Jeppakallar skapa almannahættu
4.4.2008 | 10:41
Nú hafa einhverjir jeppakallar lokað aðkomunni að olíubirgðastöðinni í Örfirisey og eru með framferði sínu að skapa afar hættulegt ástand.
Ég ætla að leyfa mér þann munað að hafa skilning á því að einhverjir telji sig einhverntíma hafa ástæðu til að mótmæla á þann hátt að þeir vilji stöðva eldsneytisdreifingu, en ég hef afar litla samúð með jeppaköllum í því samhengi, það er lífsstíll, ekki nauðsyn.
En ef menn vilja mótmæla verður að gera á þann hátt að það skapi ekki almannahættu. Að vísu hafa íslensku olíufélögin ekkert að gera með hagvöxtinn í Kína, sem er aðalhvatinn að hækkuðu heimsmarkaðsverði á olíu, verðsamráð OPEC ríkjanna, sem ákváðu nýverið að auka ekki framleiðslu sína né auknar umhverfiskröfur til eldsneytisins sem hefur kallað á endurnýjun og endurbyggingu olíuhreinsistöðva. Olíugjaldið og þungaskatturinn, sem renna óskipt til uppbyggingar vegakerfisins og viðhalds á því eru föst krónutala og vaskinn fá vörubílstjórarnir endurgreiddan. Þannig að það sem þeir eru að fara fram á er, að þeir hætti að borga afnotagjald til vegakerfisins eða að ríkisstjórnin hækki gengi krónunnar, sem ég veit ekki betur en að verið sé að reyna, Seðlabankinn amk.
Verktakar sem eru búnir að gera föst tilboð í verk og fá á sig þessar kostnaðarhækkanir eiga mína samúð, en það eru einmitt þeir sem munu verða hvað verst fyrir þessum aðgerðum jeppakallanna í dag, þar sem verið er að stöðva eldsneytisdreifinguna til þeirra og vélar þeirra munu þá ein af annarri stöðvast í dag.
En þessi mótmæli eru á engan hátt skipulögð þannig að grundvallaröryggismálum sé sinnt. Þeir loka aðkomu slökkviliðs að stöðinni og það má ekki líða, enda um skýrt lögbrot að ræða.
Yfirmenn almannavarna og lögreglan geta ekki setið auðum höndum undir þessu. Þeir verða að sinna öryggishlutverki sínu.
![]() |
Jeppamenn fara hvergi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Best að Geir H Haarde sofni bara aftur
3.4.2008 | 16:23
Ég trúi því ekki upp á heiðursmanninn Geir H Haarde að hann hafi ætlað sér að fara með ósannindi um meinta samtryggingu norrænu seðlabankanna, eins og Bloomberg hefur nú sýnt fram á að eigi sér ekki stoð, eins vel og hún hljómaði nú í mín eyru í gær.
Þetta minnir mig á það þegar ég nennti ekki að lesa eina bókina fyrir íslenskupróf í fjölbraut og svaraði á prófi út frá teiknimyndasögu sem ég las einhvertíma og var um sömu söguhetju. Þar var mér til mikillar gremju ekki farið rétt með og fékk ég athugasemdina "Góð saga, en ekki af Sigurði Fáfnisbana" frá kennaranum. Einkunnin var eftir því, en sem betur fer var þetta ekki eina spurningin á því prófi.
Sem sagt: Góð saga Geir, en ekki af íslenskum raunveruleika.
Geir hefur einfaldlega verið í dýpri svefni, bæði sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra, en mann hefði nokkurn tíma grunað og nú sitjum við uppi með forsætisráðherra sem hefur opinberað að hafa ekkert fylgst með, vaknað af værum blundi og lítur út fyrir að hafa ætlað að reyna að blöffa sig í gegnum stöðu efnahagsmála hér á landi og möguleika Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar til að grípa inn í.
Ætli erlendir fjölmiðlar trúi honum næst þegar hann tjáir sig?
Þessi dæmalausa uppákoma sýnir einnig að hann er orðinn góðu vanur varðandi fjölmiðla, sem eru meira og minna allir hliðhollir honum. Hann er óvanur því að eiga við fréttamenn sem sinna vinnunni sinni og kanna trúverðugleika þess sem hann heldur fram, þannig að hann virðist hafa haldið að hægt væri að fara með hluti samkvæmt minni. Minni sem brást honum illilega.
Manni liggur við að halda að það sé bara best að hann sofni bara aftur og láti Seðlabankanum eftir að bera tíðindi af stöðu, möguleikum og aðgerðum seðlabankans sem og einnig ríkisstjórnarinnar, eins og hann er reyndar þegar byrjaður að gera í tilfelli ríkisskuldabréfaútgáfunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Meðfylgjandi bréf sendi ég borgarstjóra í pósti áðan
2.4.2008 | 21:38
Reykjavík 2. apríl 2008
Borgarstjóri Reykjavíkur
Hr Ólafur F Magnússon
Ráðhúsi Reykjavíkur
150 Reykjavík
Varðandi: Ábyrgð mina á ástandinu í miðborginni
Ágæti borgarstjóri,
Í sjónvarpsfréttum RÚV ohf þann 31. mars 2008 báruð þér mig og aðra Framsóknarmenn þungum sökum.
Hélduð þér því fram að framsóknarmenn beri ábyrgð á því hvernig fyrir miðborginni er komið.með því að draga taum og hygla verktökum og peningamönnum sem eru að láta miðborg Reykjavíkur drabbast niður.
Aðspurður á borgarstjórnarfundi í gær, þann 1. apríl, lýstuð þér því yfir að þér væruð ekki að visa til Óskars Bergssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins með yfirlýsingum yðar.
Meðan þér skýrið ekki mál yðar betur get ég sem framsóknarmaður ekki annað en talið að þér séuð að bera mig þessum sökum. Tel ég það alvarlega árás gegn æru minni, sem er varin að lögum gegn ósönnum ávirðingum.
Óska ég því eftir nánari útskýringum frá yður, hvaða verktökum og peningamönnum, sérhagsmunahópum og flokksmönnum ég hafi verið að hygla og á hvaða hátt ég hafi getað gert það, svo ég geti metið stöðu mína í framhaldinu.
Með vinsemd og virðingu,
Gestur Guðjónsson
Grettisgötu 67
101 Reykjavík
Engar nýjar fréttir um olíuhreinsunarstöð
1.4.2008 | 19:06
Enn og aftur er umfjöllunin um hugsanlega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum á villigötum eins og ég skrifaði um fyrir stuttu.
Hún hefur að megninu til snúist um hlut sem er ekki einu sinni til umræðu. Hvort losunarheimildir séu til staðar fyrir hreinsistöðina. Þær eru ekki til. Það liggur fyrir og ráðherra hefur enn og aftur staðfest það. Ef byggð yrði olíuhreinsunarstöð myndi framkvæmdaaðilinn, sem líklegast væri að leggja niður hreinsistöð af svipaðri stærð, þurfa að koma með losunarkvóta með sér.
Umræðan um umhverfisáhrif olíuhreinsistöðvar á að fjalla um önnur atriði, þá aðallega siglingarnar og þá auka áhættu sem siglingin inn að hreinsistöðinni hefur í för með sér, en einnig losun rokgjarnra efna, svifryks og fastra efna og meðhöndlun þeirra.
Losunarkvótar eru mál rekstraraðilans, ekki ríkisins.
![]() |
Olíuhreinsistöð rúmast ekki innan losunarheimilda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ólafur F telur mig hafa eyðilagt miðborg Reykjavíkur!
31.3.2008 | 23:10
Borgarstjóri Reykvíkinga bar mig og aðra Framsóknarmenn þungum sökum í fréttum RÚV í kvöld.
Ég á víst að bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir miðbæ Reykjavíkur. Ég ku hafa verið að hygla einhverjum ónefndum verktökum og peningamönnum sem eru að láta miðborgina drabbast niður með sérstakri velþóknun minni.
Mér þætti gaman að vita hvaða verktökum og peningamönnum ég hafi verið að hygla og á hvaða hátt ég hafi getað gert það, enda hef ég ekki verið formaður skipulags og byggingarráðs, né nokkur annar Framsóknarmaður nokkurn tíma að því að ég best veit.
Borgarstjóri eða einhver þeirra Sjálfstæðismanna sem bera ábyrgð á honum, verður að tala skýrar, koma með einhverjar skýringar og dæmi um það hvernig ég hafi gert þetta, svo ég geti bætt ráð mitt og reynt að vinda ofanaf þessu klúðri mínu. Hann hefur reyndar gert það ansi dýrt með því að hækka fermetraverðið í 700 þúsund, en það verður líklegast bara að hafa það.
Eða á borgarstjóri kannski ekki við mig?
Við hvern á hann þá?
RÚV sýndi ekki þá fagmennsku að spyrja hann þess í kvöld, né að biðja um dæmi, máli sínu til stuðnings, heldur tekur þátt í "let the bastards deny it" leik Ólafs F og fellur þar með niður á svipað plan og hann. Það er ekki góður staður að vera á, vilji maður láta taka sig alvarlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.4.2008 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Af mönnum og músum
31.3.2008 | 19:33
Geir H Haarde meldaði stórt pass í umræðum um efnahagsmál á Alþingi í dag. Engar tillögur til úrbóta, gerði bara tilraun til greiningar á fortíðinni. Maður hlytur að gera meiri kröfur til ráðherra efnahagsmála þjóðarinnar en svo. Hans hlutverk er að leiða þetta starf, ekki sitja og horfa á og koma með eftiráskýringar. Því miður virðist hann ekki lifa upp í hlutverk sitt, þrátt fyrir miklar vætingar, þám mínar. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í samstarfi við Framsókn hélt ég að flokkarnir væru nokkuð jafnvígir á efnahagsmálin, með Davíð Oddsson, Geir H Haarde og Árna Mathiesen í broddi þeirra fylkingar. Nú er að koma á daginn að það var misskilningur í mér. Því miður. Davíð Oddsson og samstarfsmenn hans í Seðlabankanum hafa verið einir í baráttunni fyrir stöðugleika, meðan ríkisstjórnin hefur hingað til unnið á móti honum með útgjaldagleði sinni.
Ingibjörg Sólrún talað.i um helgina bara um að skoða beri að taka lán til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Gott og vel. Hún fer með völdin í landinu. Hún á að kynna að búið sé að ákveða að gera hitt og þetta. Ómarkvissar vangaveltur eru bara tli að auka á óvissuna og það er það síðasta sem við þurfum þessa dagana. Annars kom hún bara með almennar vangaveltur um að í framtíðinni beri að gera hitt og þetta og stefna beri að hinu og þessu og mikilvægi hins og þessa.
Að öðru leiti engar aðrar tillögur en að menn eigi að fara að hittast og spjalla saman um landsins gagn og nauðsynjar. Það er góð tillaga að stofna vísmannaráð, en til þess hefur ríkisstjórnin haft tæpt ár. Það getur nú ekki verið svo erfitt að fá menn til að hittast og skrafa. Nú er tími athafnanna löngu kominn, þá er fyrst farið að setjast niður og bollaleggja.
Þetta hljómar eins og hjáróm tíst í músum, ekki ábyrg viðbrögð við aðsteðjandi verkefnum sem fyrir löngu er búið að benda á.
Þá er meiri mannsbragur af tillögum Framsóknar, sem strax í sumar varaði við þeim blikum sem voru á lofti og allir þeir sem vildu sjá, sáu. En á það var ekki hlustað, því miður.
Gjaldeyrisvaraforðann verður að auka. Bankarnir eru einfaldlega orðnir það stórir að það verður að gerast. Eðlilegt er að bankarnir greiði fyrir það skjól sem það veitir þeim, sem nemur vaxtagreiðslum af þeim lánum sem taka þarf til þess. Tillögur um að Íbúðalánasjóður létti af bönkunum og verði í raun heildsölubanki fyrir hluta íbúðalána bankanna er eitthvað sem hefur verið í umræðunni í einhvern tíma. Hvort ég fari í afgreiðslu Íbúðalánasjóðs eða viðskiptabanka míns til að ná í þessa öruggu fjármögnun má einu gilda, svo lengi sem Íbúðalánasjóður sé þarna á bakvið. Það er spurning hvort bankarnir eigi skilið að vera skornir svona niður úr snörunni, vegna óábyrgrar innkomu sinnar á íbúðalánamarkaðinn á sínum tíma og verða með því valdir að mjög stórum hluta þeirrar skuldsettu þenslu sem við súpum nú seyðið af. En tillögurnar koma viðskiptavinum þeirra, íslenskum almenningi, til góða og til þess ber að horfa.
Verðbólguna verður að takast á við. Hún má ekki fara af stað umfram það sem þegar er orðið. Hækkanir eru í pípunum og því verður að fara í varanlegar og tímabundnar aðgerðir til að stemma stigu við henni. Þar er helst hægt að ráðast á matinn og eldsneytið, auka samkeppni á bankamarkaði auka verðlagseftirlit og bæta neytendavitund. Fyrr er ekki hægt að lækka vexti, en þeir eru að sliga minni fyrirtækin og heimilin í landinu.
Vonandi tekur ríkisstjórnin þessar tillögur til sín. Þótt fyrr hefði verið. Tími athafna er kominn.
![]() |
Vilja fella niður neysluskatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnarandstaðan í Samfylkingunni
31.3.2008 | 10:16
Stjórnarandstaðan í Samfylkingunni fékk samþykkta ályktun sem er í samræmi við Fagra Ísland-stefnu flokksins, en gengur þvert gegn þeim yfirlýsingum sem þingmenn hans hafa haft um uppbyggingu iðnaðar í landinu, þar sem flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar
"...hvetur ríkisstjórnina til að vinna að atvinnuuppbyggingu sem byggist á þekkingu, hátækni og virðingu við sjónarmið náttúru- og umhverfisverndar. Fundurinn leggur áherslu á að meðan beðið er niðurstöðu rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði ekki farið inn á óröskuð svæði og varar eindregið við því að virkjana- og stóriðjuframkvæmdir hefjist áður en gengið hefur verið frá orkuöflun, línulögnum, losunarheimildum o.fl.
Flokksstjórnarfundurinn telur að við ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir í atvinnumálum með tilstuðlan og atbeina stjórnvalda og almannafyrirtækja verði að taka mið af nútímalegum atvinnuháttum, byggðasjónarmiðum og umhverfisþáttum, þar á meðal skuldbindingum Íslendinga í loftslagsmálum og fyrirheitum um vernd ósnortinna náttúrusvæða"
Eins og fyrr er þetta reyndar innihaldslaust froðusnakk, ekkert er talað um leiðir til að koma þessum vilja flokksstjórnarinnar til framkvæmda. Í hverju á þessi vilji flokkstjórnarinnar að birtast?
Reyndar á ég erfitt með að sjá í hverju ályktunin er frábrugðin stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en fyrst flokksstjórnin telur þörf á að samþykkja ályktun af þessu tagi, hlýtur að felast í henni yfirlýsing um að flokksstjórnin, sem samþykktir ríkisstjórnarþátttöku fyrir Samfylkinguna, telji að ekki sé nægjanlega að gert í þessum málum og hóti eigin ráðherrum og samstarfsflokknum að ef ekki verði staðið við þennan hluta stefnuyfirlýsingarinnar, verði stjórnarsamstarfinu slitið.
Það fyrsta hlýtur að vera að koma starfinu við rammaáætlunina af stað. Maður hefur ekkert heyrt um það og hef ég þó spurst fyrir um það meðal þeirra sem eru í starfshópum rammaáætlunarinnar.
Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með framgöngu fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórnum OR, LV og Rarik að maður tali nú ekki um Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra í framhaldi af þessari ályktun.
Einhvern vegin á ég erfitt með að skilja þessa ályktun sem annað en beina ofanígjöf við Össur Skarphéðinsson, sem hélt því fram á fundi á Húsavík að hann minntist þess ekki að neinn þingmaður Samfylkingarinnar hefði talað gegn álveri á Bakka og sömuleiðis hlýtur Kristján L Möller að klóra sér í hausnum yfir þessari ályktun í ljósi yfirlýsinga sinna um álverið á Bakka.
Vefstjóri Samfylkingarinnar virðist hafa áttað sig á því að ályktunin er bein árás á Bakkaverkefnið, með því að setja inn í fréttina um málið að umfjöllunin hafi aðallega snúist um Helguvík. En ályktunin er skýr og verður erfitt fyrir þingmenn flokksins að aðhafast neitt til að bæta atvinnuástandið fyrir norðan með áframhaldi Bakkaverkefnisins vegna þess að stjórnarandstaðan í Samfylkingunni hefur náð yfirhöndinni í flokknum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Geir opinberar Þyrnirósarsvefn sinn
29.3.2008 | 11:10
Ég er eiginlega alveg kjaftstopp vegna orða forsætisráðherra í gær. Hann segist ætla að fá erlendan ráðgjafa til að fara yfir virkni peningamálastefnunnar.
Ég hélt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi undanfarin misseri keppst við að segja að þeir væru að fylgjast með gangi mála!
Hvað hefur þá falist í þeim orðum fyrst þeir ætla fyrst núna að fara að skoða virkni peningamálastefnunnar. Hefur það bara verið að skoða tölur? Engin greining, ekkert mat, engin hugleiðing á leiðum til úrbóta? Ætlar ríkisstjórnin sem sagt fyrst að fara að byrja að vinna vinnuna sína núna, tæpu ári eftir að hún tók við?
Það var þá kominn tími til, svo ekki sé meira sagt, en hingað til hefur ríkisstjórnin ekkert gert annað en að vinna á móti peningamálastefnunni, með þenslufjárlögum og afar óskýrum skilaboðum, t.d. í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Sjálfstraustið er heldur ekki meira en svo að ríkisstjórnin ætlar að fá erlendan hlutlausan sérfræðing til að skoða málið. Er það vísbending um ósamkomulag á stjórnarheimilinu?
Allt hefur það aukið vantrú á efnahagslífi þjóðarinnar. Hver borgar? Jú, almenningur.
![]() |
Reynt að brjóta fjármálakerfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ljóst að Seðlabankinn ræður ekki við efnahagsmálin einn
28.3.2008 | 13:22
Það er stóralvarlegt mál að nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar skuli hafa komið markaðnum á óvart og að verðbólguspár Seðlabankans skuli ekki standast. Hin jákvæðu viðbrögð við stýrivaxtahækkuninni í upphafi vikunnar eru gengin til baka og eftir standa almenningur og litlu fyrirtækin með enn hærri vaxtabyrði.
Það er greinilegt að hagstærðamælingarnar eru ekki nægjanlega góðar. Oft á tíðum er verið er að vinna með 2-3 mánaða gamlar tölur og virðist engin tilraun gerð til að bæta úr með því að nota vísbendingar, t.d. úr kortaveltu og fleiri slíkar breytur, sem er hægt að fá nánast í rauntíma til að bæta þar úr. Veðurstofan virðist mun betri í langtímaspám sínum, þótt við duttlunga náttúruaflanna sé að etja þar.
Þögn ríkisstjórnarinnar er ekki síður öskrandi og kostar okkur almenning, greiðendur verðtryggðra sem óverðtryggðra lána, stórfé. Ríkisstjórnin virðist ætla Seðlabankanum einum að ná stjórn á efnahagsmálunum, sem hefur aðeins stýrivaxtavopnið og bindiskylduna. Útgjöldin, skattheimtan og stóru fjármunafærslurnar eru aftur á móti á hendi ríkisstjórnarinnar og meirihlutans á Alþingi. Hún virðist ekkert ætla að nota þau tæki til að lækka verðbólguna, bara að lepja te og fylgjast með meðan verðbólgan ríkur upp. Fjármálaráðherra neitar að tjá sig, ekkert heyrist frá púlti forsætisráðherra, en viðskiptaráðherra notar enn sem fyrr hvert tækifæri til að tala málin enn lengra niður með efasemdum um peningamálastefnuna.
Ef viðskiptaráðherra hefur þessar efasemdir á hann ekki að vera að blaðra um þær við fjölmiðla, heldur undirbúa tillögur í samræmi við þær, fá þær samþykktar í ríkisstjórn og koma þeim til framkvæmda. Síendurtekið tal í fjölmiðlum sem engin alvara eða aðgerðir virðist búa að baki er enn til þess fallið að draga úr trúverðugleika efnahagslífsins, sem kostar okkur almenning enn meira.
Mér finnst alveg skoðandi að skoða kosti þess að fara dönsku leiðina, festa vextina við eina mynt eða myntkörfu og leyfa genginu sveiflast innan ákveðinna marka.
![]() |
Fara fram á sameiginlegan fund nefnda á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Árni Mathiesen ræðst gegn löggjafarvaldinu
27.3.2008 | 10:01
Með þessari dæmalaust hrokafullu sendingu til umboðsmanns Alþingis er Árni Mathiesen í mínum augum að viðurkenna að hann hafi ekki viðhaft eðlilega stjórnsýslu við ráðningu héraðsdómarans. Hann veit sem er að álit umboðsmanns Alþingis getur ekki annað en orðið honum óhagstætt og er að undirbúa svör sín við því áliti þegar það kemur.
Hann mun svo segja þegar álitið kemur að hann hafi strax orðið var við hlutdrægni hjá umboðsmanni Alþingis, því sé lítið að marka það og ætlar sér í framhaldinu að gera hann tortryggilegan í augum almennings og reyna að draga þar með úr trúverðugleika álits hans á embættisfærslum sínum.
Um leið er ráðherra í ríkisstjórn Íslands, handhafi framkvæmdavaldsins, að ráðast gegn trúverðugleika einnar af grunnstoðum íslensks stjórnskipulags, löggjafarvaldinu, en umboðsmaður Alþingis er starfsmaður þess.
Þetta er birtingarmynd stóralvarlegrar þróunar sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi, að framkvæmdavaldið er orðið allt of sterkt miðað við löggjafarvaldið og er Árni Mathiesen, með því að leyfa sér þetta algera virðingarleysi, líklegast að endurspegla það viðhorf sem væntanlega er farið að ríkja á þeim bænum.
![]() |
Ráðherra efast um hlutleysi umboðsmanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)