Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Atvinnumál ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar?

Undanfarið hefur læðst að manni sá grunur að núverandi ríkisstjórn telji atvinnuuppbyggingu ekki á sínu verksviði. Mýmargt í gjörðum og aðgerðaleysi hennar hefur rennt stoðum undir það, en í Kastljósviðtali kvöldsins tók Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, af allan vafa þegar hún svaraði spurningum um úrskurð sinn um umhverfismat atvinnuuppbyggingar við Húsavík:

"Það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að reisa álver, það er stefna sveitastjórna, sem sjá um atvinnuuppbyggingu í landinu, að efla atvinnuuppbyggingu á sínum svæðum."

Orðskrúð Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, Kristjáns L Möller og annarra Samfylkingarmanna í NA kjördæmi er sem sagt bara merkingarlaust hjal, beins stuðnings er ekki að vænta og viljayfirlýsing iðnaðarráðherra marklaust plagg, enda málið ekki á verksviði ríkisstjórnarinnar.

Það er greinilegt að Framsókn er ekki lengur í ríkisstjórn.


mbl.is Leiða leitað til að koma í veg fyrir töf á Bakkaframkvæmdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hressilegt að heyra af almennilegum sakamálum

Í gamla daga voru varla til verri glæpir en sauðaþjófnaður og gott er að sjá að lögreglan telji sauðaþjófa ekki ganga lausa í Hornafirði.

Þegar maður les "Öldin okkar" er nefnilega farið jöfnum höndum um umfjöllun um sauðaþjófnaði og mannsmorð, sem maður skyldi ætla að sé vísbending um hversu mikið rými málin voru að fá í annálum og almennri umræðu þess tíma - enda fátt lítilmótlegra en að stela björginni hver af öðrum.

Það var helst að hrossaþjófnaður fengi meiri athygli.

Í dag stela menn björginni hægri vinstri hver af öðrum, þá helst í formi skattsvika, en einnig með okurkjörum á neytendamarkaði sem fær þrifist vegna lítillar samstöðu neytenda gegn fákeppnisaðilunum.

...og telst varla fréttnæmt.


mbl.is Mál vegna meints sauðaþjófnaðar fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki einn dag!!! - firringin alger

Stórundarleg yfirlýsing forsætisráðherra um að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefði nú aldeilis borið árangur kom strax fram í hækkuðu skuldatryggingaálagi bankanna. Markaðurinn er ekki lengi að gefa sín skilaboð og bankarnir og almenningur í framhaldinu er látin borga fyrir vantrúna á efnahagslífi sem leitt er af þessari dæmalausu ríkisstjórn.

Auðvitað snýst viðskiptajöfnuðurinn þegar fyrirtæki landsins fá ekki fjármögnun fyrir daglegum rekstri og allar fjárfestingar stöðvast, hvort heldur er rekstrarmuna- eða fastafjármunafjárfestingar!

Er það eitthvað að stæra sig af að fyrirtæki landsins séu komin í stóra stopp?

Það getur ekki þýtt annað en atvinnuleysi og það er aldeilis eitthvað að monta sig af !

Fyrr en seinna fer þetta einnig að koma niður á útflutningi og getur vöruskiptajöfnuðurinn vart farið annað en í sama farið eða hvað?.

Nú áðan bætti formaður iðnaðarnefndar um betur með því að lýsa því yfir að úrskurður umhverfisráðherra um að álver, flutningur og orkuvinnsla álversins eigi að fara í sameiginlegt umhverfismat í stað tefði Bakkaverkefnið ekki um einn dag.

Ekki einn einasta dag.

Þessu heldur hún fram, þótt fyrir liggi að með úrskurði ráðherra sé ljóst að ekki er hægt að hefja tilraunaboranir til að kanna hve mikla orku er að hafa á svæðinu, fyrr en búið er að ljúka umhverfismati á álveri, sem aftur þarf að vita hve mikla orku fær áður en hægt er að ljúka hönnun á!

Af hverju segir Samfylkingin ekki eins og er og viðurkennir að hún vilji ekki álverið á Bakka, ef það er stefna flokksins?

Eða er það Alþýðubandalagið og Kvennalistinn sem eru á móti, meðan að Þjóðvaki og Alþýðuflokkurinn er fylgjandi atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, en þessar fylkingar nái ekki samkomulagi og því sé hringlandinn alger?

Ef það er ekki tilfellið verður Samfylkingin að koma með trúverðugar skýringar á því hvernig komið verði í veg fyrir seinkun um einn einasta dag og hvernig hún ætli að tryggja hagstæða orkusölusamninga, þegar búið er að úrskurða alla mögulega samkeppnisaðila um orkuna út af borðinu.

Sömu spurningu verður Sjálfstæðisflokkurinn einnig að svara, því hann styður jú ríkisstjórnina alla og í því felst að hann verji ráðherra hennar vantrausti.

Sjálfstæðismenn geta ekki skotið sér undan ábyrgð.


mbl.is Álag bankanna hækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni á Kirkjuhvoli þarf að útskýra sitt mál

Ég er steinhissa á því að Ísland skuli ekki vera með í þessu samkomulagi um aðgang að skattaupplýsingum á Ermasundseyjum.

Ég á erfitt með að trúa því að okkur hafi ekki verið boðið að vera með norrænum vinum okkar, svo annaðhvort hefur verið tekin meðvituð ákvörðun um að vera ekki með eða einhver embættismaður þarf að útskýra af hverju hann les ekki tölvupóstinn sinn.

Ég hallast að fyrri skýringunni og þarf Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, á Kirkjuhvoli í Þykkvabæ að útskýra fyrir okkur af hverju hann vill ekki þessar upplýsingar.

Þetta getur ekki annað en stráð fræjum efasemda og vantrausts. Hélt að nóg væri komið af þeim þegar.


mbl.is Norðurlönd semja við Ermasundseyjarnar um skattaupplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er 19. aldar götumyndin?

Það er allrar athygli vert að skoða myndir Egils Helgasonar af húsunum á Laugarveginum. Það er ekki um mikla 19. aldar götumynd að ræða í raun, svo það er spurning hvað sé í rauninni verið að vernda. Þar eru auðvitað falleg hús sem eru þess virði að sýna virðingu, en götumynd er erfitt að tala um.

Í göngutúr gærdagsins gengum við niður þessa ágætu götu, en á leiðinni til baka sáum við að á  Skólavörðustígnum er götumynd mikið betur samhangandi í þeim stíl sem Ólafur F er tilbúinn að eyða hundruðum milljóna.

Er ekki rétt að menn einbeiti sér frekar að þeim hluta en eyði ekki stórfé úr sameiginlegum sjóðum okkar borgarbúa í að vernda eitthvað sem ekki er.


Ríkisstjórnin rústar samningsaðstöðu Íslendinga í orkumálum

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin virðast engan veginn kunna með gullegg að fara.

Það er eins og úrskurður umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat hafi verið tekinn í algeru tómarúmi og er eins óheppilegur og hugsast getur.

Ráðherra bar engin skylda til að fella úrskurðinn á þennan veg, hún er að nýta sér valkvætt heimildarákvæði, þannig að þetta er hrein og klár pólitísk ákvörðun.

Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að meta saman framkvæmdir sem eiga eðlilega saman og eru forsendur hvers annars, enda stóð það til í þessu tilfelli.

  • Til stóð að meta saman álverið sjálft og þá hafnargerð sem því tengdist, annars vegar,
  • hins vegar stóð til að meta áhrif virkjanaframkvæmda og línulagna þeim tengdum hins vegar

Allt í góðri sátt Skipulagsstofnunnar og framkvæmdaaðila.

En með því að úrskurða að meta eigi allar framkvæmdirnar saman er búið að rústa allri samningsaðstöðu orkuseljenda.

Hvað gerist ef samningaviðræður um orkusölu eða annað rennur út í sandinn, eins og gerðist á Reyðarfirði?

Þá þarf að fara með allar virkjanaframkvæmdirnar aftur í umhverfismat!

Í hvaða stöðu setur sú vitneskja orkukaupendur í gagnvart orkuseljendum?

Það hlýtur að þýða lægra verð.

Hvað gerist ef meiri orka finnst en álverið vill kaupa á ásættanlegu verði?

Þá má annaðhvort ekki nýta þá orku eða taka þarf allt inn í nýtt heildstætt umhverfismat, álver og orkuvinnslu auk nýs orkukaupanda!

Sem þýðir að öll aukaorka myndi líklegast verða seld álverinu á tombóluverði, með afslætti sem næmi í það minnsta kostnaði við að fara í nýtt umhverfismat.

Þetta þýðir í raun að Alcoa er komið í þá aðstöðu að þeir eru komnir með algeran einkarétt á orkunýtingu á Norðausturlandi til næstu ára og áratuga og Þórunn Sveinbjarnardóttir er í raun búin að úrskurða að sú orka sem finnst á Norðausturlandi skuli eingöngu nýtt til álframleiðslu.

Er það í samræmi við Fagra Ísland?


mbl.is Óhaggaður stuðningur við álver á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkisstjórnin óstarfhæf eða eru atvinnumál á Norðurlandi ekki mikilvæg?

Bakkaúrskurður Þórunnar Sveinbjarnardóttur kom forsætisráðherra á óvart. Það getur þýtt tvennt; að ríkisstjórnin sé óstarfhæf og geti ekki rætt mikilvæg málefni eða að Þórunn meti atvinnumál á Húsavík ekki mikilvæg, því í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands stendur:

2. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni.

Ekki trúi ég því að ráðherra brjóti stjórnarskrá, enda liggur fyrir drengskaparheit þar að lútandi.


mbl.is Úrskurðurinn ónauðsynlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milljarðs landsbyggðarstyrkur fer á Reykjanesið í stað Húsavíkur

Á eftir að kynna mér sjálfan úrskurð umhverfisráðherra, en nú er ljóst að ráðherra iðnaðarmála, sem er um leið ráðherra byggðamála hefur engan annan möguleika en að úthluta Helguvíkurálverinu þeim losunarheimildum sem eftir er að úthluta. Kapphlaupinu milli Húsavíkur og Helguvíkur er nær örugglega lokið með úrskurði Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

Húsavíkurálverið þarf því að kaupa sínar losunarheimildir á markaði.

Þessar heimildir eru rúmlega milljarðs króna virði eins og ég hef áður bent á, en ríkisstjórnin tók þá undarlegu ákvörðun að gefa losunarheimildirnar, sem er takmörkuð auðlind í eigu þjóðarinnar. Ég sem hélt að menn hefðu lært eitthvað af fiskveiðikvótakerfinu!

Með fullri virðingu fyrir Reykjanesbæ, sem hefur nýlega fengið mannvirkin á Keflavíkurflugvelli sem óvæntan byggðastyrk, er rétt að styrkja þá byggð aukalega um milljarð á ári en láta Húsavík þurfa að borga milljarð á ári?


mbl.is Undirbúningur skemmra kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að treysta trausti borgarstjóra?

Það virðist ekki vera auðvelt að vinna með borgarstjóra Reykjavíkur. Hver samstarfsmaðurinn á fætur öðrum lýsir yfir algerum trúnaðarbresti við borgarstjóra og þeir sem ekki lýsa yfir trúnaðarbresti eru reknir á braut af honum, ef þeir makka ekki nákvæmlega rétt og vilja jafnvel hafa einhverja sjálfstæða skoðun eða skoða mál betur.

Allt í boði Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn beita mjög sérstakri taktík gagnvart borgarstjóra. Borgarfulltrúar flokksins, sem bera jú allir ábyrgð á setu þessa borgarstjóra, láta sem hann sé ekki til og skipta sér alls ekkert af honum og vitleysunni í honum.

Enda sjá þeir afleiðingar þess að mögla eitthvað við hann.

Vona svo að kjósendur tengi hann við ekki Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum.

Líklegast er borgarstjórnarflokkurinn að undirbúa að gera innkomu Hönnu Birnu í borgarstjórastólinn sem glæsilegasta. Í það minnsta munu borgarbúar upplifa breytingu stjórnunarstíl svo um munar og einnig mun fjöldi mála sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa verið að undirbúa í nefndum koma til framkvæmda, allt til væntanlegs vegsauka þeirra.

En mun Ólafur líða það?

Hann virðist ekkert víla fyrir sér að stúta samstarfi ef sá gállinn er á honum, því honum hlýtur örugglega að sárna allar þær borðaklippingar sem hann mun ekkert fá að taka þátt í síðustu og mikilvægustu mánuðina fyrir næstu kosningar.


mbl.is Vaxandi óvissa um Listaháskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóri - líttu þér nær

Það er greinilegt að Ólafur F Magnússon er með Framsókn á heilanum, líklegast vegna þess að hver er sannleikanum sárreiðastur.

Skemmst er að minnast dæmalausrar yfirlýsingar hans um að ástandið í miðborginni sé allt Framsókn að kenna og einhverjum matadorum sem flokkurinn átti að vera að hygla á óskilgreindan hátt.

Engin fjölmiðill hefur haft faglegan metnað eða dug í sér að spyrja hann út í hvað hann eigi við með þeirri yfirlýsingu og eins hefur borgarstjóri brotið góða stjórnsýsluhætti með því að svara mér ekki formlegu erindi sem ég hef sent honum um málið. Æðsti embættismaður borgarinnar kemst sem sagt upp með að koma með algerlega rakalausar dylgjur um menn og málefni. Virðist fá að vera "súkkulaði" í umræðunni - í skjóli Sjálfstæðisflokksins.

Í yfirlýsingu dagsins, sem maður hefði nú frekar talið að hefði átt að snúa að Kjartani Magnússyni, pólitískum fósturföður hans og Sjálfstæðisflokknum, sem er nú greinilega að reyna að draga í land með að hætta við Bitruvirkjun, fer hann að agnúast út í Óskar Bergsson og Framsókn, eina flokkinn sem staðið hefur í lappirnar í  gegnum allt þetta Orkuveitufargan undanfarinna mánuða, þar sem milljörðum er hent út um gluggann í fáránlegu óðagoti.

Honum væri nú nær að ræða við Kjartan og fá málin á hreint í meirihlutanum, fyrst samstarfið gengur svona ofsalega vel, ef marka má borgarstjóra.


mbl.is Segir ljóst að Birtuvirkjun hafi verð slegin af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband