Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Af mönnum og músum
15.10.2008 | 11:04
Viðtal Björgvins G Sigurðssonar í Kastljósi í gær fannst mér stórgott.
Sú eldskírn sem hann hefur fengið í þessum hamförum hefur greinilega brætt af honum skvap óábyrgrar yfirlýsingagleði og galgopaháttar.
Hann kom fram sem traustur stjórnmálamaður, orðvar og ábyrgur. Vonandi heldur hann áfram á sömu braut. Fyrir vikið hlýtur hann frekar traust en stundarvinsældir.
Því miður hafa formaður, varaformaður og staðgengill formanns Samfylkingarinnar ekki komið fram með sama hætti og uppskáru skammir eins mentors flokksins, Ágústs Einarssonar, fyrir vikið í gær.
En Björgvin verður að losa um íslenskar krónur í fjármálakerfinu í dag, á gjalddaga staðgreiðslu, svo fyrirtæki geti staðið í skilum með hana og aðrar skuldbindingar sínar. Annars er hætta á fjöldagjaldþroti stöndugra fyrirtækja, sem eru okkur svo verðmæt í dag.
![]() |
Skynsamleg ákvörðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Leiðin að nýju Íslandi
15.10.2008 | 09:48
Eftirfarandi grein eftir mig, Bryndísi Gunnlaugsdóttur formann SUF og Friðrik Jónsson, formann Framsóknarfélags Akraness, birtist í Fréttablaðinu í morgun:
Þungbært áfall síðustu viku hefur gert okkur það ókleift að halda úti sjálfstæðri mynt. Fyrir hrunið var eðlilegt að skoða og meta alla kosti til hlítar. Gjaldmiðilsskýrsla Framsóknarflokksins sýndi með rökum að kostirnir voru í raun aðeins tveir, en nú blasir aðeins einn kostur við að okkar mati. Upptaka evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu er eini raunhæfi valkosturinn í núverandi stöðu ef Ísland á áfram að vera hluti af innri markaði Evrópu.
Atburðir undanfarinna tveggja vikna, meðal annars árangurslaus málaleitan Seðlabankans hjá Englandsbanka og Evrópska seðlabankanum, sýna svo ekki verður um villst að varnaglar og stoðkerfi EES-samningsins eru ekki fullnægjandi hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.
Sá kostnaður sem mun falla á ríkissjóð í kjölfar atburða síðustu daga, liggur ekki fyrir, en ekki er óraunhæft að ætla að hann geti numið allt að þúsund milljörðum króna. Heilli billjón.
Það er jafnmikið og talið var að þyrfti að hafa í gjaldeyrisvarasjóði til að styðja við krónuna og íslenskt efnahagslíf fyrir hrun fjármálakerfisins. Eftir hrunið er ljóst að gjaldeyrisvarasjóðurinn þarf að vera enn stærri hlutfallslega. Krónan hefur verið auglýst sem mynt sem ekki er hægt að standa á bak við, sérstaklega í kjölfar misheppnaðrar tilraunar Seðlabankans í síðustu viku til að festa gengi krónunnar. Líklega þarf gjaldeyrisvarasjóðurinn af þessum sökum að vera þreföld þessi upphæð, en sérfræðingar kunna betur að meta það.
Einungis vaxtakostnaðurinn af slíkri upphæð, auk þess taps sem er að falla á okkur núna, yrði að lágmarki 100 milljarðar á ári, eða allt að 10% af landsframleiðslu fyrir hrun. Það er að því gefnu að Ísland fengi yfirhöfuð slíka fjármuni að láni til lengri tíma.
Ísland hefur þannig tæplega efni á því til frambúðar að vera með slíka fjármuni liggjandi um leið og greiða þarf niður reikninginn eftir hrunið. Að auki þarf að halda áfram að greiða annan rekstur, s.s. heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið. Óhugsandi er að aðild að ESB verði Íslandi svo kostnaðarsöm.
Því leggum við til eftirfarandi:
- Íslendingar taki boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um aðstoð. Í þeirri aðstoð felst m.a. að sjóðurinn mun koma í kjölfarið með verulega fjármuni sem munu styrkja gengi krónunnar og færa það til meiri stöðugleika. Rætt hefur verið um að sjóðurinn, ásamt öðrum aðilum, geti komið með allt að 8-9 milljarða evra að láni hingað til lands. Æskilegt væri að samhliða yrði gerður samningur við Evrópska seðlabankann um að hann samþykki að gengi krónunnar yrði tímabundið fest við evru og hann gefi yfirlýsingu um stuðning sinn við það fyrirkomulag.
- Einn eða fleiri af nýju bönkunum verði seldir erlendum banka.
- Farið verði í mikla atvinnuuppbyggingu og sköpuð störf fyrir þá sem nú hafa misst vinnuna. Ívilnandi möguleikar gagnvart erlendum fjárfestum verði nýttir til hins ítrasta, en verðmætin í starfsfólkinu og hagsmunir af takmörkun atvinnuleysis eru svo mikil að það er réttlætanlegt.
- Sótt verði um aðild að ESB hið fyrsta og samningur um aðild lagður í þjóðaratkvæði. Fordæmi benda til þess að við getum haldið fiskimiðunum fyrir okkur, eins og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefur rakið. Stjórnmálaleiðtogar og æðstu embættismenn sambandsins hafa þegar lýst yfir vilja til samninga um þetta efni.
- Samtímis verði þjóðaratkvæðagreiðsla um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands.
- Strax í kjölfar aðildar verði Ísland aðili að gengisstöðugleikasamkomulagi ESB (ERM) og bindi þannig varanlega gengi krónunnar við evru innan ákveðinna vikmarka. Þegar skilyrði Maastricht verða uppfyllt, gerist Ísland aðili að Evrópska seðlabankanum, evra verður tekin upp sem lögeyrir á Íslandi og hægt verður að greiða IMF aftur lán sitt - með þökkum.
- Einn eða fleiri af bönkunum yrðu á ný boðnir þjóðinni í dreifðri sölu.
- Með þessu verður Íslendingum gert kleift að endurheimta að fullu sitt traust á alþjóðavettvangi, þó það gæti tekið einhver ár.
Að öðrum kosti er líklegt að traust okkar muni seint, ef nokkurn tímann, endurheimtast og við sætum verulegum takmörkunum í alþjóðaumhverfinu. Afleiðingar þessa yrðu þær að lífskjörum hér mun hraka þannig að helst verði hægt að bera þau saman við þróunarlönd. Að auki mun flest okkar besta fólk og bestu fyrirtæki flýja land. Það yrði stærsta tjónið til frambúðar.
Höfundar eru félagar í Framsóknarflokknum.
Stórhættuleg peningaþurrð yfirvofandi innanlands
14.10.2008 | 21:04
Fæst vel rekin fyrirtæki liggja með sjóði sína á innlánsreikningum sem eru lausir í dag, heldur í sjóðum sem nú er búið að frysta.
Það er algert forgangsatriði að fyrirtækin fái aðgengi að lausafé til að geta greitt laun, skatta og reikninga. Laun og skattar ganga fyrir lögum samkvæmt, en ef fyrirtækin geta ekki greitt reikninga sína vegna lausafjárskorts geta þau fyrirtæki sem eiga þær kröfur heldur ekki greitt sína reikninga og svo koll af kolli.
Því lengri tími sem líður þangað til að sjóðirnir verði opnaðir, alveg eða að hluta, því fleiri reikningar eru ekki greiddir, ástandið versnar og endar fljótlega í algeru frosti.
Þá skiptir engu hvort fyrirtækin standa vel eða illa, þau verða einfaldlega gjaldþrota, jafnvel þótt eigið fé sé yfirdrifið.
Bankakerfið verður að losa um þessa sjóði að því marki sem það lífsins mögulega getur og helst á morgun. Ef óvissa er um það gengi sem er á sjóðunum, er hægt að losa þær upphæðir sem er ekki óvissa um og halda eftir sem nemur áætlaðri óvissu gera sjóðina nákvæmar upp seinna.
Svör um hvað til standi verða að koma fram. Óvissa er það versta í stöðunni. Því lengur sem óvissan varir, því fleiri verkefni þora atvinnurekendur ekki að halda áfram með, þótt hagkvæm séu og því fleiri munu þar af leiðandi missa vinnuna með þeim stórskaða sem það veldur.
Svör verða að fást og það á morgun.
![]() |
Spá 4-5% atvinnuleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vilhjálm Egilsson í Seðlabankann
14.10.2008 | 18:54
Mér þykir einsýnt að Vilhjálmur Egilsson eigi að fara í brúna í Svörtuloftum.
Hann er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, doktor í hagfræði, fyrrverandi framkvæmdastjórnarmaður í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, hefur gegnt stöðu ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, sem framkvæmdastjóri Verzlunarráðs Íslands auk setu á Alþingi á árunum 1991-2003 og starfaði hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, eins af forverum Samtaka atvinnulífsins, á árunum 1982-1987.
Það væru stórkostleg mistök að kalla hann ekki til starfa fyrir land og þjóð.
![]() |
Ingibjörg Sólrún vill að stjórn Seðlabankans stigi til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af hverju er hægt að koma heim núna?
14.10.2008 | 12:41
Lífeyrissjóðirnir neituðu ríkisstjórninni um að koma heim með sínar erlendu fjárfestingar í aðdraganda hrunsins, þegar verið var að reyna að setja upp einhverjar varnir.
Ögmundur og félagar settu hin ýmsu skilyrði fyrir því, ástandinu viðkomandi og óviðkomandi og neituðu því á endanum að koma til hjálpar.
Hvort þær varnir sem ætlunin var að setja upp hefðu dugað veit ég ekki, en af hverju ættu erlendir aðilar að hjálpa, ef þeir innlendu neita aðstoð á ögurstundu?
Ég trúi ekki öðru en að þeim hafi verið boðin ríkisskuldabréf með ríkisábyrgð til sölu fyrir gjaldeyrinn á fínasta gengi, þannig að þeirra hagsmunir hafi alltaf verið tryggðir og hefði verið hægt að nýta til hlutafjárkaupa í Kaupþingi í dag.
Í þessu ljósi lítur út fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi tekið stöðu gegn ríkinu, en séu nú að óska eftir Kaupþingi á brunaútsölu.
Vonandi er myndin ekki svona, en það þarf þá að koma fram.
![]() |
Óska viðræðna um Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Góðar rússneskar móttökur
14.10.2008 | 12:07
![]() |
Góðar viðtökur í Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tækifæri til að endursamvinnuvæða SPRON
14.10.2008 | 09:55
Nú er lag fyrir SPRON að skilgreina félagið aftur sem sparisjóð og safna stofnfjáreigendum, þar sem hlutur hvers og eins sé hámarkaður við einn hlut á mann.
Setja ný gildi í samþykktir félagsins, og bjóða viðskiptavinum upp á "siðferðiskvittaða" starfsemi.
Auðvitað er sú starfsemi ekki eins ofurgróðavænleg og sú stefna sem unnið hefur verið eftir hingað til, en ég held að staða sparisjóða Norðfjarðar og Suður Þingeyinga séu nægjanleg rök í því máli.
![]() |
Starfsemi SPRON endurskipulögð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir í raun...
13.10.2008 | 23:11
Magnús Stefánsson alþingismaður á orðið:
"Allir þekkja það hvernig íslenskir sjómenn lögðu sig í hættu við að sigla með fiskmeti til Bretlands á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá áttu Bretar erfitt og þar var fæðuskortur. Við komum þeim til hjálpar, margir íslenskir sjómenn lögðu sig í mikla hættu við þessar siglingar og því miður fórust margir þeirra við það. Íslensk þjóð færði miklar fórnir við að hjálpa Bretum við þær aðstæður. Þessu virðist forsætisráðherra Breta hafa gleymt í baráttu sinni fyrir vinsældum heima fyrir. Bretar eru ekki á þeim buxunum að koma okkur sem vinaþjóð sinni til aðstoðar á erfiðum tímum.
Á sjötta áratug síðustu aldar riðu miklar hamfarir yfir Hollendinga og önnur lönd í nágrenni þeirra. Þá skall á mikið óveður með sjávarflóðum og flóðvarnagarðarnir gáfu sig í Hollandi. Í kjölfarið urðu miklir erfiðleikar hjá Hollendingum. Þá komu íslendingar til hjálpar, við sendum þeim ullarteppi í miklu magni og gáfum þeim mikið af fiski til að forða hungursneyð. Nefna má að í annálum Rauða krossins er þessu haldið til haga og bent á það hve mikið íslendingar lögðu af mörkum til aðstoðar Hollendingum við þessar miklu hamfarir. Hollensk stjórnvöld virðast hafa gleymt þessu, en ganga hart fram gagnvart okkur nú þegar við eigum í erfiðum málum. Þetta köllum við vinaþjóðir okkar ! Framferði Hollendinga, en þó sérstaklega Breta eru yfirgangur og hegðun sem við getum ekki og eigum alls ekki að sætta okkur við. Þeir verða að skilja það að Ísland er ekki nýlenda þeirra sem þeir geta arðrænt að geðþótta."
Þetta ætti að þýða og birta í blöðum í viðeigandi löndum.
![]() |
Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Atvinnulífið verður að fá svör
13.10.2008 | 20:57
Seðlabankinn og ríkisstjórnin virðast ekkert vera að gera í að reyna að koma einhverrri jákvæðni í íslenskt atvinnulíf.
Allar yfirlýsingar þeirra hafa beinst að einstaklingum og svo að gjaldeyrisviðskiptum - hvoru tveggja afar mikilvægt.
En stjórnendum fyrirtækja, sem þurfa að standa skil á launum og reikningum, taka ákvarðanir um framhald verkefna og um ný verkefni, er ekki gefin nein merki um að gera eigi þeim kleyft að halda starfsemi sinni áfram.
Án fyrirtækja er engin atvinna, án atvinnu eru engin laun, án launa eru engar skatttekjur, án skatttekna er getur ríkið ekkert gert til að hjálpa þeim sem engin hafa laun.
Lækkið stýrivexti strax!
Losið um peningamarkaðsbréf strax. Ef ekki er hægt að ákvarða gengi þeirra, er hægt að losa um ákveðið hlutfall þeirra með fyrirvara um endanlegt gengi. Fyrirtækin verða að hafa pening.
Gefið atvinnulífinu einhver svör!!!
Erlendar ríkisstjórnir hafa greinilega áttað sig á þessu, enda hækka vísitölur í dag, eftir trúverðugar og ákveðnar ákvarðanir. Ekki hin íslenska.
![]() |
Mesta dagshækkun Dow Jones |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Annarleg sjónarmið gagnvart hverjum?
13.10.2008 | 08:32
Þetta tækifæri Rússa til að koma Íslendingum til aðstoðar er þvílíkur hvalreki fyrir Rússa að þeir þurfa ekki að vera með nein annarleg sjónarmið gagnvart Íslandi.
Sjónarmiðin felast að öllu leiti í þeim skilaboðum sem í hjálpinni felast.
Ég er nokkuð sannfærður um að þeir munu einmitt ekki reyna að vera með neina stæla við okkur Íslendinga.
Í því fælist enn meiri niðurlæging fyrir okkar hefðbundnu bandalagsþjóðir. Að Rússar kunni að haga sér eins og menn, meðan sumar þeirra haga sér með óafsakanlegum hætti gagnvart vinaþjóð sinni.
Rússalánið eitt og sér er aftur á móti ekki nóg. Hjálp frá IMF er einnig nauðsynleg.
![]() |
Engin annarleg sjónarmið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)