Ríkisstjórnarflokkarnir tala út og suður í loftslagsmálum

Enn og aftur kemur í ljós að við búum við í það minnsta tvær ríkisstjórnir í landinu. Nú hvað varðar samningsmarkmið þjóðarinnar í loftslagsmálum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði í ræðu á síðasta Umhverfisþingi að við ættum ekki að biðja um undanþágur, meðan að Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á þingi í gær að það hljóti að vera stefnu ríkisstjórnarinnar að byggja á íslenska ákvæðinu.

Helgi Hjörvar ræðst með óhróðri að Framsókn fyrir að tala fyrir þeirri stefnu sem flokkurinn hefur haft í loftslagsmálum, að taka þátt í þessu sameiginlega verkefni jarðarbúa að draga úr breytingum á gróðurhúsaáhrifum með því að hýsa orkufreka starfsemi hér á landi og knýja hana með endurnýjanlegum orkugjöfum, í sem bestri sátt við verndunarsjónarmið.

Þetta er reyndar afar svipuð stefna og Illugi Gunnarsson og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst og Frjálslyndra reyndar einnig. Af hverju ræðst Helgi Hjörvar bara á Framsókn? Af hverju ræðst hann ekki á Einar Má og Össur, samflokksmenn sína. Er maðurinn andsetinn?

Ég er sammála Illuga um að meðan að þessi ríkjanálgun er við líði í loftslagsmálum og stór hluti ríkja heims standa utan við skuldbindingar í losun, eigum við að sækja fast að fá sem mestar losunarheimildir fyrir orkufreka starfsemi.

Þegar og ef losunarheimildirnar verða miðaðar við framleiddar einingar af hinum ýmsu framleiðslu- og þjónustugeirum, þurfum við engu að kvíða. Þar kemur orkubúskapur þjóðarinnar, með 70% hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa okkur vel.


mbl.is Deilt um hvort halda eigi í „íslenska ákvæðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Helgi Hjörvar enn í stjórnarandstöðu?

Helgi Hjörvar átti magnaðan sprett á Alþingi í umræðum um samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í dag þar sem þingmenn Framsóknar voru að spyrjast fyrir um hvort hún ætlaði að óska eftir framlengingu íslenska ákvæðisins svokallaða, þannig að við getum áfram haldið að leita leiða til að flytja endurnýjanlega orku út í formi orkufrekrar þjónustu eða vöru.

Það er siðferðileg skylda okkar að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar til að ekki þurfi að afla hennar með mengandi hætti annars staðar á jörðinni, því sú þjónusta og vara sem framleidd yrði hér á landi, er þegar á heildina er litið til þess að draga úr heildarlosun á heimsvísu. Það eru ámátleg rök að það framlag okkar skipti litlu máli. Ef hlusta ætti á þá heimóttarlegu (NIMBY) röksemd ættum við á sama hátt ekki að gera neitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í okkar daglega atferli. Það skiptir hvort eð er engu máli. Slíkt tekur náttúrulega ekki nokkru tali.

Öll orkufrek starfsemi, hvort heldur er netþjónabú, álver, kísilflöguvinnsla eða álþynnuverksmiðja hefur í för með sér mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, mismikla þó, en ljóst er að ef ætlunin er að laða til okkar orkufreka starfsemi þarf til þess losunarkvóta.

Ísland þarf aukinn losunarkvóta til að geta sparað losun á heimsvísu. Það virðist ofviða skilningi Helga Hjörvar og einnig virðist ofviða skilningi Helga Hjörvar að vinna í stóriðju er síður en svo einhæf, í það minnsta í samanburði við rekstur netþjónabúa, sem hann mærir svo mjög.

Það er rétt að halda því til haga að það eina sem komið hefur frá ríkisstjórninni í átt til undanþága er vegna flugs. Flugs sem brennir jarðefnaeldsneyti. Rétt er að benda á að flugið til og frá landinu, undirstaða ferðamannaiðnaðarins, losar svipað magn gróðurhúsalofttegunda og öll stjóriðjan á Íslandi.

En um áherslur á að ná í auknar losunarheimildir til handa orkufrekum iðnaði, sem annars staðsetti sig á þeim stöðum í heiminum sem ekki lúta takmörkun á losun, virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekki hafa náð samkomulagi um. Í það minnsta ef marka má umræðu dagsins.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu nefnilega allt öðrum rómi. Þeir skilja mikilvægi ákvæðisins, en þurfa að búa við ummæli eins og Helgi viðhafði á sumarþinginu, þar sem hann sagði:

"Ég held að það sé málefnalegt samkomulag Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að fara einfaldlega yfir þessi mál, kortleggja náttúru landsins og taka ákvörðun um það hvað við ætlum að varðveita um alla framtíð og hvað við ætlum að nýta og reyna að ná um það sem víðtækastri sátt. Ég held að allir umhverfisverndarsinnar í landinu hljóti að fagna því að stærsti meiri hluti sem setið hefur hér í þessu þingi skuli hafa náð samstöðu og samkomulagi um þessa gerbreyttu stjórnarstefnu að þessu leyti."

Þetta þurfa Sjálfstæðismenn að staðfesta eða hafna. Ég hef ekki orðið var við mikla gerbreytingu á stjórnarstefnu hingað til, svo þeir hljóta að hafna þessari túlkun Helga. Rammaáætluninni sem til stóð að fara í hefur verið flýtt um eitt ár, en sá tímarammi er að mínu mati óraunsær. Annað í gerðum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og iðnaðarmálum virðist sem betur fer vera áfram með þeim skynsama og raunsæja hætti sem Framsókn lagði til fyrir kosningar, en var refsað fyrir, meðal annars vegna innihaldslausra gylliboða og orðagljáfurs eins og Fagra Íslands.

Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað ákaft fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar á landinu og hljóta því einnig að vera talsmenn aukinna losunarheimilda, þannig að Helgi Hjörvar virðist vera í stjórnarandstöðu ásamt félögum sínum í græna neti Samfylkingarinnar, sem firrist við samábyrgð í loftslagsmálum í heimóttarskap sínum.

Helgi kom heldur ekki á óvart þegar hann lét sem fyrsti ræðumaður á eftir Samúeli Erni Erlingssyni alveg eiga sig að óska honum til hamingju með jómfrúarræðu sína á Alþingi. Slíka sjálfsagða kurteisi virðist hann ekki temja sér. Hafi hann skömm fyrir.


Réttmætt til skamms tíma ekki langs

Ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn ætla að hleypa uppbyggðum verðbólguþrýstingi í gegn, þegar áhrif aukningar gjaldeyrisvaraforðans, sem vonandi er verið að ganga frá, eru komin í ljós, er réttlætanlegt að lækka álögur á eldsneyti tímabundið til að lina þau áhrif.

Það má ekki vera nema tímabundið, því álögur á eldsneyti er ekki skattur heldur gjald. Gjald fyrir notkun á vegakerfinu.

Meðan tryggt er að gjaldið renni rétta leið er þetta gjald í eðli sínu sanngjarnt, þótt auðvitað megi alltaf ræða um hvaða útfærsla á þessari gjaldtöku sé best.

Verði farið í lækkanir ber að kalla hlutina réttum nöfnum og bæta Vegagerðinni þá tekjuminnkun sem af þeirri aðgerð myndi hljótast, því verkefni Vegagerðarinnar eru brýn og afar lítil þjóðhagsleg hagkvæmni í því að draga úr framlögum til hennar, svo lengi sem hún fær frið til að vinna að þeim hagkvæmustu, en er ekki sett í einhver gæluverkefni sem engu skila, í arðsemi, öryggi eða byggðasjónarmiði.

Ég er ekki viss um að það sé það sem þessir flutningabílstjórar eru að fara fram á. Ég held að þeir séu að fara fram á að fá afslátt af notkun á vegakerfinu. Því er ég ekki fylgjandi, þótt ég vinni hjá einu stærsta flutningafyrirtæki landsins.

Eins virðist Árni ekki ætla að lina áhrif verðbólgunnar miðað við þessar yfirlýsingar.

Enn og aftur stendur til að gera -  ekki neitt...


mbl.is Árni: Gerist ekkert á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræða um umræðu um að leggja til að ríkisstjórn leggi tillögu fyrir Alþingi

Nú er það helst í fréttum af ríkisstjórninni að viðskiptaráðherra er að hitta menn og eiga viðræður til að ræða hugmyndir til að slá á verðbólgu. Hugmyndir sem eiga svo eftir að fara í gegnum ríkisstjórn og þingflokka stjórnarflokkanna áður en þær verða lagðar fyrir Alþingi. Það er gott að menn eru hættir að fylgjast bara með og lepja te. Enda ríkisstjórnin að verða ársgömul.

Verst að skilafrestur nýrra mála til Alþingis þennan þingveturinn er þegar liðinn, svo þetta hefur ósköp lítið upp á sig. Í bili amk. Nema til að komast í fréttir.

En manni finnst umhugsunarefni, fyrst þetta er það fréttnæmasta af ríkisstjórninni, hvort þetta sé það eina sem verið er að gera? Hélt að þetta væri eitthvað sem væri stöðugt í gangi og í rauninni alls ekki fréttnæmt. Svo virðist ekki vera. Því miður

Ef satt er, verður maður að anda djúpt og minna sig á að mjór er mikils vísir.


mbl.is Ræða um átak gegn aukinni verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögufalsanir úr Valhöll halda áfram

Illugi Gunnarsson heldur áfram þeim sögufölsunum sem íhaldið hefur ákveðið að viðhafa í atlögu sinni að Íbúðalánasjóði.

Hélt hann því enn og aftur fram að það hefði verið Íbúðalánasjóður sem hefði haft frumkvæðið af því að koma inn á markaðinn með 90% lánin. Það er ekki rétt. Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar stóð að fara ætti í allt að 90% lán með ákveðnu hámarki og útskýrt að það ætti að gera þegar og ef aðstæður í efnahagslífinu leyfðu það.

Þegar þetta var komið inn í stjórnarsáttmálann, ruku bankarnir inn með 90% lán, 100% og hærra, með miklu hærri hámörkun og án þess að fasteignaviðskipti væru að eiga sér stað. Íbúðalánasjóður fylgdi svo á eftir til að tryggja þeim sem bjuggu utan höfuðborgarsvæðis sama rétt og hinna sem bjuggu í þenslunni fyrir sunnan.

Ég hélt að Illugi væri vandaðri í sínum málflutningi en þetta. En hann er náttúrulega bara að hlýða línunni úr Valhöll.


Er landbúnaðarráðherra að skapa ríkinu skaðabótaábyrgð?

Með því að heimila innflutning á hráu kjöti eykst hættan á því að ýmsir þeir búfjársjúkdómar sem hrjá bústofna nágranna vorra berist í okkar búfénað.

Það að við séum laus við þessa sjúkdóma er ein helsta ástæða þess hversu lítil lyfjanotkun er í íslenskum landbúnaði, sem er stór þáttur í því hversu heilnæmar afurðirnar eru.

Þegar þessa sóttir kæmu til landsins leggjast þær enn ver á íslenska bústofninn og veikja mun fleiri dýr, þar sem hann hefur engar náttúrulegar varnir gegn þeim. Eins er hætt við að fleiri en ein sótt kæmi til landsins samtímis, þannig að endurtekin sýking gæti lagt enn fleiri en ella, þar sem dýrin væru veik fyrir.

Mér er spurn, þar sem það er ekkert sem knýr á um þessa breytingu, hvort ráðherra sé ekki að skapa ríkinu skaðabótaábyrgð gagnvart því stórtjóni sem hann gæti verið að valda íslenskum landbúnaði með þessari ákvörðun sinni, þá bæði meðan að sóttirnar eru að ríða yfir sem og sá aukni lyfjakostnaður sem henni fylgir óneitanlega?

Ég sé að kratar eru þegar farnir að fagna, en þeir hafa síðan tilraunabúskapur þeirra við Krýsuvík mistókst ávallt barist gegn íslenskum landbúnaði, nú síðast með því að leggja til niðurfellingu á tollum á kjötvörum. Sú tillaga hljómar nógu sakleysisleg og sanngjörn, en það sem viðskiptaráðherra segir ekki eða veit ekki er að aðföng og framleiðsla þessara afurða er niðurgreidd erlendis, eitthvað sem ekki er til að dreifa hérlendis.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig þessu mun vinda fram.


mbl.is Landbúnaðarráðherra boðar tímamótabreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jeppakallar skapa almannahættu

Nú hafa einhverjir jeppakallar lokað aðkomunni að olíubirgðastöðinni í Örfirisey og eru með framferði sínu að skapa afar hættulegt ástand.

Ég ætla að leyfa mér þann munað að hafa skilning á því að einhverjir telji sig einhverntíma hafa ástæðu til að mótmæla á þann hátt að þeir vilji stöðva eldsneytisdreifingu, en ég hef afar litla samúð með jeppaköllum í því samhengi, það er lífsstíll, ekki nauðsyn.

En ef menn vilja mótmæla verður að gera á þann hátt að það skapi ekki almannahættu. Að vísu hafa íslensku olíufélögin ekkert að gera með hagvöxtinn í Kína, sem er aðalhvatinn að hækkuðu heimsmarkaðsverði á olíu, verðsamráð OPEC ríkjanna, sem ákváðu nýverið að auka ekki framleiðslu sína né auknar umhverfiskröfur til eldsneytisins sem hefur kallað á endurnýjun og endurbyggingu olíuhreinsistöðva. Olíugjaldið og þungaskatturinn, sem renna óskipt til uppbyggingar vegakerfisins og viðhalds á því eru föst krónutala og vaskinn fá vörubílstjórarnir endurgreiddan. Þannig að það sem þeir eru að fara fram á er, að þeir hætti að borga afnotagjald til vegakerfisins eða að ríkisstjórnin hækki gengi krónunnar, sem ég veit ekki betur en að verið sé að reyna, Seðlabankinn amk.

Verktakar sem eru búnir að gera föst tilboð í verk og fá á sig þessar kostnaðarhækkanir eiga mína samúð, en það eru einmitt þeir sem munu verða hvað verst fyrir þessum aðgerðum jeppakallanna í dag, þar sem  verið er að stöðva eldsneytisdreifinguna til þeirra og vélar þeirra munu þá ein af annarri stöðvast í dag.

En þessi mótmæli eru á engan hátt skipulögð þannig að grundvallaröryggismálum sé sinnt. Þeir loka aðkomu slökkviliðs að stöðinni og það má ekki líða, enda um skýrt lögbrot að ræða.

Yfirmenn almannavarna og lögreglan geta ekki setið auðum höndum undir þessu. Þeir verða að sinna öryggishlutverki sínu.


mbl.is Jeppamenn fara hvergi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Best að Geir H Haarde sofni bara aftur

Ég trúi því ekki upp á heiðursmanninn Geir H Haarde að hann hafi ætlað sér að fara með ósannindi um meinta samtryggingu norrænu seðlabankanna, eins og Bloomberg hefur nú sýnt fram á að eigi sér ekki stoð, eins vel og hún hljómaði nú í mín eyru í gær.

Þetta minnir mig á það þegar ég nennti ekki að lesa eina bókina fyrir íslenskupróf í fjölbraut og svaraði á prófi út frá teiknimyndasögu sem ég las einhvertíma og var um sömu söguhetju. Þar var mér til mikillar gremju ekki farið rétt með og fékk ég athugasemdina "Góð saga, en ekki af Sigurði Fáfnisbana" frá kennaranum. Einkunnin var eftir því, en sem betur fer var þetta ekki eina spurningin á því prófi.

Sem sagt: Góð saga Geir, en ekki af íslenskum raunveruleika.

Geir hefur einfaldlega verið í dýpri svefni, bæði sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra, en mann hefði nokkurn tíma grunað og nú sitjum við uppi með forsætisráðherra sem hefur opinberað að hafa ekkert fylgst með, vaknað af værum blundi og lítur út fyrir að hafa ætlað að reyna að blöffa sig í gegnum stöðu efnahagsmála hér á landi og möguleika Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar til að grípa inn í.

Ætli erlendir fjölmiðlar trúi honum næst þegar hann tjáir sig?

Þessi dæmalausa uppákoma sýnir einnig að hann er orðinn góðu vanur varðandi fjölmiðla, sem eru meira og minna allir hliðhollir honum.  Hann er óvanur því að eiga við fréttamenn sem sinna vinnunni sinni og kanna trúverðugleika þess sem hann heldur fram, þannig að hann virðist hafa haldið að hægt væri að fara með hluti samkvæmt minni. Minni sem brást honum illilega.

Manni liggur við að halda að það sé bara best að hann sofni bara aftur og láti Seðlabankanum eftir að bera tíðindi af stöðu, möguleikum og aðgerðum seðlabankans sem og einnig ríkisstjórnarinnar, eins og hann er reyndar þegar byrjaður að gera í tilfelli ríkisskuldabréfaútgáfunnar. 


Meðfylgjandi bréf sendi ég borgarstjóra í pósti áðan

Reykjavík 2. apríl 2008

Borgarstjóri Reykjavíkur

Hr Ólafur F Magnússon

Ráðhúsi Reykjavíkur

150 Reykjavík

 

Varðandi: Ábyrgð mina á ástandinu í miðborginni

Ágæti borgarstjóri,

Í sjónvarpsfréttum RÚV ohf  þann 31. mars 2008 báruð þér mig og aðra Framsóknarmenn þungum sökum.

Hélduð þér því fram að framsóknarmenn beri ábyrgð á því hvernig fyrir miðborginni er komið.með því að draga taum og hygla verktökum og peningamönnum sem eru að láta miðborg Reykjavíkur drabbast niður.

Aðspurður á borgarstjórnarfundi í gær, þann 1. apríl, lýstuð þér því yfir að þér væruð ekki að visa til Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins með yfirlýsingum yðar.

Meðan þér skýrið ekki mál yðar betur get ég sem framsóknarmaður ekki annað en talið að þér séuð að bera mig þessum sökum. Tel ég það alvarlega árás gegn æru minni, sem er varin að lögum gegn ósönnum ávirðingum.

Óska ég því eftir nánari útskýringum frá yður, hvaða verktökum og peningamönnum, sérhagsmunahópum og flokksmönnum ég hafi verið að hygla og á hvaða hátt ég hafi getað gert það, svo ég geti metið stöðu mína í framhaldinu.

 

Með vinsemd og virðingu,

 

Gestur Guðjónsson

Grettisgötu 67

101 Reykjavík


Engar nýjar fréttir um olíuhreinsunarstöð

Enn og aftur er umfjöllunin um hugsanlega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum á villigötum eins og ég skrifaði um fyrir stuttu.

Hún hefur að megninu til snúist um hlut sem er ekki einu sinni til umræðu. Hvort losunarheimildir séu til staðar fyrir hreinsistöðina. Þær eru ekki til. Það liggur fyrir og ráðherra hefur enn og aftur staðfest það. Ef byggð yrði olíuhreinsunarstöð myndi framkvæmdaaðilinn, sem líklegast væri að leggja niður hreinsistöð af svipaðri stærð, þurfa að koma með losunarkvóta með sér.

Umræðan um umhverfisáhrif olíuhreinsistöðvar á að fjalla um önnur atriði, þá aðallega siglingarnar og þá auka áhættu sem siglingin inn að hreinsistöðinni hefur í för með sér, en einnig losun rokgjarnra efna, svifryks og fastra efna og meðhöndlun þeirra.

Losunarkvótar eru mál rekstraraðilans, ekki ríkisins.


mbl.is Olíuhreinsistöð rúmast ekki innan losunarheimilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband