Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hver er ber að baki...

Bræður okkar Norðmenn hafa sent fulltrúa sína til landsins í löngum bunum á undanförnum vikum. Helst virðast það vera fulltrúar systurflokka Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem eru að reyna að telja fólki trú um að það sé ekki góð hugmynd að sækja um aðild að ESB.

Út frá þeirra hagsmunum er það eðlilegt. Það gerir þeirra samningsstöðu gagnvart ESB verri að við værum komin inn, enda yrði samningur okkar við ESB notaður sem fordæmi fyrir þann samning sem Norðmönnum byðist næst, samningur sem endurspeglaði okkar hagsmuni en hentaði ekki endilega Norðmönnum.

Sömuleiðis yrði það Norðmönnum erfiðara í samningum um flökkustofna að vera orðnir umkringdir ESB á eina hlið í viðbót.

Þannig að hagsmunir Norðmanna er að við förum ekki inn á undan þeim, helst á eftir og því reyna þeir að hafa áhrif á okkur í þá átt.


mbl.is Norðmenn búa sig undir ESB-umsókn Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að hafa áhyggjur af ómarktækri veðsetningu?

Íslenska þjóðin á fiskinn í sjónum í kringum landið.

Ég skil þess vegna ekki umræðuna um það að þýskir bankar séu nú umvörpum að eignast kvótann við landið.

Það er einfaldlega ekki hægt, útlendingur getur ekki tekið veð í kvóta sem ekki má vera hans eign. Það eru hans mistök og hljóta hinir erlendu lánardrottnar að bera skaðann af því.

Hvort það sé refsivert að hafa milligöngu um slík viðskipti veit ég ekki, en einhvernvegin ætti það að vera, ekki satt?


mbl.is Verðfall veiðiheimilda fyrirsjáanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðuð mótmæli skila árangri

Þessi viðbrögð starfsmanna utanríkisráðuneytisins eru til mikillar fyrirmyndar og það er alveg ljóst að mótmælendur eru að hafa meiri áhrif með því að koma sínum boðskap fram með samræðum í stað skemmdarverka.

Á sama hátt fannst mér mótmælagerningurinn fyrir framan stjórnarráðið í morgun afar flottur og kom hann skilaboðunum um þetta hræðilega ástand á Gaza og voðaverkum Ísraelsmanna vel til skila. Þau hefðu samt alveg mátt sleppa því að sletta lit á sjálfa bygginguna.

Það hefði verið alveg nóg að setja rauðan lit á stéttina til að minna á það lóð sem hermenn Ísraels ganga í þegar þeir myrða saklausa borgara í leit sinni að glæpamönnum Hamaz. Glæpamönnum sem þeir hafa í rauninni að miklu leiti búið til sjálfir með framkomu sinni til áratuga.

Eins og ég hef áður skrifað, er eina leiðin til lausnar í þessum hildarleik, að Sameinuðu þjóðirnar komi inn með öflugt friðargæslulið, sem gæti svæðisins til næstu framtíðar, eða á meðan að heilbrigð kynslóð Palestínumanna og Ísraelsmanna vex úr grasi.


mbl.is Fundað með mótmælendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþægilegum mótrökum um fiskveiðistefnu ESB sleppt

Peter Örebech, þjóðréttarfræðingur, sem keyptur er til landsins af Heimssýn, til að tala á fundi, virðist samkvæmt fréttinni alveg hafa skautað framhjá þeim dæmum sem eru mun sambærilegri íslenskum aðstæðum.

Það eru fordæmi Kanaríeyja og Azoreyja, þar sem lögsagan og fiskistofnarnir eru ekki sameiginlegir með öðrum þjóðum.

Því er þessi málflutningur afar villandi.


mbl.is ESB myndi stjórna hafsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísraelsmenn, samúð mín er upp urin

Ísrael er land sem stofnað var af Sameinuðu þjóðunum, meðal annars með stuðningi Íslands. Sömu samtökum og nú segja að her landsins hafi neytt 110 manns inn í hús og varpað á það sprengjum sólarhring síðar. Alls hafa yfir 700 Palestínumenn, þar af 257 börn, verið drepnir í þjóðhreinsunarárás Ísraelsmanna, sem engu virðast eira.

Ég gat ekki annað en fellt tár yfir kvöldfréttum sjónvarps þar sem faðir kyssti drepið barn sitt hinsta sinni. Ég á tvö börn á sama aldri, sem skildu sem betur fer ekki fréttirnar.

Maður getur ekki annað en leitt hugann að þeim voðaverkum sem nasistar beittu gyðinga í seinna stríði, þegar maður heyrir svona fréttir. Á grundvelli samúðar vegna þeirra voðaverka var stuðningurinn við stofnun Ísraelsríkis byggður.

Voðaverka svipaðrar náttúru og þessi sama þjóð er nú að beita þá þjóð sem fyrir var á svæðinu. Palestínumenn.

Á þessu máli virðist í mínum huga vera ein lausn, að upphaflega samþykkt SÞ, sem gerði ráð fyrir tveimur ríkjum, ríki gyðinga og ríki Palestínumanna, verði gerð gildandi á ný og upphaflegu landamæri ríkjanna verði aftur dregin. Sameinuðu þjóðirnar, sem stýrðu ferlinu, komi með sterkt friðargæslulið á svæðið. Ekki einhverjar örfáa tindáta. Það friðargæslulið þarf að vera á svæðinu í það minnsta mannsaldur ódrepins manns, því það fólk sem er að alast upp núna á svæðinu getur ekki verið heilt og getur varla fyrirgefið þau voðaverk sem það hefur mátt þola á þann hátt að það geti haldið friðinn án hjálpar og stuðnings.

Ísraelsmenn hafa með þessum voðaverkum fyrirgert samúð minni.


mbl.is Sprengdu hús fullt af fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing í pípunum?

Ef loka á St Jósefsspítala í Hafnarfirði, stendur hús sem er svo heppilega með legurými, skurðstofur og alla aðra aðstöðu til reksturs spítala autt.

Slíkar eignir þýðir jú ekkert að liggja með ef einhver vill kaupa.

Ætli kaupandinn komi svo ekki með hugmyndir um rekstur og þrýsti svo á heilbrigðisráðherra um að hann kaupi af þeim þjónustu?

Það er jú svo hagkvæmt að kaupa þjónustuna af einkaaðilum, ekki satt?


mbl.is Framsóknarmenn mótmæla vinnubrögðum heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vönduð vinna skilar árangri

Nýi meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð sem hann axlaði, þegar Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir leystu borgina undan viðjum stjórnleysis.

Að geta skilað fjárhagsáætlun í þessu árferði, þar sem varnarlínan er dregin við að engum verði sagt upp, engin grunnþjónusta skert og engar gjaldskrár hækkaðar, er stórafrek.

Strax í myndun meirihlutans var ákveðið að taka þyrfti á fjármálum borgarinnar af ábyrgð og festu og hefur sú vandaða vinna sem Óskar og Hanna Birna hafa leitt, í mun meiri samvinnu við minnihlutann en áður hefur þekkst, en ekki síður í góðri samvinnu við stjórnkerfi borgarinnar, skilað þeim árangri að borginni verður stjórnað með hliðsjón af eins raunhæfri fjárhagsáætlun og aðstæður í samfélaginu gera mögulegt.  

Við í umhverfis- og samgönguráði unnum fjölda hagræðingartillagna með starfsmönnum sviðsins, sem hafa mætt þeim kröfum sem til okkar voru gerðar, auk þess sem við komum með nokkrar miðlægar tillögur sem eru ekki bara til peningalegs hagræðis, heldur einnig umhverfislegs. Umhverfismál þurfa nefnilega ekki alltaf að kosta aukin útgjöld. Góðir búskaparhættir eru nefnilega yfirleitt umhverfisvænni en aðrir. Um tillögurnar var góð sátt alveg fram á síðasta fund, þegar fulltrúar minnihlutans fóru allt í einu að bóka á neikvæðum nótum. Það er þeirra val, sem ég harma, því það er jú auðvitað alltaf betra fyrir borgarbúa að hafa alla sjö ráðsmennina saman í liði við að gera borgina betri, en að vera fjögur við það en hafa þrjá af fulltrúum upptekna við að finna atriði sem hægt er að slá pólitískar keilur með. Vonandi fellur þessi veggur sem fyrst aftur, því hugmyndir minnihlutans eru auðvitað margar góðar, minna væri nú.

Þessari fjárhagsáætlun verður fylgt eftir með nýjum hætti, þar sem hún verður endurskoðuð reglulega, sem er afar jákvætt, sérstaklega í þessu efnahagsumhverfi og vonandi heldur það verklag áfram einnig þegar ísa leysir.

En vinnubrögðin eru til fyrirmyndar, niðurstaðan eftir því og ég er stoltur af því að tilheyra þessum hópi.


mbl.is Rætt um fjárhagsáætlun fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sem sagt fiskur undir steini?

Það er greinilegt að í þessu máli, eins og í öllu sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt, er ekki öll sagan sögð.

Getur verið að þessi varfærna nálgun ríkislögmanns og bresku lögmannana gagnvart breskum yfirvöldum sé vegna þess að í ljós hefur komið að bankarnir hafi hagað sér með þeim hætti að bresk stjórnvöld hafi í raun haft ástæðu til að ætla að verið væri að fremja ólöglega gerninga, sem sett gæti breska fjármálakerfið á hliðina?

Mér finnst ekki hafa komið fram með nægjanlega skýrum hætti hvað gordon brown átti við þegar hann talaði um peningasendingar til Íslands og eins hvort rétt sé að þær hafi farið beinustu leið til Lúxemborgar og hvert þá þaðan.

Ef það er fiskur undir steini, verðum við sem þurfum að borga brúsan að vita af því. Auðvitað er ekki hægt að segja frá því í smáatriðum núna, en mér væri nægjanlegt að vita að verið sé að rannsaka það mál af efnahagsbrotadeild með ákæru í huga.


mbl.is Leita til mannréttindadómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísraelsstríðið og Íraksstríðið

Þegar forystumenn ríkisstjórnar Íslands tóku ákvörðun um að styðja Azoreyjayfirlýsinguna, sem innihélt m.a. stuðning við innrás í Írak, en reyndar einnig loforð USA um stofnun Palestínuríkis, fór formaður Samfylkingarinnar hamförum yfir því að sú ákvörðun hafi verið tekin án samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis.

- með réttu.

En nú ber svo við að utanríkisráðherra fordæmir innrás Ísraelsmanna inn í Gaza

- með réttu.

En hún gerir það algerlega án nokkurs samráðs. Ekki einu sinni innan ríkisstjórnarinnar, hvað þá við utanríkismálanefnd.

Ætlar niðurlægingu Alþingis og ósamkvæmni Samfylkingarinnar aldrei að linna?


mbl.is Æfðu innrásina í átján mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarflótti Samfylkingarinnar?

Í febrúar mun IMF meta stöðuna á Íslandi á ný, áður en næsti hluti lánsins verður veittur sem og megnið af lánum frá vinaþjóðum okkar. Þá eiga einnig að vera komin fram fjárlög fyrir árið 2010. Þau verða að vera hallalaus, að því að ég heyri.

Það þýðir geysilegan niðurskurð í velferðarkerfinu og skattahækkanir.

Ummæli undanfarinna daga fá mann til að hugsa að við þessari stöðu hafi Samfylkingin bara eitt svar. Að flýja af hólmi og slíta stjórnarsamstarfinu, til að þurfa ekki að takast á við óvinsældir þessara aðgerða.

Sjálfstæðismönnum er hótað og storkað, þannig að þeir geti ekki samþykkt eins róttæka breytingu í Evrópumálum og annars hefði orðið. Stolt þeirra leyfir ekki að láta stjórnmálamenn í öðrum flokkum ráða för í stefnumótun flokksins.

Þá niðurstöðu mun hún svo nýta sem átyllu fyrir stjórnarslitum, til að verja þá stöðu sem Samfylkingin hefur í skoðanakönnunum.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur þá frammi fyrir tveimur kostum, hafandi þingrofsréttinn. Annaðhvort að fara í kosningar með afleita upphafsstöðu og enn verri horfur og tryggja Samfylkingunni lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum, eða að byggja brú yfir til VG með tvöföldu ESB leiðinni sem Geir H Haarde virðist nú flúinn í. Það er leið sem við Framsóknarmenn töldum okkur hafa tíma í fyrir hrun, en það er ljóst í mínum huga að við höfum ekki lengur þann tíma. Við verðum að hafa nothæfa mynt til að efnahagslífið geti komist í gang á ný og hægt verði að fjárfesta á ný í atvinnulífinu.

Þannig mun Geir H Haarde fá einhvern tíma til að reyna að bæta stöðu eigin flokks, áður en bakland VG springur og boðað yrði til kosninga.


mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband