Peningum kastað út um gluggann í óðagoti

Það er gott að til standi að fara í þessar framkvæmdir, en ég vissi reyndar ekki til þess að lög um Samgönguáætlun gerðu ráð fyrir viðaukum og ég hefði áhuga á að vita hvaða framkvæmdum er ýtt aftar í forgangsröðina í leiðinni og á hvaða forsendum.

Þessi gjörningur er nefnilega enn ein staðfestingin á því öngstræti vegamálin eru í og hafa verið í. Forgangsröðun framkvæmda virðist algerlega háð duttlungum þingmanna og ráðherra, meðan málefnalegar forsendur mega éta það sem úti frýs.

Framkvæmdir geta að mínu mati komist inn í Samgönguáætlun á þrennum forsendum:

  • Arðsemi, reiknuð sem innri vextir að teknu tilliti til framkvæmdakostnaðar, viðhaldskostnaðar, aksturskostnaðar og slysakostnaðar,
  • umferðaröryggis, þar sem slysasvæði, svokallaðir svartir blettir eru skilgreindir og þeim útrýmt skipulega og
  • á samfélagsforsendum, þar sem verið er að sameina svæði í stærri atvinnusvæði, rjúfa einangrun byggðalaga og aðrar slíkar ástæður liggja til grundvallar.

Eðlilega ættu þau verkefni sem auka annað hvort umferðaröryggi mest, eru arðsömust eða bæta samfélagsmynstrið mest að hljóta mestan forgang við afgreiðslu Samgönguáætlunar. Hins vegar hefur aldrei verið gerð grein fyrir þessum þáttum í þeim Samgönguáætlun sem hingað til hafa verið samþykktar. Ákvörðunum um forgangsröðun er leyft að orsakast af duttlungum ráðherra og alþingismanna.

Vinnulagið hefur verið þannig að þess sé gætt að sem jafnast fjármagn renni til hvers kjördæmis og svo setjast þingmenn allra flokka hvers kjördæmis niður og útdeila spottum hér og spottum þar, brú hér og ekki þar. Fagleg forgangsröðun byggð á málefnalegum forsendum er að engu höfð og erum við skattgreiðendur hafðir að fíflum með þessum vinnubrögðum.

Í þessu sambandi eru allir flokkar sekir og við skattgreiðendur þurfum að horfa upp á að arðsömustu framkvæmdunum er frestað, hættulegustu blettirnir fá að drepa áfram og einangruðustu svæðin að vera áfram einangruð til að menn geti baðað sig í kastljósinu eins og þeir félagar gerðu á blaðamannafundinum í morgun.

Er einkaframkvæmd skynsamleg?

Þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármagn í þessar framkvæmdir á samgönguáætlun verða báðar þessar framkvæmdir í einkaframkvæmd.  Hluti ríkisins verði greiddur með jöfnum árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur. Ég veit ekki hvort það standist lög að skuldbinda ríkissjóð með þessum hætti, en ég er bara aumur verkfræðingur svo ég á líklegast bara að þegja.

En hvað kostar þetta óðagot okkur skattgreiðendur?

Ríkissjóður er skuldlaus og býðst mun betri vaxtakjör en nokkur af þeim lánastofnunum sem starfa hér á landi. Einnig hlýtur ávöxtunarkrafa sjóðseigenda að vera meiri en sem nemur þeim vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast. Ef Suðurlandsvegurinn kostar 10 milljarða og Vaðlaheiðargöngin 6 milljarða, er víxillinn 16 milljarðar. Hvert prósent í lakari vaxtakjörum er því 160.000.000 krónur á ári í aukinn kostnað fyrir okkur skattgreiðendur. Munurinn á vaxtatryggingaálagi ríkissjóðs og bankanna hefur verið um 3% undanfarið, svo þetta slagar hátt í hálfan milljarð á ári. Það má bæta vegakerfið talsvert fyrir þá peninga.

Við skulum heldur ekki gleyma því að meirihluti kostnaðar við vegaframkvæmdir fer í gegnum opinber útboð til einkaaðila. Hönnun, framkvæmd og eftirlit. Þannig að það er bábilja að halda því fram að með einkaframkvæmd sé verið að nýta kosti og hagkvæmni einkaframtaksins umfram hefðbundið framkvæmdaform. Það eina sem er öðruvísi er fjármögnunin og þar hefur ríkissjóður yfirburði yfir einkaaðilana.

Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp þessi ummæli núverandi samgönguráðherra, sem hefur nú þurft að beygja sig gegn betri vitund fyrir ásælni fjármagnseigenda sem fá með þessu að koma miklum fjármunum í góða og þægilega vinnu á kostnað okkar skattgreiðenda.

Þetta var dýr blaðamannafundur. Það verð ég að segja, þótt framkvæmdirnar sem slíkar séu góðar.

Uppfært 13:12: Sé að það á bara að tvöfalda hluta af leiðinni austur og eyða alls 10-11 milljörðum, sem gerir 300 milljóna árlegan aukakostnað vegna einkaframkvæmdarinnar, ekki 500 milljarða. Nóg er það samt.


mbl.is Tvöföldun hefst 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaup um losunarkvótann

Að fengnu þessu framkvæmdaleyfi virðist hægt að hefja byggingu álversins í Helguvík.

Þótt ekkert standi í vegi fyrir byggingu álversins sem slíks, liggur samt ekkert fyrir um hvort rekstraraðilum verði mögulegt að reka það. Til að reka álver þarf nefnilega losunarkvóta og smámuni eins og orku heim að dyrum.

Úthlutunarnefnd losunarheimilda og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, að kærðri niðurstöðu nefndarinnar, er í afar þröngri stöðu ef hún ætlar sér að taka fleiri sjónarmið en fyrstur kemur fyrstur fær í sinni úthlutun, þegar hún þarf að velja milli Helguvíkur og Húsavíkur í úthlutun sinni. Það er erfitt að sjá að byggðasjónarmið og umhverfisáhrif þeirrar orkuöflunar sem þarf við útdeilingu þessara gæða fái nokkru ráðið, að útgefnu þessu framkvæmdaleyfi, en í lögum um losun gróðurhúsalofttegunda segir:

"Umsækjendur sem hafa þegar starfsleyfi og/eða eru komnir langt í undirbúningi framkvæmda skulu njóta forgangs við ákvörðun um úthlutun losunarheimilda í áætlun úthlutunarnefndar umfram aðra sem skemmra eru komnir í undirbúningi."

Þetta er mergurinn málsins og ástæða þessa hamagangs í Suðurnesjamönnum. Sá aðili sem kominn er lengra í undirbúningi nýtur forgangs. Þannig að jafnvel þótt framkvæmdaleyfið sé byggt á grunnum gögnum eins og umhverfisráðherra heldur fram, er Helguvíkurverkefnið nú komið með fleiri krossa í kladdann en Húsavík, jafnvel þótt ekki sé búið að tryggja orku, flutningsleiðir eða útkljá kærumál. Hvaða vægi þessi kross hefur á eftir að koma í ljós.

En þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Húsvíkinga. Sérstaklega þegar ríkisstjórnin talar út og suður um málið. Engin stefna. Maður fer að halda að það séu 12 ríkisstjórnir í þessu landi.


mbl.is Framkvæmdaleyfi vegna Helguvíkurálvers afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífrænn landbúnaður á Íslandi

Meðan ég var í námi í Danmörku fyrir rúmum áratug voru lífrænar afurðir að ryðja sér til rúms af krafti. Er talsvert stór hluti framleiðslunnar í dag lífrænn og mikil og góð eftirspurn eftir vörunum. Slíku er ekki til að dreifa hér á landi. Af hverju ætli það sé?

Í Evrópu er jarðnæði þaulnýtt, mikil áburðar- og eiturefnanotkun. Það hefur haft það í för með sér að umhverfisáhrif landbúnaðar á ár, vötn, strandsvæði og sjó eru merkjanleg og oft á tíðum mikil. Það sem þó hefur haft mest áhrif á umræðuna um landbúnaðinn víðast hvar er mengun drykkjarvatns af hans völdum, enda drykkjarvatn sótt í grunnvatnið undir túnum og ökrum bænda.

Engum af þessum vandamálum hefur verið til að dreifa hér á landi.

Við verðum að átta okkur á því að lífræn ræktun í Evrópu er að mestu leiti drifin áfram af nauðsyn umhverfisins og er því styrkt sérstaklega af samfélaginu vegna þess, en er ekki drifin áfram af óskum markaðarins eða lýðheilsuástæðum.

Umræða um að lífrænt ræktaðar vörur séu heilnæmari en aðrar hefur ekki farið eins hátt erlendis og umræðan um umhverfisáhrif ræktunarinnar. Reyndar hef ég heyrt að ósannað sé að þær séu heilnæmari, en mér finnst lífrænt ræktað grænmeti yfirleitt bragðmeira og lystugra og ætla að leyfa mér að trúa því að það sé hollara en afurð úr þauleldi. En sú trú mín getur ekki réttlætt samfélagsútgjöld til að ýta undir lífræna ræktun, en mér er að sjálfsögðu frjálst að borga meira fyrir lífræna vöru vegna þessarar afstöðu minnar. Samfélagsútgjöld verða að byggja á staðreyndum.

Á Íslandi er lífræn ræktun eingöngu drifin áfram af óskum markaðarins og því gengur innleiðing lífrænnar ræktunar hægt. Hefðbundnar íslenskar landbúnaðarvörur eru líka framleiddar á hátt sem er afar nálægt þeim lífræna og ég hef oft spurt mig hvort gera eigi sömu kröfur til vottunar á lífrænni ræktun um allan heim? Hvort hefðbundinn íslenskur landbúnaður byggi ekki í raun á lífrænni ræktun, þegar tekið er tillit til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að notkun tilbúins áburðar hér hafi valdið umhverfinu skaða, lyfjanotkun er í algeru lágmarki og eiturefnanotkun hverfandi?

Verða kröfurnar ekki að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað?


mbl.is Vantar peninga til að ýta undir lífrænan búskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu vextir lækka að eyddri óvissu um kjarasamninga?

Einhvernvegin skyldi maður ætla að sú óvissa sem eytt hefur verið nú þegar búið er að samþykkja kjarasamninga SA og ASÍ, valdi því að nú geti Seðlabankinn farið að lækka vextina. Nema DO treysti ekki Ögmundi Jónassyni til að gera svipaða samninga og ASÍ fór í. Hann verður að gera það.

Um leið verður ríkisstjórnin að fara í tímabundnar sértækar aðgerðir til að milda þá losun á verðbólguþrýstingi sem óhjákvæmilega verður í kjölfar vaxtalækkunarinnar. Væri hægt að fara í lækkun á virðisaukaskatti, tímabundna lækkun olíu- og bensíngjalds eða aðrar kostnaðarlækkandi aðgerðir. Þær mega alveg vera tímabundnar og líklegast er best að þær séu það. En nú verður ríkisstjórnin að spila með Seðlabankanum og lækka vextina.

Annað er ábyrgðarleysi, skaðlegt heimilunum og fyrirtækjunum.


mbl.is Kjarasamningarnir samþykktir með miklum meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agaleysi í efnahagsstjórninni viðurkennt

Ágúst Ólafur Ágústsson sagði í Silfri Egils í dag að ef við sæktum um ESB aðild, myndi aginn í hagsstjórninni aukast.

Varaformaður Samfylkingarinnar viðurkennir sem sagt að aginn í efnahagsstjórninni sé ekki nægur. Það er nákvæmlega það sama og Framsókn hefur bent á. Að halda því fram að afgangur á fjárlögum sé merki um aga og aðhald, meðan að allir aðrir í kringum horfa í útgjöld ríkisins þegar talað er um aðhald er hreint bull.

Útgjöld ríksins jukust með síðustu fjárlögum um 20%. Það er hrein firra að halda því fram að það sé aðhald. Það þarf engan hagfræðing til að sjá það.

Ágúst endurtók staðhæfingu Árna Páls Árnasonar um að yfirlýsing um aðildarumsókn að ESB myndi ein og sér bæta stöðu okkar. Líklegast er það rétt. En það væri ekki vegna þess að innganga okkar í ESB væri endilega besta lausnin. Það væri vegna þess að þá væri ríkisstjórnin að sýna að hún hefði þó að minnsta kosti einhverja stefnu.

Í dag hefur ríkisstjórnin enga stefnu til breytinga og það er það sem er ótrúverðugt.

Ef gefin yrði út yfirlýsing um að við ætluðum að halda krónunni áfram en breyta peningamálastefnunni, t.d. með breyttum verðbólgumarkmiðum, auknum gjaldeyrisvaraforða eða hvað eina af þeim atriðum sem verið hafa í umræðunni, myndi það einnig hafa jákvæð áhrif.

Þegar við erum svo komin í þá stöðu að geta tekið ákvörðun um meiri grundvallarbreytingar, er um að gera að skoða alla möguleika. En fyrst þarf að ná stöðugleika og hann næst ekki nema með aðgerðum sem byggja á einhverri stefnu og aga til að framfylgja henni. Það hefur ekki verið tilfellið í tíð núverandi ríkisstjórnar og það hefur varaformaður Samfylkingarinnar nú viðurkennt.


Gott svo langt sem það nær

Ríkisstjórnin er að gera gott i því að halda þessa kynningarfundi og maður er ánægður að sjá hverja hún er að fá í lið með sér.

En ætli hún að vera trúverðug í sínum málflutningi verður hún að ráðast að því sem maður heyrir að erlendir aðilar hafa helst áhyggjur af, að stærð Seðlabankans miðað við fjármálafyrirtækin sé ekki nægjanleg og þar með geta hans til að hlaupa undir bagga.

Hátt skuldatryggingarálag skuldlauss ríkissjóðs hlýtur að vera vitnisburður um það. Maður sér amk ekki aðra skýringu sem heldur vatni.

Er því bráðnauðsynlegt að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Með lántöku ef ekki vill betur. Hver upphæðin á að vera hljóta sérfræðingar bankans að geta metið, að minnsta kosti treysti ég ekki VG til að meta það, eins og þau virðast telja sig umkomin að gera.


mbl.is Ráðherrar ræða íslensk efnahagsmál í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að menn vilji ekki saga greinina undan sér

Ég ætlaði að blogga ærlega um þessa fáránlegu yfirlýsingar Skúla Thoroddsens í gær, en sem betur fer gerði ég það ekki, því hann er greinilega bara að lýsa sinni persónulegu skoðun, ekki skoðun SGS.

Enda væri það fáránlegt að SGS hefði þá skoðun að leggja ætti niður landbúnaðinn og hætta úrvinnslu matvæla hér á landi.

Ætti það að vera skoðun þeirra, óháð því hvort innan vébanda SGS sé matvælavinnslufólk eða ekki.

Hinn sjálfstæðisafsalandi kratismi sem vill ekkert gera sjálfur og fá allt frá öðrum, þá helst útlöndum, má ekki fá að vaða óáreittur uppi og það fékk hann ekki að gera í þessu tilfelli, sem betur fer.


mbl.is SGS segjast skilja bændur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin snöggkælir húsnæðismarkaðinn

Um leið og Geir H Haarde segir í einu orðinu að hita þurfi hagkerfið, t.d. með stóriðjuframkvæmdum til að ná snertilendingu stígur hann svo fast á bremsurnar í hinu orðinu að húsnæðismarkaðurinn snöggkólnar. Er það ekki til bæta á afleiðingar lánsfjárþurrðar bankanna.

Í yfirlýsingu um aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga þann 17. febrúar var boðað afnám stimpilgjalds til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta skipti og húsnæðissparnaðarkerfi. Síðan hefur ekkert meira komið fram. Ekkert nánar um fyrirkomulagið, ekkert um hvenær megi eiga von á breytingunum eða nokkurn skapaðan hlut.

Eðlilega heldur fjöldi manns að sér höndum í húsnæðiskaupum og húsnæðiskaupakeðjan stöðvast. Það að húsnæðiskeðjan stöðvast þýðir að fjöldi fjölskyldna sem búið var að kaupa húsnæði getur ekki selt gamla húsnæðið og situr núna uppi með afborganir af tveimur íbúðum.

Skoðaði talnarunur FMR og strax þann 17. febrúar snöggfækkaði gerðum samningum, meðan að á þessum tíma árs ætti þeim að vera að fjölga, ef miðað er við fyrri ár.

samningafjoldi.

Ríkisstjórnin er með óljósum yfirlýsingum og ráðaleysi sínu að valda hreinum og beinum skaða fyrir almenning, algerlega að ástæðulausu.

Væri ekki líka heiðarlegt gagnvart þeim sem eru núna að kjósa um þessa samninga að innihald yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sé þekkt?


mbl.is Forsætisráðherra: Hefur slæm áhrif þegar stíga þarf snöggt á bremsurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að kalla breska sendiherran á teppið

Geir H Haarde verður að kalla breska sendiherran á teppið og útskýra fyrir honum hvernig íslenskt efnahagslíf er uppbyggt og sýna honum fram á styrk íslensku bankanna. Þetta er hrein árás á íslenska hagsmuni og íslenskum stjórnvöldum ber skylda að standa vörð um þá.

Menn hafa nú verið kallaðir á teppið af minna tilefni...


mbl.is Breska fjármálaeftirlitið varar sparifjáreigendur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var OECD skýrslan skrifuð í Valhöll?

Lestur skýrslu OECD og tillögur hennar fengu mig til að staldra við. Það var eins og farið hefði verið í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og helstu baráttumál þeirra listuð upp, hnýtt í samstarfsflokkinn um leið og mikilvægi Seðlabankans er að sjálfsögðu áréttað.

Auðvitað er skýrslan gagnrýnin á aðgerðir ríkisstjórnarinnar, enda ekki hægt að horfa fram hjá þeim hagstærðum sem blasa við. Segir ríkisstjórnina bregðast seint og illa við þeim vanda sem blasir við og vinni gegn Seðlabankanum með útgjaldaþenslu sinni, um leið og varað er við stórframkvæmdum sem gætu skapað ójafnvægi. En að því sögðu tekur óskalisti Sjálfstæðisflokksins við.

Niðurlagning Íbúðalánasjóðs er þar efst á lista, og er greinilegt að OECD hafa ekki fengið rétta söguskýringu með sér heim, þegar því er haldið fram að Íbúðalánasjóður hafi hafið samkeppnina á íbúðalánamarkaðinum. Misskilningur sem andstæðingar sjóðsins hafa statt og stöðugt haldið fram, sérstaklega Sjálfstæðismenn:

"Easing of lending criteria and changes to funding strategies at the publicly owned Housing Financing Fund (HFF) sparked a competitive battle with the private banks in the middle of the decade, entailing a decline in real mortgage rates at the same time as the Central Bank was trying to tighten monetary conditions with hikes in the policy rate."

Hið rétta er að það voru bankarnir sem fóru inn á lánamarkaðinn með ábyrgðarlausu offorsi. Íbúðalánasjóður gerði ekkert annað en að fylgja með til að tryggja jafnrétti þegnanna eftir búsetu.

Næst á listanum er ákall um aukinn einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og aukin kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Gamalt baráttumál Sjálfstæðisflokksins:

"At the same time, the introduction of cost sharing should be considered where it does not exist (as in hospitals), although concerns about equity need to be taken into account."

En kostulegasta niðurstaða skýrslunnar er eins og ákall Sjálfstæðisflokksins til Samfylkingarinnar um að ráðherrar þeirra dragi yfirlýsingagleði sinni um allt og alla:

"Still, monetary policy will need to remain tight until inflation expectations are firmly anchored at the inflation target. This is crucial to minimise second round effects of wage increases or exchange rate depreciation. It would also be helpful if members of government respected the independence of Central Bank policymaking, as this would reinforce the credibility and effectiveness of policy."

Það er greinilegt að OECD á öðru að venjast en þeirri yfirlýsingagleði ráðherra um hin og þessi málefni sem einkennt hefur núverandi ríkisstjórn og telja það efnahag landsins greinilega ekki til framdráttar.

Fleira er á listanum, eins og ákall um að við höldum okkar kvótum í loftslagsmálum, sem er ágreiningsmál í ríkisstjórn og hefðbundið ákall um að leggja niður íslenskan landbúnað með lækkun á framlögum.

Ég fór á smá flakk á netinu og fann lýsingu á því verklagi sem viðhaft er við gerð svona skýrslu. Það gæti þó ekki verið að skýringuna á áherslum skýrslunnar sé þar að finna?

Skýrslan er unnin af matsráði, þar sem hver þjóð á einn fulltrúa. Vinna tveir fulltrúar matsráðsins hverja skýrslu og kalla oft til sérfræðinga sinnar eigin þjóðar við þá vinnu. Háttsettir embættismenn úr stjórnsýslunni eiga svo samskipti við þá.

Drög að matinu er unnið um ári fyrir útgáfu þess. Byrjað er á úttekt sem er unnin af starfsmönnum OECD. Er landið heimsótt og hittir fjölda manns, embættismenn, fræðimenn, félagasamtök og hagsmunasamtök til að safna upplýsingum. Seinna kemur sami hópur, nú með yfirmanni og fer yfir stefnumörkun stjórnvalda, þar sem frumniðurstöður starfsmanna OECD eru ræddar fyrir hæst settu áhrifamenn þjóðarinnar, eins og fjármálaráðherra, æðstu embættismenn, Seðlabankans, verkalýðshreyfingarinnar og samtaka atvinnurekenda.

Þannig að það er þarna sem helstu áherslupunktarnir, sem mest er fjallað um núna eru ákveðnir.

Hverjir eru það þá sem koma að gerð þeirra fyrir hönd Íslands? Jú, Fjármálaráðherra Árni Mathiesen (D), ráðuneytisstjóri fjármála, Baldur Guðlaugsson (D), Seðlabankastjóri Davíð Oddsson (D), framkvæmdastjóri SA, Vilhjálmur Egilsson (D) og framkvæmdastjóri ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson. Kannski koma einhverjir fleiri að þessu. Ég veit það ekki, en Gylfi er sá eini af þessum hóp sem ekki er virkur, opinber Sjálfstæðismaður. Er þá nema furða að skýrslan sé eins og hún er?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband