Loftslagsmál og sannleikurinn
14.4.2008 | 17:04
Al Gore og fleiri þeir sem vara við afleiðingum gróðurhúsaáhrifanna hafa gerst sekir um að fara frjálslega með í sínum málflutningi.
Það er slæmt, því það er engin þörf á því að vera að mála ástandið svartara en það er. Það er nefnilega alveg nógu svart. Hversu svart það er og hversu öruggt það sé að það sé það svart er á reiki, eðli málsins samkvæmt, enda um flókið samspil margra þátta sem hver um sig er undirorpinn óvissu.
Það hafa þeir sem segja að ekkert þurfi að gera nýtt sér, sem eru margir hverjir í stríði til að verja eigin hagsmuni. Þeir grípa hverja staðleysu og ýkju og blása hana upp og telja það rök fyrir því að allt sé þetta bábilja og vitleysa.
Í stríði er það sannleikurinn sem tapar fyrst. Það á við hér eins og annarsstaðar.
Þessi umræða, eins og ESB umræðan og margar fleiri flóknari umræður verða auðveldlega fórnarlömb skotgrafarumræðu, þar sem fyrirsagnaryfirlýsingar sem eiga greiða leið inn í fjölmiðla eru aðalvopnið. Mogginn og Spegillinn hafa reynt að halda úti umræðu um málið, en alltaf virðist umræðan fara í sama farið. Afar lítið rými er gefið hér sem og erlendis fyrir dýpri umræðu á almennum vettvangi um loftslagsmál og afleiðingar þeirra aðgerða sem grunnhyggnir stjórnmálamenn eins og George Bush hafa farið í, með þessari fáránlegu etanolvæðingu sinni, sem er í besta falli CO2-neutral en hefur snarhækkað matvælaverð á heimsmarkaði.
Sem betur fer er verið að hefja tilraunaframleiðslu á eldsneyti með þörungum, sem er mikið mun skynsamlegri aðferð og hægt að stunda víða um heim, án þess að taka rými frá matvælaframleiðslu, og bestu staðirnir fyrir þá framleiðslu eru einmitt núverandi olíuríki, þannig að hætta á stórkostlegum hagsmunaárekstrum ætti að vera minni en ella. Því miður heyrir maður að einkaleyfi séu mjög útbreidd í þessari þróun, svo almenn framleiðsla með þörungum gæti tafist vegna kostnaðar við einkaleyfisgjöld, en fljótandi eldsneyti verður framleitt með þörungum í framtíðinni. Ég spái því.
Við höfum ekki tíma fyrir grunnhyggna fyrirsagnaumræðu. Það þarf að fara í aðgerðir á heimsvísu til að stemma stigu við hækkandi hitastigi og þar megum við ekki skorast undan, ekki í okkar daglega lífi og heldur ekki í nýtingu orkuauðlinda okkar. Niðurdæling koltvísýrings sem verið er að rannsaka er svo eitthvað sem miklar vonir eru bundnar við til lengri tíma, sem og endurheimt gróðurlendis, en það leysir okkur alls ekki undan okkar ábyrgð á öðrum sviðum. Það þarf að berjast á öllum vígstöðvum.
Til að ná árangri þarf sýn, klár markmið og skilgreindar leiðir til að ná þeim, ásamt kjark og samstöðu til að fara þá leið sem vörðuð er. Meðan ríkisstjórnarflokkarnir tala algerlega í austur og vestur er því miður litlar líkur á að við náum miklum árangri. Líkurnar á að við fáum rými til að nýta orkuauðlindir okkar í þágu heimsbyggðarinnar minnka eftir því sem tíminn líður og ekkert er verið að gera í að tala fyrir því sjónarmiði okkar sem þó var tekið tillit til síðast og ætti því að vera auðveldara í þetta skiptið. En nei, stjórnarandstöðuhluti Samfylkingarinnar vill ekki nýta auðlindirnar og svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnarhluti Samfylkingarinnar ætli að láta það yfir sig ganga.
Það er ábyrgðarhluti...
Atvinnuleysi stjórntæki ríkisstjórnarinnar?
14.4.2008 | 01:33
Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASí er farinn að hafa sömu áhyggjur og ég lýsti í færslu fyrir skömmu, að ríkisstjórnin sé viljandi að keyra atvinnustigið niður til að kæla hagkerfið.
Manni kemur ekkert á óvart að íhaldinu hugnist hæfilegt atvinnuleysi, enda lækkar það launataxtana en hvað Samfylkingin er að hugsa er mér ráðgáta.
Líklegast sér Samfylkingin hag í því að auka verkalýðsvitund sem óhjákvæmilega fylgdi auknu atvinnuleysi, nema hún sé einfaldlega að koma sér upp stjórntæki sem þarf til, gengjum við í ESB og hagsveiflan þar og hér væri ekki í takt. Þá væri bindiskylda og atvinnuleysi þau stjórntæki sem eftir væru eftir að stýrivaxtatækið væri tekið af okkur.
Af tveimur vondum kostum vel ég verðbólgu umfram atvinnuleysi. Árangur áfram - ekkert stopp
Jafnaðarmannaflokkur Íslands - öfugur Hrói Höttur í raun?
12.4.2008 | 11:23
Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks virðist ekkert vera að gera til að aðstoða Seðlabankann við að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett honum.
Þess vegna verður Seðlabankinn að hafa stýrivexti hærri lengur en ella.
Á meðan græða fjármagnseigendur feitt en þeir sem skulda blæða. Þetta er hrein millifærsla milli þessara hópa.
Svo sem ekkert í andstöðu við hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, en er það sú jafnaðarstefna sem Samfylkingin ætlar að kenna sig við?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Samgönguráðherra í þröngri stöðu
11.4.2008 | 12:18
Kristján L Möller stóð sig vel í Kastljósinu í gær. Hann skilur betur en margir í hans flokki hvað það er að vera ráðherra.
Því fylgir nefnilega ábyrgð. Ábyrgð sem getur verið sárt að axla, en hann stendur sig mun betur en margir samráðherrar hans í því að axla hana. Kristján þarf hugsanlega á seinni stigum að ákveða veglínu Sundabrautar og auðvitað á hann ekki að gera sig vanhæfan til að taka þá ákvörðun, eins og Björn Bjarnason gerði t.d. þegar hann mælti með Þorsteini Davíðssyni f.v. aðstoðarmanni sínum í embætti héraðsdómara.
Þetta verða fjölmiðlamenn og aðrir að skilja og virða.
Hann getur aftur á móti ýtt á um að ferlinu öllu verði hraðað eins og kostur er, en um val á veglínu getur hann ekki tjáð sig strax.
Sama er með þessa ömurlegu stöðu sem er uppi á Reykjanesbrautinni. Hann er bundinn af lögum um opinber innkaup og fer eftir þeim. Það er leiðinleg staða að standa í sem ráðherra, en hann hefur manndóm í sér að fara að lögum.
Það er ekki Kristjáni að kenna að lögin eru svona. Í flestum tilfellum er líka afar gott að lögin séu eins og þau eru, enda sett til að koma í veg fyrir spillingu og sóun á almannafé, en í undantekningartilfellum þarf að vera heimilt að grípa til sérstakra ráðstafanna.
Hver þau tilfelli eru, þarf greinilega að skýra betur og ég sé ekki betur en að ráðherra sé að taka rétt á því máli.
Ríkisstjórnarflokkarnir tala út og suður í loftslagsmálum
10.4.2008 | 09:42
Enn og aftur kemur í ljós að við búum við í það minnsta tvær ríkisstjórnir í landinu. Nú hvað varðar samningsmarkmið þjóðarinnar í loftslagsmálum.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði í ræðu á síðasta Umhverfisþingi að við ættum ekki að biðja um undanþágur, meðan að Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á þingi í gær að það hljóti að vera stefnu ríkisstjórnarinnar að byggja á íslenska ákvæðinu.
Helgi Hjörvar ræðst með óhróðri að Framsókn fyrir að tala fyrir þeirri stefnu sem flokkurinn hefur haft í loftslagsmálum, að taka þátt í þessu sameiginlega verkefni jarðarbúa að draga úr breytingum á gróðurhúsaáhrifum með því að hýsa orkufreka starfsemi hér á landi og knýja hana með endurnýjanlegum orkugjöfum, í sem bestri sátt við verndunarsjónarmið.
Þetta er reyndar afar svipuð stefna og Illugi Gunnarsson og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst og Frjálslyndra reyndar einnig. Af hverju ræðst Helgi Hjörvar bara á Framsókn? Af hverju ræðst hann ekki á Einar Má og Össur, samflokksmenn sína. Er maðurinn andsetinn?
Ég er sammála Illuga um að meðan að þessi ríkjanálgun er við líði í loftslagsmálum og stór hluti ríkja heims standa utan við skuldbindingar í losun, eigum við að sækja fast að fá sem mestar losunarheimildir fyrir orkufreka starfsemi.
Þegar og ef losunarheimildirnar verða miðaðar við framleiddar einingar af hinum ýmsu framleiðslu- og þjónustugeirum, þurfum við engu að kvíða. Þar kemur orkubúskapur þjóðarinnar, með 70% hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa okkur vel.
![]() |
Deilt um hvort halda eigi í „íslenska ákvæðið“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er Helgi Hjörvar enn í stjórnarandstöðu?
10.4.2008 | 02:11
Helgi Hjörvar átti magnaðan sprett á Alþingi í umræðum um samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum í dag þar sem þingmenn Framsóknar voru að spyrjast fyrir um hvort hún ætlaði að óska eftir framlengingu íslenska ákvæðisins svokallaða, þannig að við getum áfram haldið að leita leiða til að flytja endurnýjanlega orku út í formi orkufrekrar þjónustu eða vöru.
Það er siðferðileg skylda okkar að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar til að ekki þurfi að afla hennar með mengandi hætti annars staðar á jörðinni, því sú þjónusta og vara sem framleidd yrði hér á landi, er þegar á heildina er litið til þess að draga úr heildarlosun á heimsvísu. Það eru ámátleg rök að það framlag okkar skipti litlu máli. Ef hlusta ætti á þá heimóttarlegu (NIMBY) röksemd ættum við á sama hátt ekki að gera neitt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í okkar daglega atferli. Það skiptir hvort eð er engu máli. Slíkt tekur náttúrulega ekki nokkru tali.
Öll orkufrek starfsemi, hvort heldur er netþjónabú, álver, kísilflöguvinnsla eða álþynnuverksmiðja hefur í för með sér mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, mismikla þó, en ljóst er að ef ætlunin er að laða til okkar orkufreka starfsemi þarf til þess losunarkvóta.
Ísland þarf aukinn losunarkvóta til að geta sparað losun á heimsvísu. Það virðist ofviða skilningi Helga Hjörvar og einnig virðist ofviða skilningi Helga Hjörvar að vinna í stóriðju er síður en svo einhæf, í það minnsta í samanburði við rekstur netþjónabúa, sem hann mærir svo mjög.
Það er rétt að halda því til haga að það eina sem komið hefur frá ríkisstjórninni í átt til undanþága er vegna flugs. Flugs sem brennir jarðefnaeldsneyti. Rétt er að benda á að flugið til og frá landinu, undirstaða ferðamannaiðnaðarins, losar svipað magn gróðurhúsalofttegunda og öll stjóriðjan á Íslandi.
En um áherslur á að ná í auknar losunarheimildir til handa orkufrekum iðnaði, sem annars staðsetti sig á þeim stöðum í heiminum sem ekki lúta takmörkun á losun, virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekki hafa náð samkomulagi um. Í það minnsta ef marka má umræðu dagsins.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu nefnilega allt öðrum rómi. Þeir skilja mikilvægi ákvæðisins, en þurfa að búa við ummæli eins og Helgi viðhafði á sumarþinginu, þar sem hann sagði:
"Ég held að það sé málefnalegt samkomulag Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að fara einfaldlega yfir þessi mál, kortleggja náttúru landsins og taka ákvörðun um það hvað við ætlum að varðveita um alla framtíð og hvað við ætlum að nýta og reyna að ná um það sem víðtækastri sátt. Ég held að allir umhverfisverndarsinnar í landinu hljóti að fagna því að stærsti meiri hluti sem setið hefur hér í þessu þingi skuli hafa náð samstöðu og samkomulagi um þessa gerbreyttu stjórnarstefnu að þessu leyti."
Þetta þurfa Sjálfstæðismenn að staðfesta eða hafna. Ég hef ekki orðið var við mikla gerbreytingu á stjórnarstefnu hingað til, svo þeir hljóta að hafna þessari túlkun Helga. Rammaáætluninni sem til stóð að fara í hefur verið flýtt um eitt ár, en sá tímarammi er að mínu mati óraunsær. Annað í gerðum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og iðnaðarmálum virðist sem betur fer vera áfram með þeim skynsama og raunsæja hætti sem Framsókn lagði til fyrir kosningar, en var refsað fyrir, meðal annars vegna innihaldslausra gylliboða og orðagljáfurs eins og Fagra Íslands.
Össur Skarphéðinsson og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar hafa talað ákaft fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar á landinu og hljóta því einnig að vera talsmenn aukinna losunarheimilda, þannig að Helgi Hjörvar virðist vera í stjórnarandstöðu ásamt félögum sínum í græna neti Samfylkingarinnar, sem firrist við samábyrgð í loftslagsmálum í heimóttarskap sínum.
Helgi kom heldur ekki á óvart þegar hann lét sem fyrsti ræðumaður á eftir Samúeli Erni Erlingssyni alveg eiga sig að óska honum til hamingju með jómfrúarræðu sína á Alþingi. Slíka sjálfsagða kurteisi virðist hann ekki temja sér. Hafi hann skömm fyrir.
Réttmætt til skamms tíma ekki langs
8.4.2008 | 11:50
Ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn ætla að hleypa uppbyggðum verðbólguþrýstingi í gegn, þegar áhrif aukningar gjaldeyrisvaraforðans, sem vonandi er verið að ganga frá, eru komin í ljós, er réttlætanlegt að lækka álögur á eldsneyti tímabundið til að lina þau áhrif.
Það má ekki vera nema tímabundið, því álögur á eldsneyti er ekki skattur heldur gjald. Gjald fyrir notkun á vegakerfinu.
Meðan tryggt er að gjaldið renni rétta leið er þetta gjald í eðli sínu sanngjarnt, þótt auðvitað megi alltaf ræða um hvaða útfærsla á þessari gjaldtöku sé best.
Verði farið í lækkanir ber að kalla hlutina réttum nöfnum og bæta Vegagerðinni þá tekjuminnkun sem af þeirri aðgerð myndi hljótast, því verkefni Vegagerðarinnar eru brýn og afar lítil þjóðhagsleg hagkvæmni í því að draga úr framlögum til hennar, svo lengi sem hún fær frið til að vinna að þeim hagkvæmustu, en er ekki sett í einhver gæluverkefni sem engu skila, í arðsemi, öryggi eða byggðasjónarmiði.
Ég er ekki viss um að það sé það sem þessir flutningabílstjórar eru að fara fram á. Ég held að þeir séu að fara fram á að fá afslátt af notkun á vegakerfinu. Því er ég ekki fylgjandi, þótt ég vinni hjá einu stærsta flutningafyrirtæki landsins.
Eins virðist Árni ekki ætla að lina áhrif verðbólgunnar miðað við þessar yfirlýsingar.
Enn og aftur stendur til að gera - ekki neitt...
![]() |
Árni: Gerist ekkert á næstunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nú er það helst í fréttum af ríkisstjórninni að viðskiptaráðherra er að hitta menn og eiga viðræður til að ræða hugmyndir til að slá á verðbólgu. Hugmyndir sem eiga svo eftir að fara í gegnum ríkisstjórn og þingflokka stjórnarflokkanna áður en þær verða lagðar fyrir Alþingi. Það er gott að menn eru hættir að fylgjast bara með og lepja te. Enda ríkisstjórnin að verða ársgömul.
Verst að skilafrestur nýrra mála til Alþingis þennan þingveturinn er þegar liðinn, svo þetta hefur ósköp lítið upp á sig. Í bili amk. Nema til að komast í fréttir.
En manni finnst umhugsunarefni, fyrst þetta er það fréttnæmasta af ríkisstjórninni, hvort þetta sé það eina sem verið er að gera? Hélt að þetta væri eitthvað sem væri stöðugt í gangi og í rauninni alls ekki fréttnæmt. Svo virðist ekki vera. Því miður
Ef satt er, verður maður að anda djúpt og minna sig á að mjór er mikils vísir.
![]() |
Ræða um átak gegn aukinni verðbólgu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sögufalsanir úr Valhöll halda áfram
6.4.2008 | 13:27
Illugi Gunnarsson heldur áfram þeim sögufölsunum sem íhaldið hefur ákveðið að viðhafa í atlögu sinni að Íbúðalánasjóði.
Hélt hann því enn og aftur fram að það hefði verið Íbúðalánasjóður sem hefði haft frumkvæðið af því að koma inn á markaðinn með 90% lánin. Það er ekki rétt. Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar stóð að fara ætti í allt að 90% lán með ákveðnu hámarki og útskýrt að það ætti að gera þegar og ef aðstæður í efnahagslífinu leyfðu það.
Þegar þetta var komið inn í stjórnarsáttmálann, ruku bankarnir inn með 90% lán, 100% og hærra, með miklu hærri hámörkun og án þess að fasteignaviðskipti væru að eiga sér stað. Íbúðalánasjóður fylgdi svo á eftir til að tryggja þeim sem bjuggu utan höfuðborgarsvæðis sama rétt og hinna sem bjuggu í þenslunni fyrir sunnan.
Ég hélt að Illugi væri vandaðri í sínum málflutningi en þetta. En hann er náttúrulega bara að hlýða línunni úr Valhöll.
Er landbúnaðarráðherra að skapa ríkinu skaðabótaábyrgð?
5.4.2008 | 12:38
Með því að heimila innflutning á hráu kjöti eykst hættan á því að ýmsir þeir búfjársjúkdómar sem hrjá bústofna nágranna vorra berist í okkar búfénað.
Það að við séum laus við þessa sjúkdóma er ein helsta ástæða þess hversu lítil lyfjanotkun er í íslenskum landbúnaði, sem er stór þáttur í því hversu heilnæmar afurðirnar eru.
Þegar þessa sóttir kæmu til landsins leggjast þær enn ver á íslenska bústofninn og veikja mun fleiri dýr, þar sem hann hefur engar náttúrulegar varnir gegn þeim. Eins er hætt við að fleiri en ein sótt kæmi til landsins samtímis, þannig að endurtekin sýking gæti lagt enn fleiri en ella, þar sem dýrin væru veik fyrir.
Mér er spurn, þar sem það er ekkert sem knýr á um þessa breytingu, hvort ráðherra sé ekki að skapa ríkinu skaðabótaábyrgð gagnvart því stórtjóni sem hann gæti verið að valda íslenskum landbúnaði með þessari ákvörðun sinni, þá bæði meðan að sóttirnar eru að ríða yfir sem og sá aukni lyfjakostnaður sem henni fylgir óneitanlega?
Ég sé að kratar eru þegar farnir að fagna, en þeir hafa síðan tilraunabúskapur þeirra við Krýsuvík mistókst ávallt barist gegn íslenskum landbúnaði, nú síðast með því að leggja til niðurfellingu á tollum á kjötvörum. Sú tillaga hljómar nógu sakleysisleg og sanngjörn, en það sem viðskiptaráðherra segir ekki eða veit ekki er að aðföng og framleiðsla þessara afurða er niðurgreidd erlendis, eitthvað sem ekki er til að dreifa hérlendis.
Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig þessu mun vinda fram.
![]() |
Landbúnaðarráðherra boðar tímamótabreytingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |