Kvótaálitið - dagarnir líða
26.3.2008 | 10:27
Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að beita þeirri aðferðafræði í viðbrögðum sínum við áliti mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna í kvótamálinu að kynna þau fyrir Sameinuðu þjóðunum um leið og Alþingi og íslenskum almenningi, eigendum auðlindarinnar.
Þingfrestun er áætluð 29. maí, svo það eru ekki margir þingdagar eftir til umræðna um breytingar á lögum í tengslum við álitið. Sýnist þeir vera 23. Á þeim fundum þurfa að fara fram 3 umræður um lagabreytingar, sem munu verða hávaðalausar, sama hvernig tillögurnar verða. Eðlilega eiga ráðuneytismenn að vanda sig, en tíminn er að renna út.
Það vekur með manni ugg um að viðbrögðin verði neikvæð, svörin verði þau að lögsaga dómstólsins sé ekki bindandi og mikil áhersla verði lögð á að ekki hafi verið einhugur í nefndinni og rök þeirra sem skiluðu séráliti verði týnd til og gerð að aðalatriði. Málið fari sem sagt ekki til Alþingis yfirhöfuð og engar breytingar verði gerðar.
Hvaða vægi fá orð Íslendinga um mannréttindamál annarra þjóða ef við bregðumst við með þeim hætti? Af hverju ættu Kínverjar að hlusta á okkur, af hverju ættu þjóðirnar fyrir botni Miðjarðarhafs að hlusta á okkur ef við hlustum ekki á þær stofnanir sem erum sjálf aðilar að og vísum sífellt til?
Í þessu máli sé ég bara eina lausn í grunninn. Í fyrsta lagi að farið verði að tillögu Framsóknar og sameign þjóðarinnar á auðlindum sem ekki eru þegar í einkaeigu verði bundin í stjórnarskrá, þmt fiskurinn í sjónum og afgjald af nýtingu þeirra renni í auðlindasjóð. Í öðru lagi er ekki hægt að bregðast við álitinu á neinn annan hátt en með fyrningu í einu eða öðru formi.
Helst sæi ég fyrir mér að byggðakvótinn og línuívilnun verði lögð af og sett inn í heildaraflamarkið. Ákveðið hlutfall, t.d. 3%, lægra hlutfall en sem nemur afskriftum í viðskiptum, er lagt til auðlindasjóðs árlega. Ríkið býður þann hluta út á hverju ári. Byggðasjónarmiðum yrði sinnt í gegnum uppboðsleiðina með því að setja "fegurðarstuðla" á tilboðin. Tilboð útgerðaraðila sem myndi skuldbinda sig til að gera út á línu frá köldu svæði eins og Bakkafirði og vinna aflann þar yrði margfaldað með mun hærri stuðli en útgerðaraðila sem ætlaði að veiða í botnvörpu og landa honum í Reykjavík eða erlendis, þegar tilboð yrðu borin saman. Þessar reglur gætu verið breytilegar frá ári til árs, eftir því hvernig aðstæður eru hverju sinni.
Útgerðir geta ómögulega sótt skaðabætur vegna fyrningarinnar, sé hún skapleg, enda ekki eðlilegt að kvótaeign sé nánast sú eina eign sem ekki þarf að afskrifa og innlögn byggðakvótans og línuívilnunarinnar gerir hvort eð er meira en að jafna núvirt "tap" útgerðarinnar vegna fyrningarinnar.
Þær tekjur sem auðlindasjóður fengi í gegnum útboðið væru nýttar til nýsköpunar, atvinnuþróunar, eflingar þekkingarsamfélagsins á Íslandi og annarra þjóðþrifaverka.
Auðvitað er hægt að hugsa sér aðra varíanta á þessari lausn, en einhvern vegin svona sé ég þetta fyrir mér.
Seðlabankinn stendur sína plikt - hvar er ríkisstjórnin?
25.3.2008 | 10:40
Eftir makalausan blaðamannafund fyrir páska, þar sem stefnuleysi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum var opinberað, virðist trúverðugleiki hennar hafa beðið svo mikinn hnekki að réttast hefur verið talið að Seðlabankinn sé látinn tilkynna um fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem eru yfirhöfuð í sömu átt og aðgerðir Seðlabankans.
"Þá segir Seðlabankinn að ríkissjóður muni í vikunni gefa út ríkisbréf með gjalddaga eftir um níu mánuði"
Nema að Seðlabankinn sé tekinn við völdum í landinu?
Í það minnsta bregst markaðurinn vel við þessum aðgerðum Seðlabankans, eins illa og hann brást við blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.
Þvílíkt skaðræði sem þetta stefnuleysi er öllum almenningi. Að Seðlabankinn neyðist til að fara með stýrivextina í 15% er hrein vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina. Ég er sannfærður um að staðan væri allt allt önnur, ef ríkisstjórnin hefði ekki farið á svona rosalegt eyðslufyllerý á hveitibrauðsdögunum og aukið útgjöld ríkissjóðs um 20% og komið með jafn óskýrar yfirlýsingar í tengslum við kjarasamningana..
![]() |
Stýrivextir hækka í 15% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kill them with kindness
24.3.2008 | 12:12
Einhvern vegin held ég að það hafi lítið upp á sig að sniðganga ólympíuleikana til að bæta mannréttindaástandið í Kína. Kínversk stjórnvöld líta greinilega enn á landið sem einangrað og það sem þeir geri komi engum við. Hugsanlega er það enn einangrað, þrátt fyrir stóraukin erlend samskipti. Ég veit það ekki. En það að þeir rjúfi útsendingar vegna þess að eitthvað þeim óþægilegt komi fram, er sterk vísbending um að andleg einangrun stjórnarherrana sé umtalsverð. Sniðgöngu þjóða er hægt að matreiða á svo marga vegu. Það sé vanþekking, virðingarleysi og ég veit ekki hvað. Það yrði bara til að herða þá upp sem vilja halda einangruninni auka hana.
Besta meðalið til að bæta mannréttindi í Kína er ekki að einangra landið, heldur að kynna landsmönnum það sem er í raun að gerast úti í hinum stóra heimi og hver viðhorf hins stóra heims sé gagnvart því sem er að gerast í þeirra eigin landi.
Ef menn vilja gera eitthvað táknrænt í tengslum við ólympíuleikanna er t.d. að einn íþróttamaður frá hverri þjóð haldi á litlum fána Tíbeta á setningarathöfninni. Ekki fara þeir að rjúfa útsendingu þaðan.
En annars að koma fram við þá eins og við viljum að þeir komi fram við aðra, af virðingu. Um leið á að nota hvert tækifæri til að spyrja þá út í hvernig ástandið sé í hinum og þessum málum og reyna að fræða kínverskan almenning um almenn viðhorf heimsins til mannréttindamála. Á endanum síast viðhorfin inn, sama hvað æðstu herrar halda og vilja. Þar hafa íslenskir fulltrúar kannski ekki staðið sig nægjanlega vel. Ég hef lítið heyrt af spurningum um mannréttindi þegar fulltrúar landanna hittast.
![]() |
Vilja að Danir sniðgangi Ólympíuleikana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er röng stefna betri en engin stefna?
22.3.2008 | 12:48
Ég held að Árni Páll Árnason hafi rétt fyrir sér í því að það myndi strax skapa meiri tiltrú á íslensku efnahagslífi, ef Ísland segðist ætla að stefna að Evrópusambandsaðild. Þá væru ríkisstjórnarflokkarnir þó í það minnsta með einhverja stefnu í efnahagsmálum, hvort sem hún væri rétt eða röng.
Í dag blasir við að ríkisstjórnin hefur enga stefnu í efnahagsmálum, væntanlega vegna þess að þeir koma sér ekki saman um hvert beri að stefna. Yfirlýsingar Árna Páls og Ágústar Ólafs Ágústssonar varaformanns Samfylkingarinnar um að aðildarumsókn myndi auka aga í stjórn efnahagsmálam lýsir því ótrúlega viðhorfi að það þurfi slíka gulrót til að menn axli ábyrgð í efnahagsmálum. Að fyrst ekki sé verið að stefna beinustu leið í þá átt sem Samfylkingin vill, þurfi þau ekki að axla ábyrgð. Ætli þeir séu aldir upp við að fá alltaf nammi þegar þeir voru búnir að taka til í herbergjunum sínum og aldrei hafi verið tekið til annars?
Það sama myndi gerast, ef ríkisstjórnin segði skýrt að hún ætlaði að halda flotgengisstefnunni áfram og styrka Seðlabankann í sínu hlutverki. Það er að vísu ótrúverðugt, þar sem ríkisstjórnin hefur unnið gegn þeirri stefnu undanfarið og þá sérstaklega í fjárlagagerðinni.
Það sama myndi einnig gerast, ef ríkisstjórnin segði skýrt að hún ætlaði að skoða upptöku fastgengisstefnu eða annars forms tengingar við aðra mynt eða myntir, þegar stöðugleika væri náð.
Það sem vantar er stefna. Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar rýrir trú á efnahagslífi þjóðarinnar og er því almenningi dýr og væri manni næst að halda að röng stefna væri betri en engin stefna. Henni væri þá amk hægt að breyta við tækifæri, t.d. eftir næstu kosningar.
Barnaleg ofureinföldun Lúðvíks ekki til að bæta ástandið
20.3.2008 | 09:18
Yfirlýsing Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar um að menn hefðu bara um tvennt að velja, krónu eða evru, á morgunvakt Rásar 1 í gærmorgun, er ofureinföldun á þeim valkostum sem við höfum.
Vissulega er innganga í myntbandalag Evrópu með inngöngu í ESB einn möguleikanna sem hugsanlega standa okkur til boða, þegar þar að kemur. En að lýsa ástandinu núna sem afleiðingu þess að við séum með sjálfstæðan gjaldmiðil og eina leiðin út úr því sé að ganga í ESB er einfaldlega ekki rétt og það vekur furðu að þingflokksformaður láti svona út úr sér og ekki til þess fallið að auka trú á Íslandi, frekar en "ekki gera neitt" stefna ríkisstjórnarinnar.
Það er rétt að þessir háu vextir koma heimilunum illa og gengið hefur sveiflast frá því að gengi hennar var sett á flot 1991. En þetta ástand er afleiðing af mikilli hækkun kaupmáttar, kannski meiri hækkun en framleiðsla og útflutningur hefur getað staðið undir. Hann hefur að hluta verið tekinn að láni í kjölfar óábyrgrar innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn. Nú er jafnvægi kannski að nást í formi gengisfellingar og verðbólguskots, almenningur borgar sem sagt fyrir eyðslufyllerýið.
En Lúðvík leyfir sér að hoppa yfir marga kafla í bókinni í blindu ESB trúboði. Til dæmis getur hann ekkert sagt um hvernig hann ætli að ná stöðugleika í efnahagslífið, frekar en ríkisstjórnin. Hún meldaði pass í gær og markaðirnir brugðust við, með lækkun.
Fyrir það fyrsta þarf fyrst að ná stöðugleika áður en menn geta tekið stöðuna og ákveðið hvenær hægt sé að ræða peningastefnuna, hver verðbólgumarkmiðin eiga að vera, eigum við að halda flotkrónu áfram, við hvaða gjaldmiðla eigi að miða, verði aftur farið í myntkörfustýringu eða hvaða gjaldmiðil ætti að taka upp velji menn þá lausn.
Allt þetta þarf að fara gaumgæfilega yfir, án sleggjudóma, því þeir sem segja að gera eigi þetta og hitt, byggja þá skoðun sína á sandi, ekki yfirvegaðri greiningu á þeim möguleikum sem fyrir eru.
Manni virðist umræðan vera svo ofsalega lík umræðunni um ensku knattspyrnuna. Menn fara að halda með liði og er alveg sama hvernig hin liðin spila, má ekki hrósa þeim. Hvort evran sé besta liðið, flotkróna eða tenging við aðra mynt veit ég ekki. Ég ætla ekki að taka afstöðu fyrr en ég hef forsendur til þess. Held að ég sé ekki einn með þá skoðun.
![]() |
Fjármálastofnanir skortir traust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spurning um tímasetningu
19.3.2008 | 15:46
Framsókn er búið að skilgreina samningsmarkmið, einn flokka, og greinilegt að flokkarnir virðast ekki ráða við að taka afstöðu í spurningunni um ESB. Þess vegna er afar gott að þjóðin svari því hvort málið sé á dagskrá.
Að fengnu svari við því hvort fara eigi í aðildarviðræður, þarf þá ekki að karpa um það. Í bili amk. Verkefni stjórnmálamannana er svo að leysa sem best úr því verkefni.
Reyndar tel ég að ekki eigi að spyrja þjóðina þessarar spurningar fyrr en efnahagsmálin eru komin í jafnvægi, en það verður ekki fyrr en að nokkrum misserum liðnum. Við erum ekki í neinni samningsaðstöðu fyrr.
![]() |
SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vantrú á Íslandi kostar almenning stórfé
18.3.2008 | 09:46
Af fréttum erlendis frá að dæma, virðist það ekki vera vantrú á viðskiptabönkunum sem er að valda þessu gengissigi. Það virðist vera vantrú og vantraust á íslensku efnahagslífi í heild sinni.
Af hverju ætli það sé?
Er það vegna þess að greinendur sjá að Seðlabankinn rær einn á móti verðbólgunni?
Er það vegna þess að ríkisstjórnin setur fjárlög þar sem flóðgáttir eru opnaðar og útgjöld aukin um 20%, sem vinnur beint á móti Seðlabankanum?
Er það vegna þess að ríkisstjórnin aðhefst ekkert til að styrkja Seðlabankann, t.d. með aukningu gjaldeyrisvarasjóðs?
Er það vegna þess að skuldir þjóðarbúsins í heild sinni mælast mikilar, m.a. vegna þess að fyrirtæki eru ekki að skrá erlend eignasöfn sín hér á landi, vegna skattareglna?
Er það vegna þess að í tengslum við kjarasamninga gefur ríkisstjórnin út yfirlýsingu sem skilur alla eftir í lausu lofti, vegna þess að engar útfærslur eða tímasetnignar á aðgerðum liggja fyrir, ss á stimpilgjöldum og breytingu gjalda?
Er það vegna þess að ráðherrar tala út og suður um framtíðarsýn sína í peningamálum og engin skipulögð umræða fer fram um málið af hálfu ríkisstjórnarinnar?
Er það vegna þess að við blasir að ríkisstjórnin kemur sér ekki saman um aðgerðir til að bregðast við vandanum?
Er það vegna þess að það eru tvær eða kannski tólf ríkisstjórnir í landinu og kalla megi fundina í stjórnarráðinu ráðherrafundi en ekki ríkisstjórnarfundi, enda tala ráðherrar út og suður um öll mál?
Ég veit ekki hvað af þessu vegur þyngst, en almenningur þarf að borga fyrir það svo mikið er víst.
![]() |
Gengið sígur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þjófnaður frá þeim sem minna mega sín
15.3.2008 | 15:25
Ég er sáttur við að borga skatt til að tryggja almenna velferð samfélaginu. Í því felst meðal annars jöfn tækifæri til menntunar, heilsugæslu og annarar þjónustu sem greidd hefur verið úr sameiginlegum sjóðum í gegnum ríki og sveitarfélög. Sömuleiðis félagsþjónusta, stuðningur og framfærslutrygging fyrir þá sem hallast standa. Það geri ég í trausti þess að vel sé farið með peningana.
Þess vegna svíður mér rosalega að sjá mínar skatttekjur fara til þeirra sem misnota kerfið með því að falsa hjúskaparstöðu sína og gerast með því hreinir og klárir þjófar. Það lítilmannlegasta við þann þjófnað er að það er verið að stela af þeim sem verst standa í samfélaginu, þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda.
Allir þekkja örugglega fjölda dæma um fólk, þar sem móðirin er skráð einstæð móðir en heimilisfaðirinn er skráður annarsstaðar. Allar bætur hækka, leikskólagjöld lækka og komist er framhjá biðröðum í kerfinu. Þessi svik geta numið hundruðum þúsunda og milljónum á ári, ef börnin eru mörg. Virðist fólk gera þetta jafnvel þótt afkoma þess virðist bara bærileg, bílarnir fínir og einbýlishúsin stór og endurnýjuð reglulega. Við þessu verður að bregðast.
Ég bar þetta upp við Árna Magnússon, sem þá var félagsmálaráðherra. Sveið honum þetta alveg eins og mér og sagðist ætla að skoða leiðir til að sporna við þessu. Seinna, þegar Jón Kristjánsson var orðinn ráðherra, bar ég málið undir aðstoðarmann hans og sögðust þau vera að skoða leiðir, t.d. að hægt yrði að tilkynna þjófnaðinn nafnlaust eins og hægt er hjá skattinum, en þar sem málið féll þá undir tvö ráðuneyti og fara þyrfti vandlega yfir alla lögfræði í málinu, gekk það hægt, jafnvel þótt fullur vilji væri til staðar á báðum stöðum.
Nú er búið að sameina þá málaflokka sem þetta snýst helst um í eitt félags- og tryggingamálaráðuneyti, svo það ætti að vera hægari heimatökin fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að taka á þessu máli og stýra því örugglega í höfn. Ég vona svo sannarlega að hún geri það, svo þeir peningar sem ætlaðir eru í velferð fari í ríkari mæli til þeirra sem þurfa á henni að halda og hægt sé að gera betur við það fólk. Ekki veitir af.
The million dollar question
14.3.2008 | 13:18
Fyrirhugað álver í Helguvík mun losa 400.000 tonn CO2eq/ári miðað við umhverfismatsskýrslu Norðuráls.
Meðalverð losunarheimilda CO2 á Evrópumarkaði er 22-25 pr tonn CO2eq.
Ef Helguvík fær úthlutað losunarheimildum af kvóta Íslands er verðmæti þeirrar úthlutunar sem sagt 1.000.000.000 kr/ári. Einn milljarður króna.
Er skrítið að Helguvíkurmenn geri allt til að vinna kapphlaupið við Húsavík og reyni að fá sem flesta krossa í kladdann til að geta talist vera komnir lengra í undirbúningi, sem veitir forgang við úthlutun losunarheimilda og tryggja sér þennan byggðastyrk?
Ísland hefur ekki losunarheimildir til nema annars álversins. Valið og valdið er úthlutunarnefndar losunarheimilda. Formaður þeirrar nefndar er skipaður af iðnaðarráðherra, en kærum mun umhverfisráðherra sinna.
Þannig að allir þræðir málsins eru í höndum Samfylkingarinnar. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig hún bregst við og hvað er að marka það sem hún hefur sagt að hún ætli að gera og sagst geta gert.
![]() |
Framkvæmdir hafnar í Helguvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Virðing VG fyrir mannslífum
14.3.2008 | 09:18
Það er bankað á dyrnar. Til dyra kemur grátbólgin faðir. Inni heyrast reglulegar grátkviður þriggja barna lögreglukonu sem drepin var við skyldustörf í gærkvöldi. Hún gat ekki varið sig þegar hún lenti í vopnaðri árás.
"Hvað vilt þú?"
"Sæll. Ég heiti Atli Gíslason, dómsmálaráðherra, og vill votta þér samúð mína. Eins og þú líklega veist hef ég sagt að mannslífum sé fórnandi áður en mér þætti réttlætanlegt að íhuga að bæta stöðu lögreglunnar. Nú hefur konan þín fórnað sínu lífi og í framhaldinu mun ég skoða hvað hægt sé að gera til að gera lögreglunni kleyft að verja sig. Þannig að þetta var alls ekki til einskis hjá henni. Vonandi fer þetta allt vel hjá ykkur. Veriði blessuð"
Ég ætla rétt að vona að þessi samskipti þurfi aldrei að eiga sér stað. Þú getur lagt þitt lóð á vogarskálina með því að kjósa ekki fólk með þessi viðhorf.