Efnahagsspekingur dagsins - Gunnar Svavarsson

Í kjördæmaþætti dagsins var Gunnar Svavarsson forystumaður Samfylkingarinnar í Kraganum spurður að því hvað það kostaði að byggja 400 ný hjúkrunarrými á 18 mánuðum. Svarið var kostulegt:  

"...hann rúmast innan fjárlaga. Þeirra fjárlaga sem við munum fara fram með..."

Það var og... Afar nákvæmt og lýsandi svar og gefur góð fyrirheit um trausta efnahagsstjórn af hendi ráðherraefnis Samfylkingarinnar. Ætli þetta hafi verið þetta sem Samfylkingarmaðurinn Jón Sigurðsson fv ráðherra hafi átti við þegar hann gagnrýndi að ríkisútgjöldin hafi aukist undanfarið og leggja ætti áherslu á að sýna ábyrgð í fjármálum?

Held að Jón verði að drífa sig heim frá Finnlandi til að útskýra fyrir frambjóðendum Samfylkingarinnar hvað hann átti við.

Annars held ég að þetta hafi verið nokkuð ódýr dagur og þarf ekki að uppfæra yfirlitið. Er enn að jafna mig á því að Fjálslyndir séu ekki enn búnir að læra hvað skattamál ganga út á síðan Guðjón Arnar var tekinn svo rækilega í gegn í síðustu kosningum. Samkvæmt tillögum þeirra eru allir þeir sem hafa tekjur frá 150.000 til 250.000 á mánuði með breytilegan persónuafslátt og þurfa að borga til baka til ríkisins ef menn álpast inn á þetta tekjubil og hækka í launum, því þá þurfa menn að greiða skatt eftir á, eins og var áður en staðgreiðslukerfið var tekið upp, góðu heilli. Það verður ekki gaman að fylgjast með því þegar skatturinn þarf að fara í löginnheimtu hjá þessu fólki, því þessa skatta verður að innheimta eins og aðra.

 


Samfylkingin eyðir mestu í auglýsingar hingað til sem og einnig áður

Í fréttum í gær var mikið látið með niðurstöður mælinga Capacent Gallup á því að Framsókn hefði hingað til eytt mestu í auglýsingar í kosningabaráttunni. Rifjaðir voru upp gamalkunnugir en rangir frasar um að Framsókn kaupi sér atkvæði með auglýsingum og ég veit ekki hvað. Í síðustu Alþingiskosningum fóru menn mikinn, þrátt fyrir að Framsókn hefði þá verið í 3. sæti í auglýsingakostnaði, sem sýnir að Framsókn kann að fara með fé en ná um leið árangri.

Í dag kemur Gallup svo og leiðréttir sig, þeir ofreiknuðu sig um 4,3 milljónir og eins og svo oft áður er það Samfylkingin sem auglýsir mest og taktík Sjálfstæðismanna að láta lítið fyrir sér fara og forðast sem mest umræðu um hvað þeir ætla að gera á komandi kjörtímabili kemur berlega í ljós, en þeir eyða minnstu.

Þess ber einnig að geta að þessi mæling er Samfylkingunni afar hagstæð, þar sem hún hefst ekki fyrr en 27. mars en fyrsta auglýsing Framsóknarflokksins vegna komandi alþingiskosninga birtist ekki fyrr en 4. apríl sl. Hins vegar höfðu hinir stjórnmálaflokkarnir hafið birtingar auglýsinga löngu fyrr þótt enginn væri jafn snemma í því og Samfylkingin sem birti sína fyrstu heilsíðuauglýsingu 10. febrúar sl. eða rúmum þremur mánuðum fyrir kosningar. Vinstri grænir hófu svo sína baráttu ekki löngu síðar og hafa báðir flokkar auglýst grimmt í dagblöðum frá þeim tíma.

Kostnaður vegna auglýsinga sem birtust fyrir 27. mars er ekki inni í yfirliti Capacent Gallup enda náðist ekki samkomulag um það á milli stjórnmálaflokkanna að takmarkanir giltu frá og með áramótum, eða frá og með þeim tíma sem ný lög um fjármál stjórnmálaflokkanna tóku gildi.

Þetta eru alvarleg mistök sem Gallup gerir en mun vonandi ekki hafa neikvæð áhrif á niðurstöðu Framsóknar á laugardaginn kemur...

Í framhaldi af þessu og réttmætum umkvörtunum Íslandshreyfingarinnar að fá engan styrk frá ríkinu til kynningarmála nýs framboðs, rifjast upp fyrir mér Jacob nokkur Haugaard, danskur grínari gerði út á það að fá svona styrk, sem veittur er framboðum í Danmörku fyrir hvert atkvæði greitt þeim. Lofaði hann meðal annars meðvindi á reiðhjólastígum, fleiri sólardögum og betra kynlífi fyrir alla. Í stað þess að skila auðu, kusu margir Árósarbúar Jacob, sem launaði fyrir sig með því að eyða styrk ríkisins í heljarinnar bjórveislu í reiðhöll þeirra Árósarmanna. Litaði hann kosningabaráttuna mikið, enda stórkostlegur húmoristi. Þegar leiðir hans og Bakkusar skyldu hætti hann að gefa bjór, en fór þess í stað um götur Árósa, með fréttamennina náttúrulega á eftir sér og útdeildi fénu eins og honum þótti best. Gaf gömlum konum nýja skó, betri skólatöskur til barna sem hann hitti og svo framvegis. Svo mikla lýðhylli fékk hann að hann endaði sér til skelfingar á þingi. Var kostulegt að sjá hann upplifa þetta praktíska grín sitt snúast upp í alvöru, standandi í jakkafötum, saumuðum úr strigapokum undan kaffi. Viti menn, hann stóð sig eins og hetja og réði úrslitum í fjölmörgum málum og kom með marga góða vinkla á málin og gerði dönsk stjórnmál litríkari þau fáu ár sem hann sat á þingi....


mbl.is Capacent: Auglýsingakostnaður Framsóknarflokksins ofreiknaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattastefnan er mikilvirkasta menntastefnan

Grundvöllur framtíðarhagsældar á Íslandi er hátt menntunarstig. Um það eru allir sammála, amk eru þær raddir sem halda öðru fram afar mjóróma og hafa farið framhjá mér. Til þess að svo megi verða þarf tvennt að koma til, góðir skólar og svo nemendur til að kenna.

Umræðan undanfarið hefur mikið snúist um skólana sjálfa og rekstur þeirra, námsframboð, framhaldsnám og skólagjöld og svona mætti lengi telja, en ekkert hefur borið á hinum hluta umræðunnar, það er að skapa ramma sem hvetur fólk til að fara í skóla.

Kannski er það vegna þess að á Íslandi er ríkisstjórn sem skilur hvaða gildi það hefur að fólk sjái greinilegan ábata af því að ganga menntaveginn. Hefur hún lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að leggja ekki of mikla álögur á þann ábata sem námið hefur í för með sér í launaumslaginu og einnig með lækkun endurgreiðslubyrði námslána.

Stjórnarandstaðan hefur lagt fram tillögur um breytingar á skattkerfinu í þá átt að með hærri tekjum hækki skattprósentan, umfram þau áhrif sem persónuafsláttarurinn hefur og mótmælt niðurfellingu hátekjuskatts. Nú síðast leggja VG fram tillögur sem miða að 50% skattprósentu, með því að tala um 125 þús króna frítekjumark án útgjaldataps fyrir ríkissjóð.

Vonandi munu kjósendur hlusta á þessar skammsýnu tillögur og taka skynsama afstöðu á móti þeim, en þær myndu hafa það í för með sér að hvati nemenda til að leggja í frekara nám minnkar, þar sem sá ábati sem þeir geta reiknað sér fyrir þá fyrirhöfn er skattlagður meira og minna yrði eftir í launaumslaginu. Ekki síður er ósanngjarnt og óskynsamlegt að skattleggja með hærri prósentu hærri tekjur þeirra sem eiga styttri starfsævi vegna skólagöngu en tekjur þeirra sem ekki fara í skóla geta unnið lengur en með lægri tekjur greiða lægri prósentu fyrir af ævitekjunum.

Það sem þó er enn mikilvægara er að með aukinni skattbyrði á hærri tekjur er fyrirtækjum gert kostnaðarsamara að ráða til sín vel menntað fólk í vel launuð störf. Verður það til þess að þeim störfum fjölgar síður eða hægar hér á landi og flytjast þau frekar úr landi. Á slíkum hæfileikaskatti, braintax, tapa allir; fyrirtækin, launþegar og samfélagið allt. En samt er þetta stefna VG og Samfylkingarinnar, eins gott að hún komi ekki til framkvæmda, því þá væri hellingi af peningum ausið í tóma skóla.


Frjálslyndir vilja leggja af staðgreiðslu skatta - Kosningaloforðaflaumur IV

Eftir útvarpskappræður kvöldsins er skattastefna VG að skýrast, 125 þúsund króna skattleysismörk án þess að ríkið beri skaða af. Þetta þýðir að skattprósentan þarf að hækka upp í 50%!

Aftur á móti verð ég að eyða aðeins meiri tíma í að átta mig á því hvað tillögur Frjálslyndra kosta. Þeir vilja þrepaskipt skattkerfi, þar sem þeir sem hafa minna en 150 þús á mánuði fá auka 13.600 króna persónuafslátt sem lækkar svo niður í ekki neitt þegar 250 þúsundunum er náð. Hið einfalda módel mitt, sem byggir á meðallaunum, ræður ekki við að reikna heildarkostnaðinn við þennan skatt. Verð að fara á vef RSK og leita uppi tekjuskiptingarupplýsingar og reikna þetta mtt þeirra, en 112 þúsund króna skattleysismörkin kosta ein og sér 21,2 milljarða á ári og þá er eftir að bæta við nýja persónuafslættinum! Með þessu kerfi er verið að leggja af staðgreiðslu skatta, því gera þarf áætlun um tekjur áður en persónuafsláttur er ákvarðaður og ef sú áætlun stenst ekki, verður að leggja á að nýju og þeir sem komast í meiri vinnu, þurfa því að endurgreiða persónuafsláttinn að ári. Spurning hvernig staðan verður þá, en hætt er við að fjöldi manns lendi í skuldavandræðum vegna þessa.

Er búinn að horfa á of mörg "hækkum skattleysismörkin" skilti frá Samfylkingunni til að geta tekið mark á ISG um að ætla ekki að fara í skattabreytingar. 100 þús er lágmark sem hækkun, sem annað hvort kostar 6,4 milljarða eða 2% hækkun á skattprósentunni. ISG hefur aldrei að því að ég veit minnst á prósentuhækkun, svo ég vel 6,4 milljarða útgjöldin og bið um leiðréttingu ef prósentuhækkun er inni í myndinni hjá Samfylkingunni.

Lækkun Samfylkingarinnar á sköttum á lífeyrisgreiðslur úr 35,72% í 10% á ég erfitt með að skilja hvernig fara eigi að án þess að flækja kerfið afar mikið. Fann gögn hjá RSK um lífeyrissjóðsgreiðslur, en þær eru mun hærri en ég hafði fundið gögn um hjá SA, en þær eru 34,2 milljarðar á ári. Ef breyta á hugsuninni úr tekjuskatti í fjármagnstekjuskatt, er ekki persónuafsláttur á honum, en þá myndi heildarskattheimta af lífeyrisþegum aukast um 4,3 milljarða! Ef áfram er litið á skattinn sem tekjuskatt er frítekjumarkið 321.500 á mánuði, og því nánast um niðurfellingu á skattinum að ræða! Þetta sýnir að þetta er illa ígrundað eða þarf amk frekari skýringa við.

Tafla dagsins lítur þá svona út (uppfærði hana kl 02:07):  

Tekjur-skattar-ofl-04 

Allar athugasemdir og viðbætur vel þegnar. 


Verðmætar kanínur Steingríms J

Í Kastljósþætti gærkvöldsins var Steingrímur J Sigfússon í yfirheyrslu.

Kom þar berlega í ljós hve illa ígrundaðar efnahags- og skattatillögur þeirra eru.

Ætlaði hann fyrst að komast upp með að segja að, hækkun grunnlífeyris, niðurfelling gjaldtöku, upptaka gjaldfrelsis í leikskólum, sem eru á forræði sveitarfélaganna, kostuðu 12 milljarða. Hélt hann svo áfram vaðlinum, um strandsiglingar, sem hann heldur fram að sé búið að leggja niður, sem er ekki rétt, innviðafjárfestingar osfrv.

Þáttastjórnendur stóðu sig vel með að láta honum þetta ekki eftir, heldur spurðu hann út í hvað heildarpakkinn kostaði. Með töngum náðu þau út tölunni 20 milljörðum. Fer betur yfir trúverðugleika þeirrar tölu seinna, en leyfum honum njóta vafans.

Skattatillögurnar voru aftur á móti kostulegar. Skattleysismörkin áttu að fylgja lágmarkslaunum, en áttu að hækka ef launin yrðu hærri! Annað hvort er hann jafn vel að sér og Guðjón Arnar var fyrir síðustu kosningar í skattamálum eða hann getur ekki komið þessu almennilega frá sér!

Skattleysismörk hækka ekkert með hækkuðum launum. Þau hljóta og geta ekki annað en verið föst tala. Skattprósentan getur aftur á móti hækkað, en í dag búum við við óendanlega margar skattprósentur sem hækka með hækkuðum launum. Er það innbyggt í kerfi fastrar prósentutölu og persónuafsláttar. Vill hann hækka persónuafsláttinn eftir því sem launin lækka? Ég skil ekki bofs. Læt hann þó njóta vafans og reikna með að hann hafi átt við að 125 þús kr skattleysismörkin og svo stigvaxandi hlutfallsleg skattbyrði, eins og er í kerfinu í dag hafi verið það sem hann meinti.

Uppgjör skallamála, nei skattamála VG er því eins og upplýsingar mínar liggja fyrir í dag þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda 2010 er því:

  • 36,7 milljarðar í tekjuauki ríkissjóðs

Til minnkunar þessu kemur

  • 29,7 milljarðar í 125 þús kr skattleysi án hækkunar prósentu
  • 6 milljarðar í niðurfellingu stimpilgjalds

Þannig að ef er tekið tillit til veltuskattsaukingar (10%) af þessum völdum, hefur ríkissjóður samkvæmt þessu úr 4,6 milljörðum að spila til þessara verkefna sem hann metur sjálfur að kosti 20 milljarða!

Þetta gengur ekki upp og því verður að spyrja hvað ætla VG að hækka skattprósentuna mikið til að eiga fyrir þessu eða ætla þeir að selja kanínur úr töfrahatti sínum?

Þær hljóta að vera verðmætar, því mér reiknast til (forsendur 2006) að hún verði að fara upp í 58% með útsvari til að halda 15 milljarða tekjuauka og 125 þús kr skattleysismörkum.

Ja hérna...


Kosningaloforðaflaumur III

Eftir yfirheyrslur Kastljóssins í kvöld var skattastefna VG eiginlega ekkert skýrari, en 125-140 þúsund á mánuði, eftir því sem efnahagslífið og kjarasamningar leyfa. Ég ætla að skilja þetta þannig að ef núverandi þjóðhagsspá stenst verði skattleysismörkin 125, en þeir ætli að leyfa sér að hækka ef það verður betra. Nota því 125. Hátekjuskattur þeirra mun hrekja í burtu skattstofninn, þannig að það mun ekki auka heildartekjurnar. Vel því að líta fram hjá áhrifum þess hjá honum, nema VG komi með rök um nánari útfærslu.

Hef ekki náð að fara yfir aðra kosningafundi, þannig að ef einhverjar frekari upplýsingar hafa komið fram í dag, ég hafi gleymt einhverju úr kosningastefnuskrá flokkanna eða ef einhver hefur athugasemdir væri gott að fá þær, annaðhvort sem athugasemd hér eða í tölvupósti á gesturgudjonsson@gmail.com

Góðu fréttir dagsins er útkoma vefrits Fjármálaráðuneytisins þar sem áhrifin eru reiknuð út frá raunverulegum tekjum og tekjudreifingu og spá um tekjur ársins 2007. Ég var með tekjur 2006 og varð að reikna útfrá meðaltekjum og get ekki tekið tillit til jaðarskatta eins og tekjutenginga barnabóta osfrv. Nota hana hér eftir. Er einnig búinn að biðja um ítarlegri töflu, sem taki tillit til fleiri skattprósentustiga.

En tafla dagsins er þá svona:

Tekjur-skattar-ofl-03


Ekki virðist Kastljós þekkja vel þau mál sem þeir fjalla um

Þórhallur er kominn í vond mál, sendir frá sér yfirlýsingu sem svar við yfirlýsingu Jónínu Bjartmarz, sem er full af rangfærslum og útúrsnúningi.

Það er gott að vita að Kastljósið er ekki misnotað af neinum, þetta er sem sagt allt saman rekið af þeirra frumkvæði og þeirra eigin hvötum.

"Í Kastljósi var bent á að ung stúlka frá Gvatemala sem búsett er á heimili ráðherra fékk ríkisborgararétt á 10 dögum þegar venjan er að slík afgreiðsla taki fimm til tólf mánuði" Þarna opinbera þeir vanþekkingu eða vilja sinn, þegar þeir bera saman appelsínur og epli. Eins og Dómsmálaráðuneytið segir í yfirlýsingu að þetta sé ekki rétt, afgreiðslufresturinn tengist afgreiðslum ráðuneytisins ekki Alþingis. Þetta hefði Kastljós örugglega getað fengið upplýst ef þeir hefðu unnið sína undirbúningsvinnu og að halda þessu til streitu er til skammar.

"Einnig kom fram að fólki með veigameiri ástæður var hafnað á sama tíma." Þessi fullyrðing er með ólíkindum, því Kastljósmenn setja sig í dómarasæti um hvað sé veigamikið, og ekki kom heldur fram að Alþingi hafi hafnað þeim, þannig að því er ekki svarað hvort það hafi verið Alþingi eða dómsmálaráðuneytið sem afgreiddi málið og á hvaða forsendum, enda ekki hægt vegna friðhelgi einkalífsins, sem Kastljósi er sama um í tilfelli stúlkunnar. Einnig er ósanngjarnt og illa gert af Kastljósi að draga fólk sem þekkir ekki málavöxtu til að dæma í málum sem hefur engar forsendur til að dæma og spyrja það leiðandi spurninga.

"Aldrei var sagt að Jónína hefði beitt sér í málinu heldur vakin athygli á óvenjulegri afgreiðslu málsins. Þegar við bætist að stúlkan býr á heimili umhverfisráðherra er full ástæða fyrir fjölmiðla að spyrja spurninga." Það var ekki sagt berum orðum, en öll framsetning málsins var til þess fallin að vekja tortryggni og fá áhorfendur til að hlaupa að ályktunum.

"Rétt er hjá Jónínu að stúlkan fékk ríkisborgararéttinn á grundvelli „skerts ferðafrelsis" og er þar í hópi 22 annara einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang á sömu forsendum á þessu kjörtímabili. Hún gleymir hinsvegar að geta þess að 20 þeirra höfðu dvalið lengur en tvö ár í landinu þegar þeir öðluðust sinn ríkisborgararétt.

Jónína bætir svo við að 30 einstaklingar hafi fengið íslenskt ríkisfang á þessu kjörtímabili eftir að hafa dvalið hér skemur en 1 ár. Hún getur þess hinsvegar ekki að enginn þeirra fékk íslenskan ríkisborgararétt vegna skerts ferðafrelsis." og?????? Þetta eru fáir einstaklingar og þegar tekin eru sniðmengi og sammengi í litlu þýði er auðvelt að finna fáa einstaklinga í einhverjum þeirra. Ef öll mál kjördæmisins væru skoðuð væri meira að marka slíkan samanburð.

"Jónína hallar réttu máli þegar hún segir að Kastljós hafi látið að því liggja að aðalega börn fengju ríkisborgararétt með lögum frá alþingi. Kastljós benti hinsvegar á að oft væri um börn að ræða, afreksmenn í íþróttum ogfólk sem sótti um af mannúðarástæðum." Það er rétt að Kastljósmenn sögðu þetta ekki sjálfir, heldur fengu Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ragnar Aðalsteinsson, til að fara með þessar fullyrðingar, sem hafa verið hraktar. 

"Jónína kýs hinsvegar að sleppa því að nefna tvö af þessum atriðum sem Kastljós tiltók. Þess má geta að umrædd stúlka frá Gvatemala fékk ekki íslenskan ríkisborgararétt af þeim ástæðum sem eru tilgreindar hér að ofan." Er Kastljós þar með að halda því fram að þetta séu einu réttmætu ástæður veitingar ríkisborgararéttar með þessari leið?

Jónína Bjartmarz spyr í lokin „hvar er trúverðugleikinn"? Því er til að svara að Kastljós stendur við sína umfjöllun um málið." Það var leitt, því þeim væri sæmst að því að hætta þessum dylgjum sínum og "let them deny it" aðferðum sínum í aðdraganda kosninga, sem greinilega eru búnir að stórskaða kosningabaráttuna. Amk bendir tímasetning "uppljóstrunar" þessa máls til þess...


mbl.is Kastljós svarar Jónínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill Samfylkingin hækka skattprósentuna?

Margt merkilegt kom fram í Kastljósi gærkvöldsins, þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat fyrir svörum. Sérstaklega þóttu mér undanbrögð hennar í efnahags- og skattamálum undarleg og læðist sá grunur að manni að ummæli Guðmundar Ólafssonar hagfræðings eigi meiri stoð í raunveruleikanum en ég hefði viljað trúa, en hann hefur sagt að sá málaflokkur hafi aldrei verið þeirra sterka hlið.

Ingibjörg segir að velferðarpakki þeirra kosti 30 milljarða og allt eigi að vera komið til framkvæmda á síðasta árinu. Gott og vel. Það verður gaman að sjá sundurliðun á því, en skoðum nokkrar tölur.

Hagvöxtur verður 0,9-2,9-2,8 skv þjóðhagsspá og ef við gefum okkur að hann verði 2,8 seinasta árið verður tekjuauki ríkissjóðs miðað við óbreytt skattaumhverfi 36,6 milljarðar árið 2010. Þá eiga allar úrbætur að vera komnar til framkvæmda og engin framþróun í stóriðju, sem annars hefði gefið þeim um 50 imilljarða í viðbót, mv þjóðhagsspá.

Svo eru það skattaloforðin sem verður að draga frá þessari tölu.

  • 10 milljarðar í afnám vörugjalda og tolla
  • 4 milljarðar í lækkaðar tekjur af lífeyrisgreiðsluskattlagningu
  • 7 milljarðar í afnám stimpilgjalds
  • 10,5 milljarðar í hækkun frítekjumarks. (hafa auglýst það og loforð Framsóknar um 100 þús hlýtur að vera lágmarksbreyting, nóg hafa þau hamrað á að Framsókn sé ójafnréttisflokkur)

Þetta þýðir að skatta- og tollapakkinn einn kostar 31,5 milljarða. Samfylkingin ætlar að breyta tollum í sátt við bændur, svo það hlýtur að vera varlega áætlað að helmingur þess tekjutaps sem tollarnir hafa í för með sér komi einnig til útgjalda, þá eru er skatta- og tollapakkinn búinn að eyða öllum tekjuauka ríkissjóðs og heildarpakkinn kominn í 36,5 milljarða, og ef maður tekur tillit til veltuskattaaukningar vegna hærri útborgana, ca 2 milljarðar, er heildarniðurstaðan af þessum liðum eingöngu rúmir 34 milljarðar. Munum að ISG sagði að heildarpakki þeirra kostaði 30 milljarða!

Þá eru eftir öll útgjaldaaukningin vegna loforða þeirra um stóraukin framlög til vegamála, fækkun á biðlistum, bætt menntakerfi og hvað svo sem Samfylkingin hefur lofað í hundruða liða.

Til að ná þessu og halda frítekjumarkinu uppi, er bara ein leið. Það er að hækka skattprósentuna.

Hvert prósent í hækkun tekjuskatts gefur um 5,8 milljarða, þannig að til að ná 30 milljörðum þarf tekjuskattprósentan að hækka í 49% með útsvari ef frítekjumarkið á að haldast í 100 þús! Er þá ekki tekið tillit til veltuskattsminnkunar vegna rýrnunar kaupmáttar

Í lofprísalöndum Samfylkingarinnar, Danmörku og Svíþjóð, sem ISG lítur mikið til, er skattprósentan allt upp í 60%. Bið fólk um að hafa það í huga.


Kosningaloforðakostnaður II

Eftir yfirheyrslur Kastljóssins skýrðist betur hver stefna Samfylkingarinnar er í skattamálum, svo ég uppfæri yfirlitið

Almennar forsendur eru hér

Athugasemdir óskast, viðbætur og leiðréttingar.

Tekjur-skattar-ofl-02


Hvað er eftir af Jónínumálinu?

Í yfirliti sem Alþingi hefur gefið út um veitingar ríkisborgararéttar á síðasta löggjafarþingi, kemur fram að 31 fengu jákvæða afgreiðslu. Af þeim eru 5 eða 16% sem hafa skert ferðafrelsi sem ástæðu og af þeim 5 hafa 2 búið skemur en 2 ár á landinu, þannig að mál stúlkunnar er síður en svo einsdæmi. Allir utan einn hafa persónuleg tengsl við landið og einungis einn er akkur fyrir íslenskt samfélag, sem ég les sem afreksíþróttamann. 9 eru börn, en 22 eru fullorðnir, þannig að fullyrðingar Kolbrúnar Halldórsdóttur og Ögmundar Jónassonar standast engan vegin og lýsa því að Kolbrún, sem er áheyrnarfulltrúi hafi lítið verið að hlusta.

Þetta yfirlit sýnir svo ekki verður um villst að fullyrðingar þeirra þriggja sem unnu málið á Alþingi standast. Ekkert hefur komið fram sem styður dylgjur um að Jónína hafi beitt sér óeðlilega í málinu. Auðvitað leiðbeindi hún stúlkunni. Minna væri nú.

Í framhaldinu verður í rólegheitunum að fara yfir afgreiðslur allra umsækjenda og endurskoða ferlið, sem full ástæða er til að gera, svo það verði ávallt hafið yfir vafa.

Það eftir stendur af málinu eru órökstuddar meiningar Helga Seljan, illa unnið mál af hans hendi, órökstudd gífuryrði fjölda manns og Alþingismennirnir Sigurjón Þórðarson og Össur Skarphéðinsson sem hafa sagt Guðrúnu Ögmundsdóttur, Guðjón Ólaf Jónsson og Bjarna Benediktsson ljúga og efast um heiðarleika Jónínu Bjartmarz, sem greinilega var ætlunin að koma höggi á í upphafi, af hvötum sem hver og einn getur sjálfur ályktað um. Að minnsta kosti segir tímasetning þessarar "uppgötvunar" sitt.


mbl.is Umsóknir um ríkisborgararétt afgreiddar ágreiningslaust innan allsherjarnefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband