Traust formanns á varaformanni sínum lítið

Það er ekki mikið traust sem formaður Samfylkingarinnar sýnir varaformanni sínum. Ekki nóg með að hann fái ekki ráðherraembætti, sem annars hefur verið föst hefð í íslenskri stjórnmálasögu að varaformenn gegni, heldur fær hann heldur ekki þá pósta sem komast næst ráðherraembættum, formaður þingflokks og formaður fjárlaganefndar. Eðlilegt var að veita Gunnari Svavarssyni, þeim ágætismanni, leiðtoga flokksins í stærsta kjördæmi landsins, góða vegtyllu. Það er aftur á móti athyglisverðara að Lúðvík Bergvinsson, sem Ágúst Ólafur sigraði í varaformannskjörinu, fær meiri vegtyllu en Ágúst, sem var valinn formaður þingflokksins og Gunnar Svavarsson fær formennsku í fjárlaganefnd. sem hefur verið talið ráðherraígildi.

Nú reynir á flokkshollustu Ágústar að sinna formennsku í nefnd sem "heyrir undir" aðalkeppinaut hans sem framtíðarleiðtoga Samfylkingarinnar, Björgvins G Sigurðssonar, en Ingibjörg Sólrún tók sérstakan krók á sig til að hygla honum með því að "búa til" ráðuneyti handa honum.

Ef ég væri varaformaður, væri ég bálreiður, en bæri mig samt vel. Vonandi ber Ágústi Ólafi gæfa til að sýna stillingu, amk opinberlega.


mbl.is Gunnar verður formaður fjárlaganefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin eyddi mun meira í auglýsingar

Þessar tölur Gallup segja ekki alla söguna. Samfylkingin var byrjuð að auglýsa löngu áður en mælingar Gallup hófust og svo verður að telja auglýsingar Framtíðarlandsins og Öryrkjabandalagsins með í auglýsingum stjórnarandstöðuflokkanna. Eins verður að telja útgáfu DV með hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki og auglýsingu Jóhannesar í Bónus hjá Sjálfstæðisflokki. Eru þá ótaldar fjöldamargar auglýsingar sem einstaklingar birtu, til þess eins að þær upphæðir færu ekki á reikning viðkomandi flokks.


mbl.is Samfylkingin og Framsóknarflokkur vörðu mestu fé í auglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörusvik Samfylkingarinnar?

Ef marka má viðtal Ingibjargar Sólrúnar við sunnudagsmoggann síðasta er greinilegt að hún er að fá raunveruleikann í andlitið og neyðist því til að koma niður á jörðina og nálgast á skynsömu og hófsömu stefnu sem Framsókn kynnti í kosningabaráttunni í fjöldamörgum málum. Aftur á móti hlýtur sá hluti kjósenda sem létu ginnast af taumlausu loforðaflóði Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni telja sig hafa keypt svikna vöru.

Sem dæmi má nefna spurninguna um biðlistana, sem Samfylkingin auglýsti mikið að hún ætlaði að útrýma. Nú er svarið:

"Þeim verður auðvitað aldrei útrýmt að fullu. Það eru ríflega 3 þúsund manns á biðlistum  hjá Landspítalanum eftir einhverskonar aðgerðum og þjónustu. Það verða alltaf einhverjir sem bíða og það getur verið fullkomlega eðlilegt. Það liggur ekki alltaf lífið við."

Þegar Siv Friðleifsdóttir kom með sömu röksemdafærslu í kosningabaráttunni, gerðu Samfylkingarmenn hróp að henni og dylgjuðu um dugleysi, sögðust aldeilis ætla að gera betur.

Í 16. grein neytendakaupalögum segir

"Söluhlutur telst vera gallaður ef:
...
   

   b. seljandi hefur við kaupin vanrækt að gefa upplýsingar um atriði varðandi hlutinn eða not hans sem seljandi hlaut að þekkja til og neytandi mátti ætla að hann fengi upplýsingar um, enda megi ætla að vanrækslan hafi haft áhrif á kaupin;
   
c. hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun nema seljandi sýni fram á að réttar upplýsingar hafi verið gefnar neytanda við kaupin eða að upplýsingarnar hafi ekki haft áhrif á kaupin;"

Það er spurning hvort þetta eigi við í þessu tilfelli?


Nýting orku í heimabyggð

Flutningur Alcan til Þorlákshafnar væri eðlilegt skref í framhaldi af því að Hafnfirðingar höfnuðu álverinu í Straumsvík. Væru Sunnlendingar þá loksins að fá einhverja nýtingu á orku héraðsins. Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa slík verkefni í gegnum árin, en án árangurs. Er Steinullarverksmiðjan sérstaklega eftirminnileg, en undirbúningur hennar var kominn á lokastig þegar henni var allt í einu kippt norður á Sauðárkrók. Hefur hún gert gott þar, en nú er röðin vonandi komin að Þorlákshöfn, með bættri hafnaraðstöðu og fjölgun atvinnutækifæra fyrir Sunnlendinga.
mbl.is Alcan á Íslandi skoðar möguleika á að færa álverið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar nýr samgönguráðherra að tryggja endurheimt kaupskipaflotans?

Síðasti samgönguráðherra setti á stofn alþjóðaskipaskrá sem á síðustu metrunum var eyðilögð, þannig að engin kaupskipaútgerð hefur enn sýnt hug á að nýta sér hana, enda starfsumhverfið á engan hátt sambærilegt við það sem býðst erlendis.

Strandar á því að sjómannasamtökin komu því inn að fara skyldi í einu og öllu samkvæmt íslenskum kjarasamningum, en ekki alþjóðasamningum sem nánast allar aðrar skipaskráningar miða við.

Er þetta því andvana fætt, nema nýr samgönguráðherra ráði bót á. Niðurstaðan verður sú að íslenskum kaupskipasjómönnum fækkar og fækkar uns einvörðungu verða erlendar áhafnir á erlendum skipum við siglingar hér við land, þannig að með kröfugerð sinni voru sjómannasamtökin að stuðla að útrýmingu eigin stéttar.


Engar reglur um viðmiðurnarmörk fíkniefna hjá ökumönnum

Vínandi er eina vímuefnið sem til eru skýrar reglur um hversu mikið megi vera í ökumönnum við akstur. Þegar um er að ræða önnur vímuefni er komið að algerlega tómum kofanum.

Þegar ökumenn eru teknir, grunaðir um að vera undir áhrifum annarra vímuefna, er það mat læknis hverju sinni, hvort ökumaðurinn er hæfur til að aka. Þetta er ekki boðlegt. Það verður að setja reglur um það hvenær magn viðkomandi efnis er komið yfir þau mörk að ekki megi aka bíl, sem er í umferðinni með mér og þér. Athugum að öll neysla þessara efna er ólögleg, svo mörkin mega vera afar lág, þó ekki svo lág að lyf ranggreiningar á skyldum efnum valdi saklausu fólki vandræðum.

Í olíuskipabransanum eru þessar reglur skýrar. Voru þær gefnar út af bransanum sjálfum í kjölfar ExxonValdez slyssins, þar sem einstök ríki hafa ekki getað komið sér saman um viðmiðanir. Taka mætti þau mörk til viðmiðunar.


mbl.is Ók undir áhrifum fíkniefna - lögregluhundur þefaði upp ólöglega vímugjafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mælikvarðar spillingar

Þegar spilling er mæld á milli landa komum við greinilega vel út, þessi mæling er ekki einsdæmi.

Þrátt fyrir þessar mælingar er mikið fjallað um meinta spillingu í íslensku samfélagi út af hinum og þessum málum. Af hverju ætli það sé? Ætli það sé vegna þess að það sé svona mikil spilling sem ekki mælist á mælistiku þessara aðila? Ætli það sé vegna þess að smæð samfélagsins og nánd allra við alla geri það að verkum að allt fréttist? Ætli það sé vegna þess að sú ríka réttlætiskennd sem lifir með þjóðinni geri það að verkum að þröskuldur okkar gagnvart spillingu sé lægri en hjá öðrum þjóðum? Ætli það sé vegna þess að það er einfaldlega sama umræða í öðrum löndum en hún berst bara ekki hingað til lands?

Kannski er þetta sambland af þessu öllu saman.

Svo getur líka verið að það sé einfaldlega ekki nóg um að vera í samfélaginu fyrir allar fréttastofur landsins, þannig að svona umræða kemst frekar á flug hér en í öðrum löndum, þar sem meira er að gerast í samfélaginu, þannig að gúrkufaktorinn sé hærri hér en annarsstaðar.


mbl.is Spilling talin lítil á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju eiga fyrirtæki þá að sinna mengnunarvörnum?

Þessi ummæli sviðsstjóra Kópavogsbæjar lýsa viðhorfi gagnvart Elliðaánum og umhverfinu sem er alls ekki ásættanlegt:

"Aðspurður sagðist hann þess fullviss að dýralíf Elliðaánna hefði ekki hlotið skaða af yfirborðsvatninu sem flætt hefði í árnar, enda hefði það verið í svo litlu magni, og að það hefði verið ástæða þess að ekki hefði þótt ástæða til að koma upp settjörn fyrr."

Fyrst það er allt í lagi að hans mati að olía, sápur og önnur mengandi efni renni óhreinsuð í árnar af hverju ættu fyrirtæki sem veita sínu vatni í þennan eða aðra viðtaka, þá yfir höfuð að vera að leggja út í mikinn kostnað við að hreinsa sitt fráveituvatn?

Þetta kostar rökstuðning af hálfu Kópavogsbæjar, því hann er að tala fyrir hönd bæjarins í þessu máli.


mbl.is Mengun í Elliðaánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalt heilbrigðiskerfi við þröskuldinn

Sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir því að þeir sem hafi efni á því verði heimilt að borga sig fram fyrir röðina. Nú virðist það markmið þeirra vera komið einu skrefi nær í nýjum stjórnarsáttmála.

"Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum."

Hér á sem sagt að taka upp tilvísanakerfi, þar sem hver greining gefur númeraða ávísun á meðhöndlun. Líklegast verður úthlutað ákveðnum mörgum ávísunum á ári í hverja tegund aðgerða, eftir fjárlögum hvers árs. Þeir sem fá ávísun með háu númeri geta greitt fyrir sína aðgerð á einkareknu sjúkrahúsi, hafi þeir efni á því. Þegar röðin kemur svo að þeim í ávísanaröðinni, fá þeir aðgerðina svo endurgreidda.

Upp munu koma einkarekin sjúkrahús, sem munu fara í samkeppni við ríkisreknu sjúkrahúsin, sem fá að gera óhagkvæmu aðgerðirnar, meðan að þær arðbæru eru framkvæmdar á þeim einkareknu, sem einnig munu veita betri þjónustu og sérstök komugjöld verða tekin upp til að greiða fyrir það. Þetta er ekki ósvipað því sem gerst hefur í Háskólageiranum, þar sem einkareknu háskólarnir afla tekna á fjölmennum bóknámsbrautum með skólagjöldum samhliða framlögum ríkisins, meðan Háskóli Íslands "situr uppi" með sérhæfðar fámennari deildir, sem honum ber skylda til að starfrækja.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér, en vilji Sjálfstæðisflokksins hefur verið skýr og daður Samfylkingarinnar við einkalausnir í heilbrigðiskerfinu er varhugavert.


Skynsamleg leið til varnar

Almennt eiga sveitarfélög ekki að taka þátt í samkeppnisrekstri. Í þessu tilfelli er sveitarfélagið í rauninni ekki heldur að gera það, heldur að skapa vöggu fyrir rekstur, sem mun safna sér veiðiheimildum sem það hlýtur að leigja út aftur með skilyrðum um að vinna aflann í heimabyggð. Líklegast þarf úthlutunin að fara fram í gegnum útboð og ætti jafnvel að geta verið fjárhagslega sjálfbært. Undarlegt að þetta skuli ekki hafa verið reynt áður, en er það ekki alltaf þannig þegar maður heyrir um góðar hugmyndir.


mbl.is Atvinnumálanefnd kannar möguleika á almenningshlutafélagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband