áfram?

Það breytir samt ekki þeirri knýjandi spurningu um hvort peningamálastefnan sem framfylgt sé í dag sé sú rétta. Hvort fara eigi aftur í fastgengisstefnu og þá hvaða mynt ætti að tengjast og á hvaða gengi. Hvort halda eigi áfram fljótandi gengi, en hækka verðbólgumarkmiðið þannig að raunhæft sé að ná því, sem hefði óhjákvæmilega langþráða vaxtalækkun í för með sér.


Forsætisráðherra lýsir orð utanríkis og viðskiptaráðherra ómerk

Þá er það komið í ljós: Forsætisráðherra segir að ekki standi til að skipta um gjaldmiðil á næstunni og vísaði þónokkur ár fram í tímann. Þetta kom fram á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnum. Hann kom sér hins vegar hjá því að svara því hvort ríkisstjórnin gengi í takt í málinu, en vísaði til þess að Sjálfstæðismenn gengju í takt. Í þeim ummælum hans felst viðurkenning á að ríkisstjórnin sé ekki að ganga í takt.

Eðlilega, enda lýsir utanríkisráðherra krónunni sem viðskiptahindrun og viðskiptaráðherra má ekki sjá hljóðnema eða lyklaborð án þess að segjast vera að skoða upptöku evru. Það er augljóslega ekki í samræmi við þá stefnu sem efnahagsmálaráðherra segir vera stefnu ríkisstjórnarinnar, en samkvæmt stjórnskipun lýðveldisins hefur forsætisráðherra með gjaldmiðilinn að gera, sem og efnahagsstjórnina og á að leiða ríkisstjórnina í þeim efnum.

Forsætisráðherra er þar með að lýsa ummæli þeirra dauð og ómerk sem ummæli ráðherra í ríkisstjórn íslands, ummælin eru sem sagt einvörðungu fabúleringar þingmanna.

Það er því grafalvarlegt mál að þingmennirnir skuli halda þessum persónulegu skoðunum sínum fram undir starfsheitinu ráðherra.


mbl.is Stendur ekki til að skipta um gjaldmiðil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórskaðleg yfirlýsingagleði Samfylkingarinnar

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins kvartar nú opinberlega yfir yfirlýsingagleði utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra í Evrópumálum.

Það er ekki að furða, enda ganga þær þvert gegn því sem stendur í stjórnarsáttmálanum.

Við þessum yfirlýsingum þeirra getur forsætisráðherra brugðist með tvennum hætti

  • Að gefa út yfirlýsingu um að yfirlýsingar ráðherrana séu ómark, þessir ráðherrar ríkisstjórnar hans séu ekki að tala fyrir hönd þess embættis sem þau gegna, heldur séu þau að lýsa sínum persónulegu skoðunum, eða
  • að breyta stjórnarsáttmálanum miðað við yfirlýsingar ráðherrana.

Hvort sem við endum með því að sækja um aðild eða ekki, þegar tími þeirrar ákvörðunar kemur, eru þessar yfirlýsingar okkar hagsmunum alls ekki til framdráttar. Þær geta ekki annað en veikt áhuga ESB á EES samningnum, sem almennt er álitið að hafi þjónað hagsmunum okkar vel, fyrst ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýsa yfir vantrú á honum.

Sömuleiðis má ráðherra viðskiptamála ekki kjafta gjaldmiðilinn okkar niður í hvert skipti sem hann fær hljóðnema í nágrennið. Hvort sem honum finnst hann á vetur setjandi eður ei. Hann ætti frekar að snúa sér að því að sækja fram til að ná stjórn á efnahagsástandinu í stað þess að benda endalaust á flóttaleiðir.


Björn á réttri leið með varaliðið

Ég held að dómsmálaráðherra sé á réttri leið með varaliðshugmyndir sínar. Hann er ekki að gera annað, ef ég skil hann rétt, en að skýra nánari framkvæmd á þeim ákvæðum sem þegar eru í almannavarnarlögum og hafa verið þar síðan 1962 og voru örugglega í þeim lögum sem voru í gildi fyrir gildistöku þeirra laga.

Í 10 gr laganna segir að það sé "borgaraleg skylda þeirra, sem eru á aldrinum 18–65 ára, að gegna, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi, þar sem þeir dveljast, samkvæmt fyrirmælum, er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar. "

í 12 gr laganna segir ennfremur að "Þeir, sem starfa eiga í hjálparliðum, skulu taka þátt í námskeiðum og æfingum, sem þeir hafa verið kvaddir til."

Ef eitthvað kæmi upp á og ekki væri búið að undirbúa mannskap, t.d. í tilfelli inflúensufaraldar, sem kemur fyrr eða síðar, náttúruhamfara eða ef svo ólíklega kæmi til að út brytust óeirðir, sem flokkuðust undir almannavarnarástand, er ég smeykur um að það heyrðust hljóð úr horni.

Þeir sem eru að líkja þessu við hervæðingu eða ámóta eru í pólítískum hráskinnaleik af verstu sort og ættu að skammast sín. Þeim væri nær að hætta að snúa út úr og koma þá fram með betri hugmyndir til að undirbúa samfélagið fyrir almannavarnarástand en að vera með þennan útúrsnúning.

Ég fæ ekki séð annað en að Björn Bjarnason sé að vinna að málinu af ábyrgð.


mbl.is Björgunarsveitarmenn í varalið lögreglu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð dagsins...

...á Ingibjörg R Guðmundsdóttir þegar hún lýsir ósamstæðri og stefnulausri ríkisstjórn á sinn varfærna hátt:

"Í þessari ríkisstjórn eru ólíkir flokkar og það hlýtur að auka breidd í afstöðunni. Við vitum ekki hvort það er gott eða slæmt, við vitum það ekki fyrr en samningar eru búnir. Fyrirfram tel ég að það sé af hinu góða. "

Hún virðist hlakka til að geta spilað á hina ýmsu ráðherra hennar út og suður til að ná fram betri niðurstöðu fyrir sína umbjóðendur. Vonandi fer ASÍ samt með þetta vald sitt af ábyrgð gagnvart efnahagsmálum þjóðarinnar.


mbl.is Ólíkir flokkar ríkisstjórnar auka breidd í afstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuumræðan - stutta útgáfan

Ég er ekki alveg að átta mig á þessari Evrópuumræðu. Umræðan virðst snúast um það eitt hvort taka eigi upp Evruna sem lögeyri á Íslandi.

Til að geta tekið upp Evruna og til að það sé fýsilegur kostur, þarf efnahagsástandið og efnahagssveiflan að vera í takt við hagkerfið í Evrópu.

Fram hefur komið hjá Utanríkisráðherra, að tækjum við ákvörðun um að sækja um aðild, gætu aðildarviðræður tekið skamman tíma. Talað hefur verið um 6 mánuði í því sambandi.

Margt er að breytast í viðskiptalífi heimsins og það hratt. Ný ríki, eins og Kína og Indland eru að marka sér stað, orkumál heimsins í mikilli gerjun og fjármálamarkaðirnir líka.

Rökrétt ályktun af þessu er að fyrst þarf að ná tökum á efnahagslífinu. Það er alltaf til bóta óháð framhaldinu. Þegar þeim tökum er náð, sem virðist liggja eitthvað inni í framtíðinni mv þann sofandahátt sem ríkisstjórnin viðhefur, er rétt að skoða málið fordómalaust og velja það sem okkur Íslendingum er fyrir bestu, mtt viðskiptakjara, gjaldmiðils, yfirráðum yfir auðlindum o.s.frv. Þá getur vel verið að önnur heimssýn blasi við okkur. Eða ekki...

Evrópusinnar gefa sér að á þeim tímapunkti muni innganga í ESB vera eina rétta lausnin, Heimssýnarmenn gefa sér að á þeim tímapunkti muni staðsetning utan ESB vera eina rétta lausnin.

Það vitum við ekki og þangað til rífast þessir aðilar um keisarans skegg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband